Árdís - 01.01.1950, Side 7
„Blárra tinda blessað land/y
Eftir MARGRÉTI STEPHENSEN
Skáldið syngur:
„Ég vil elska mitt land, ....
Ég vil auðga mitt land,
Ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.
Ég vil leita að þess þörf,
Ég vil létta þess störf,
Ég vil láta það sjá margan hamingjudag“.
Já, „landið er enn fagurt og frítt“ og enn kveða skáldin um ætt-
jarðarást. Endalaus tilbreyting á myndasýningu íslands, opnast
npp fyrir augum ferðalangsins sem virðir fyrir sér með huga og
hjarta — íslands skrúð. Hin bláu vingjarnlegu fjöll, hinir háu hólar
sem „hálfan dalinn fylla“, vötnin allsstaðar, hin voldugu fljót sem
ennþá er verið að brúa; grænar hlíðar og lítill bóndabær með rauðu
þaki, einmanalegur — en hver veit hvað er „bak við fjöll og djúpa
dali“: maður þekkir aðeins að þetta er íslands lag, sem við sungum
um í æsku í hinu nýja landi.
Hraunin vekja meðaumkvun, þau eru merki þeirra hríða sem
landið hefir stunið undir er náttúran var að heyja sitt alda stríð.
^egar náttúruöflin byrja sín umbrot, er maðurinn hjálparlaus. Og
þegar hríðin er liðin er landið, sem áður var grasi vaxið og blóm-
um skreytt — hlaðið gráum hraunum, eins og gömul móðir sem er
orðin hrukkótt og elli hrum. Svo sér maður glitta í litla bletti þar
sem smáblóm eru að pota sér upp. Já, þau eru lýti, þessi ör sem
landið ber á brjósti sér, en fólkið sem elskar land sitt tekur varla
eftir þeim; þeir eru uppteknir við starfið sem liggur fyrir: að „efna
þess hag“.
Eitt aðal lundareinkenni Islendinga er þeirra sterka ættjarðar-
ást, sem lýsir sér í kvæðum og söngvum þjóðarinnar. Ekki eru þeir
neitt að troða henni ofan í þá gesti sem heimsækja þá, heldur er það
eins og þegar gestur kemur á heimili og allir leggjast á eitt að
t>ýna honum það sem fallegast og virðulegast er af því sem heim-
ilið á til. Tignarleg náttúra, fríð og tilbreytileg, og alla hina sögu-
ríku staði sem þjóðin hefir verndað og varðveitt gegnum aldirnar.