SunnudagsMogginn - 22.05.2011, Blaðsíða 47
22. maí 2011 47
Þ
að er ekki erfitt að finna húsið sem rithöf-
undurinn og skáldið Einar Már Guðmunds-
son býr í, jafnvel þó að um Völundarhús sé
að fara. Hann stendur nefnilega fyrir utan
heimili sitt í Miðhúsum í Grafarvogi.
Og leiðin liggur beint í bílskúrinn, sem raunar var
aldrei bílskúr. „Við keyptum húsið fokhelt, það var
þegar fólk hafði enn sjálfsbjargarviðleitni,“ segir
hann.
„Þá urðum við að steypa plötu fyrir bílskúrinn
sem teiknaður hafði verið inn á lóðina – einhverra
hluta vegna var annað ólöglegt. Svo þegar ég fékk
bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, sem var bæði
ánægja og heiður, þá byggði ég vinnustofu fyrir
verðlaunaféð. En fyrstu fimm árin skrifaði ég inni á
heimilinu, þar sem eldhúsið er núna.“
Það vaxa bækur í stöflum á borðum, hillum og á
gólfinu, landslagið Manhattan bókamannsins, og
gluggatjöldin gul eins og sólin. Einar Már stendur á
gólfinu með gleraugun í hendinni, ákveðinn í fasi og
skýrmæltur, þó að hann skeyti ekki alltaf um að
klára setningarnar – að minnsta kosti ekki fyrr en
hann er tilbúinn með nýjar.
„Ég vann alltaf heima og þá var gott að vera til
staðar fyrir öll börnin,“ segir hann. „Ég lærði að
þetta með að mega ekki trufla skáldið er mikill mis-
skilningur. Ég segi frekar eins og skáldið, þegar
gesturinn spurði hvort hann væri að trufla: „Já,
þakka þér fyrir það.““
Einar Már er sestur og hallar sér aftur í stólnum,
enn með gleraugun í hendinni og sleppir þeim ekki,
þó að hann þurfi ekki að brúka þau næsta kastið.
„Við þekkjum hugmyndina um skáldið sem þarf
þögnina. Það var aldrei inni í myndinni hjá mér.
Börn, tónlist og smáhávaði hefur aldrei truflað mig.
Þegar ég var í Menntaskólanum við Tjörnina, þá var
ég hinsvegar talsvert á Landsbókasafninu og kynntist
mörgum skemmtilegum mönnum. Ef Breiðhyltingar
fóru niður í bæ, þá voru þeir bara í bænum. Ég var
líka aðeins á söfnum þegar við bjuggum úti, en þegar
við komum heim aftur, þá vorum við í ansi litlu hús-
næði miðað við barnafjölda, þannig að ég fékk mér
um tíma vinnustofu á Grettisgötunni. Kannski er
pósturinn svangur er tileinkuð þessum tíma. Þetta
að vera heima og vera að heiman, hvort tveggja hef-
ur sína kosti, en hér er ég heima og að heiman,
þannig að mér tókst greinilega að fá botn í málið!“
– Truflar næðið þig ekkert?
„Næðið?“ spyr hann undrandi. „Nei, nei.“
Hann grettir sig.
„Þegar ég lít til baka, þá held ég að ég
hafi frá upphafi ákveðið að ég myndi
aldrei kenna aðstæðunum um ófarir
mínar.“
Svo hlær hann.
„Ég yrði sjálfur að skapa mér mínar
aðstæður og aðstöðu. Þetta er það sem
ég vil starfa við og maður er ekkert að
velta einverunni fyrir sér. Ef starfinu
fylgja ókostir eða óhamingja, þá verður
bara svo að vera. Ég hef eiginlega ekki
annað markmið en að skrifa og er þakk-
látur fyrir að hafa næði til þess. Þó að
ég sé sjálfur félagsvera og njóti mín
ágætlega með öðru fólki, þá er ég líka
einfari. Mamma sagði að ég hefði frá
upphafi verið sjálfum mér nógur. Og það að geta
unnið lengi einn og einbeitt sér hefur aldrei þvælst
fyrir mér. Maður lærir hinsvegar að laga sig að starf-
inu. Í fyrra voru liðin 30 ár síðan ég gaf fyrst út og
Thor [Vilhjálmsson] átti 60 ára rithöfundarafmæli!“
Hann rótar hressilega í hárinu á sér, sem er jafn-
úfið eftir sem áður.
„Þó að mér finnist þessi tími hafa liðið óskaplega
hratt, þá hef ég gengið í gegnum byltingu í tölvu-
tækni. Ég handskrifaði þegar ég byrjaði, notaði
Pluto-blýant, Parker-penna, línustrikuð blöð og hvít
blöð. Núna furðar maður sig á þolinmæðinni. Það var
ekkert tiltökumál, ef það voru ein eða tvær villur, að
skrifa síðuna bara aftur. Ég var sérvitur um hvernig
handritið leit út, átti nokkrar týpur af skriftum – þú
sérð leifarnar af þessum tíma í þessum blaðabunkum.“
Hann bendir á nokkrar af þeim plöntum sem
blómstra í glugganum.
„En talandi um hvað maður lærir,“ segir hann,
stendur upp og gengur um gólf. „Stundum barðist
maður alltof lengi við sömu hugmyndina, gafst aldrei
upp og að lokum var það kannski orðin þráhyggja. En
nú veit ég að ef ég stoppa í einhverju, þá legg ég það
bara frá mér og geri eitthvað annað. En
ég hugsa að enginn höfundur hafi ná-
kvæmlega sömu vinnubrögðin. Það er
nokkuð sem menn móta og þróa með
sjálfum sér.“
– Þú sendir frá þér bók á þriðjudag-
inn kemur, sem nefnist Bankastræti
núll. Um hvað fjallar hún?
„Ef maður getur sagt um hvað bók
fjallar þá á maður ekki að skrifa hana,“
svarar Einar Már. „Að einhverju leyti
speglar Bankastræti núll óreiðu okkar
tíma. Þetta er hvorki skáldsaga, smá-
sögur né greinar og heldur ekki ljóð.
Samt finnast, að ég held, þættir úr öll-
um þessum formum í bókinni. Ég kalla
þetta sögur úr veruleikanum. Líklega er ég að meina að
veruleikinn sé sagnaform, að ekki þurfi að skálda upp
sögur við núverandi aðstæður. Maður segir bara frá
veruleikanum og úr því verður skáldskapur. Hann er
það lygilegur, meina ég. Veruleikinn. Mér finnast þetta
áhugaverð landamæri, og ég sem skáld er líka að blanda
mér í veruleikann með öðrum hætti. Sagnalistin er
ekkert verndað svæði, skilurðu? Þess vegna beiti ég því
sem ég kann í ritlist til að kafa í veruleikann, samtím-
ann og samfélagið. Nú eru bara þannig tímar.“
Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Síðasta orðið …
Einar Már Guðmundsson
Veruleikinn er lygilegur
’
Ef maður
getur sagt
um hvað bók
fjallar þá á maður
ekki að skrifa
hana. Að einhverju
leyti speglar
Bankastræti núll
óreiðu okkar tíma.