Árdís - 01.01.1951, Page 41
Ársrit Bandalags lúterskra kvenna
39
Ég var ekki lengur einmana heima, útlendingur meðal allra
vina, ættingja og landa. Kyrðin í húsinu var djúp og mjúk eins
og stöðuvatn sem klettabelti girðir á alla vegu. Það var eitthvað
svo angurblítt og þýtt í þessari ró. Ósjálfrátt hvíslaði ég nafn
sonar míns — það er fróun og gleði sem ég oft veiti mér þegar
ég er alein og veit að enginn getur heyrt það, þegar ég er ein
með gleðina og minningar sælunnar yfir því að hafa átt þennan
son, notið hans barndóms og æsku og numið af honum lögmál
og vísindi lífsins sem hann naut svo frjálst, fullur þakklætis,
aðdáunar, lotningar og gleði. Það var eins og myndin af honum,
sem stóð fyrir framan mig á skrifborðinu, væri orðin lifandi, brosið
bjart, augun blíð og glöð.
Kyrðin — getur hún talað? Kyrðin söng svo hægt og hljótt en
þó sigursælt:
„Móðir mín! Þú finnur mig í öllu sem þú elskar. Ég er nær
þér nú en á meðan þú sást mig hjá þér“. Á meðan ég horfði á
myndina steig bæn upp í huga mér: „Guð gefðu mér sannindi
fyrir því að ég sé á réttri leið, að vinna mín sé þér þóknanleg.
Gerðu mig verða þess að skilja og njóta alls þess góða og fagra
sem þú veitir mér“.
Klukkan litla á borðinu sýndi að nóttin var komin, og vel
gat verið að ég héldi vöku fyrir manni mínum. Ég safnaði því
huganum um bréfið og kvaddi frænda minn og vin, sem ég fyrst
hafði kynst þetta sumar. Hann hafði flutt inn í hið auða rúm
móðurhjarta míns. Þar hlúði ég að öllum fögrum endurminning-
um samveru okkar. Það var móðir sem kvaddi son sinn en ekki
frænka frænda.
Það brann ljós á litla lampanum á náttborði manns míns.
Mitt rúm lá í skugga. Angurblíð augu mættu mér og ég sá
sorg í svipnum. Ég gekk að rúmi mínu. — Þar lá stórt umslag.
Ég tók það upp til að leggja það á náttborðið mitt, fann þá að það
var tiltölulega þungt og lítill harður hlutur var í neðsta horninu.
Það var eins og ég vissi að nú héldi ég tákninu í hendi mér, en
hvaða tákni? Og hvernig var það komið hingað einmitt í kvöld?
Ég tæmdi umslagið í hendi mér. Úrið og annar ermahnappur son-
ar míns lágu í lófa mínum. Þetta var kraftaverk, það var lifandi
kveðja frá syni mínum, sem hafði fórnað öllum sínum kröftum
og lífi fyrir frelsi, réttlæti og frið þjóðar sinnar. Hversu oft hafði
ég ekki óskað eftir að fá úrið sem ég vissi að honum þótti svo
vænt um og hnappurinn hafði sína sögu. Þetta var dýrmæt
minning.