SunnudagsMogginn - 09.01.2011, Síða 47
9. janúar 2011 47
Órætt landslag málað á tvo veggi stofunnar ogsvo hangir þar skáldsaga, sem aðeins er til ítveimur eintökum, handskrifuð með smáuog fínu letri í stórum ramma.
Það er rithöfundurinn sjálfur sem býr til skreyting-
arnar í íbúð sinni við Bergþórugötuna.
Guðmundur Óskarsson fékk íslensku bókmennta-
verðlaunin í fyrra fyrir skáldsöguna Bankster, en lét vera
að senda frá sér bók með flóðinu fyrir jólin. Hann sendi
hinsvegar vinum og fjölskyldu orðhviður eða örsögur úr
bókinni Vaxandi nánd, innrammaðar og handskrifaðar.
„Ég sendi hverjum eina sögu og reyndi að finna sögu sem
átti við,“ segir hann.
„Maður gefur nú ekki það margar gjafir, ég held þær
hafi ekki verið nema tólf. Svo gaf ég Bjarna [Bjarnasyni
rithöfundi] og Katrínu [Júlíusdóttur ráðherra] slíka gjöf
þegar þau héldu upp á að hafa verið ár saman. Þau fengu
sögu þar sem eldri maður er með yngri konu, hann
vaknar og áttar sig á aldursmuninum, og hafði tekið eftir
tveim örum – það verður svona blóðsuguelement.“
Hann þagnar.
„Ég passaði að taka fram á kortinu að þetta væri vel
meint,“ bætir hann við og hlær.
Annars eru gjafainnkaupin í föstum skorðum.
„Ég fer yfirleitt í Guðstein fyrir afa og Sigurbogann
fyrir ömmurnar, frúarbúð á horni Laugavegar og Bar-
ónsstígs – þar fást sápur og pakkar í baðherbergið. Svo
spyr ég mömmu hvað hana vanti í stellið. Nema ég ákvað
að gera það ekki núna, eins og ég sagði þér, heldur gaf
fólki tímann. Það er það sem maður á minnst af. Og
þannig hefur allt árið verið – maður hefur bara verið að
splæsa tíma.“
Hann kemur færandi hendi með te í bollum og fjórar
stangir af Caramel-súkkulaði, sest í sófann sem stofan
hverfist um og bítur í hálsmjótt súkkulaðið.
– Hvert er hlutverk sófans?
„Það er mikilvægt,“ svarar Guðmundur hátíðlega.
„Þetta er lykilhúsgagn, hér situr maður og borðar. Ég bý
ekki heima hjá mér í þeirri merkingu, framan af býr
móðirin þar sem maður á heima og þegar ég flutti að
heiman leit ég því ekki á þetta sem heimili. Ég fékk mér
ekki eldhúsborð fyrr en í sumar, fimmta árið sem ég bý
hér; þetta er meira vinnustaður, ekkert sjónvarp og
ekkert sem truflar.“
– Þegar ég boðaði komu mína sagðist þú verða í
vinnunni til fimm.
„Já, í Landsbankanum,“ segir hann. „Ég hef reyndar
verið að velta fyrir mér rithöfundarstarfinu. Ég hef aldr-
ei áttað mig á því. Það er svo fjarlægt mér að hugsa um
það sem starf – það er fáránleg tilhugsun. Ég er sískrif-
andi og hef skrifað frá því ég man ekki hvenær, þó að
það hafi ekki alltaf verið markvisst, þá býr þetta innra
með manni – þetta er gróið við mann.“
– Líturðu þá á þig sem frístundahöfund, eins og Elías
Mar kallaði það?
„Ég geri þetta reyndar ekki í frístundum. Skrifin eru
mikilvægust af öllu. Þetta ár hef ég verið mikið með vin-
um mínum; ég ákvað að taka eitt rólegt ár og gefa tíma.
En þegar ég sinni hugmyndum er það af alvöru og þá
skrifa ég með endalok í huga, þá sker ég allt annað frá.
Það gerist ósjálfrátt, þannig að ég myndi aldrei, þótt ég
standi í brauðstriti frá átta til fimm, kalla
mig frístundahöfund.“
– Öfugt við það sem margir halda var
þér ekki sagt upp hjá bankanum, eins og
Markúsi í Bankster?
„Nei, það tók því ekki, ég var hvorki
nógu hátt settur né nógu hátt launaður,
það hefði ekki sparað mikið og ekki verið
neitt statement.“
– Komu bókmenntaverðlaunin flatt upp
á þig?
„Njah,“ svarar Guðmundur beggja
blands. „Jú, þau gerðu það nú, en ef maður undrast þeg-
ar eitthvað gott kemur fyrir mann, hvernig á maður þá
að bregðast við því slæma. Ég reyni frekar að vera opinn
fyrir þessu góða. Það getur komið manni úr jafnvægi, en
það er ekki það versta. Ég held það megi læra af sigrum,
en ég held það sé erfiðara en af ósigrum. Frændi minn
talaði um það þegar hann slátraði mér í skák í gamla
daga, að maður lærði ekkert á því að vinna – betra væri
að tapa vel og lengi. Svo kom bara heimaskítsmát!“
– Er eitthvað á teikniborðinu?
„Þrátt fyrir að ég hafi verið afslappaður síðasta árið, þá
hef ég skoðað ýmsar hugmyndir og nú er ég búinn að
söðla dýrið. Ég ætla að reyna að koma út bók í ár, þó að
það sé ekkert mjög líklegt.“
– Er það bókin sem þú ætlaðir að skrifa þegar Bankster
knúði dyra?
„Nei, hún verður aldrei skrifuð held ég, tíminn leið og
maður breytist. Eins og með þessa hérna...“
Hann bendir á innrömmuðu skáldsöguna á veggnum.
„Hún kemur aldrei út – maður les hana stundum sér
til skemmtunar, málsgrein og málsgrein.“
– Hvaða saga er þetta?
„Þetta er sveitasaga sem gerist í þorpi úti á landi og var
æfing í því að loka hringnum – ná að ljúka við eina sögu
sem manni finnst vera heild. Ég skrifaði hana árið 2003
og það var lærdómsríkur tími. Hún nefnist Andspænis,
ekki spyrja mig af hverju.“
– Kom hún fyrir í Vaxandi nánd?
„Jú, það eru glefsur úr henni þar. Ég sneri upp á þrjár
fjórar senur – nokkurskonar best of eða það sem ég gat
sætt mig við.“
– Talarðu um óskrifuð verk?
„Ég hef enga hjátrú í þeim efnum.“
– Hvað ertu að skrifa fyrir næsta ár?
„Ég er að skrifa feðgasögu um son ís-
lensks listmálara, sem er ekki raunveru-
legur, en á örugglega fyrirmynd, jafnvel
fyrirmyndir. En þessi listmálari sló í gegn
eftir andlátið og ég er að skoða hvaða
möguleika sonur hans og alnafni á í lífinu.
Strákurinn vinnur bara við að sinna arf-
leifð föður síns, þannig fær karlinn eig-
inlega tvö líf, eða kannski 1,9 og strákurinn 0,1. Sagan
gerist á tveimur tímum, en bara á einum stað og það líða
sextíu ár á milli. Þau fara til borgar í Frakklandi um vorið
og eru þar í einhvern tíma, svo kemur strákurinn aftur
þangað. Það er grunnurinn, en það er tæplega ramminn.
Ég veit bara ekki nógu mikið um hana sjálfur ennþá.“
– Þú hefur ekki teiknað söguna upp?
„Nei, það er meira að segja óljóst hvernig hún endar.
En það eru möguleikar...“
Texti Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Síðasta orðið…
Guðmundur Óskarsson
’
Ég held
það megi
læra af
sigrum, en ég held
það sé erfiðara en
af ósigrum.
Tíminn er það sem maður á minnst af