Gripla - 01.01.1975, Síða 20
16
GRIPLA
Þorkell aðalfari og menn hans sigla norður til tröllaheims til þess að finna
Utgarða-Loka. Þeir lenda í hrakningi og verða eldslausir á ókunnri strönd,
neyðast til þess að éta hrátt og verða veikir af. Loks sér Þorkell, hvar glyttir
í eld álengdar. Hann setur gimstein í siglutoppinn, til þess að rata aftur, og
heldur af stað. Hann fer mjóan stíg og kemur að þröngum helli, sem hann
gengur einn inn í, og er nú lýst íbúum og húsakosti á þessum stað. Þarna
eru fyrir tvö tröll5 með hornnef, eða nef eins og löng horn, og notuðu
tröllin þau til þess að skara öllu tiltæku á eldinn, til þess að halda honum
lifandi. Dyrnar voru ljótar og dyrastafirnir rotnir, veggirnir ataðir skarni,
loftið skítugt og gólfið ormum stráð, svo að bæði augu og hug hlaut að
klígja við. Þorkell biður um leiðsögn til heimkynnis Útgarða-Loka, en
verður að vinna það til að mæla þrjú sannyrði. Það tekst Þorkatli svo að
tröllin eru ánægð. Síðan biður hann um eld, og verður nú að segja önnur
þrjú sannyrði. Að því búnu fær hann eldinn, og heldur áfram ferð sinni.
Á því getur víst ekki leikið vafi, að hér er sama söguefnið og
kemur fram í Illuga dansi, og í öðru lagi í Illuga sögu Gríðarfóstra.
Frásagnarpósturinn hjá Saxa er byggður upp af nokkrum skýrum at-
riðum bundnum saman í lítt hagganlega atburðarás. Atriðin eru þessi:
(a) Sigling norður í tröllheima,
(b) eldsleysi til meins,
(c) eldur sést í fjarska,
(d) hetjan fer að leita eldsins,
(e) hann finnur eldinn í helli hjá tröllum,
(f) tröllin krefjast af honum sannyrðasagnar, áður en hann fái eld-
inn. Síðan fer hann leiðar sinnar.
Beinum nú fyrst athyglinni að dansinum án þess að taka fornaldar-
söguna með í reikninginn. í Illuga dansi koma fram öll atriðin a-f úr
frásögn Saxa og í óbreyttri röð. Þar er þannig notaður sami frásagnar-
5 Tröllin eru hér nefnd aquili. Hjá Saxa kemur það orð aðeins fyrir á einum
stað öðrum, í upptalningu yfirnáttúrlegra vera (2. bók, II, 2, tilv. útg., bls. 40,3).
f báðum tilvikum þýðir J. Olrik aquili með ‘Svartalfer’ og styðst þá ljóslega við
lýsingarorðið aquilus, dökkur, en það er mjög sjaldgæft orð. En í orðasafninu við
tilv. útgáfu Gesta Danorum er nafnorðið aquilus skýrt: nomen avis monstruosi.
Hér eru tvær ólíkar skýringar á ferðinni, því að ekki mun kunnugt um þá hug-
mynd, að (svart)álfar séu í fuglslíki. Mætti láta sér detta í hug, að fyrir Saxa hafi
vakað lýsandi tröllsheiti á borð við Arinnefja (og hafi hann tengt það við fugls-
heitið örn, ari, lat. aquila) samtímis hugmyndinni um eldskörungsnefið (arin-nef?),
sem skýrt kemur fram í lýsingu hans. Þetta er ekki annað en tilgáta, en um leið
má minna á, að hendur Gríðar eru sem arnarklær í Illuga sögu.