SunnudagsMogginn - 25.10.2009, Qupperneq 20
að sig á því hve fræg hún var orðin: „Ef ég á að segja al-
veg eins og er fattaði ég þetta ekki. Sem betur fór. Ég er
bara fyrst núna að átta mig á því að það er þokkalega
mikið að selja níu þúsund plötur. Ég pældi aldrei í þessu.
Ég labbaði um göturnar og furðaði mig á því af hverju
fólk væri að stara á mig.“
Á Crouçie D’où Là og Merman var lítið um Emilíönu,
ef svo má segja, því lagalistinn var aðallega þekkt lög
eftir aðra söngvara. Í viðtali við franskt vefsetur á síðasta
ári sagðist Emilíana helst ekki vilja tala um þær plötur
núorðið og þannig hefur hún komið í veg fyrir að þær
verði endurútgefnar.
Lagt upp í víking
Hún var þó að iðja við fleira en sólóskífur því 1995 lék
hún í kvikmyndinni Einkalíf eftir Þráin Bertelsson og
tók þátt í starfi fjöllistahópsins Gus Gus, en var þá með á
prjónunum að reyna fyrir sér ytra og gerði það, fluttist
til Lundúna og tók til við að móta sólóferil. Framan af
bjó hún í Lundúnum, en settist síðan að í Brighton og
býr þar enn, segir að víst sé það stórundarlegur staður,
en að sama skapi mjög indæll. „Það er æðislegt að búa
þar, það er svo mikið listalíf, og bóhemlíf, enda er allt
fullt af hippum.“
Eftir talsverða vinnu varð til breiðskífan Love In the
Time Of Science, sem kom út 1999, en á henni á Emilíana
nokkur lög, sum unnin í samvinnu við Eg White, en
mest ber á þunglamalegum lögum Rolands Orzabal, sem
gerði garðinn frægan með Tears for Fears. Platan seldist
vel, en mörgum fannst þó fulllítið af Emilíönu á skíf-
unni; víst söng hún á henni og átti fín lög, en tónlistin
eiginlega ofhlaðin.
Á næstu árum var mikil vinna lögð í að kynna plötuna
um Evrópu og gekk vel, sérstaklega í Frakklandi, Þýska-
landi og á Spáni, en gekk ekki nema miðlungi vel í Bret-
landi þrátt fyrir mikla vinnu. Það leið líka drjúgur tími í
næstu plötu; Love in the Time of Science kom út 1999,
en næsta plata þar á eftir ekki fyrr en sex árum síðar.
Það má segja að það hafi orðið ákveðinn vendipunktur
í tónlistarsögu Emilíönu þegar hún kynntist tónlistar-
manninum Dan Carey, sem notar alla jafna listamanns-
nafnið Mr. Dan. Þau unnu til að mynda að tveimur lög-
um á milljónaplötu Kylie Minogue sem kom út 2003, en
aðalvinnan var þó sólóplata númer fimm: Fisherman’s
Woman.
Úr annarri átt
Fisherman’s Woman kom úr allt annarri átt en platan á
undan, einlæg og hjartnæm plata með fínlegum útsetn-
ingum og undirspili þar sem menn leituðu greinilega
einfaldleikans, einskonar andsvar við íburðarmiklu
poppi fyrri verka – í stað rafeindahljóða og hljómaflækju
kom kassagítar, marr og raul – nú var Emilíana búin að
finna fjölina sína og kom ekki á óvart að Fisherman’s
Woman fór beint á toppinn á Tónlistanum íslenska og
sat þar sem fastast mánuðum saman. Gagnrýnandi
Morgunblaðsins gaf plötunni fimm stjörnur og lýsti
henni svo: „Emilíana hefur aldrei verið eins mikil Emil-
íana – ef þannig mætti að orði komast. Aldrei, að manni
virðist, gefið eins mikið af sjálfri sér og verið eins vel
heima í því sem hún hefur verið að gera.“
Einfaldleikinn var þó ekki bara vegna þess að hún
vildi skipta um stíl, það bjó harmur undir því Emilíana
hafði misst sambýlismann sinn í bílslysi og samdi plöt-
una sem einskonar hugarfró, losaði um tilfinningarnar
með því að skrifa bréf til hans sem væri hún sjómanns-
ekkja og hann í eilífðarsiglingu, eins og nafn skífunnar
ber reyndar með sér.
Meira fjör
Á næstu plötu, Me and Armini, var heldur meira fjör í
músíkinni, en þó eðlilegt framhald af Fisherman’s
Woman. Hún vann plötuna eins og þá fyrri, þ.e. í sam-
starfi við Mr. Dan, nú sömdu þau tvö öll lögin saman, og
ekki varð árangurinn síðri. Í spjalli segist hún hafa þá
fyrst náð því sem hana langaði að gera þegar hún kynnt-
ist Carey: „Ég fæ voða lítið af hugmyndum að lögum yf-
irleitt, það er frekar að ég sjái fyrir mér myndir, landslag
eða atriði í bíómyndum og hann er galdramaður í að ná
að skapa þær myndir í tónlist; ég segi honum bara hvað
ég er að hugsa og undireins verður eitthvað til sem
verður svo að lagi,“ segir Emilíana. „Vinnan byrjar oft á
því að ég vel eitthvert hljóðfæri sem mér finnst passa við
það sem ég er að pæla og svo kemur þetta bara. Ég hef
lært það smám saman að málið er að vera ekki að þvinga
neitt fram, bara vera í flæði og leyfa lögunum að birtast,
enda langar þau til að fæðast.“
Þetta vinnulag dugði þeim Emilíönu og Carey svo vel
að platan varð til á undraskömmum tíma, lögin samin á
rúmum tveimur vikum samtals, með góðum hléum á
milli. Megnið var samið í Oxford og á Íslandi, en Emil-
íana segist sækja sér innblástur hingað, í íslenska nátt-
úru, íslenskt þjóðfélag og íslenskt fólk. Hún segir líka að
það sé henni mjög mikilvægt að geta tekið frá tíma til
lagasmíða, það verði aldrei neitt til af viti í tónleikaferð-
um, „maður er alltaf í flugi eða að bíða eftir sándtékki,
eða að hanga í rútunni“.
„Semja lög, kveikja bál og vera glöð“
Hvað næstu plötu varðar þá hyggst hún beita álíka að-
ferðum, en nú stendur til að fara lengra í burtu, alla leið
til Joshua Tree í San Bernardino, Kaliforníu, og þar á að
geta atlögu að næstu plötu; „semja lög, kveikja bál og
vera glöð, eins og að vera uppi á jökli“, segir Emilíana,
en bætir við að þótt hún sæki svo langt í burt sé líka
morgunljóst að hún muni einnig semja einhver laganna
hér á landi til að halda jarðsambandinu. „Það er bara svo
mikið af skemmtilegum hippum í Joshua Tree sem eru
líka ótrúlega fínir tónlistarmenn og það er svo gaman að
sitja með fólki og impróvísera, að hitta fólk sem finnst
gaman að spila og er ekkert að pæla í því að búa til plötur
eða lög. Fólk tekur bara upp hljóðfærin og spilar fyrir
ánægjuna, svo byrjar einn að syngja og annar að radda
og svo er allt í einu komið lag. Mig þyrstir í að komast í
það umhverfi, en í Bretlandi eru allir svo mikið í
vinnunni, allt er svo alvarlegt um leið og hljóðfærin eru
komin á loft.“
Undanfarna mánuði hefur Emilíana verið á ferð um
Evrópu með hljómsveit sinni; hóf ferðina í Árósum í júní
á tónleikum sem voru svo einkennilegir að hennar sögn
að henni þótti sem hún væri ekki viðstödd þá, heldur
sæti hún úti í sal að fylgjast með því sem var að gerast á
sviðinu. Áheyrendur kunnu þó vel að meta framlag
frammistöðuna, en ekki fór á milli mála að menn voru
ekki alltaf með á nótunum, nema hljómborðsleikarinn,
enda var hann með nóturnar fyrir framan sig. Hann var
nefnilega að spila með sveitinni á sínum fyrstu tón-
leikum og hafði aðeins fengið hálfan dag í æfingar.
Ekta slagari
Það var því hálfgerður losarabragur á öllu saman, en
eins og getið er kom það varla að sök, því Emilíana geisl-
ar frá sér svo mikilli einlægni og hlýju á tónleikum að
áheyrendur geta ekki annað en hrifist af og gildir nánast
einu hvaða seið er verið að fremja á sviðinu. Núorðið er
sveitin þó vel samansúrruð, því tónleikahald hefur verið
afskaplega stíft, en meðal góðra liðsmanna hennar eru
þeir Sigtryggur Baldursson trommuleikari, sem sumir
þekkja sem Bogomil Font, aðrir sem Sigtrygg í Sykur-
molunum og enn aðrir sem helming Steintryggs, og Pét-
ur gítargoð Hallgrímsson sem hefur spilað með flestum
þeim sem eitthvað er spunnið í að spila með hér á landi
og einnig verið í lausamennsku ytra með góðum árangri.
Í Evrópuferðinni lá leið Emilíönu til Austur-Evrópu í
fyrsta sinn, en þangað hafði hana víst alltaf langað til að
koma en umboðsskrifstofa hennar ekki hirt um að taka
þeim óskum sem bárust um tónleikahald þar á slóðum.
Skemmst er frá því að segja að henni var hvarvetna vel
tekið, en hvergi betur þó en í Mið-Evrópu, því engin
þjóð kann eins að meta Emilíönu og Þjóðverjar, að lönd-
um hennar frátöldum. Það segir sitt að lagið Jungle
Drum af Me and Armini fór á toppinn á þýska smáskífu-
listanum og sat þar sem fastast í heilar átta vikur að það
hnikaði sér í annað sæti listans.
Jungle Drum var þó ekki bara vinsælt í Þýskalandi,
Svisslendingar og Austurríkismenn tóku því líka fanta-
vel, en það varð þó hvergi eins vinsælt og í heimalandi
schlagersins – sagan segir að ekkert lag hafi verið sungið
eins mikið á októberhátíð Bæjara og þar hafi menn feng-
ið að heyra af því alls konar útgáfur; polka, lúðrasveitir,
skemmtara – hvaðeina sem tiltækt var og menn kunnu
sæmilega að spila. Það má til að mynda stytta sér stundir
við það að hlusta á óteljandi útgáfur lagsins á YouTube,
hvort sem menn eru að flytja það sjálfir á kassagítar,
fiðlu eða með aðstoð fullmannaðrar grenjandi dauða-
rokkssveitar. Flugumaður minn í föruneyti Emilíönu
sagði mér þá sögu að hún hefði brugðið sér til Düsseldorf
í spjallþátt hjá Oliver Pocher, Hemma Gunn þeirra Vest-
urvellinga, og flutt lagið með húshljómsveit Pochers og
þar hefði lagið fengið að hljóma áþekkt og Geirmundur
Valtýsson hefði snúið því upp á gömludansana – sem-
sagt: echter Schlager.
Síðustu tónleikarnir í haustsyrpu Emilíönu og félaga
voru í Melkweg í Amsterdam sl. þriðjudagskvöld og nú
kærkomið frí. Það er þó ekki langt, því næstu tónleikar
verða í Portúgal næstkomandi laugardag, 31. október,
og síðan eru tvennir tónleikar til áður en hún kemst í
jólafrí. Eftir jól verður snúið í gang að nýju, því 30. des-
ember er þráðurinn tekinn upp í Ástralíu, aukinheldur
sem í bígerð er að spila vestan hafs sem er ónumið land
hvað Emilíönu varðar því hún hefur ekki haldið tónleika
þar að ráði hingað til, en fór reyndar skreppu í haust.
Emilíana í stuði
Það er líka meira í pípunum, því verið er að púsla saman
ferð um Asíu á nýju ári og því nóg vinna framundan. Það
finnst henni líka vera hið besta mál: „Ég er búin að fá
mér frí þessi ár [sem liðu á milli platna] og mig langar til
að halda áfram núna, ég er í stuði, mér finnst þetta svo
gaman. Þetta er akkúrat það líf sem ég vil helst lifa núna,
ferðast um heiminn og spila fyrir fólk. Ég veit það að
þegar ég fer heim í frí þá er ég orðin ólm að komast af
stað aftur eftir tvær vikur svo ég vil gjarnan halda áfram
af krafti,“ segir Emilíana og bætir við að það sé ekki síst
gaman þegar sveitin sé búin að spila sig svo vel saman,
enda fara lögin þá að breytast í meðförum hennar, menn
hætta sér út af nótnablaðinu.
Að því sögðu þá er þó takmarkað hverju hægt er að
breyta því lagavalið er fjölbreytt og þarf títt að skipta um
hljóðfæri til að láta allt ganga upp: „Það eru svo margar
gítarskiptingar milli laga og þá þarf að stilla. Það fer því
mikill tími í það hjá mér að bíða á meðan menn eru að
gera sig klára og þá verð ég svo stressuð og fer að blaðra,
segja bölvaða vitleysu og lygasögur; vinir mínir sem sjá
mig á tónleikum koma svo til mín og segja: ég man ekki
eftir að þetta hafi verið svona,“ segir hún og hlær inni-
lega.
„Vinnan byrjar oft á því að ég
vel eitthvert hljóðfæri sem mér
finnst passa við það sem ég er
að pæla og svo kemur þetta
bara. Ég hef lært það smám
saman að málið er að vera
ekki að þvinga neitt fram,
bara vera í flæði og leyfa lög-
unum að birtast, enda langar
þau til að fæðast.“
20 25. október 2009