Morgunblaðið - 12.09.2009, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 12.09.2009, Blaðsíða 37
Minningar 37 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 12. SEPTEMBER 2009 hjálpaði ég afa við að binda inn froðuplastið, annað slagið fékk ég að launum smá pening til að hlaupa niður í Garðshorn og kaupa mér nammi. Amma mátti bara aldrei frétta af því, þetta var leyndarmálið okkar afa. Afi kenndi mér að veiða á veiðistöng og fór hann gjarnan nið- ur á bryggju með mig og Gunnlaug að veiða. Hann kenndi mér að þegar maður borðar heitan graut eða súpu er betra að taka út við kantinn svo maður brenni sig ekki á tungunni. Afi spilaði líka alltaf boccia og fékk ég að sinna því áhugamáli með hon- um og mætti þá gjarnan með honum á æfingar og horfði á hann keppa á mótum. En besta minningin er þegar ég gisti hjá ömmu og afa og ég held að þessa minningu eigum við öll barna- börnin sameiginlega, allavega við sem eldri erum. Þá fór afi snemma að sofa með mér, við lágum í hjóna- rúminu og lásum eina bók áður en við sofnuðum. Við rifum okkur síðan upp eldsnemma næsta morgun og fórum þá gjarnan í sund. Eftir sundið bjó afi til kakó, sem var besta kakó í öllum heiminum, gaf mér ristað brauð og ég horfði á barnaefni á spólu. Ég sakna þess að hafa ömmu og afa hjá mér, ég sakna þess sem var í Hamarstígnum. Ég er hins vegar viss um að amma hefur tekið vel á móti afa og hefur alveg örugglega frá mörgu að segja. Takk fyrir allt afi minn. Ólafía Kristín Guðmundsdóttir (Lóa). Afi minn sagði mér að hann hefði ekki búist við að þurfa lifa svona lengi einn eftir að amma Lúlla dó fyrir 32 árum. Ég var rúmlega eins árs þegar amma dó svo ég á því mið- ur ekki minningar tengdar henni eða þeim saman. En afi talaði sérstak- lega vel um ömmu Lúllu og sagði stundum að við værum líkar – sem mér þótti mjög vænt um. Afi sagði við mig þegar ég hringdi í hann 8. júní sl., á afmælisdegi ömmu Lúllu, að líf hans hefði allt í einu gjörbreyst og hann hefði ekki kraftinn og vilj- ann sem höfðu einkennt hann öll árin fram að þessu. Það er huggun að hugsa til þess að hann þurfti ekki að glíma lengi við sjúkdóminn sem leiddi hann til dauða, eftir að hafa lifað lengur en flestir þora að vona við góða heilsu. Mér fannst á brosinu sem afi gaf mér þegar ég faðmaði hann nú síðast þeg- ar ég heimsótti hann, að hann vissi að þetta væri trúlega í síðasta sinn sem við myndum kveðjast. Nú hvílir hann í friði og hittir ömmu Lúllu eftir langa bið. Blessuð sé minningin um elsku afa minn Leif. Anna Björg. Mig langar með nokkrum orðum að minnast hans afa Leifs. Hann kunni flest, mundi allt og var alltaf glaður í bragði. Afi var fróður maður, víðlesinn, vel liðinn, gjafmildur og hrókur alls fagnaðar hvert sem hann fór. Hann hafði afbragðsvald á ís- lenskri tungu og flestir vildu geta ort og skrifað eins vel og hann. Þeir sem heimsóttu afa fengu oftast heima- smíðaða vísu og ísblóm í Fannborg- inni eða konfekt og kex eftir að hann fluttist að Hrafnistu. Afi spurði alltaf um allt fólkið sitt, hvar það væri, hvernig því gengi og hvernig öllum liði. Símtöl okkar afa fóru oftast nær fram um eða upp úr miðnætti þar sem Afi var nátthrafn og því hentaði honum ágætlega að hringja til okkar Maríu á Vestur- strönd Bandaríkjanna þegar við vor- um þar í námi. Það eru sjálfsagt ekki margir menn á hans aldri sem vaka til þrjú að nóttu til að stúdera bækur, yrkja, já eða horfa á boxið í sjónvarp- inu. Afi talaði alltaf mjög fallega um ömmu Lúllu og ég veit til þess að þau náðu einstaklega vel saman. Hún lést fyrir aldur fram árið 1977. Eftir afa liggja fjölmörg ljóð um ömmu, þar á meðal þetta fallega ljóð sem hann flutti við útför hennar: Þótt leiðir nú skiljist, við sameinumst seinna þú sagðir þannig við mig. Og ekkert vissi ég engilhreinna en einmitt þig. Ég kveð þig núna, en kem til þín aftur, það kætir og styrkir mig. Öllu stjórnar hinn æðsti kraftur. Guð annist þig. (Leifur Eiríksson.) Nú eruð þið aftur sömu megin, þú og amma Lúlla. Það huggar okkur hin. Elsku afi Leifur. Takk fyrir allt og allt. Þinn, Gunnar Örn. Elsku afi minn. Ég kveð þig með söknuði. Takk fyrir allt sem þú varst mér og mínu fólki. Megi minning um ein- stakan og óleymanlegan mann, hann afa minn, lifa. Hvíl í friði elsku afi minn. Lengi heilluðu hugann heiðríkir dagar, alstirnd kvöld, líf þeirra, ljóð og sögur, sem lifðu á horfinni öld. Kynslóðir koma og fara, köllun þeirra er mikil og glæst. Bak við móðuna miklu rís mannlegur andi hæst. Vor jörð hefur átt og alið ættir, sem klifu fell og tind. Því vísa þær örðum veginn að viskunnar dýpstu lind. Enn getur nútíð notið náðar og fræðslu hjá liðinni öld. Drauminn um vorið vekja vetrarins stjörnukvöld. (Davíð Stefánsson frá Fagraskógi) Ég bið Guð að gæta mín, góða anda að hugga mig. Sama ósk er eins til þín: Almættið það sjái um þig. (L.E.) Þín Sveinbjörg (Lúlla). Þegar jafnsterkir einstaklingar og afi minn kveðja þennan heim þá er erfitt að finna orð til að lýsa honum á þann hátt að sómi sé að. Virðing og væntumþykja koma þó upp í hugann. Á mínum yngri árum var virðingin oft óttablandin. Kennarahlutverkið var sterkt og vildi afi gjarnan að við barnabörnin værum dugleg að læra. Hann átti það til að spyrja mann út úr og oft uppfyllti ég ekki þær námskröfur sem hann vonaðist til. Oftar var þó gott og gaman að koma í Faxatúnið til ömmu Lúllu og afa Leifs. Við fráfall ömmu var sem afi hefði misst part af sjálfum sér. Hann var þó lánsamur að kynnast Helgu sem var honum góður félagi á meðan hún lifði. Afi Leifur var fróður maður en að sama skapi sérvitringur, uppfinn- ingasamur og skemmtilegur. Hann gerði Mullersæfingar á hverjum degi og nokkrum árum eftir að hann flutti á Hrafnistu í Hafnarfirði var gerð heimildarmynd um Hrafnistu sem sýnd var í Laugarásbíói og afi var eitt af aðalnúmerunum í myndinni og sýndi hann þar, meðal annars, leik- fimisæfingar. Afi fékk mikið hrós fyrir þátt sinn í myndinni enda var hann stórskemmtilegur, en hann átti það til að hnussa yfir því að þeir skyldu ekki hafa sýnt meira og sagð- ist ekki ætla að taka þátt í annarri mynd nema allar leikfimisæfing- arnar hans yrðu sýndar. Ekki leið langur tími þar til hann fékk tæki- færi til að sýna æfinguna „fingur að tá“ í sjónvarpinu. Og aftur kom afi í sjónvarp þegar hann sendi lukku- spilið sitt út fyrir landsteina til söngvara í Rockstar-keppni. Þrátt fyrir að afi fylgdist vel með Rockstar átti boxið hug hans allan þegar kom að sjónvarpsefni. Afi var svokallaður B-maður og átti gott með að vaka alla nóttina og fylgjast með boxinu. Íþróttir, uppfinningar, stærð- fræði, tungumál, eðlisfræði, veður, afkomendur og fólk almennt, allt þetta og örugglega eitthvað fleira voru áhugmál afa. Það sem ég hef þó ekki enn minnst á en var þó samofið honum og var stór partur af persónuleika hans var ljóðagerð. Hann var hreint ótrúlegur þegar kom að ljóðum. Hann virtist muna öll ljóð sem hann hafði lesið um ævina. Heilu kvæðabálkarnir runnu upp úr hon- um án nokkurrar fyrirhafnar. Hann var hæfileikaríkur sjálfur þegar kom að því að semja. Þó að margar vís- urnar væru gerðar til að skemmta þá gerði hann líka falleg og tilfinninga- rík ljóð. Hæfileiki hans dalaði ekki neitt með aldrinum og kominn á 103. aldursárið var hann enn með tæra og skýra hugsun. Ekki hef ég kynnst öðrum sem átt hefur jafnlétt með að halda ræður og afi. Það var ótrúlegt að verða vitni að eins vel uppbyggð- um, blaðlausum, ræðum aftur og aft- ur og það síðast í 100 ára afmæli sínu. Að kveðja afa minn er átakamikið. Innst inni hélt maður að hann yrði ei- lífur. Hann virtist aldrei eldast. Húð- in var alltaf slétt og falleg og hans innri fegurð óx með degi hverjum. Ég þakka fyrir að hafa fengið þenn- an afa í vöggugjöf og kveð sátt, vit- andi að hann var tilbúinn og eflaust búinn að finna ömmu. Börnum hans, tengdabörnum og öðrum afkomend- um votta ég samúð. Auður. Þá er komið að kveðjustund elsku- legi langafi. Við munum minnast þín sem afar lífsglaðs og hress vinar sem ávallt var til í að slá á létta strengi. Þegar við komum í heimsókn var alltaf mikið fjör, það var gaman að ræða við þig um daginn og veginn og oft sköpuðust skemmtilegar umræð- ur sem við komum fróðari frá. Þú hafðir einmitt á orði að ef maður bullaði væri það ekki tekið með í tím- ann sem manni væri ætlaður og þess vegna værir þú búinn að lifa svona lengi. Allir fara þó sinn veg að lokum og vegur þinn er svo sannarlega ljós- um prýddur. Ég bið Guð að gæta mín, góða anda að hugga mig. Sama ósk er eins til þín: Almættið það sjái um þig. (Leifur Eiríksson) Takk fyrir allar ánægjulegu stundirnar. Eysteinn, Kristján og Ína Björk. Fyrir nokkrum árum sýndi langafi mér ljóð, sem honum þótti nokkuð gott. Það sagði frá mannsævinni og fannst langafa gaman að vísa í það og benda mér á hvar ég væri „stödd í líf- inu“. Þá spurði hann mig líka hvar ég héldi að hann væri staddur. Það er skrýtið að hugsa til þess dags, þegar við langafi ræddum þetta. Mér fannst hann alltaf svo hress, enda var hann það líka. Það var aðeins fyrr á þessu ári sem langafi sýndi Davíð Þór (unnusta mínum) krafta sína, þegar hann hélt á göngugrind- inni sinni. Lengi vel, þegar ég kom í heimsókn til hans, þá virtist hann ekki geta setið kyrr og var alltaf að standa á fætur og ganga aðeins um. Hann var alltaf svo hress – og þannig mun ég alltaf muna eftir honum. Ég man þegar ég sýndi honum eitt sinn nokkur ljóð eftir mig. Hann las fyrsta ljóðið í hálfum hljóðum og lýsti yfir undrun sinni á öllu því myndmáli sem ég hafði í ljóðinu. Ljóðin okkar langafa hafa alltaf ver- ið, vægast sagt, ólík. Ég samdi eitt handa þér langafi, ég vona að þér líki það. Sorgin stingur, sjálft hjartað grætur. Ástin sárt syngur … Þú: sem ert mér svo verðmætur. og þínir tíu köldu fingur, sem sögðu okkur svo falleg ljóð. Sorgin stingur, eins og þyrnir. Sjálft hjartað grætur – af eilífri ást. Ástin syngur og vaggar þér í gröfinni, mína hinstu vögguvísu …til þín. Nú verða ljóðin þín sungin af englum á himnum. Heiðdís Ósk Leifsdóttir. Frændi minn Leifur Eiríksson frá Raufarhöfn hefur nú kvatt þennan heim, tekið höfn á annarri strönd, strönd hins ókunna. Á yngri árum sínum á Raufarhöfn lagði Leifur gjörva hönd á margvís- leg störf. Í fámenninu hlaðast gjarn- an hin ótrúlegustu verk á þá sem vit- að er að kunna ýmislegt fyrir sér. Frænda var falinn margur trúnaður- inn af fjölbreytilegum toga, af því að hann var bæði grandvar og réttsýnn. En lengst af var hann kennari og kenndi frá 1934-1982, á Raufarhöfn, Akureyri og Garðabæ og hann var farsæll í starfi alla tíð. Ég átti því láni að fagna að vera nemandi Leifs á Raufarhöfn og ég kallaði hann alltaf „lærimeistara“ minn. Hann var af- bragðskennari, réttlátur og mildur fagmaður. Hann leit á kennarastarf- ið sem leiðbeinandastarf – kennarinn var ekki sá sem allt vissi. Hann hvatti okkur til vitsmunalegra hugs- ana og að líta sífellt til nýrra útsýn- isátta. Hann kunni þá list að vekja áhuga og gleði og kenndi okkur vönduð vinnubrögð, þau voru aðals- merki hans. Leifur hafði einstaklega gott vald á íslenskri tungu og oft báru menn undir hann álitamál með góðum árangri. En ef frændi var ekki viss svaraði hann hógvær: „Við skulum bara fletta því upp.“ Leifur var mikill fjölskyldumaður og hollur frændfólki sínu. Hann var glettinn, tilfinningaríkur, háttvís og góður sögumaður. Frændi var „nátt- hrafn“ hinn mesti. Á sumrin þegar hann átti frí frá kennslunni þótti honum gott að vaka um nætur og hlusta í einrúmi, lifa dulúð vorsins og „seiðandi vorkvöldin blíð“ eins og hann sagði sjálfur í ljóði. Leifur missti Lúllu sína 15. ágúst 1977, langt fyrir aldur fram. Fráfall hennar var hinn stóri harmur í lífi hans og hann hélt minningu hennar á lofti enda var hún dísin hans. Þau voru samhent hjón og lánsöm og það ríkti jafnræði með þeim. Ég hlakkaði alltaf til að fá jólakort frá frænda með skriftinni fallegu og góðu kveðjunum: „Elsku Fríða frænka mín góð“ og stundum fylgdu með jólaljóð. Á þennan hátt sýndi hann mér ómetanlega vináttu. Í síð- asta kortinu hans var þessi vísa: Yfir fjöllin fagurblá ferðast ég í anda. Einatt ber mig einhver þrá allt til norðurstranda. Ég minnist skemmtilegu símtal- anna, margt bar á góma og ýmislegt var krufið til mergjar. Það var undir hælinn lagt hvort okkar varð fyrr til að spyrja: „Hefurðu heyrt eitthvað að norðan?“ Við dáðum norðrið bæði. Með kæru þakklæti kveð ég Leif frænda og þakka honum ræktarsemi hans og vináttu. Börnum hans, öllum afkomendum og vinum sendi ég hug- heilar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Leifs Eiríkssonar. Hólmfríður Sigurðardóttir. Klettar sterkir standa stormi og brimi móti. Undan aldrei láta árásir þó hljóti. Eiga sína sögu, samt þeir flestu leyna. Nyrzt við Íslands odda Ægir lemur steina. Þannig orti heiðursmaðurinn Leif- ur Eiríksson, sem hér er kvaddur, um æskuslóðir sínar norður á Rifi á Melrakkasléttu. „Sínum augum lítur hver silfrið“ og þótt sumum finnist lítið til klungursins þar koma, hafði Leifur þetta um það að segja: Upprunanum aldrei gleymi, er sem hlýir geislar streymi köldu, gráu grjóti frá. Oft um vor í unaðs heimi undradýrð þar mesta sá. Já – Leifi voru heimahagarnir kærir alla tíð. Ég ritaði æfmælisgrein um Leif er hann var áttræður. Margur fer þá að hugað að brottför frá „hótel Jörð“ en svo var ekki með Leif. Glaður og reif- ur hélt hann lífsgöngunni áfram; fyllti hundrað árin og rúmum tveim- ur betur. Í greininni rakti ég að nokkru æviferil hans og fer því ekki út á þær brautir nú. Tel þó ástæðu til að minna á að Leifur helgaði Rauf- arhöfn og byggðinni sinni fyrir norð- an bestu ár sín og starfskrafta sína; var einn af máttarstólpum þess sam- félags. Framsýnn, rökfimur og dug- mikill er vinna þurfti hagsmunamál- um brautargengi og ekki vantaði festuna ef að var sótt. Leifur var frændi minn í móður- legg og konan hans, Lúðvíka Lund var föðursystur mín. Lúlla lést fyrir rúmum 30 árum og tregaði Leifur hana sárt, enda Lúlla hans mikli bak- hjarl. Milli foreldra minna og Leifs og Lúllu var mikið og gott samband og allt til þessa hefur verið tamt að nefna Lúllu og Leif í sömu setning- unni. Þótt Lúlla félli frá ræktaði Leifur áfram tengslin við skyld- mennin; gaf fermingagjafir og sendi árnaðaróskir og jólakort ritaðar með einstaklega fallegri rithönd – oftar en ekki í stuðluðum setningum. Sumum finnst það kappsmál að bæta árum við lífið, en meiru skiptir þó að bæta lífi við árin. Það gerði Leifur. Allt til hins síðasta vakti Leifur athygli fyrir líkamlegt atgervi og lífsgleði. Síðustu árin hélt hann uppi fjöri á Hrafnistu í Hafnarfirði og gaf starfsfólki og vinum vísur og góðar sögur á báða bóga. Eftirminnileg og táknræn er stund með Leifi fyrir tveimur árum. Ég var að koma af skemmtun fyrir aldraða, hvar ég hafði sungið ein- hverjar gamanvísur og ákvað að heimsækja frænda minn og lofa hon- um að heyra pródúktið. Komið var undir miðnætti er ég bankaði, en vissi að samkvæmt hans sólarhring væri kvöldið rétt að byrja. Sú var og raunin. Segir nú ekki af spjalli okkar fyrr en þar kom að við fórum að syngja. Fyrst ég og svo hann og svo báðir saman. Við drógum fram hvern textann á fætur öðrum og kyrjuðum undir vinsælum dægurlögum sem við báðir þekktum. Þar var ekki kyn- slóðabilið og sannarlega var hvorki á textum Leifs né lagavali hægt að finna að þar færi hugsun aldargam- als manns. Á kveðjustundu sendir fjölskylda mín börnum Leifs, tengdabörnum og afkomendunum mörgu, innilegustu samúðarkveðjur. Farðu vel, aldni höfðingi, frændi og vinur. Guð blessi þig og varðveiti á eilífðarbrautum. Níels Árni Lund. Látinn er Leifur Eiríksson, merk- ur maður og góður fulltrúi kynslóð- arinnar sem lifði mestalla síðustu öld. Við eigum þessari kynslóð mikið að þakka. Leifur hafði brennandi áhuga á því að bæta mannlífið, sér- staklega sem til ungu kynslóðarinn- ar kom, hvað varðar menntun og hreysti. Leifur gerði sér lítið fyrir og stofn- aði barnaskóla til að svala þörf sinni til að hjálpa ungu fólki. Ég kynntist Leifi er við byrjuðum að starfa 1958 við Barnaskóla Garðahrepps, sem hann hét þá. Okkur Leifi varð mjög vel til vina, þrátt fyrir aldursmun, og er ég kynntist konu hans Lúðvíku varð sú vinátta ennþá meiri. Það var ósjald- an sem maður fór í spjall og kaffi- sopa eftir vinnu til þeirra. Þau létu í ljós meira álit á mér en ég hafði sjálf og það var ekki alslæmt. Því miður fór Lúðvíka allt of snemma, fyrir rúmum 30 árum. Síðustu árin var Leifur á Hrafn- istu í Hafnarfriði og þar leið honum vel. Hann blómstraði á tíræðisaldri því hann náði sambandi við alla ald- urshópa. Hann átti líka svo auðvelt með að koma fyrir sig orði, bæði í bundnu og óbundnu máli, og gladdi marga með hugljúfum kveðskap, þar á meðal mig. Ég vil að lokum láta fylgja stöku sem er í ljóðabók Leifs sem kom út á 100 ára afmæli hans: Ég bið Guð að gæta mín, góða anda að hugga mig. Sama ósk er eins til þín: Almættið það sjái um þig. Blessuð sé minning Leifs og Lúð- víku og ég óska öllum afkomendum þeirra til hamingju með að vera af- komendur þessara merku hjóna. Kærar þakkir fyrir góða vináttu. Innilegar samúðarkveðjur til ætt- ingja, Borghildur G. Jónsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.