Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1985, Page 10
8
Ari Páll, Friðrik, Margrét og Sigrún
aðgreiningaráherslu í orðunum Siggi og brúnan í eftirfarandi setning-
um: „SIGGI á hvítan gœðing (en ekki Stebbi), Siggi á BRÚNAN gœð-
ing (en ekki rauðan)“ (1983:55). Hreinn Benediktsson (1963:147 —
148) kallar þetta fyrirbæri „morphological stress“ og nefnir m.a. sem
dæmi „í húsinu 'in the house (not outside it)’“ (1963:147). Jörgen Pind
(1982) kallar þetta „emphatic stress“ (1982:50 og 54—55) og gefur
m.a. dæmið „Hann horfir 'aldrei á sjónvarp“ (1982:54). Höskuldur
Þráinsson (1983), sem gert hefur sérstaka rannsókn á þessari tegund
áherslu, kallar hana „contrastive stress" (sjá 2.2). Kristján Ámason
(1983) notar sem fyrr segir orðið „aðgreiningaráhersla". Við munum
hér nota orðið andstæðuáhersla (það er hugsað sem bein þýðing á
„contrastive stress“) eða einfaldlega áhersla (enda sé ljóst af sam-
hengi að átt sé við andstæðuáherslu).
Andstæðuáhersla af þeirri tegund sem hér er rætt um felst sem sagt í
því að lögð er sérstök áhersla á eitthvert eitt orð setningar, einkum að
því er virðist í þeim tilgangi að sýna mikilvægi þess umfram eitthvert
annað orð. Það leiðir af reglum um orðáherslu í íslensku að allur þungi
andstæðuáherslunnar fellur á fyrsta atkvæði þess orðs sem andstæðu-
áherslan er lögð á. Raunar er stundum hægt að leggja andstæðuáherslu
á smærri einingar en heil orð en í þeim tilvikum er andstæðuáherslan
skiþanlega ekki tegund af setningaráherslu þar sem heil orð eru smæsta
eining, heldur tegund orðáherslu. Andstæðuáherslan kemur þá fram
sem sérstök áhersla á eitthvert atkvæði orðsins annað en hið fyrsta.
Hreinn Benediktsson nefnir m.a. sem dæmi um það: „Ég sagði: á
hes'tinum, ekki: á hes'tunum“ (1963:148). Jörgen Pind er með líkt
dæmi: „Skrifaðu hest'unum ekki hest'onum“ (1982:54). Höskuldur
Þráinsson hefur þetta dæmi um slíka andstæðuáherslu: „talINN (m.)
['tha:l'in:] talIN (f.) ['tha:l‘i:n]“ (1983:385). Þessir fræðimenn benda á
það að þegar andstæðuáherslan lendir þannig á öðrum atkvæðum en
hinu fyrsta taki þau að hlíta lengdarreglum íslensku á sama hátt og
fyrstu atkvæði orða gera að jafnaði (sbr. dæmið frá Höskuldi hér á
undan). En það er andstæðuáhersla sem tegund af setningaráherslu,
þ.e. andstæðuáhersla sem lögð er á eitthvert sérstakt orð innan setn-
ingar (eða nánar tiltekið á fyrsta atkvæði þess), sem er viðfangsefni
þeirrar rannsóknar sem sagt er frá hér á eftir.