Morgunblaðið - 12.02.2010, Qupperneq 29

Morgunblaðið - 12.02.2010, Qupperneq 29
Minningar 29 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. FEBRÚAR 2010 „Blessuð, mín kæra“ var Dóra vinkona vön að segja þegar ég hringdi í hana eða kom í heimsókn. Ég trúi því ekki að ég sé að skrifa síðustu kveðjuorðin til vinkonu minnar, við sem erum búnar að þekkjast í tæplega 35 ár og ættum að vera rétt hálfnaðar með lífið. Við Dóra erum búnar að bralla margt og mikið saman. Það fyrsta sem kemur upp í kollinn er ferð sem við fórum í 1985 til Costa del Sol. Mikið rosalega var nú gaman í þeirri ferð. Við fórum í ýmsar ferðir sem voru í boði, fórum meira að segja alla leið til Marokkó. Okkur leist nú ekkert á mannlífið þar, héldum fast hvor í aðra, ætluðum sko ekki að týnast. Eftir að börnin komu hjá okkur vinkonunum fórum við að skapa okkur ýmsar hefðir og þykir mér mjög vænt um hvað við höfum hald- ið fast í þær. Við hittumst og gerð- um aðventukransana saman, Dóra var nú alltaf snillingurinn þar, hún hafði svo gott auga fyrir hvað var fallegt og hvað passaði saman. Eins hjálpaði hún mér að gera slaufurnar á kransinn minn og nota ég þær á hverju ári. Síðan hittumst við á þrettándanum, eldum góðan mat saman, jólasveinninn kemur í heim- sókn, stríðir okkur aðeins og svo er dansað og sungin jólalög. Gunnar litli var nú ekkert allt of ánægður með næstsíðustu heimsókn jóla- sveinsins, en var sáttari núna. Eftir að Kristján og Dóra keyptu húsið í Brekkubyggðinni hafa þau hægt og rólega tekið það í gegn. Það er orðið svo fallegt og hlýlegt, svo notalegt að koma í heimsókn til þeirra og yfirleitt var Dóra með eitthvað nýbakað. Við Dóra höfum farið á nokkur föndurnámskeið sam- an og eru hlutirnir sem hún gerði hér og þar í húsinu, svo fallegir og smekklega gerðir. Elsku Dóra, þú varst traust og sönn vinkona og þín mun verða saknað um ókomna tíð. Það er ekki hægt að hugsa sér betri vinkonu en þig. Kær kveðja Þórdís Thorlacius (Tollý). Þeir sem mynda vináttu sem börn tengjast sterkum böndum og ræt- urnar liggja djúpt. Við gerðum okk- ur svo vel grein fyrir þessu þegar við fengum þá harmafregn að Dóra, æskuvinkona okkar, hefði látist í hörmulegu slysi á Langjökli. Við ólumst allar upp á sama reitn- um í Lundahverfinu í Garðabæ, þar sem við fluttum inn í hálfkláruð hús. Þetta var á þeim árum sem Garða- hreppur fékk kaupstaðarréttindi og breyttist í Garðabæ. Allar áttum við það sameiginlegt að foreldrar okkar höfðu verið að byggja. Móinn og hraunið var nærri og mikil sam- kennd myndaðist í hverfinu. Á æskuheimili Dóru ríkti stöðug- leiki og hlýja sem einnig var ein- kennandi fyrir hana sjálfa. Hún átti góða foreldra og óx upp við kær- leika. Dóra var traust vinkona og samkvæm sjálfri sér og gerði aldrei mannamun. Við vorum saman í bekk í Flataskóla og svo í Garða- skóla. Þar kom fljótt fram að hún gerði allt vel, var samviskusöm, vandvirk og flink í höndunum. Þrátt fyrir rólynt yfirbragð var samt stutt í brosið og húmorinn. Við minnumst þess þegar við vor- um unglingar hvað Dóra virtist vera laus við komplexa gelgjuskeiðsins. Hún fór sínar eigin leiðir og lærði til dæmis á orgel af miklum áhuga. Hún var ekki einn af þeim ungling- um sem fannst þeir alltaf vera að missa af einhverju heldur var hún jarðbundin og í jafnvægi. Þegar við horfum til baka koma margar minningar upp í hugann. Við munum eftir litla herberginu hennar við svefnálmuganginn í Fu- rulundinum. Það var svo fallegt og aldrei drasl. Skattholið hennar, mildur bleikur litur, mynd af Línu langsokk brosandi á veggnum. Leikirnir í götunni á sumrin. Ról- an bak við hús. Hundurinn Kolla. Allir úti að leika og í minningunni var alltaf sól. Þegar svona stórt skarð er höggv- ið í hópinn finnum við það vel að við eigum ekki líf okkar ein. Við lifum því á einhvern hátt öll saman. Okk- ur fannst eins og við ættum nægan tíma. Alltaf þegar við hittumst á förnum vegi var eins og enginn tími hefði liðið. Við tókum upp þráðinn þar sem frá var horfið. Viðkvæðið var þetta „Við verðum nú að fara að hittast.“ Svo leið tíminn. Nú gefast ekki fleiri tækifæri. Mann setur hljóðan og leiðir það hugann að því að við sem eftir lifum eigum að gæta þess að missa ekki sjónar hvert af öðru. Megi góður Guð styrkja og um- vefja fjölskyldu Dóru í þessari miklu sorg og blessa minningu hennar. Elín Elísabet, Ólöf Harpa og Guðfinna. Með þessum orðum langar okkur fjölskylduna í Eyjum til að kveðja hana Dóru. Hver hefði trúað því að þú yrðir tekin svona snögglega frá okkur, það er ekki sanngjarnt. Þú sem alltaf varst svo varkár í öllu og allir í kringum þig treystu á þig. Við kynntumst því árið 1981 þegar þú tókst að þér með mömmu þinni að passa Elías Inga í tvær vikur, hann var aðeins sex mánaða þá. Þegar við komum til baka vildi hann vera hjá ykkur áfram. Einnig þegar þú ein tókst að þér að passa Eyþór þegar hann var eins árs. Við vorum alveg róleg á Ítalíu í tvær vikur því þú varst svo mikil barnagæla og vand- virk í öllu sem þú tókst að þér. Við lánuðum þér húsið okkar þegar þú komst á þjóðhátíð með vinum þínum og við vorum ekki heima, höfðum engar áhyggjur. Við þökkum fyrir þann tíma sem við fengum með þér og geymum allar góðu minningarn- ar. Elsku Dóra alla kættir með yndislegri nærveru. Megi guð og góðar vættir gæta þín að eilífu. (B.E.) Elsku Kristján, Benni, Kristín Edda og Gunnar, sorg ykkar og missir er mikill og biðjum við Guð að styrkja ykkur á þeirri erfiðu leið sem framundan er. Sömuleiðis send- um við innilegar samúðarkveðjur til Þóreyjar, Benna, Sillu, Steindórs og barna. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (Vald. Briem) Björgvin, Ólöf Aðalheiður, Elías Ingi og Eyþór. Landið gefur og landið tekur. Ís- land, þetta harðbýla en yndislega fallega land, sameinar okkur ferða- félagana. Veturinn er langur og dimmur, en með ferðum um óbyggðir er hann styttri og skemmtilegri. Að hausti er veturinn skipulagður og svo er beðið með eft- irvæntingu eftir hverri ferð. Sum okkar höfum ferðast saman í um 20 ár, önnur skemur. Fyrstu árin sam- anstóð hópurinn af saumaklúbbnum úr Versló, en með árunum bættust nýir félagar í hópinn og aðrir duttu út. Dóra tók þátt í ferðunum eftir því sem tími og geta vannst til. Fastur punktur í öllum ferðum er svo grillun á íslensku lambalæri að hætti Kristjáns, og skiptir þá engu hvort það er gert á grilli eða beint ofan á jökli. Nútíma þægindi eru aukaatriði, við hverfum aftur í tím- ann, bræðum snjó ef vatn vantar, og njótum hinnar ægifögru náttúru landsins og góðs félagsskapar hvers annars; því maður er jú manns gam- an. Það gladdi Dóru mikið í sumar að rifja upp sögur ásamt nokkrum okk- ar, hlusta á lýsingar og fletta í göml- um myndaalbúmum. Þar voru m.a. myndir frá ferðum á Breiðbak, í Steingrímsfjörð, á Drangajökul, í Landmannalaugar og frá ferð norð- ur fyrir Hofsjökul. Þegar haustaði sagði Dóra okkur að nú færi hún að taka aukinn þátt í ferðum okkar, þetta væri svo gaman! Tilhlökkunin fyrir ferðina í janúar var mikil og gleðin skein af andliti hennar. Og aðeins örstuttri stundu fyrir hið hörmulega slys á Langjökli ræddi hún um það hversu ánægjulegt það yrði ef Skafti bróðir hans Kristjáns og hans fjölskylda myndu ferðast með okkur, börnin þeirra væru svo miklir félagar og ferðir okkar í góðra vina hópi svo skemmtilegar. Hverjum datt í hug að þetta yrði hennar síðasta ferð? Stórt skarð er höggvið í raðir okkar ferðafélaganna. Það er óskilj- anlegt að Dóra sem var svo hlý, já- kvæð, glaðvær og yndisleg í alla staði skuli vera horfin. Hún var ekki einungis góð heim að sækja, heldur færði hún okkur iðulega bakkelsi og góðgæti á ferðum okkar og var ávallt reiðubúin að aðstoða ef á þurfti að halda. Giftusamleg björg- un Gunnars, litla kraftaverkastráks- ins, er ljósið sem skín og verður til þess að lýsa okkur og fjölskyldu Dóru um ókomna tíð. Dóru er sárt saknað. Takk fyrir allt og allt. Okkur er orða vant þeg- ar við hugsum til Kristjáns, Benna, Kristínar Eddu, Gunnars, foreldra Dóru, systkina hennar og annarra aðstandenda. Hugur okkar og fyr- irbænir eru hjá ykkur. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðar- kveðjur og megi guð vera með ykk- ur og styrkja ykkur á þeirri erfiðu göngu sem þið nú hefjið. Kveðja, Guðmundur, Sólrún, Þor- steinn, Auður, Páll, Guðrún, Ágúst, Jóhanna, Hjörleifur, Árdís, Halldór, Heiða, Hlyn- ur, Kartín, Hermann, Guð- borg, Sigurbjörn, Helga, Bjarni, Sigvaldi, Ragnar og fjölskyldur. Við trúum því varla enn að hún Dóra sé dáin langt fyrir aldur fram í hræðilegu slysi. Gunnar, sonur hennar, bjargaðist þó næstum ómeiddur. Það er huggun harmi gegn en ekkert getur bætt upp þennan missi fyrir Kristján og fjöl- skyldur þeirra. Við kynntumst Dóru þegar Krist- ján, æskuvinur Eggerts, kynnti hana fyrir okkur fyrir rúmlega 20 árum. Fljótlega kom í ljós að Dóra og Gunna voru frænkur og báðar ættaðar úr Víðidal. Svo skemmti- lega vildi einnig til að á tímabili bjuggu þau í húsinu beint á móti okkur. Strax við fyrstu kynni var okkur ljóst að Dóra var alveg ein- stök manneskja með mikla útgeisl- un. Í minningunni er hún alltaf brosandi, alltaf jákvæð, notaleg, skemmtileg og góð móðir. Því miður hittumst við alltof sjaldan, eins og svo algengt er í dag. Við fylgdumst þó með hvernig börnin þeirra uxu úr grasi og um hver jól fengum við jólakort með mynd af krökkunum. Dóra getur sannarlega verið stolt af börnunum sínum. Takk fyrir stund- irnar sem við áttum með þér. Eggert Aðalsteinsson og Guðrún Elín Bjarnadóttir. Margir halda að það séu eingöngu stjórnendur sem haldi starfi sinna deilda gangandi. Í tilfelli þróunar- deildar Össurar hef ég þá trú að raunverulegt hjarta deildarinnar hafi slegið nálægt því þar sem Hall- dóra var. Össur er með starfsstöðv- ar víða um heim og Halldóra var í miklum tengslum við fólk í þeim öll- um. Halldóra sá um teikningar og vöruskilgreiningar hjá okkur og passaði upp á að öllu verklagi væri fylgt. Dæmigerður dagur hjá henni byrjaði á samskiptum við verkfræð- inga okkar í Sjanghæ og síðan færð- ust samskiptin eftir hnettinum eftir því sem dagaði á hverjum stað. Hún hafði frábært lag á því að fá alla með sér og ávann sér virðingu allra sem með henni unnu. Fólk fór eftir því sem hún sagði. Það er aðdáun- arvert því að trúlega er hægt að segja að við verkfræðingar hjá Öss- uri séum ekki þeir viðráðanlegustu. En Halldóra var blíður töffari og lét engan fara neitt með sig. Hana munaði ekkert um að skjótast til London til að fylgja eftir verkefni hjá Martin, dvelja í viku í Orange County til að innleiða og kenna á teikningakerfi þar eða fara niður til Ása í bakúsinu með DXF-skrár svo hann gætið forritað rennibekkinn. Allt þetta var gert áreynslu- og hljóðlaust. Það var líka mjög notalegt að tylla sér hjá Halldóru og spyrja hvort Cruserinn væri í lagi og hvernig Tinna, hundurinn hennar, hefði það. Þá kom blik í augun og samtalið varð alltaf skemmtilegt. Það þurfti heldur ekki að ganga lengi á eftir henni til að fá að prufa svarta BMW-jeppann hennar og hún hafði orð á því að ég tæki nú ekki mikið út úr honum. Ég varð það heppinn að kynnast Halldóru einnig utan vinnunnar og fjölskyldur okkar tengdust vel. Við ferðuðumst saman og alltaf var Halldóra brosandi og passaði upp á hópinn. Þessi heiðarlega kona smyglaði meira að segja bjúgum til Bandaríkjanna til þess að við fengj- um almennilegan mat í þessu landi fæðuskorts. Halldóra var búin að vinna með okkur í 15 ár og þróunardeild Öss- urar verður ekki söm. Vinnan verð- ur heldur ekki jafnskemmtileg. Sem betur fer höfum við stóran hóp af góðu fólki sem er staðráðið í að halda starfinu áfram og við munum leitast við að gera það í anda Hall- dóru. Kristján, Benedikt, Kristín Edda og Gunnar, þið hafið misst mikið en það gerir aðeins fólk sem hefur átt mikið. Við í þróunardeildinni vottum ykkur innilega samúð okkar. Guðni Ingimarsson, þróun- ardeild Össurar. Það var eins og tíminn næmi stað- ar laugardaginn 30. janúar sl. þegar fréttir bárust af fráfalli Halldóru Benediktsdóttur í sorglegu slysi á Langjökli. Í barnslegri einlægni er einungis beðið um eina ósk sem færa mundi okkur aftur hið góða líf. Þegar tíminn silast af stað aftur og sársaukafull staðreyndin seytlar inn í vitund okkar streyma minning- arnar fram. Halldóra kom til starfa hjá Össuri hf. árið 1996 inn í kraftmikinn, metnaðarfullan og oft óstýrilátan hóp sem sameinast hafði um að drífa fyrirtækið til stórræða. Hlut- verk Halldóru, en hún var menntað- ur tækniteiknari, var að koma skikki á teikningar og önnur gögn, þannig að mikilvægri þekkingu og reynslu yrði haldið til haga. Strax varð hlutverk hennar miklu meira og víðtækara, hún varð fyrirmynd að aga, varkárni og vandvirkni í vinnubrögðum og virðingu í sam- skiptum sem áttu eftir að hafa áhrif á alla starfsemi fyrirtækisins. Með henni urðu viðfangsefnin verðmæt- ari, hönnunin betri og hægt að tak- ast á við stærri og viðameiri verk- efni. Fimmtán ára starfsferill Halldóru hjá Össuri hf. er því sam- ofin velgengni fyrirtækisins og hún sjálf órjúfanlegur og mikilvægur hluti af framgangi þess. Allt þetta gerði hún af alúð, samviskusemi og dugnaði, en einnig af hógværð, lít- illæti og glaðværð sem einkenndi hana. Halldóra var há og myndarleg kona með fas og viðmót sem laðaði alltaf það besta fram í þeim sem með henni unnu. Engu máli skipti hver í hlut átti. Þannig er hennar minnst af öllum sem með henni unnu, hvort sem er í starfsstöðum okkar á Íslandi, Sjanghæ, Albion, Englandi eða Kaliforníu, en sjald- gæft er að starfsmenn geti sér ein- róma svo góðan orðstír. Samhliða störfum okkar hjá Össuri gekk stór hópur sömu vegferð í lífinu, barn- eignir, heimili, ferðalög, sigrar og sorgir og annað sem lífið býður upp á. Sá hópur sér nú eftir góðri vin- konu sem alltaf var boðin og búin til hjálpar og hafði einlægan áhuga á velferð allra í hópnum. Í þessum hópi köllum við Halldóru alltaf „Halldóru okkar“ og ástæðan er sú að við viljum samsama okkur við fyrirmyndina góðu sem kennir okk- ur að umgangast alla af hreinlyndi og virðingu og sinna því sem við tökum að okkur af alúð og vand- virkni. Síðast en ekki síst kenndi hún okkur að metnaðurinn á sér hógværa hlið sem gefur árangri okkar og sigrum betri tilgang. Þegar ég hnípinn lít yfir okkar góða tíma saman verður mér til huggunar giftusamleg björgun Gunnars litla. Einnig það að Hall- dóra lætur eftir sig til viðbótar tvö önnur mannvænleg börn, Benedikt og Kristínu Eddu sem bera Hall- dóru og Kristjáni göfugt vitni og munu án efa verða sínum samferða- mönnum sú mikilvæga fyrirmynd sem Halldóra er okkur hinum sem áttum hana að. Þá verður ósk Hafþórs litla, vinar Halldóru, kannski ekki svo óraun- veruleg, að minnsta kosti mun lífið batna ef hennar gildi og viðhorf eru oftar höfð í heiðri. Á erfiðri stundu sendum við Lóa okkar dýpstu og innilegustu sam- úðarkveðjur til fjölskyldu og vina Halldóru og minnumst góðrar konu af virðingu, hlýhug og þakklæti. Hilmar Janusson. Í dag kveðjum við Halldóru Bene- diktsdóttur sem starfað hafði hjá Össuri sl. 14 ár. Fráfall hennar í hörmulegi slysi á Langjökli er okk- ur þungur harmur og stórt skarð er skilið eftir á vinnustað okkar. Nær- vera Halldóru skapaði ávallt þægi- legt andrúmsloft og það sem ein- kenndi hana var blíðlyndi, vinsemd og yfirvegun. Þeir eiginleikar nýtt- ust afskaplega vel í starfi hennar, þar sem hún þurfti að glíma við upp- finningamenn sem höfðu nýjar vörur okkar í kollinum og hún sá um að koma hugmyndum þeirra í teikn- ingar og geymslu á skipulagðan hátt. Fljótlega varð Halldóra því ákveðinn klettur fyrir þróunardeild- ina, þar sem óreiðu frumkvöðlanna var komið fyrir í röð og reglu. Mikil virðing var borin fyrir störfum Hall- dóru og ávallt var samstarf hennar við alla þá sem þurftu til hennar að leita farsælt. Vöruþróun Össurar er eitt af okkar flaggskipum og á Hall- dóra gríðarstóran og dýrmætan þátt í þeirri velgengni sl. áratugi. Halldóru er sárt saknað og nánustu samstarfsmenn til margra ára eiga um sárt að binda. Ég vil fyrir hönd starfsmanna Össurar hf., þakka Halldóru fyrir samferðina og sendi Kristjáni eig- inmanni hennar, börnunum þremur og fjölskyldu okkar dýpstu samúð- arkveðjur. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf. Rútínan á laugardegi er rofin með hringingu frá samstarfskonu. Fólkið sem féll í sprunguna á Langjökli er Halldóra og Gunnar hans Kristjáns. Símar fara í gang. Allir bíða á milli vonar og ótta. Feginleikinn er mikill þegar heyrist að búið sé að ná báð- um upp. Sorgin þeim mun meiri þegar fréttist að Dóra sé látin. Guði sé lof að Gunnar litli sleppur ómeiddur úr þessari eldraun fyrir þrekvirki björgunarmanna. Þeim verður seint fullþakkað. Halldóra Benediktsdóttir hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi okkar hjá Landsvirkjun um tveggja ára- tuga skeið. Það er ekki aðeins að hún hafi starfað á teiknistofu fyr- irtækisins frá 1988 til 1990, heldur var hún eiginkona Kristjáns Gunn- arssonar, deildarstjóra fjármála- deildar. Þau kynntust einmitt hjá Landsvirkjun. Við eigum því góðar minningar um Dóru úr ótal ferðum og mannfögnuðum af öllu tagi. Átti hún fjölmarga vini í hópi starfs- manna og maka þeirra. Dóra stóð alltaf þétt við hlið Kristjáns, bæði í starfi og leik og fyrir það er þakkað. Dóra var hávaxin og glæsileg kona. Hún var glaðvær og afar hlý í samskiptum. Fólki leið vel í návist hennar. Það er því sárara en tárum taki að hún skuli í einu vetfangi hrif- in burt frá eiginmanni og þremur börnum. Elsku Kristján, Benni, Kristín Edda og Gunnar, hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Í huganum er mynd af Dóru með breitt en örlítið feimnislegt bros. Það er birta yfir þessari mynd. Þetta er myndin sem við munum geyma. F.h. starfsmanna á fjármálasviði Landsvirkjunar, Stefán Pétursson. SJÁ SÍÐU 30

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.