SunnudagsMogginn - 08.11.2009, Page 29

SunnudagsMogginn - 08.11.2009, Page 29
8. nóvember 2009 29 H vað var nú þetta?“ spurði ég þegar við þutum framhjá ísklumpi sem birtist allt í einu við hliðina á okkur. Við Örlygur Sigurjónsson blaðamaður litum hvor á annan og horfðum til baka. Það var ógerlegt að stoppa, við höfðum allt í einu lent á svellbunka á veginum og það var að duga eða drepast – einbeita sér að því að halda bílnum á veginum. Vind- hraðinn var ógurlegur og hafði slegið í 62 m/sek á sjálfvirkum vindmæli Vegagerðarinnar í mestu kviðunum, þótt hann væri ekki svo hvass í augnablikinu í vikulokin 19. október 2004. Kári jós hressilega upp úr pollum og vötnum í Staðarsveitinni, og þegar frysti varð allt að ís, vegurinn jafnt sem girðingar. Þetta var annars lítilfjörlegt tréhlið sem varð að stórfenglegum frostköggli, eða það sýndist okkur, við fukum svo hratt framhjá hliðinu. Við vorum á Snæfellsnesi á leið að bænum Knerri í Breiðuvík þar sem fjárhús, hlaða og vélageymsla höfðu brunnið um nóttina ásamt um 700 lömbum. Við vorum seinir af stað úr bænum, sagt var að það væri ófært eða illfært um Snæfellsnesið sökum mikils hvassviðris og sviptivinda. Við ákváðum að halda áfram en kíkja í bakaleiðinni á frosthliðið. Á þessu augnabliki var dumbungur í lofti og ekki sér- lega falleg birta. Við komum að bænum og fengum leyfi til að mynda í rústum fjárhúsanna þar sem allt var brunnið og það var frekar ömurlegt að sjá. Bóndinn á bænum, Friðgeir Karlsson, var í hálfgerðu losti og ekki tilbúinn að ræða við blaðamenn, en vinkona Friðgeirs, Kristín Erla Valdimarsdóttir, sagði eldinn hafa kviknað mjög snögglega, nánast eins og eldingu hefði slegið niður. „Þegar ég leit út um eld- húsgluggann sá ég alla hlöðuna í björtu báli,“ sagði hún. Við mynduðum útihúsin og stoppuðum stutt því járnplötur fuku allt í kringum okkur. Myndirnar birtust í Mogganum 20. október 2004 bæði á baksíðu og forsíðu. Mikið eignatjón varð í þessu fárviðri víða um land, grindur í gólfi brúarinnar yfir Núpsvötn fuku af og brúin gekk í bylgjum. Rúta fauk undir Hafnarfjalli með 45 manns innanborðs og fór á hvolf og um 40 manns leituðu á slysadeild þótt enginn hafi slasast alvarlega. Þegar við héldum heim á leið í sterkum vindi hrikti í bílnum og þurfti að hafa allan vara á sér við þessar aðstæður. Það var enginn á ferli og við mættum einungis einum bíl alla leiðina. Við nálguðumst íshliðið í Staðarsveitinni, sólin var að setjast og var komin undir skýjabakkann við sjóndeildarhring. Það var tignarleg sjón að sjá ís- hliðið glóa í síðdegissólinni, það var allt önnur birta núna en fyrr um daginn. Það fór ekkert á milli mála að við vorum við Gullna hliðið. Örlygur var ekki lengi að samþykja beiðni mína um að ég fengi að mynda hann þar sem reyndi á hvort hann kæmist inn um Gullna hliðið. Örlygur er annálað hraust- og ljúfmenni og nú skyldi reyna á hvort Lykla-Pétur mundi hleypa honum inn. Örlygur vílar ekki fyrir sér að klífa ísilagða fossa, þverhnípta hamraveggi og sigla á kajak í ölduróti og illviðrum og reyna á mannlega getu. Hann er varkár en fylginn sér. Nú varð að hafa hraðann á, sólin gat farið bak við ský þá og þegar og birtan var lykilatriði í myndinni. Ég lagði bílnum þannig að sem mest skjól væri af honum við hlið- ið. Örlygur dreif sig út og ætlaði að ganga að hliðinu. Ég var að bjástra við myndavélarnar og gera mig kláran þegar ég sé út undan mér eitthvað fjúka út í buskann. Það skipti engum togum, allt í einu fauk Örlygur af stað í sterkri vindhviðu. Á fleygiferð framhjá Gullna hliðinu sá ég hann hlaupa eins og ræningja eftir bankarán eða veðhlaupahest sem heldur að hann sé ballerína, tiplandi á tánum eftir klakabrynjunni. Það var sjón að sjá þegar Örlygur reyndi að halda jafnvægi og passa sig að detta ekki á hrjúfu yfirborðinu. Honum tókst ekki að stoppa fyrr en eftir 40 til 50 metra. Ég var að kafna úr hlátri, hlaupastíllinn var þvílíkur og ég ætlaði bara að mynda hann við hliðið. Til allrar hamingju var langt niður á strönd. Örlygur var nokkra stund að berjast á móti vind- inum og þá varð myndin til. Hann komst við illan leik til baka og það tók hann smátíma á móti vindinum, en þá var sólin farin bak við ský og gullni bjarminn horfinn. Það á kannski fyrir okkur öllum að liggja við ævilok að svara fyrir gjörðir okkar á jörðinni, við Gullna hliðið hjá Lykla-Pétri og semja um inngöngu. Örlygur fær þá annað tækifæri til inngöngu. Ég ætla rétt að vona að það verði ekki svona hvasst þegar að því kemur, svo hann fjúki ekki framhjá aftur. Fauk fram- hjá Gullna hliðinu Sagan bak við myndina Ragnar Axelsson rax@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.