Morgunblaðið - 31.07.2010, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 31.07.2010, Blaðsíða 23
björgu, börnum og fóstursyni inni- legar samúðarkveðjur. Fyrir hönd sálfræðideildar Háskóla Íslands, Daníel Þór Ólason, deildarforseti. Gaudeamus igitur iuvenes dum su- mus – Kætumst meðan kostur er knárra sveina flokkur … Þessi gamli skólasöngur kemur fram í huga er við kveðjum gamlan bekkjarbróður, Jakob Smára, hinstu kveðju. Í þriðja sinn á einum áratug sjáum við á eftir kærum bekkjarbróður yfir móðuna miklu. Margs er að minnast úr skóla frá árum æskufjörs og áhyggjuleysis, vináttu og tryggðabanda. Jakob hafði sérstöðu í hópnum sakir gáfna og námfýsi. Hæfileikum hans og ástundun var viðbrugðið enda mað- urinn séní í orðsins fyllstu merkingu. Jakob var prúður og hæverskur, hélt sér til hlés í glaumi og galsa skóla- áranna en stundaði námið af því meira kappi. Það var ekki laust við að við hinir værum upp með okkur af því að hafa þvílíkan mann í okkar röðum enda kom á daginn, er við út- skrifuðumst, að Jakob varð dux scolae, efstur á stúdentsprófi vorið 1970. Margir framúrskarandi náms- menn voru í árganginum og því áhöld um hver myndi dúxa. Við knúðum því dyra á kennarastofunni að loknu síð- asta prófi til að grennslast fyrir um gengi Kobba og fengum að vita að okkar maður yrði efstur í meðalein- kunn. Heiðri 6. B var borgið. Að stúdentsprófi loknu sigldi Jak- ob til frekara náms og dvaldi erlendis um árabil. Hann var því fjarri góðu gamni á endurfundum okkar bekkj- arbræðra fyrst um sinn, en kom ætíð til fundar við okkur hin síðari ár og naut sýnilega samvista við sína gömlu félaga á góðri stund. Á nýliðnu vori fögnuðum við 40 ára stúdents- afmæli. Sæti Jakobs var autt. Hann kom þeim skilaboðum til okkar að vegna veikinda sæi hann sér ekki fært að koma til endurfunda. Við höfðum orð á því í hópnum að von- andi amaði ekkert alvarlegt að hon- um, en annað kom á daginn. Sólbjart- an júlídag kvaddi Jakob þetta líf langt um aldur fram, harmdauði öll- um sem hann þekktu. Krjúptu að fót- um friðarboðans og fljúgðu á vængj- um morgunroðans meira að starfa guðs um geim. Helsta námsgrein í máladeild var latína. Þar var Jakob heima í fræð- um. Meðal texta, sem við gengum til prófs í, voru óður rómverska skálds- ins Hórasar. Við kveðjum kæran bekkjarbróð- ur og vin með lokaerindi Non usitata í þýðingu Hannesar Hafstein: Burt með sorg og syrging, söngvar skulu öngvir eða kveinstafskvæði kumli tómu óma. Ei skal heldur halda hátíð að mínu láti. Þurfa ei þvílíkt erfi þeir sem eigi deyja. F.h. bekkjarbræðra 6. B, MR 1970, Einar Kristjánsson. Jakob Smári, kennarinn minn, er skyndilega fallinn frá. Það er sárara en orðum taki fyrir mig að horfast í augu við þessa staðreynd því hann hefur verið svo mikilvægur og já- kvæður þáttur í tilveru minni und- anfarin ár. Ég byrjaði að gera rann- sóknir undir hans leiðsögn fyrir sjö árum og samstarfið hefur haldið áfram allar götur síðan. Þegar ég lít yfir þessi ár fyllist ég innilegu þakklæti fyrir að hafa verið svo heppinn að fá að vinna svona mikið með þessum gáfaða og örláta manni. Hann var afar vinsæll kenn- ari og vel liðinn meðal nemenda, enda háttvís, nærgætinn og orðvar í samskiptum en alltaf óspar að hrósa og hvetja. Það var hans stíll. Jakob var gríðarlega duglegur og afkastamikill og hafði jafnan ótal járn í eldinum. En það var merkilegt að það var aldrei neinn asi eða stress í kringum hann. Hann virtist alltaf hafa tíma fyrir nemendur, jafnvel til að ræða heima og geima, kenningar, tilgátur eða fræðilegar vangaveltur. Hann hafði reyndar sérstakt lag á því að leiða samtalið að almennara eða dýpra samhengi hlutanna en eyða ekki of miklu púðri í hversdag- legri atriði. Í ótal skipti kom ég inn á skrifstofuna hans og fékk mér sæti innan um allt draslið, mitt á milli blaða- og bókabunkanna, og hafði á vörunum brýnt úrlausnarefni sem ég taldi mig þurfa aðstoð með. Oftar en ekki fór ég frá honum einni, tveimur eða jafnvel þremur klukkustundum síðar, og þá hafði gleymst að útkljá erindið vegna þess að við höfðum gleymt okkur í dýpri og skemmti- legri pælingum. Ég mun búa að þessum fundum alla ævi. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnst þessum góða manni og fyrir allt það sem hann hefur kennt mér. Ívar Snorrason. Jakob Smári kom eins og víga- hnöttur inn í samfélag okkar landa sem vorum við nám og störf í borg- inni Aix-en-Provence í Suður-Frakk- landi í byrjun áttunda áratugar ný- liðinnar aldar. Útskrifaður dúx frá MR hugðist hann leggja stund á sál- arfræði við háskólann þar syðra. En fyrst þurfti að búa í haginn fyrir eig- inkonu og barnungan son sem voru væntanleg að fundinni íbúð. Varð nú heldur upplok í samfélagi náms- manna þar syðra þegar þessi hár- prúði sláni sem jafnan hafði hratt á hæli sást ýta á undan sér barna- vagni. Franskir námsmenn eru ekki þekktir fyrir að kippa sér upp við smámuni en hættu óneitanlega að tyggja þegar þrenningin: Jakob og Malín með glókoll á handlegg gengu í sal mötuneytis háskólans þar sem stórt hundrað sat að snæðingi og annað eins stóð í biðröð fyrir utan, hleypt inn í hollum. Góður samgangur tókst á milli okkar hjóna og án efa að samneytið við Örlyg litla Smára flýtti þeim ásetningi okkar Hrafnhildar að gera ámóta tilraun á eigin spýtur. Það var reynsla að sjá Jakob að störfum. Vistarveran var heldur skorin við nögl en þegar þau hjón festu kaup á lítilli bíldós hreiðraði Jakob um sig í henni og gerði að skrifstofu og bókasafni. Mátti iðu- lega sjá hann sitjandi í aftursætinu með sína löngu fætur uppi á mæla- borðinu en augun fest við bókina sem hann var að kryfja til mergjar það og það sinnið. Hann las af viðlíka ein- beitni og þegar ekið er eftir bugð- óttum vegi með kröppum beygjum – en prófum lauk hann öllum með láði. Vík varð á milli vina þegar þau hjón leystu landfestar og héldu áfram för til Svíþjóðar til framhalds- náms þar. Eftir það hittumst við ekki nema fyrir hendingu, eins og geng- ur, „hver í sínu eigin lífi …“ Kynni sem takast, þau takast og halda áfram hvernig sem veröld veltur. Nýr starfsvettvangur, ný börn, nýr maki – en áfram heldur ævinlega frumglæði einhvers sem var í upp- hafi. Fáar vikur eru síðan tilviljun leiddi okkur Jakob saman í verslun hér í bæ. Þá voru liðin þrisvar sinn- um þrettán ár síðan fundum okkar bar saman fyrst suður í Aix. Og samt man ég enn andblæ þeirrar kvöld- stundar, man meira að segja hvaða plata var á fóninum þegar hann gekk í stofu: John Wesley Harding með Bob Dylan. Ef eitthvað einkenndi Jakob á þessu skeiði þá var það ir- reverensía eða óþolinmæði gagnvart átoríteti. Og sjálfur varð hann ekki sakaður um að ætla að lifa á fornri frægð, því almennir háskólar í Frakklandi eru mulningsvélar sem vita ekki einusinni hvað dúx er. Og nú er þessi eftirminnilegi drengur allur. Aðrir munu fjalla um fræði- manninn og fræðarann, en afköst hans voru með ólíkindum við greina- skrif í erlend fagtímarit um sérsvið sitt: klíníska sálarfræði. Við Hrafnhildur vottum eiginkonu hans, börnum og ástvinum okkar dýpstu samúð. En að endingu langar mig að tilfæra lokalínur sonnettu eft- ir afa hans og nafna (Kvöld): „Handan við æstan endanleikans straum eilífðin brosir – sem við ljúfan draum.“ Pétur Gunnarsson. Jakob Smári tilheyrði annarri kynslóð hinnar ungu stéttar sál- fræðinga á Íslandi. Undanfarinn áratug hafa orðið róttæk umskipti í lífi hennar eftir að Háskóli Íslands bauð upp á kandídatsnám í sálfræði og útskrifaði fyrsta árganginn 2001. Nú er svo komið að enginn skóli hef- ur fullmenntað jafnmarga íslenska sálfræðinga. Af þessum ástæðum eru sálfræðingar óðum að verða myndug heilbrigðisstétt. Í Háskól- anum hefur Jakob Smári verið lífið og sálin í þessu sköpunarverki. Hér eiga allir sálfræðingar honum ómet- anlegt starf að þakka. Störf Jakobs Smára í sálfræði- deild Háskóla Íslands einkenndust umfram allt af því að hvetja þá stúd- enta sem vildu sameina áhuga sinn á rannsóknum og klínískum störfum – byggja á vísindunum til að bæta mannlífið. Hann leiðbeindi stúdent- um í rannsóknum bæði í grunn- og framhaldsnámi. Fyrir mörgum nemum réð það úrslitum að hafa hann sem leiðbeinanda þegar kom að lokaritgerðinni. Þær eru ófáar greinarnar sem birst hafa eftir stúd- enta Jakobs þar sem nemendur eru aðalhöfundar og hann sjálfur rekur lestina. Allir í samfélagi vísinda og fræða gera sér ljóst hvað það skiptir ungt háskólafólk miklu að fá birtar greinar í vísindaritum. Það eflir alla dáð og opnar leiðir. Fyrir þetta stöndum við sálfræðingar allir í mik- illi þakkarskuld við Jakob Smára. Þegar íslenskir sálfræðingar þurftu að tilnefna einhvern til að sitja í vísindanefnd fjölþjóðlegra þinga, ritnefndum tímarita eða taka að sér önnur verk þar sem menn þurfa að vera fræðilega kunnugir þá hefur nafn Jakobs Smára iðulega komið til álita og hann oft orðið fyrir valinu. Það var til að mynda aldrei neinn efi um hvaða Íslendingur ætti að sitja í vísindanefnd 11. Evrópska sálfræðiþingsins í Osló vorið 2009. Þegar Jakob Smári er allur höfum við sálfræðingar misst einn okkar verðugasta fulltrúa heima og heim- an. Jakob Smári naut alþjóðlegrar virðingar. Vegna starfa minna hef ég síðasta áratuginn hitt og heim- sótt marga leiðandi sálfræðinga á sviði klínískra rannsókn og meðferð- ar. Mér kom þægilega á óvart hvað margir þekktu þennan hógværa góðkunningja minn og kollega. Hann var mikils metinn vegna þess að mönnum þótti merkilegt hverju hann kom í verk við þröngan kost á Íslandi þar sem hann hafði framan af aðeins nemendur í grunnnámi í sálfræði. Stúdentar hans voru að senda frá sér greinar á við þær sem doktorsnemar skrifuðu annars stað- ar. Í rauninni átti ekki svona maður að þrífast í 300 þúsund manna sam- félagi. Íslendingar hafa misst mann sem bar hróður þeirra hljóðlega út um lönd. Með láti Jakobs Smára er góður drengur fallinn í valinn og fórnfús öðlingur í hópi kollega sinna. Hann bjó nýgræðingum jafnan frjóan jarðveg. Vísast var það köllun hans í starfi. Fyrir hönd allra sálfræðinga votta ég fjölskyldu Jakobs dýpstu samúð okkar allra. Hans er sárt saknað. Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands.  Fleiri minningargreinar um Jakob Smára bíða birtingar og munu birt- ast í blaðinu næstu daga. Í dag kveðjum við afa okkar, Jón Salóm- on Jónsson. Við systkinin eigum margar ómetanlegar og yndislegar minningar tengdar honum afa. Við minnumst þess hversu gaman það var að koma vestur til Flateyrar til afa Jóns og ömmu Þrúðu. Á heimili þeirra ríkti jafnan glaðværð og hlýja. Spenn- andi var að bíða þess á bryggjunni að afi kæmi í land á Traustanum og sjá aflann hjá honum. Smíðakomp- an hans á Öldugötunni var líka ótrúlega spennandi fyrir okkur krakkana að kíkja í. Eftir að amma og afi fluttu suður gátum við átt fleiri samverustundir með þeim og alltaf var jafn gott að koma til þeirra. Þegar afi var kominn einn á Hrafnistu í Hafnarfirði var gaman að sjá hversu duglegur hann var og iðinn, hann prjónaði og saumaði út og höfum við fengið að njóta fal- legra verka hans. Notalegt var að vita til þess að hann fylgdist með hverjum og einum í stóra afkom- endahópnum sínum og var stoltur af þeim og umhugað um velferð þeirra. Með glaðværð sinni, jákvæðni og eljusemi var afi Jón fyrirmynd sem við erum þakklát fyrir að hafa átt. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sig.) Elsku afi, við vitum að amma og mamma ásamt öðrum gengnum ást- vinum hafa tekið vel á móti þér. Hafðu hjartans þökk fyrir allt. Valdís, Þórhallur, Guðmundur og Ásrún. Í dag ert þú kominn á leiðarenda, elsku afi minn. Þú hefur fengið þína langþráðu hvíld. Ég hef orðið þeirra gæfu aðnjótandi að kynnast þér vel og verð ég ævinlega þakklát fyrir það. Við vorum góðir félagar þú og ég. Það er margs að minnast þegar maður sest niður og hugsar til allra stundanna sem við áttum saman. Efst í huga mínum eru þó minningar sem eru mér mjög kær- ar, það eru bíltúrarnir sem við fór- um í út á Granda og á Bauganesið þar sem þið amma áttuð ykkar síð- Jón Guðmundur Salómon Jónsson ✝ Jón GuðmundurSalómon Jónsson var fæddur á Súg- andafirði 24. febrúar 1913. Hann lést 19. júlí 2010. Jón Salómon var jarðsunginn frá Foss- vogskirkju miðviku- daginn 28. júlí 2010. asta heimili áður en þið fóruð á dvalar- heimili. Það var margt rætt í þessum ferðum okkar sem voru alltaf jafn skemmtilegar. Einnig er sumar- fríðið sem við tókum saman árið 2005 mér kært. Þú 92 ára og varst ekki að víla fyr- ir þér að fara til Sví- þjóðar að heimsækja mömmu, pabba, Gunnu og Didda sem voru í sumarhúsum sínum þar. Þetta var ógleymanleg ferð og enn og aftur kom fram hjá þér hversu sterkur maður þú varst. Ótal fleiri minningar koma upp sem ég mun varðveita í hjarta mínu um góðar stundir með góðum afa. Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá þér, elsku afi minn. Þú þurftir að sjá á eftir eiginkonu og fjórum börnum en alltaf stóðst þú uppréttur. Daginn sem þú kvaddir vorum við bara tvö saman í her- bergi þínu, þú opnaðir augun, horfðir á mig og tókst þinn síðasta andardrátt og sá ég í augum þínum að þú varst sáttur að fara. Ég er þakklát fyrir að hafa verið með þér á þeirri stundu, þetta verður mín dýrmætasta minning um þig, elsku afi minn. Hvíldu í friði, elsku afi. Þín Jóna. Elskulegur langafi minn er nú látinn. Yndislegur, kraftmikill, barngóður, skemmtilegur, jákvæður og alger dugnaðarforkur, það eru bara örfá orð sem lýstu honum afa Jóni. Elsku afi, þakka þér allar góðu stundirnar, fallegu handunnu gjaf- irnar, öll símtölin, og umhyggju- semi þína fyrir okkur. Minningin um þig mun fylgja okkur um ókomna tíð. Umhyggju og ástúð þína okkur veittir hverja stund. Ætíð gastu öðrum gefið yl frá þinni hlýju lund. Gáfur prýddu fagurt hjarta, gleðin bjó í hreinni sál. Í orði og verki að vera sannur var þitt dýpsta hjartans mál. (Ingibjörg Sig.) Þetta var afi minn hann afi gaf mér kossa á kinn þó að líkaminn fer þá um kjurt sálin er og ég kveð þig nú afi minn kær. (Karl Pálsson) Elsku afi minn, ég bið þig að knúsa hana ömmu Gunnu frá okkur og megi Guð og englarnir vaka yfir ykkur. Þín langafastelpa Rósa Kristín og fjölskylda. Minningar 23 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. JÚLÍ 2010 Legsteinar ehf, Gjótuhrauni 3 Hafnarfirði, Sími: 822 4774 legsteinar@gmail.com

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.