Prestafélagsritið - 01.01.1925, Síða 159
154
Erlendar bækur.
Prestaíélagsritið.
Kristianíu. Þar er skýrt nákvæmlega frá æskuyfirsjónum hins merka og
áhrifaríka trúboða, sem margir landar vorir eflaust kannast vel við, og
sagt frá framkomu hans og hugarfarsbreytingu þeirri, er átti sér stað hjá
honum meðan hann sat í varðhaldinu.
Margar aðrar merkilegar ritgjörðir eru í bókinni, sem gætu átt erindi
til vor. Má þar einkum nefna: „Gjenreising og nyskaping i nyere norsk
kirkekunst. En oversigt for aarene 1900—1923. Av antikvar Anders
Bugge, Kristiania." Er sú grein með mörgum ágætum myndum af norsk-
um kirkjum og skreytingu þeirra, meðal annars af kirkjugluggum með
glermálverkum. — Hvenær skyldum vér íslendingar fá slíka prýði í
kirkjur vorar?
Um nýlátna merkismenn kirkjunnar er langur kafli og fróðlegt að Iesa
þær æfiminningar. Mest hitnaði mér um hjartaræturnar við að Iesa um
stiftprófast Gustav Jensen og starfsemi hans. Um hann skrifar Mikael
Hertzberg, prestur í Kristianíu, af svo miklum skilningi og samúð, að
naumast er hægt annað en þykja innilega vænt um hinn látna stiftpró-
fast eftir þann lestur. Gustav Jensen átti oft kost á að verða biskup, en
hann fékst ekki til að taka við slíkri virðingarstöðu. Vantreysti sér til
þess, taldi hæfileika sína njóta sín betur í prestsstarfinu. En við hann
festist nafnið: Noregs óvígði erkibiskup. — Margar aðrar af æfiminning-
unum eru mjög skemtilegar og eftirtektarverðar. Vil ég meðal þeirra
einkum nefna lýsingu Karl Marthinussen, prests í Bergen, á prestinum
Carl Konov, er andaðist 1923. Konov var einn þeirra manna, sem fag-
urlega sameinaði frjálsa hugsun og innilega trú. En ýmsum fanst hann
vera of frjálslyndur og víkja um of í skoðunum sínum frá viðurkendri
kirkjutrú. Vildu þeir að hann segði af sér og hætti að vera prestur. En
því neitaði hann með öllu og rökstuddi þá neitun sína með því, að ef
hann segði af sér, feldi hann með þvi þann dóm yfir kirkjunni, að innan
vébanda hennar væri vonlaust að berjast fyrir sannleikanum; væri hann
sannfærður um að hafa rétt fyrir sér, gæti honum vitanlega ekki um léið
fundist, að sér væri óheimilt að vera í kirkjunni. — Myndir flytur ritið
af öllum þeim mönnum, sem minst er.
Þá er mynd og sjálfsæfisaga nýja biskupsins í Niðarósi, dr. theol.
Jens Gleditsch, er vígður var til biskups 2. sept. 1923.
Síðast í ritinu eru skýrslur norsku biskupanna um kirkjulegt ástand
og kirkjulega starfsemi í hverju biskupsdæmi árið 1922. Eru þær skýrslur
á margan hátt fróðlegar og geta verið þarft íhugunarefni fyrir presta vora,
ýmist til samanburðar, varnaðar eða fyrirmyndar. Bera skýrslurnar þess
vott, að í mörgu á norska kirkjan við erfiðleika að stríða, þar er presta-
skortur, sundurlyndi, ósiðsemi og óregla í mörgum söfnuðum, messuföll
og áhugaleysi, — en hins vegar er þar mikið af áhuga og fórnfúsri starf-
semi og nytsamri samvinnu bæði milli presta og leikmanna. Norska
kirkjan er starfandi kirkja, bæði heima fyrir og úti í heiðingjalöndunum.