Stúdentablaðið - 01.03.2008, Blaðsíða 22
LEYNDARMÁL
HÆGRIMANNSINS
001. Gceti þetta verið Hannes að bregða á leik?
Éghugsa mérmann. Mikinn mann.
í þætti af Næturvaktinni gengur hann inn á bensínstöð
og vinstrisinnaði (og vitfirrti) vaktstjórinn Georg
grípur tækifærið og níðir hann niður sem óguðlegan
málsvara kapítalisma á íslandi. Þetta ætti ekki að hafa
komið neinum á óvart sem hefur búið ofanjarðar á
Islandi síðustu áratugina. Maðurinn er ein þekktasta
málpípa nýfrjálshyggjunnar á Islandi, kannski vegna
þess að hann heldur henni á lofti af mun meiri ástríðu
en aðrir hægrimenn. Hann ver hana eins og Gunnar
Biblíuna. Hjá honum er hún ekki bara stjórnmála-
stefna heldur lifstíll. Ég er vitaskuld að tala um hinn
eina sanna Hannes Hólmstein Gissurarson.
Kannski er þetta ekki rétt mynd af Hannesi. Kannski
hefur poppmenningin slegið ryki í augu mér. Fólk
er jú sjaldnast eins einvítt og það er útmálað í
fjölmiðlum. En þetta er alla vega sú ímynd sem
hann hefur sjálfur skapað sér með framlagi sínu til
stjórnmálaumræðunnar. I gömlum Spaugstofuþætti
var hann settur fram sem páfagaukur á öxlinni á
Davíði Oddssyni og svaraði öllum hugleiðingum
Davíðs með því að skríkja „einkavæða það”. Ef
einhvern hugmyndafræðing vantar til að verja
Sjálfstæðisflokkinn eða eitthvað stefnumál
hægrimanna á Islandi hafa fjölmiðlar oft samband við
Hannes, rétt eins og þeir hafa samband við Gunnar
Þorsteinsson ef einhvern Jesúmann vantar til að
skeggræða syndagildi samkynhneigðar eða fordæma
nýju Biblíuþýðinguna.
Hannes kom einna sterkast fram í hlutverki
hægrihermanns Davíðs árið 2004 þegar
fjölmiðlafrumvarpið umdeilda tröllreið allri
stjórnmálaumræðu. Ég man eftir honum á háa
séinu í umræðuþætti á Stöð 2 þar sem hann sagði
eitthvað í þá átt að Baugur sætti sig við taprekstur
á fjölmiðlum sínum eins og Fréttablaðinu og DV af
því að Jón Ásgeir og félagar litu á áróðursstarfsemi
sem eðlilegan kostnaðarlið. Og þegar Óli forseti var
að íhuga að beita neitunarvaldi embættisins og vísa
fjölmiðlafrumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslu steig
Hannes fram á sjónarsviðið með eitt fífldjarfasta
stjórnmálafræðiálit seinni ára.
Hann sagði að neitunarvald forseta væri ekki
hugsað fyrir svona tilfelli. Og fyrir hvaða tilfelli var
neitunarvaldið þá búið til? Það er von að spurt sé. Hann
svaraði þeirri spurningu með dæmi sem var eitthvað
á þessa leið: Segjum sem svo að hryðjuverkamenn séu
búnir að leggja undir sig Alþingi og farnir að setja
þar lög með handauppréttingum. Þeir eru hins vegar
ekki búnir að leggja undir sig forsetaskrifstofuna
á Sóleyjargötu og því getur forsetinn beitt
neitunarvaldi sínu gegn öllum þeim lögum sem þeir
setja. Þetta fullyrti Hannes að væri eini tilgangur
neitunarvaldsins; að þvælast fyrir löggjafarstarfsemi
hryðjuverkamanna. Hann gerði hlé á máli sínu og eftir
smástund spurði fréttakonan hann hvort þetta væri
ekki svolítið langsótt. Varlega orðuð spurning það.
Ég hef aldrei trúað því að svona vel menntaður maður
sé eins vitlaus og þetta yfirmáta heimskulega
tilsvar hans gefur til kynna. Né heldur því að
langskólagenginn háskólaprófessor myndi klúðra
tilvisanavinnunni í bók sinni svo hræðilega að hann
lendi i málaferlum vegna ritstuldar. Nei. Hann er
ekki svona illa gefinn. Auðvitað ekki. Eina mögulega
skýringin á þessu er sú að hann hafi gert þetta allt
saman viljandi. En af hverju í ósköpunum myndi
hann gera annað eins? Ég velti þessu lengi fyrir mér
og einn daginn datt eureka í hausinn á mér. Eftir
langar vangaveltur er ég loksins búinn að leysa þessa
gátu. Sannleikurinn er sá að Hannes Hólmsteinn er...
vinstrimaður.
í fyrsta lagi var hann að eigin sögn hálfgerður
pólitískur undanvillingur í fremur vinstrisinnaðri
fjölskyldu sinni þannig að hann ætti ekki langt að
sækja þetta. Og í þætti hjá Agli Helgasyni í janúar
síðastliðnum lét hann grímuna renna niður og hreyfði
við hjarta hvers einasta vinstrimanns á íslandi. Hann
sagði eitthvað á þá leið að hægrimenn væru ekkert
pólitískir; að þeir vildu bara græða á daginn og grilla
á kvöldin og að stjórnmálaáhugi þeirra takmarkaðist
við það að fá fólk inn á þing til að standa vörð um
peningana sína. Ég held að Steingrímur Joð sjálfur
hefði ekki getað sagt þetta skýrar. Vinstrimenn
hafa alltaf sagt sín á milli að hægrimenn væru engir
hugsjónamenn en ég held að fæstir þeirra hafi átt von
á því að fá staðfestingu á þessum sannleika frá helsta
frjálshyggjupésa íslendinga.
En ef Hannes er vinstrimaður vaknar vitaskuld önnur
spurning: Af hverju þykist hann vera hægrimaður?
Þeir sem hafa séð þáttinn „The Colbert Report”
skilja hvað vakir fyrir Hannesi. í þeim þætti þykist
Stephen Colbert vera öfgasinnaður Repúblíkani til
að geta gert stólpagrín að þeim. Með því að taka á
sig gervi andstæðingsins er hægt að koma háði sínu
til skila á lúmskari hátt én ella. Téður Colbert var
meira að segja svo lúmskur að honum var boðið að
ávarpa kvöldverðarboð í Hvíta Húsinu og eftir því
sem mínúturnar liðu og háðsglósurnar urðu beittari
fóru æ fleiri að líta vandræðalega í kringum sig og iða
í sætinu af vanlíðan. Maður öðlast vissa virðingu fyrir
þessum vitleysingi fyrir að stíga í pontu og hæðast
að hér um bil öllum í herberginu en það er auðvitað
ekkert miðað við Hannes karlinn Hólmstein. Hann
hefur verið í hægrimannagervi sínu í einhverja þrjá
áratugi og er fyrst núna farið að förlast aðeins.
Kannski er ég að spila upp í hendurnar á hægrimönnum
á íslandi með því að opinbera þennan lítt þekkta
sannleik hér svart á hvítu og ef svo er biðst ég
afsökunar. Fjarri veri það mér að fletta ofan af manni
sem hefur gert meira fyrir vinstrimenn á íslandi en
allir formenn Vinstri-Grænna, Alþýðubandalagsins,
Sósíalistaflokksins og Kommúnistaflokksins
samanlagt. En ég túlkaði yfirlýsingu Hannesar í
þætti Egils Helgasonar sem visst hróp á hjálp. Hann
virðist farinn að vera örlítið þreyttur á því að standa
þessa vakt og ég fann mig knúinn til þess að sýna
honum að hjá Stúdentablaðinu væri að minnsta kosti
einn vinstrisinnaður bókabéus sem kynni að meta
frammistöðu hans.
Horfðu til himins, félagi Hannes! Við erum öll stolt
af þér. ■