SunnudagsMogginn - 28.03.2010, Blaðsíða 50
50 28. mars 2010
Þ
að var sjokkerandi en stórkostlegur heiður um
leið að vera valinn flytjandi ársins,“ segir Dav-
íð Þór Jónsson píanóleikari. Þessi fjölhæfi tón-
listarmaður skaut á dögunum meðal annars
Sinfóníuhljómsveit Íslands aftur fyrir sig þegar hann var
valinn Tónlistarflytjandi ársins 2009, fyrir „fjölþreifni til
hljóðfæra, fjölhæfni í stíltegundum tónlistarinnar og
eiginleikann að virðast geta komið fram á mörgum stöð-
um í einu,“ eins og segir í umsögn dómnefndar.
Davíð Þór segir að vegna þess að hann fáist við svo
margt þá megi búast við því að einhverjir taki hann ekki
alvarlega sem flytjanda. „Ég er mjög glaðvær maður og
tek sjálfan mig ekki mjög alvarlega – en það sem ég geri í
tónlistinni geri ég samt af mikill alvöru.“
Ekki er ofsagt að Davíð Þór sé fjölþreifinn í listinni. Á
síðustu mánuðum hefur hann til að mynda birst í djass-
sveitum á borð við ADHD, í myndlistarverkinu The End
ásamt Ragnari Kjartanssyni, á orgeltónleikum, spinn-
andi út frá fúgum eftir Bach á sýningu í Listasafni Íslands
og sem meðleikari Ólafar Arnalds. Þessi fjölhæfi lista-
maður tekur á móti blaðamanni í fyrrverandi húsa-
kynnum Hæstaréttar; þar vinnur hann nú að hljóðmynd
leikverksins Af ástum manns og hrærivélar eftir Ilmi
Stefánsdóttur sem verður frumsýnt í Kassanum í Þjóð-
leikhúsinu hinn 20. maí í leikstjórn Vals Freys Ein-
arssonar. Í æfingasalnum er vissulega píanó en líka
banjó, gítar, ryksuga, steypuhrærivél og önnur raf-
magnstæki sem Davíð Þór notar í upptökum. „Við erum
búin að smíða nokkrar senur og vorum líka að byrja að
taka upp tónlist; hljóðmynd og tónlist leika yfirleitt
saman þegar ég vinn með Ilmi og Val,“ segir hann.
Davíð Þór er nýlentur á landinu, hann var í Texas þar
sem hann kom fram með Ólöfu Arnalds á tónleikum.
„Það er mjög gaman að vinna með Ólöfu og að vera ann-
ar upptökustjóranna á nýju plötunni hennar, ásamt
Kjartani Sveinssyni,“ segir hann. „Tónlistin hennar er
gríðarlega persónuleg og viðkvæm, oft mjög brothætt.“
Þegar Davíð Þór er spurður að því hvað tónlistarflytj-
andi ársins sé einkum að fást við, þá brosir hann breitt
og hellir sér út í að skilgreina þörfina sem býr að baki
þessu skapandi hraunflæði.
„Þetta er svo ofboðslega sterk þörf. Ég svala þörf
minni fyrir að búa til tónlist og skapa, með því að vinna
með öðru tónlistarfólki, með leikurum, myndlist-
arfólki … Ég er alltaf að æfa og læra nýja tónlist, oft með
offorsi, semja eða spinna, og stundum er ég hluti af org-
anískri heild annarra. Vissulega gæti ég ákveðið að leika
bara á flygil eða orgel, verið bara djasspíanisti; en mér
finnast þessar skilgreiningar ekki skipta mig máli. Ég
þarf að sinna mörgum litlum Davíðum sem búa innra
með mér. Þetta er margþætt starf. Þú spyrð hvað tón-
listarflytjandinn sé að gera – hann er að flytja tónlist!“
Stífar vinnubúðir með Bach og flygli
Davíð Þór segir tónlistarferilinn hafa hafist á Akranesi
þegar hann varð trommuleikari í lúðrasveit í tónlistar-
skólanum. Þegar vantaði saxófónleikara fór hann að
læra að blása í sax en níu ára gamall hóf hann píanónám.
Píanótímarnir urðu strax heilagur tími. „Ég fórnaði öllu
fyrir það. Það þótti til dæmis spennandi að fara til
Reykjavíkur með foreldrum sínum en ég vildi frekar fara
í píanótíma,“ segir hann. „Mér fannst ótrúlega gaman að
leika á hljóðfæri og byrjaði fljótlega að spila eftir eyranu.
Kennararnir sýndu því skilning og ég vann bæði með
skrifaða tónlist og spuna. Það hefur þannig alltaf fylgt
mér að geta gert hvort tveggja.
Þegar ég var þrettán ára ákvað ég að helga tónlistinni
líf mitt. Ég hef aldrei efast um þá ákvörðun. Ég fékk
ómetanlegan stuðning heima. Frændi minn hjálpaði
pabba að kaupa trommusett sem var barið alla daga, ég
spilaði á orgel heima, var í hljómsveitum í skólanum og
stjórnaði tónlistarflutningi á hæfileikakeppni og á söng-
leikjum í Fjölbrautaskólanum.“
Sautján ára gamall var Davíð Þór farinn að keyra suð-
ur á stórsveitaræfingar í Tónlistarskóla FÍH, þar sem
hann lék á saxófón. Eðvarð Lárusson gítarleikari hafði
kynnt hann fyrir djassinum. Hann lærði bæði á píanó og
saxófóninn á Akranesi, lauk mörgum stigum á bæði
hljóðfæri, og eftir stúdentspróf lá leið Davíðs Þórs í Tón-
listarskóla FÍH þar sem hann lauk 7. stigi á bæði hljóð-
færi sama veturinn. Árið eftir var hann kominn til
Þrándheims í Noregi sem skiptinemi. „Þá gerðist það!“
segir hann. „Ég gat einbeitt mér að tónlistinni í djass-
deildinni í allt að tíu tíma á dag en fyrstu fjóra mánuðina
svaf ég á hæðinni með klassísku píanóleikurunum og
náði þar í allar nótur sem ég komst í. Ég vissi hvar ég
þurfti að taka mig á og hafði næði til þess. Ég fór því í
stífar vinnubúðir, einn með flygli í litlu herbergi allan
daginn, og fór á útopnu í Bach og fleira. Ég hef þetta allt í
mér og reyni að vinna í því með hinu.“
Performans, blús, nikkan – allt jafn mikilvægt
Davíð Þór segir að á námsárunum hafi hann lært hvað
það sé mikilvægt að kynnast sífellt nýrri tónlist, að leika
fyrir annað fólk og einnig að þora að gera mistök.
„Maður þarf að henda sér út í djúpu laugina. Þú ræður
hvað þú spilar. Þótt þú hafir lært klassíska tónlist þá
máttu alveg spila Ain’t Misbehavin’ á Hótel Reykjavík.
Það bannar þér enginn neitt í tónlist, hverju þú blandar
saman eða hvernig þú spilar verkin. Vissulega er kostur
að hafa fyrir því að læra hlutina til fulls, áður en maður
fer að gera eitthvað með þá, en það er afstætt hvað hent-
ar hverjum og einum. Ég trúi bæði á mikla vinnu, elju og
handverk, en líka á að koma alveg ferskur að hljóðfær-
inu eftir hvíld frá því. Oft koma mikilvægir og fallegir
hlutir út frá „mistökum“.
Ég er einfaldlega þannig gerður að ég hef þörf fyrir að
fara á ólíka staði í listinni. Að fara í performans í mynd-
bandsverki, leika blús á tónleikum á Rósenberg, að leika
í Þjóðleikhúsinu í verki sem ég átti upphaflega bara að
gera tónlist við, eða spila á harmónikkuballi fyrir eldri
borgara. Mér finnst þetta allt jafn mikilvægt. Það er svo
fallegt við tónlist hvað hún er óræð, að hún á allsstaðar
heima, getur bæði verið falleg og grimm. Ég er ekki
hræddur við að festast neins staðar, en mig langar jafn-
mikið til að vinna með Ragnari Kjartanssyni, að hljóð-
setja abstrakt vídeóverk fyrir Ásdísi Sif Gunnarsdóttur,
skoða John Cage, spila Chopin, Bach, Schubert. Ég þarf
að semja mína eigin tónlist rétt eins og ég þarf að leika
með öðrum. Þetta er eitt langt ferðalag.“
Á dögunum hlaut Davíð Þór sex mánaða starfslaun úr
Launasjóði tónskálda. Hann er lukkulegur með það.
„Núna finnst mér í raun að ferillinn sé loksins að byrja,“
segir hann sannfærandi. „Ég er tilbúinn að gera nýja
plötu. Loksins. Ég gerði plötuna Rask árið 2002 og hef
síðan tekið þátt í mörgum verkefnum með öðrum, en nú
er kominn tími fyrir mig að halda áfram. Ég talaði um að
gera eina plötu – en ætli þær verði ekki bara fimm.“
Davíð Þór segist endalaust þakklátur fyrir að geta
starfað við tónlistina. „Ég er þannig verðlaunaður á
hverjum degi. Ég ákvað þrettán ára gamall að verða tón-
listarmaður; held ég geri þetta fram í rauðan dauðann og
eigi aldrei eftir að taka ellilífeyri.“
Tónlist
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Verðlaunaður á
hverjum degi
„Núna finnst mér í raun að ferillinn sé loksins að byrja,“ segir
Davíð Þór Jónsson píanóleikari. Það er merkileg staðhæfing ef mið
er tekið af því að á dögunum var hann valinn Tónlistarflytjandi
ársins. Davíð Þór er óvenjulega fjölhæfur listamaður, jafnvígur á
djass, dægurtónlist og þátttöku í myndlistarverkum.
’
Ég er alltaf að æfa og læra nýja
tónlist, oft með offorsi, semja
eða spinna, og stundum er ég
hluti af organískri heild annarra.
Vissulega gæti ég ákveðið að leika
bara á flygil eða orgel, verið bara
djasspíanisti; en mér finnast þessar
skilgreiningar ekki skipta mig máli.
Lesbók