Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1985, Page 12
10
Ari Páll, Friðrik, Margrét og Sigrún
(hljóðkerfislega) stuttum og löngum sérhljóðum. Sé hins vegar litið á
meðaltalstölur Magnúsar fyrir þau tvö orð sem koma fyrir í öllum
setningunum, Anna og kemur, kemur í ljós að langa sérhljóðið ([e:])
lengist eitthvað meira en það stutta ([a]) við andstæðuáherslu.
Það kemur fram í útdrætti aftan við grein Magnúsar að stundum
lengist orðið, sem ber andstæðuáherslu, í heild sinni og er þá væntan-
lega átt við að aðrir hlutar orðsins en áherslusérhljóðið (t.d. samhljóðið
í áhersluatkvæðinu?) lengist líka. í útdrættinum segir: „The emphasis
is realised phonetically by greater duration of the accented vowel and
by higher fundamental frequency. Sometimes the duration of the
whole word increases“ (Magnús Pétursson 1978:37).
2.2 Rannsókn Höskuldar Þráinssonar
Höskuldur Þráinsson (1983) leitar svara við spurningunni: Hvernig
kemur andstæðuáhersla í setningum fram?
Hann bendir fyrst á að Magnús Pétursson (1978) nefnir ekki að sam-
hljóð geti lengst við andstæðuáherslu, heldur aðeins sérhljóð (sbr. 2.1).
Höskuldur telur að svo hljóti þó að vera; ef aðeins sérhljóð lengist við
andstæðuáherslu í atkvæðum af gerðinni VC:, hljóti að vera hætta á
ruglingi við gerðina V:C. Orð eins og Anna (með áherslu), þar sem
áherslusérhljóðið eitt lengdist, gæti þá ruglast saman við ana, o.s.frv.
Höskuldur gerir því þess vegna skóna að í áherslu haldist rétt hlutföll
milli áherslusérhljóðs og eftirfarandi samhljóðs í báðum atkvæðagerð-
um, þannig að í VC: lengist samhljóðið meira en sérhljóðið, en í V:C
lengist sérhljóðið meira en samhljóðið. Hann gerir þannig ráð fyrir því
að „stutta" hljóðið í hvorri gerð (þ.e. V í VC: og C í V:C) lengist einn-
ig að einhveiju marki, en þó alls ekki svo mikið að hlutföllin raskist á
kostnað „langa“ hljóðsins. Höskuldur bætir því við að raunar megi
frekar búast við því að „stutta“ hljóðið lengist minna en svarar til
lengingar „langa“ hljóðsins, og þannig aukist munurinn á lengd hljóð-
anna, því „... it has been maintained that duration differences must
become greater with increased segment length in order to be perceived
(see, e.g., Lehiste 1970:6 ff.)“ (Höskuldur Þráinsson 1983:387).
Höskuldur væntir þess því að rannsókn hans leiði í ljós að bæði
sérhljóð og samhljóð geti lengst við andstæðuáherslu, en ekki aðeins
sérhljóðin, eins og ráða má af grein Magnúsar Péturssonar (1978).
Hann væntir þess einnig að andstæðuáhersla komi fram í breyting-