Stúdentablaðið - 01.03.2008, Qupperneq 26
ÞRJÚ LJÓÐ
ÞRÍÞÆTT LJÓÐ UM HURÐ
I.
Við þröskuldinn stóð ég, og stóð þar um sinn,
og þar sem ég stóð
við þröskuldinn
hrópandi hástöfum,
Hleypið mér inn!
ól ég í brjósti mér örlitla von
um að ef til vill lykjust upp dyrnar senn.
Við þröskuldinn stóð ég (og stend þar enn),
og þar sem ég stóð
við þröskuldinn
hrópandi hástöfum,
Hleypið mér inn!
heyrði ég rödd, og þá hrökk ég í kút,
Hleypið mér út!
II.
Um gaettina gekk ég,
og gægðist inn,
gagntekinn.
Það er svo margt, sem furðar, milli stafs, og hurðar!
Maður minn,
við stefnum ýmist út
eða inn!
Og séu hjarir vel smurðar
með saumavélarolíu,
má þýðlyndur þegn,
hafa þónokkra ánægju,
af því að hreyfa við húni; ljúka
hurð frá stöfum; opna
dyrnar; ganga loks í gegn.
III.
En munið þó,
að hvorum megin hurðar
er heimurinn með sama móti
(held ég hljóti).
Og þegar ég gekk í gegn,
grátbað ég,
Hleypið mér aftur út!
En nú þurfti ég ekki að kalla;
fyrir innan dyrnar,
var dyrabjalla.
*Ctrr<
U#1
_ . i i OOl.TeikningeftirSverriNorland.
- Sverrir Norland
(6. febrúar 2007/25. febrúar 2008)
20. FEBRÚAR 2008, HÁLFUR í SKUGGANUM,
HÁLFUR í SKÍMU MÁNANS
Hann er iðulega hálfur í skugganum, hálfur í skímu mánans sem flæðir um bjarta
glugga veislusalarins, og hann heldur sig að mestu fyrir sjálfan sig, en talar ekki
við aðra gesti, heldur dansar einn, hálfur í skugganum, hálfur í skímu hins fölleita
tungls, og dansar á þokkafullan hátt, glottandi á svip, og fækkar smátt og smátt
fötum, klæðir sig fyrst úr svörtum lakkskónum, togar svo af sér hvorn sokkinn um
sig, og sveiflar þeim í takt við salsatónlistina, þessu næst fleygir hann jakkanum
út í horn og hneppir frá sér skyrtunni hlæjandi, og dillir mjöðmum með músíkinni,
loks rífur hann af sér buxurnar og fleygir nærbrókunum upp í loft, og þannig
dansar hann allt kvöldið, alltaf hálfur í skugganum, hálfur í skímu mánans.
-Sverrir Norland
23. FEBRÚAR 2008, GAMANLEIKURINN ERÁ ENDA
Ljósin dimmd; tjöldum svipt frá; lokahóstar og ræskingar. Athygli gesta beinist
að miðju sviðinu.
Inn stekkur trúður. Augu hans geisla af kátínu. Hann heldur á sjö boltum, og
kastar þeim í hringi.
Áhorfendur klappa.
Inn kemur annar trúður. Honum bregður við að sjá boltatrúðinn. Þessir trúðar eru
í raun alveg eins! Þeir líta ráðvilltir fram í salinn: áhorfendur hlæja.
Þá birtist þriðji trúðurinn. Hann er nákvæm eftirlíking hinna tveggja. Trúðarnir
þrír eru klumsa á svip.
Áhorfendur veltast um af hlátri.
Svona heldur þetta áfram uns tuttugu samskonar trúðar standa á sviðinu.
Þar er nú svo krökkt af trúðum að þeir geta vart bært sig!
Þvílík vitleysa!
En eitthvað er að ... Eyru áhorfenda nema ægilegar drunur.
Sviðsgólfið er að bresta!
Og svo brestur það, - trúðarnir tuttugu hrapa ofan í jörðina.
Samstundis eru tjöldin dregir fyrir. Áhorfendur rísa úr sætum sínum; stopult
lófatak; hóstar; ræskingar; örspjall á útleiðinni.
Gamanleikurinn er á enda.
-Sverrir Norland
002. Teikning eftir Sverri Norland.