Morgunblaðið - 17.09.2011, Blaðsíða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. SEPTEMBER 2011
KVIKMYNDIR
Börkur Gunnarsson
borkur@mbl.is
Bandaríski leikstjórinn og leik-
arinn Crispin Glover er kominn til
landsins á vegum Faxaflóa ehf. Glo-
ver mun verða viðstaddur sýningu
á tveimur mynda sinna í Bíó Para-
dís, þar sem hann mun jafnframt
svara spurningum gesta og flytja
eigið lifandi leikverk sem byggist á
bókum sem hann hefur gefið út og
hann nefnir Crispin Hellion Glo-
ver’s Big Slide Show.
Myndum Glovers er ekki dreift í
kvikmyndahús samkvæmt reglu-
bundnu dreifingarkerfi og eru ekki
gefnar út á DVD eða neinu hlið-
stæðu formi. Þær eru eingöngu
sýndar í kvikmyndasölum að við-
stöddum höfundinum sem ferðast
sjálfur með filmurnar. Að lokinni
sýningu býður leikstjórinn því allt-
af upp á spurningar úr sal og áritar
bækur sínar.
Glover öðlaðist ungur að árum
þann költstatus sem hann býr enn
yfir meðal kvikmyndaáhugamanna
þegar hann fór með hlutverk McFly
í fyrstu Back to the Future-
myndinni. Glover neitaði þó að taka
þátt í framhaldsmyndinni. Þegar
myndbrot af honum voru samt not-
uð í framhaldsmyndinni fór hann í
mál við framleiðandann, Steven
Spielberg, og vann það.
Glover fór með hlutverk Andy
Warhols í The Doors, mynd Olivers
Stones, lék Cousin Dell í Wild at He-
art og lék einnig minni hlutverk í
What’s Eating Gilbert Grape, Even
Cowgirls get the Blues og The
People vs. Larry Flint. Á síðustu ár-
um hefur hann síðan átt minnisverð
hlutverk í myndum líkt og Charlie’s
Angels og Alice in Wonderland.
Glover hefur nýtt þær tekjur sem
hann hefur fengið við að leika í
stórum Hollywood-myndum til að
fjármagna sínar eigin, óháðu kvik-
myndir. Sú fyrsta, What is it?, kom
út árið 2005 og er nánast eingöngu
skipuð leikurum með Downs-
heilkenni. It is Fine. Everything is
Fine! kom síðan út árið 2007.
Óhefðbundin aðferð
Aðspurður hvað hafi orðið til
þess að hann fór svona óhefð-
bundna leið til að kynna myndirnar
sínar segir hann aðalforsenduna
vera þá að hann hafi þurft að fá
eitthvað af peningunum sem hann
setti í myndina aftur. „Fæstir Art-
house-kvikmyndagerðarmenn fá
eitthvað af peningunum sem þeir
leggja í verk sín aftur,“ segir Cri-
spin Glover. „En mér hefur tekist
það með því að túra svona með
myndirnar og selja líka bækur mín-
ar í leiðinni.
Ég lít á myndir mínar sem ein-
hverskonar viðbragð við stefnu
stórfyrirtækjanna í kvikmyndum.
Hvernig allt sem getur valdið
áhorfendum óþægindum er tekið
úr sögunum. Þetta skaðar menn-
ingu okkar. Því það er einmitt þetta
augnablik sem er dýrmætt, þegar
áhorfandinn fer að hugsa á meðan
hann horfir: Er þetta rétt sem er
verið að segja í myndinni, er þetta
rangt? Þegar hann spyr sig, hvað
þetta sé, þá er komið mikilvægt
augnablik. Enda er það titill mynd-
arinnar; What is it? Hvað er tabú í
menningu okkar? Og hvað þýðir
það fyrir menningu okkar að ekki
sé snert á tabúum? Það er mín
skoðun að það geri okkur vitlaus-
ari.
Steven C. Stewart er aðalleik-
arinn í mynd númer tvö sem nefnist
It is fine! Everything is fine. Hann
fæddist með heilaskemmdir og var
lokaður inni á stofnun í tíu ár. Fólk-
ið sem annaðist hann sagði hann
þroskaheftan. Það er ekki fallegt
að segja það við nokkurn mann og
alls ekki við mann einsog Steve sem
var ekki þroskaheftur. Hann skrif-
aði handrit að mynd sem ég las þeg-
ar árið 1987 og vissi að ég yrði að
framleiða. Ég fékk mikinn pening
fyrir leik minn í myndinni Charlie’s
Angels og setti hann allan í þessa
mynd. Við náðum að klára tökur en
Stewart lést mánuði eftir að þeim
lauk. Ég er mjög ánægður með báð-
ar myndirnar og þá sérstaklega
með It is fine! Everything is fine!
sem er líklega besta verk sem ég
hef komið að eða mun nokkurn tím-
ann koma að á ævi minni.“
Mynd sem spyr spurninga
Aðspurður hvort hann fari hefð-
bundnar leiðir við gerð mynda
sinna eða hvort vinnuferlið sé jafn
óvenjulegt og kynning myndanna
og efniviðurinn segir hann vinnu-
ferlið sjálft ekki vera ósvipað því
sem aðrir leikstjórar fylgja. „Mér
líkar best við myndir sem spyrja
spurninga, þannig myndir vil ég
gera. Ég vil taka það fram að ég er
ekki á móti öllu sem stóru kvik-
myndafyrirtækin eru að gera og
kannski munu hagsmunir okkar
einhverntímann fara saman. Og
það má benda á að menn eins og
Stanley Kubrick náðu að gera ein-
hverjar merkilegustu myndir kvik-
myndasögunnar innan þess kerfis.
Myndir sem voru allt í senn úthugs-
aðar, fallegar og fengu fólk til að
hugsa. En í augnablikinu er eins og
samtíminn vilji ekki slíkar myndir
en það gæti breyst.“
Spurður um næstu verkefni hans
segist hann vera að vinna að nýrri
mynd í Tékklandi. „Ég á húseign
þar og mun líklega taka upp næstu
mynd mína þar. Ég er að skrifa
handrit sem bæði ég og faðir minn
munum leika í. Það verður í fyrsta
skipti sem ég skrifa rullu fyrir sjálf-
an mig.“
Aðspurður hvort hann hafi ekki
óttast að missa möguleika á starfi í
framtíðinni við það að fara í mál við
Steven Spielberg segir hann að svo
hafi ekki verið. „Sá sem stóð á bak
við þessa glæpamennsku var ekki
Spielberg heldur Bob Gale. Þeir
fengu annan leikara en gerðu hann
eins líkan mér og hægt var. Þeir
notuðust síðan við myndbrot úr
gömlu myndinni til að blekkja
áhorfendur og reyndu að láta þá
halda að ég væri líka í þessari
mynd. Þetta er mikil misnotkun og
ég held að þetta verði ekki endur-
tekið. Þessi Bob Gale dreifði mörg-
um ósönnum sögum um mig og
vann gegn mér. En hann er eig-
inlega sá eini og hefur ekki gengið
vel að fóta sig í bransanum eftir
þetta. Ég hef aftur á móti unnið
með mörgum þeirra aftur og ekki
átt í vandræðum með það,“ segir
Glover.
Hann bætir því við að hann
hlakki mikið til að koma til lands-
ins.
Hægt er að fylgjast með ferðum
Glovers á vefsíðu hans, crispin-
glover.com. Hann ferðast um allan
heim með myndir sínar.
Bíómyndir Glovers, What is it? og
It is fine. Everything is Fine!, voru
sýndar í Bíó Paradís í gær og verða
sýndar þar aftur í kvöld.
Leikarinn Úr kvikmyndinni Willard sem Glover fór með aðalhlutverk í.
Uppreisnarmaðurinn
Glover sýnir myndir sínar í Bíó Paradís í kvöld Hann snertir á tabúum samfélagsins í myndum
sínum Fór í mál við Steven Spielberg og vann Mætir sjálfur á allar kvikmyndasýningar sínar
Leikstjóri Úr What is it?, kvikmynd sem Glover leikstýrði.
McFly Glover í Back to the Future með Michael J. Fox.