SunnudagsMogginn - 08.11.2009, Qupperneq 10
10 8. nóvember 2009
É
g rifjaði það upp í pistli fyrir nokkrum vikum að
breskur þingmaður Verkamannaflokksins, Jim
Dowd, sagði í samtali við Morgunblaðið í apríl
2006: „Segja má að einstaklingur í dag geti farið í
gegnum lífið allt og aldrei verslað annars staðar en í Tesco.
Frá vöggu til grafar getur Tesco fullnægt öllum þörfum ein-
staklingsins. Er það slík einsleitni sem við viljum festa í
sessi?“ Þessi orð lét þingmaðurinn falla vegna þess að bresk
stjórnvöldu höfðu og hafa áhyggjur af ráðandi markaðs-
hlutdeild Tesco sem þó er ekki „nema“ um 30%.
Ég segi ekki nema því markaðshlutdeild þeirra Bónusfeðga,
Jóns Ásgeirs og Jóhannesar Jónssonar, er jú miklu meiri en
þeirra hjá Tesco eða um 50%. Ólíkt breskum stjórnvöldum
virðast þau íslensku ekki hafa hinar minnstu áhyggjur af ráð-
andi markaðshlutdeild eigenda Haga því ekki er annað að sjá
og heyra en það sé ríkur vilji fyrir því hjá stjórnvöldum að
halda lífi sem lengst í þessum einokunarrisum smásölunnar,
til dæmis með því að láta það gerast að banki sem enn er í
ríkiseigu (eign fólksins í landinu), hvað sem verður eftir
mánuð eða svo, afskrifi jafnvel tugi milljarða króna af samtals
yfir 70 milljarða skuldum Haga og 1998 en Jón Ásgeir og fjöl-
skylda fái samt sem áður að eiga áfram 60% hlut í Högum.
Það eina sem eigendurnir virðast þurfa að gera á næstu
dögum og vikum er að reiða fram 5-7,5 milljarða króna.
Menn vita sem er að það er óhjákvæmilegt að afskrifa stór-
an hluta skulda Haga og 1998 því smásölureksturinn rís ekki
undir slíkri skuldsetningu. En það sem mönnum ofbýður er
að Kaupþing sé með það í bígerð að leyfa þeim sem keyrðu
Baug Group í yfir 300 milljarða króna gjaldþrot að halda
áfram völdunum í Högum. Ef stjórnendur Kaupþings hverfa
ekki frá slíkum áformum held ég að óhætt sé að fullyrða að
hér verður allt vitlaust, enn á ný.
Hafa menn velt því fyrir sér hversu mikla fjármuni eig-
endur Haga hafa greitt sér út frá því að Baugur Group var
tekið af markaði? Fróðlegt væri að fá upplýsingar um þær
upphæðir og hvað varð um þá peninga.
Að vísu gáfu yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur forsætis-
ráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í vik-
unni, í þá veru að ekki sé sjálfgefið að eigendur stórfyrirtækja
sem fá stórfelldar afskriftir í bankakerfinu komi áfram sem
eigendur að rekstrinum, ákveðnar vonir um að stjórnendur
Kaupþings og eigendur Haga og 1998 ehf. verði ekki látnir
komast upp með þær fyrirætlanir sem augljóslega voru á
prjónum þar á bæ. Hvað vakir fyrir mönnum í Kaupþingi og
ríkisstjórninni ef það á að gerast að eigendurnir sem keyrðu
félagið í þrot fá forkaupsrétt á 60% hlutafjár í Högum á
brunaútsöluprís?
Væri ekki vitinu nær og réttlætinu að Kaupþing yfirtæki
allan rekstur Haga og hlutafé eigendanna yrði skrifað niður í
núll krónur, rétt eins og gert var þegar fyrrverandi eigendur
Árvakurs hf. þurftu að skrifa sitt hlutafé niður í núll og
hverfa frá rekstri Morgunblaðsins áður en Íslandsbanki bauð
Morgunblaðið út í opnu útboðsferli?
Hvað ætti að réttlæta það að Björgólfsfeðgar væru með-
höndlaðir eins og Jón en Bónusfeðgar eins og séra Jón?
Getur Kaupþing ekki minnkað eigið tap með því að yf-
irtaka Haga með manni og mús, að undanskildum feðgunum,
og boðið fyrirtækið svo út í opnu, gegnsæu ferli eða brotið
upp báknið og boðið út smærri einingar?
Lífeyrissjóðir landsins hafa verið að bræða með sér með
hvaða hætti þeir gætu stutt við atvinnulífið í landinu. Þeir
gætu, ef stjórnendur þeirra kærðu sig um, komið að eign-
arhaldi á Högum. Það væri minnsta mál fyrir þá að snara út
þeim 11 milljörðum sem virðist vera verðmiðinn á Högum ef
marka má fréttir og eignast þar með Haga alla.
Þannig mætti tryggja áframhaldandi rekstur á verslunum í
eigu Haga og um leið yrði tryggt að landsmönnum stæði til
boða matvara á sanngjörnu verði því varla leggjast lífeyr-
issjóðirnir svo lágt að okra á eigendum sínum þótt vissulega
þurfi þeir einnig að gæta að því að fá viðunandi arð á fjárfest-
ingar sínar.
Bónus frá
vöggu til
grafar
Agnes segir
Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
5:00 Inga Fanney fer á fætur
á meðan flestir eru enn í fasta-
svefni. Hún byrjar daginn á
sturtu og fær sér hafragraut í
morgunmat. „Ég fæ mikla orku
úr grautnum og hann fer ákaf-
lega vel í maga og ég þarf þá yf-
irleitt ekki að borða fyrr en á
hádegi,“ segir Inga Fanney.
Alla jafna hjólar Inga Fanney í
vinnuna og aftur heim en því er
öðruvísi farið í dag. „Ég tek
sækinguna en bílstjórar sem
byrja snemma eiga kost á því að
vera sóttir heim. Mér finnst nú
samt afskaplega gott að hjóla.
Það kemur blóðinu á hreyfingu.
Ég er búsett í Breiðholtinu og
glími við Breiðholtsbrekkurnar
og er búin að mastera þær
þannig að nú hjóla ég án þess að
stoppa.“
6:20 Inga Fanney er mætt í
vinnuna á Hesthálsi. „Það er
örugglega leitun að öðrum eins
vinnustað því fjörið uppi á
Hesthálsi er bara ekkert venju-
legt. Þar er hlegið, djókað og
jafnvel dansað svona snemma
að morgni,“ segir Inga Fanney
bæði stolt af vinnustaðnum og
vinnufélögunum. Ingu Fann-
eyju er úthlutað leið 12 en hún
keyrir allar leiðir og er aldrei
meira en tvo daga á sömu leið.
„Ég byrja á því að aftengja
vagninn bæði lofti og rafmagni
og geri hann kláran og fer á
mína endastöð, sem er á Skelja-
nesi úti í Skerjafirði,“ segir Inga
Fanney um upphaf vinnudags-
ins. Þegar klukkan er fimm
mínútur gengin í átta leggur
vagninn hennar af stað úr
Skerjafirði og keyrir upp í Ártún
með viðkomu í Mjóddinni. Inga
Fanney fer reglulega í kaffihlé á
endastöðvunum og þá sest hún
niður og les blöðin. Inga Fanney
er bráðum búin að keyra í 10 ár
og segir starfið ákaflega
skemmtilegt. „Í vinnunni hittir
maður alla flóruna af fólki, frá
tveggja ára leikskólabörnum
upp í níræða heldri menn og
frúr.“
15:18 Vinnudegi er lokið.
Nýr bílstjóri sest í sæti Ingu
Fanneyjar og hún færir sig í far-
þegasætið. Vinnufélaginn
stoppar bílinn á viðeigandi stað
enda vanur að Inga Fanney sitji í
á heimleið þegar hún er ekki á
hjólinu.
Þegar heim er komið fer Inga
Fanney að gera sig tilbúna fyrir
ferðalag helgarinnar og tekur til
við að strauja og pakka. Í vænd-
um er helgi í Hveragerði með
góðum vinum sem vita fátt
skemmtilegra en að dansa. Þeg-
ar búið er að strauja skyrtur og
kjóla og raða ofan í tösku heldur
hún í Skeifuna á dansæfingar.
18:00 Með þumlana í vösum
og ameríska sveitatónlist í eyr-
um dansar Inga Fanney línu-
dans ásamt góðum vinum og
Óla Geir í Húnabúð. Að línu-
dansinum loknum skellir Inga
Fanney sér yfir í Dansskóla
Auðar Haralds ásamt félaga sín-
um og saman dansa þau chac-
hacha, samba og vals. „Þetta er
svo gott þegar maður er búinn
að sitja allan daginn og keyra að
fá svona hreyfingu,“ segir hún.
Eftir þrjár strangar en jafnframt
skemmtilegar klukkustundir í
dansinum fer Inga Fanney
heim. Hún fær kærastann í
heimsókn en hann er jafnframt
dansfélagi og þau borða saman
létta máltíð eftir erfiðið. „Svo
setjumst við út á balkanið og
spilum á gítar og syngjum smá-
vegis. Við syngjum Fram í heið-
anna ró og Liljuna og fleiri lög.
Kærasti minn spilar bæði á gítar
og nikku og þessar stundir eru
voðalega indælar.“ Hún skríður
þreytt upp í rúm og er sofnuð
rétt eftir miðnætti.
signyg@mbl.is
Dagur í lífi Ingu Fanneyjar Jónasdóttur vagnstjóra
Inga Fanney Jónasdóttir er bráðum búin að keyra strætó í 10 ár og segir starfið ákaflega skemmtilegt.
Morgunblaðið/Kristinn
Söngelskur og dans-
andi strætóbílstjóri
Sími 544 5858, www.frostmark.is
Dalvegi 4 Kópavogi og Gagnheiði 69 Selfossi
Staðlaðar lausnir – Sérlausnir
Hönnun – Sala – Framleiðsla