SunnudagsMogginn - 20.12.2009, Síða 27

SunnudagsMogginn - 20.12.2009, Síða 27
20. desember 2009 27 R úmenía logaði í ófriði fyrir jólin 1989. Mótmæli til stuðnings ungverska prestinum László Tö- kés, sem stjórnvöld vildu setja af, höfðu undið upp á sig og lýðurinn fann að Nicolae Ceau- şescu forseti og ríkisstjórn hans lágu vel við höggi. Herinn og hin alræmda leyniþjónusta Securitate brugðust hart við, skutu á mótmælendur og handtóku hundruð manna. En ekki varð aftur snúið, skriðþungi alþýðunnar jókst jafnt og þétt, og Ceauşescu sá sína sæng upp reidda. Hann gerði örvæntingarfulla tilraun til að ávarpa mótmælendur fyrir framan höfuðstöðvar kommúnistaflokksins í Búk- arest að morgni 22. desember en hrökklaðist inn aftur. Byggingin var umkringd og Ceauşescu brá á það ráð að kalla eftir þyrlu. Hann slapp með naumindum af þaki byggingarinnar áður en æstur lýðurinn komst þar inn. Með í för voru eiginkona Ceauşescus, Elena, og tveir nánir samverkamenn hans, mágurinn Manea Mãnescu og Emil Bobu. Förinni var heitið á sveitasetur forsetans í Snagov. Þar var þeim ekki vært og stefnan sett á borgina Târgovişte. Skammt þar frá gaf herinn flugstjóranum fyr- irmæli um að lenda sem hann og gerði úti á miðjum akri. Þar tók lögreglan Ceauşescu og frú höndum og kom þeim í vörslu hersins. Herinn mændi ekki í gaupnir sér heldur dró hjónin fyrir herrétt, þar sem þau voru fundin sek um glæpi af ýmsu tagi, þar á meðal þjóðarmorð, og dæmd til dauða á jóladag 1989. Höfðu menn engar vöflur á, heldur framfylgdu dómnum samdægurs. Ceauşescu -hjónin voru leidd fyrir aftökusveit í Târgovişte. Hundruð skyttna voru kölluð en aðeins þrjár útvaldar. Flugið endurtekið Í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá þessum örlagaríku atburðum réðst rúmenska sjónvarpið í gerð heimild- armyndar um byltinguna sem frumsýnd verður núna um jólin. Í myndinni er flótti Ceauşescus settur á svið. Þar leikur þyrla eðli málsins samkvæmt stórt hlutverk og flugstjórinn sem fenginn var til verksins er Íslendingur, Sigurður Ásgeirsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni. Sérstakt leyfi þurfti til að endurtaka flugið en flugbann er í gildi yfir Búkarest. Spurður hvernig þetta hafi komið til kveðst Sigurður eiga félaga í þyrlubransanum í Rúmeníu sem hann sækir reglulega heim. „Ég var úti þegar þetta kom upp og var beðinn að taka verkefnið að mér. Ég þurfti ekki að hugsa mig um tvisvar.“ Þyrlan sem notuð var er af Dauphin- gerð eins og minni þyrla Landhelgisgæslunnar. Þyrlan sem Ceauşescu flúði upphaflega í er ennþá í notkun en var ekki fáanleg, þar sem hún þjónar forsetaembættinu. Einn úr flóttaáhöfninni er ennþá á lífi, flugvirkinn Stelian Dragoi, og var hann hafður með í ráðum. „Það var magnað að hitta þann mann. Flótti Ceauşescus var heims- sögulegur viðburður og maður man eftir þessu eins og það hafi gerst í gær. Mér leið hér um bil eins og ég væri að hitta mann sem hefði verið í neðanjarðarbyrginu með Hitler,“ segir Sigurður. Flugið nú var á engan hátt hættulegt. „Það var enginn að skjóta á okkur,“ segir Sigurður kíminn. Ekki er þyrlu- pallur á þaki byggingarinnar í Búkarest og því aðeins hægt að tylla þyrlunni niður. „Þetta er ekki flókið undir venju- legum kringumstæðum en hefur eflaust verið hættuspil í ringulreiðinni á sínum tíma.“ Dagskrárgerðarmaður frá rúmenska sjónvarpinu var með í för og lýsti atburðum daginn örlagaríka frammi fyrir kvikmyndatökuvélinni. Þar sem flugið var nákvæm eftirlíking af hinu upp- runalega flugi var næsti viðkomustaður sveitasetur Ceau- şescus í Snagov. Sigurður velur orðin „höll“ og „lysti- garður“ til að lýsa aðstæðum þar. „Þegar þangað var komið vorum við orðnir svo svangir að við stálum okkur eplum í garðinum,“ upplýsir hann sposkur. Sá glæpur hefði að líkindum verið illa séður í tíð Ceauşescus. Fluginu lauk á „akri í einskismannslandi“, eins og Sig- urður orðar það, þar sem áhöfnin skildi hjónin eftir. „Á þeim tímapunkti voru menn orðnir logandi hræddir um að verða refsað fyrir að hjálpa forsetanum að flýja og létu sig hverfa. Mér skilst að þeir hafi ekki látið sjá sig mán- uðum saman.“ Sigurður segir flugvirkjann, sem var þeim til ráðgjafar við gerð myndarinnar, búinn að jafna sig á þessu núna og spjalli fúslega um framvindu mála. Rætt er við hann í myndinni. Beðinn að bjarga líki úr Svarta hafinu Sigurður hefur lent í ýmsum öðrum ævintýrum á ferðum sínum í og yfir Rúmeníu. Í eitt skipti var hann á ferð yfir Svarta hafinu ásamt rúmenskum félaga sínum frá norsku olíuleitarskipi sem þeir höfðu nýlega lent á. Skipið hafði samband við þyrluna og bað þá um að taka með sér lík í land sem skipið hafði siglt fram á. „Ég bað skipstjórann að hafa samband við land fyrst, vildi síður lenda með látinn óþekktan mann þar án útskýringa. Samskiptin fóru fram á ensku og þar sem hinn rúmenski félagi minn er ekki sleipur í því tungumáli horfði hann bara út um gluggann meðan ég spjallaði við skipstjórann og skildi hvorki upp né niður. Þegar heim var komið var félaga mínum tjáð á rúmensku að leynilögreglan í Rúmeníu biði okkar, og honum varð mjög órótt. Ég sagði honum að slaka bara á, þetta væri líklega bara út af líkinu. „Hvaða líki?“ spurði hann furðulostinn. Ég hélt hann ætlaði að hoppa út úr vélinni,“ segir Sigurður hlæjandi. Það endaði með því að skipið tók hinn látna um borð. Sigurður vissi aldrei frek- ari deili á honum. Í annað skipti flaug Sigurður út fyrir tólf mílna lofthelgi Rúmeníu en til þess þarf tilskilið leyfi. Það fékkst en eitt- hvað hefur skolast til hjá flughernum því um leið og Sig- urður kom aftur inn í lofthelgina voru tvær MIG-21 orr- ustuþotur sendar á móti honum. „Flugherinn hefur greinilega haldið að boðflenna væri á ferð. Við vissum hins vegar ekki af þotunum fyrr en eftir á því þær fundu okkur ekki í skýjunum,“ segir hann kíminn. Sigurður hefur líka lent í spaugilegu atviki á jörðu niðri. Það gerðist þegar íslenskur félagi hans tók óvart ólöglega u-beygju í umferðinni. Lögreglan kom umsvifalaust á vettvang. „Þegar félagi minn skrúfaði niður rúðuna á bílnum tilkynnti lögregluþjónninn honum reiður á svip að hann þyrfti að leggja hald á ökuskírteini hans. Síðan hvarf hann á brott. Við horfðum undrandi hvor á annan. Hvað nú? Við biðum í reiðuleysi í dágóða stund. Þá kom lögregluþjónninn aftur með skírteinið og bros á vör. „No problem,“ sagði hann og kvaddi okkur án frekari útskýr- inga – dæmigert fyrir lögregluna þarna.“ Íslendingar fengu nasasjón af fjöldamótmælum á liðn- um vetri enda þótt þau færu ekki úr böndum með sama hætti og gerðist í Rúmeníu fyrir tveimur áratugum. Enn er ólga í landinu og gott fyrir bóndann á Bessastöðum að vita hvert hann á að snúa sér þurfi hann einhvern tíma að koma sér loftleiðis undan æstum múgnum. „Hann getur hringt í mig,“ segir Sigurður. „Ég kann þetta!“ Í skrúfufar Ceauşescus Frá tökum í Rúmeníu. Þarna hefur þyrlan lent á akrinum þar sem Ceauşescus var tekinn höndum. Á þriðjudag verða tuttugu ár frá því harð- stjórinn mikli Nicolae Ceauşescu fór í sitt hinsta flug með þyrlu frá Búkarest til Târgovişte. Af því tilefni lét rúmenska sjónvarpið endurtaka flugið fyrir heimildar- mynd. Flugstjórinn í þessu „hermiflugi“ var Íslendingurinn Sigurður Ásgeirsson. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Sigurður Ásgeirsson ásamt flugmanninum sem flaug með honum í hallargarðinum í Snagov. Sigurður og flugvirkinn sem var í þyrlunni með Ceauşescu í hinu upprunalega flóttaflugi Þyrla Ceauşescus hefur sig á loft 22. desember 1989. Ein frægasta fréttamynd síðustu aldar.

x

SunnudagsMogginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.