Fréttablaðið - 02.07.2010, Page 17

Fréttablaðið - 02.07.2010, Page 17
FÖSTUDAGUR 2. júlí 2010 17 Fyrir þremur árum var mat-vælaverð á Íslandi töluvert hærra en í Evrópu. Síðan þá hefur verðið hækkað og laun margra hafa lækkað. Hver er svo niður- staðan? Jú, matvælaverðið er orðið svipað og víða í Evrópu. Takk, bankahrun! Ástæðan er sem sagt ekki sú að matvælverð í öðrum löndum Evrópu hafi hækkað, meira en á Íslandi, eða að verðið hér á landi hafi lækkað. Ástæðan er einfaldlega sú að krónan hrundi. Áhrifin á þremur árum eru þau sömu og ef laun allra hefðu verið skorin niður um helming. Mælistikan hefur því breyst. Umræðan um innflutning á mat- vörum til Íslands hefur í gegnum tíðina um of fókuserað á verðið en of lítið á fjölbreytni og valfrelsi neytenda. Í raun ætti það ekki að vera sér- lega eftirsóknarvert að búa í landi með lágu matvælaverði. Grunn- ástæða hás matvælaverðs er oft- ast ríkidæmi viðkomandi svæðis. Hlutir eru dýrir þar sem ríkt fólk býr. Matur í New York er dýrari en í Bangladess. Samt vill fólk nú frekar búa í New York. Við getum því almennt átt von á því að matvælaverðið á Íslandi verði almennt hátt til lengdar. En auðvitað eigum við að geta valið sjálf hvort skinkan sem við kaup- um sé dönsk, íslensk eða nýsjá- lensk. Vilji menn styrkja land- búnað á að gera það með beinum fjárframlögum en ekki með því að skerða val neytenda. Mun matarverðið lækka við það að Ísland gengur í Evrópusam- bandið eða afnemur tolla á mat eftir öðrum leiðum? Jú, líklega mun það lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir. Ellegar væru sérhags- munahópar á borð við Bænda- samtök Íslands ekki á móti því að leyfa tollfrjálsan innflutning mat- væla. Þau eru á móti, vegna þess að þau telja að félagsmenn þeirra stæðust ekki erlenda verðsam- keppni. Þótt svo þau noti stund- um flóknari og fallegri rök fyrir afstöðu sinni. Stundum er mikilvægt að átta sig á því hvað orð þýða. Hið fræði- lega hljómandi orð „matvælaör- yggi“ þýðir í raun bara „tollar og innflutningshöft“. Þeir sem segjast vilja standa vörð um mat- vælaöryggi Íslands meina ein- faldlega að þeir vilji standa vörð um tollana og innflutningshöftin. Enda hefur enginn lagst í neina alvöruvinnu við það að skoða mat- vælaöryggið út frá neinu öðru en atvinnuöryggi matvælafram- leiðenda. Íslendingar er þannig algjörlega háðir útlöndum um hluti eins og eldsneyti, vinnuvél- ar, varahluti, fóður og raunar flest annað sem viðkemur matvæla- framleiðslu. Án útlanda er öryggið ekkert. Svína- og kjúklingarækt byggist til dæmis nánast einungis á inn- fluttu fóðri. Við flytjum sem sagt til landsins erlent korn í tonnavís sem verður að stærstum hluta að svína- og hænuskít en einhverjum hluta að svína- og hænukjöti, sem við svo borðum. Hefðu menn ein- hvern áhuga á matvælaöryggi Íslands mætti því segja að þessar búgreinar séu svo háðar erlend- um innflutningi að þær séu meiri ógn við matvælaöryggið heldur en hitt. Hér er ekki lagt til að ein eða önnur búgrein verði látin víkja í þágu einhverrar meintrar sjálf- bærni. Enginn einn maður á að ákveða slíkt. Skoði menn söguna má sjá að varla er til öruggari ávísun á hungursneyð og uppskerubrest heldur en eitthvað sem heit- ir sjálfbær áætlunarbúskapur. Frjáls markaður er aftur á móti stórkostlegt tæki til stýra fram- leiðslu á matvöru og dreifa henni til fólks. Komi á daginn að það borgi sig fyrir einhvern að flytja til landsins korn til að búa til svín, þá á ekki að banna það, en vilji menn bara flytja inn svín milliliðalaust, þá á ekki að amast við því heldur. Sjálfbærni landa er verulega ofmetin hugmynd. Tilraunir til að verða öðrum óháðir um einhverja framleiðslu enda oftar en ekki í fábrotnu og hugmyndasnauðu merkjafalsi. Kannski finnst ein- hverjum skemmtilegt að geta valið um ferns konar íslenskt pepper- óní og tvenns konar íslenska feta osta, en væri ekki ráð að íslenskir neytendur fengju loks að bragða á ítölskum og grískum frumgerðum þessara vörutegunda? Á meðan gætu íslenskir framleiðendur ein- beitt sér í auknum mæli að því að þróa vörur sem Ítalir og Grikkir kunna ekki að búa til. Matvælaóöryggi Pawel Bartoszek stærðfræðingur Í DAG Kæra Þórdís Elva,Þakka þér fyrir opið bréf til mín í Fréttablaðinu þann 11. júní síðastliðinn. Þar er vísað til þess, sem fram kemur í bók þinni „Á mannamáli“, og sérstaklega gert að umtalsefni misháar refsing- ar sem liggja við kynferðisbrot- um gegn börnum. Þessi umræða er afar áhugaverð og til þess fallin að minna okkur á alvarleika þeirra brota, sem um ræðir. Einnig knýr hún okkur til að líta gagnrýnum augum á refsilöggjöfina og hvort hún endurspegli það gildismat, sem við lýði er í okkar samfélagi. Ég fylgi fordæmi þínu og tek ein- falt dæmi. Nauðgunarbrot varða allt að 16 ára fangelsi en í nauðgun felst að maður hefur samræði eða önnur kynferðismök við einstakling með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauð- ung. Hér getur fórnarlamb verkn- aðarins verið barn eða fullorðinn, en það er virt til refsiþyngingar ef brotaþolinn er ungur að árum. Ef hins vegar er um að ræða sifja- spell, þar sem einstaklingur hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja og beitir ekki ofbeldi, hótun eða ann- ars konar nauðung – þá varðar það fangelsi allt að 8 árum, og allt að 12 árum sé barnið yngra en 16 ára. Nærtækt er að spyrja: Hvers vegna gerir löggjafinn greinarmun á því hvaða aðferð er notuð til að brjóta svo gróflega gegn barni? Því er hámarksrefsingin ekki sú sama, hvort sem um nauðgun er að ræða eða sifjaspell í skilningi hegning- arlaganna? Hér mætti með réttu segja að sú misnotkun á trúnaði barns, sem felst í hvers konar kyn- ferðisbroti gegn því, sé alveg jafn alvarleg og sú háttsemi sem áður var lýst, það er ofbeldi, hótun eða annars konar nauðung. Einnig má færa rök fyrir því að hvers konar kynferðisbrot gegn börnum sé fullt eins alvarlegt og nauðgun og því ætti að refsa fyrir öll kynferð- isbrot gegn börnum með hámarks- refsingu. Það er fyllilega réttmætt sjónarmið. Lítum þá á hina hliðina. Í refsi- löggjöf okkar er almennt gerð- ur greinarmunur á refsihámarki hverju sinni, eftir því um hvaða verknað er að ræða. Við mismun- andi brotum liggja misháar refs- ingar. En vitaskuld verða þær refs- ingar, sem liggja við verknaði á hverjum tíma, að endurspegla gild- ismat samfélags okkar. Þar erum við komin að kjarna málsins og því, sem þú vekur svo ágætlega máls á í bók þinni. Kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga var endurskoðaður árið 2007 og voru þá gerðar ýmsar breytingar sem fela í sér aukn- ar refsingar við kynferðisbrotum gegn börnum. Eftir því sem best verður séð af dómaframkvæmd hafa lagabreytingarnar leitt til þyngri refsinga við þessum alvar- legu brotum. Minni greinarmunur er gerður á hinum ýmsu verknuð- um – en munurinn er engu að síður til staðar ennþá. Er tilefni til að gera slíkan greinarmun? Er tilefni til að hækka refsingarnar enn frekar? Það er álitaefni sem ég tel fullt tilefni til að verði skoðað, og mun ég beita mér fyrir því á vettvangi ráðu- neytisins. Svar við opnu bréfi Dómsmál Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra FRÍTT Í BÍLASTÆÐISHÚS! • Lifandi tónlist • Bjarni töframaður • Framandi dansar • Útimarkaður á Hljómalindarreit o.m.fl. VERSLANIR OPNAR TIL KL. 17:00

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.