SunnudagsMogginn - 02.10.2011, Blaðsíða 42

SunnudagsMogginn - 02.10.2011, Blaðsíða 42
42 2. október 2011 O rð og hugtök komast í tísku, verða allsráðandi um skeið, svo varla þykja menn með mönnum nema þeir úði þeim í kringum sig. Smám saman fyllist sá góði mælir og fólk hættir að nota þessi orð nema í laumi eða í þröngum hópi og að síðustu skilur enginn hvernig nokkrum manni datt í hug að orða aðra eins vitleysu – og þá er farið að tala um „börn síns tíma“. Við erum öll börn okkar tíma og getum þess vegna skrifað flest okkar heimskupör á þetta foreldri okkar sem hvorki á sér lögheimili né varnarþing. Við getum þakkað fyrir ef við fáum að lifa nógu lengi til að verða vitur eftirá – sumir ná því aldrei. Orðið læsi er nýtilegt og fallegt orð og hefur lengi verið haft um það þegar börn læra að lesa stafi á bók – og sú list að skrifa hefur lengi verið ómissandi hluti þess að verða læs. Öldum og þúsöldum saman, allt frá dögum Egifta og Súmera, var það eitt meginhlutverk allrar skólagöngu og menntunar að gera fólk fært um að ráða í þær dulrúnir sem notaðar eru til að varð- veita reynslu og þekkingu kynslóðanna lengur en sem nemur stopulu minni mannskepnunnar. Ef við vissum ekki annað en það sem við höfum heyrt eða frétt hjá okkar nánustu ættingjum og vinum værum við sennilega næsta fáfróð og þættum ekki fær um að taka þátt í margumtöluðu lýðræðissam- félagi. Það að vera læs eða fulllæs er ein- hvers konar viðurkenning á því að mann- eskja sé með fullu viti og fær um margt, næstum eins og að segja að hún sé með stúdentspróf. Á síðari árum hafa áhugamenn um litróf mannlegrar þekkingar tekið þetta góða orð, læsi, í þjónustu sína til að vekja at- hygli á að fleira sé matur en feitt kjet. Fyrst var orðið notað eins og líking í yf- irfærðri merkingu, að vera „læs á náttúr- una“ er að skilja „mál“ náttúrunnar. Hið fræga upphaf Grasaferðarinnar, „Systir góð! sérðu það sem ég sé?“, er gott dæmi um það hvernig drengurinn Jónas les í lit- brigði fjallshlíðarinnar hvar muni gott að leita grasa. Sá sem skilur myndmál eða byggingu málverks er myndlæs og sá sem skilur það sem stendur í fjölmiðlum og lætur þá ekki blekkja sig er fjömiðlalæs. En svo einn góðan veðurdag er líkingin orðin að fag- máli og þá byrjar misnotkun orðsins. Sér- fræðingar á hverju sviði eru skyndilega farnir að nota læsi sem viðurkennt hugtak og þá flæðir læsið um allt það sem fólk þarf að skilja og geta til að komast af í þessu lífi. Listinn er langur. Orðið ,toilet-literacy‘ hefur verið þýtt með ‚koppalæsi‘ og margir hafa komið auga á spaugilegar hliðar málsins: Þeir benda á að kynlæsi merki að skilja „hitt kynið“, vita hvenær nei merkir nei eða já, og hvað ein höf- uðhreyfing eða mjaðmarhnykkur getur þýtt við ólíkar aðstæður. Eitt nýjasta orðið í læsisflóðinu er sjálf- bærnilæsi (e. sustainability literacy). Merking þess er nokkuð flókin en vísar í grófum dráttum til þess að þekkja og skilja það gangverk náttúrunnar sem gerir okk- ur fært að lifa hér á jörðinni án þess að ganga á auðlindir hennar. Í daglegu lífi birtist slíkt læsi meðal annars í því að kunna að flokka heimilisúrganginn og skilja hvað um hann verður. Þekktir not- endur hugtaksins, Stibbe og Luna, nota ensku orðin skills, attributes og disposi- tions, sem allt eru góð orð, en kjósa samt að gera læsislíkinguna að fagorði, eða lyk- ilhugtaki umræðunnar. Hér væri miklu nær að tala um skilning, leikni, færni eða jafnvel greind. Þessi misnotkun á orðinu læsi er ekki uppfinning Íslendinga, heldur alheims- nauðgun á hugtakinu literacy með þeim afleiðingum að þetta fyrrum mikilvæga og gagnlega orð er nú orðið merkingarlaus tískudræsa og hugtakið ónýtt nema í þeirri fjölmiðlaumræðu tímans þar sem meiru skiptir að nota þau orð sem efst eru á baugi heldur en vita fyrir víst hvað mað- ur á við. Um leið og orð fer að merkja allt, verður það merkingarlaust – merkir ekk- ert. Orðið frelsi er líka fallegt og nýtilegt orð, og mikilvægt í mannlegu samfélagi. En fá orð hafa þurft að þola jafn hroðalega misnotkun – og það á heimsvísu. Lifið heil! Nýt og ónýt orð ’ Orð og hugtök komast í tísku, verða allsráðandi um skeið, svo varla þykja menn með mönnum nema þeir úði þeim í kringum sig. Dæmi eru um að menn noti orðið sjálfbærnilæsi um það að kunna að flokka heimilisúrgang- inn, þegar nærtækara væri að nota önnur almennari orð. Morgunblaðið/RAX Tungutak Baldur Sigurðsson balsi@hi.is Þ að fer ekkert á milli mála að náttúran streymir fram úr fingrum Hrafnhildar Ingu Sig- urðardóttur. Og það er engin stilla í málverkum hennar – þvert á móti tekur náttúran á sig ýmsar myndir og margt býr undir. Þennan dag er hún á heimili sínu við Smáraflöt í Garðabæ, vinnustofan handan götunnar og enn lengra í vinnustofuna á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð. – Ertu náttúrubarn? „Ég er náttúrlega fædd og uppalin í Fljótshlíðinni og var alltaf úti í haga með skepnunum, heilu og hálfu dagana að leita að kúnum. Það hljómar ótrúlega í dag hversu ung við vorum, mér finnst ég muna að ég hafi aðeins verið sex eða sjö ára. Við sóttum kýrnar í mjaltir tvisvar á dag upp í haga fyrir ofan bæina, sem var ógirtur með miklum heiðum og þetta gat verið tveggja tíma ganga. Kannski fórum við fyrst með eldri systkinum, en frá sjö eða átta ára aldri fórum við ein.“ – Kýrnar eru þrjóskar skepnur. „Mér finnast kýr og kálfar lang- skemmtilegustu skepnurnar. Það er bara ekki hægt að vera með þær hér,“ segir hún og lítur í kringum sig – víst myndi það setja svip á heimilislífið. „Kýrnar eru svo miklir persónuleikar. Ég man eftir því að ég sat á traktor í heyskapnum og bjó oft til leikrit, þar sem kýrnar voru í aðal- hlutverkum. Og ég talaði fyrir þær. Þá safnaði ég leikaramyndum, þekkti allar leikkonur sem voru í tísku og persónu- gerði kýrnar í þeim. Ein var Marilyn Monroe, önnur Gina Lollobrigida og sú þriðja Sophia Loren.“ – Þær hafa verið á vappi um Fljótshlíð- ina? „Þessar stórleikkonur, já.“ – Svo fluttir þú á mölina og hefur búið þar frá tvítugu. En þú áttir eftir að hreiðra aftur um þig í Fljótshlíðinni. „Já, við höfum verið með annan fótinn fyrir austan síðan árið 2000.“ – Fögur er hlíðin! „Já, það er örugglega út af því,“ svarar Hrafnhildur og samsinnir sveitunga sín- um, Gunnari heitnum á Hlíðarenda. „Við byggðum á jörðinni hans pabba, Vestur- Sámsstöðum, þar sem bróðir minn býr núna. Við höfðum ákveðið að byggja sumarhús, sem varð reyndar heilsárshús, og leituðum víða, þar á meðal við Þing- vallavatn. Við vorum búin að finna stað, en okkur grunaði að þar yrði ófært yfir vetrartímann og það kom á daginn. Þá fórum við að skoða víðar og einhvern veginn hríslaðist Sámsstaðabakki inn sem langbesti staðurinn. – Þar er sagan samofin náttúrunni. „ Mér finnst stundum sem við Fljóts- hlíðingar lítum svo á að Gunnar hafi verið uppi í gær. Í Fljótshlíðinni er talað um söguhetjur Njálu eins og bóndann á næsta bæ. Maður verður margoft var við það. Enda eru bæjarnöfnin og örnefnin þau sömu, Hlíðarendi, Þríhyrningur, Flosa- dalur. Það nær auðvitað líka til Vestur- Sámsstaða og okkar húss, Sáms- staðabakka, hvort tveggja er nefnt eftir hundi Gunnars.“ – Og Dorritar! „Já, alveg rétt, hann heitir Sámur líka. Þau eru oft gestir í Smáratúni í Fljótshlíð- inni, þar sem er hótel og fjölbreytt gisti- aðstaða.“ – Rætur skálda liggja líka í Fljótshlíð- inni og þau sóttu efnivið í náttúruna. „Já, til dæmis Þorsteinn Erlingsson og Bjarni Thorarensen. En þar voru einnig listamenn úr öðrum greinum, eins og Nína Sæmundsson. Hún bjó í Nikulás- arkoti, næsta bæ við Hlíðarenda, sem er eyðibýli. Þar er minningarreitur með höggmynd hennar Móðurást. Eins er höggmynd eftir hana af Þorsteini Erlings- syni í Þorsteinslundi inn við Hlíð- Eins og áin renni í gegnum höfuðið á mér Þriðja einkasýning Hrafnhildar Ingu Sigurð- ardóttur á þessu ári stendur nú yfir í Gallerí Fold. Hún sækir innblástur í náttúruna, þó að myndirnar séu óræðar, enda er hefð fyrir því í Fljótshlíðinni að nota náttúruna sem efnivið í listina. Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is Ljósmynd: Ragnar Axelsson rax@mbl.is Lesbók

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.