Birtingur - 01.06.1963, Blaðsíða 18

Birtingur - 01.06.1963, Blaðsíða 18
THOR VILHJÁLMSSON: UM THOMAS WOLFE Thomas Wolfe fæddist aldamótaárið 1900 í litl- um bæ í Norður-Karólínufylki í Bandaríkjun- um, og var 26 ára gamall þegar hann byrjaði að skrifa skáldsöguna Engill, horfðu heim á heitum júlídegi í Englandi 1926. Hann hamað- ist við að skrifa einsog óður væri næstu tvö árin, ruddi úr sér óstanzlegum flaumi af orðum, dag eftir dag, nótt eftir nótt, — einsog myndir heims- ins myndu æra hann rásandi í trylltum dansi um taugar hans ef hann ólmaðist ekki við að fanga myndirnar og friða hugann með því að binda það sem hann náði í form skáldskaparins. Haust- ið eftir að hann byrjaði að skrifa bókina þóttist hann eygja væntanlega þróun verksins, taldi sig eiga nokkra mánuði eftir; en bókin óx og óx þvf hann þurfti að segja frá öllu sem hann hafði séð og kynnzt, fólki og hlutum og sprengdi rammann margsinnis á næstu tveim árum, þá var bókin orðin þrisvar sinnum lengri en forleggjar- ar töldu hæfilega skáldsögulengd. I marz 1928 lauk hann bókinni. Útgefendur voru tregir, höfnuðu bókinni hver eftir annan. Hún er svo löng, svo voðalega löng, sögðu sumir. Kannski var þeim vorkunn. Tho- mas Wolfe kunni ekki að takmarka sig. Hann var ölvaður af orðunum, skrifaði og skrifaði, þandi sig endalaust einsog hann vildi umkringja allt lífið með orðum sínum. Hann var ákaflega mistækur, stundum horfum við eftir orðafléttum hans þyrlað með stórfenglegum tilburðum einsog slöngvisnöru úr hendi kúrekans á þeysireið um húsagljúfur stórborgarinnar en missa í ákafanum af því fyrirbæri lífsins sem átti að fanga; öðrurn sinnum verður atvikið sem hann lýsir og persón- urnar varanlegir förunautar okkar. En þessum manni var svo óskaplega mikið niðri fyrir; hann var að keppa við tímann og ætlaði að spanna allan heiminn, faðma allt lífið og mæla það við dauðann. Eftir sár vonbrigði þegar handrit Wolfes hafði hrakizt milli tómlátra útgefenda rak það á fjörur Antony Perkins sem var helzti ráðunautur út- gáfufyrirtækisins Scribner’s. Perkins hreifst af hinum óstýrilátu og ólmu hæfileikum þessa unga höfundar. Wolfe hefur lýst fyrsta fundi þeirra: það lá við að hann táraðist, loksins hafði ein- hverjum litizt svo vel á þetta forsmáða verk að erfiða og sveitast yfir því að sníða óskapnaðinn til. Þetta hafi verið í fyrsta sinn að nokkur hafi, svo hann muni, gefið honum til vitundar að það sem hann skrifaði væri meira en túskildingsvirði. Þeir sömdu um að Wolfe stytti bókina en hvern- ig sem hann reyndi að strika út fór alltaf þannig að hann bætti við. Loks sá Perkins fram á það að hann yrði sjálfur að taka til hendi og hjálpa Wolfe að stytta ef bókin ætti nokkurn tíma að koma út. Þeir sátu öll kvöld yfir handritinu og breyttu samkvæmt tillögum Perkins, ristu heilu kaflana út úr verkinu og stundum þótti Wolfe einsog verið væri að skera úr hans eigin holdi. En ekkert glataðist, 'kaflarnir sem voru felldir niður birtust aftur í nýrri mynd eða óbreyttir í síðari bókum Wolfes. Bókin kom út í október 1929. 16 BIRTINGUR

x

Birtingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Birtingur
https://timarit.is/publication/823

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.