Vera


Vera - 01.10.1998, Blaðsíða 41

Vera - 01.10.1998, Blaðsíða 41
Andrea Jónsdóttir skrifar um tónlist Þessi mynd af Janis Joplin kom út á póstkorti á sínum tíma. Janis Joplin fæddist 19. janúar 1943 í olíuhreinsunarbænum Port Arthur í Texas, sem er í hinu svokallaða biblíubelti Bandaríkja Norður-Ameríku, en það þýðir að flestir íbúar mega ekki vamm sitt vita í nokkrum sköpuðum hlut, og ekki hafa þeir síður áhyggjur af annarra manna vammi. Janis var elst þriggja systkina, pabbinn verkfræðingur við olíuhreinsunarstöðina og mamman húsmóðir fyrst og fremst en fékkst líka viö barnakennslu. Pau lögðu mikla áherslu á menntun barna sinna og frá blautu barnsbeini voru þau alin upp við að familían fór á þókasafnið vikulega og svo var rætt við eldhúsborðið um bækurnar, lífið og tilveruna. Þau hjón voru sem sagt hlynnt frjálsri hugsun og lögöu áherslu á að all- ir fengju aö tjá sig og standa fyrir sínum skoöunum. Janis var líflegur krakki og gekk mjög vel í skóla, þar sem listrænir hæfileikar hennar komu fyrst í Ijós í myndmennt. En svo komu unglingsárin þegar stelpur eiga að fara að haga sér og líta út eins og konur. Ég held að sú krafa sé eindregn- ari í Bandaríkjunum en víðast hvar í hinum vestræna heimi, einkum þarna í hinu „kristilega" og siöavanda suðri, og á unglingsárum Janisar var allt jafnvel strangara en nú. Þessi siðavendni þeirra dúkkar alltaf upp öðru hverju þegar þurfa þykir gegn hinum ýmsu Clintonum. Nlema hvað; hin frjálslynda Janis vogaði sér að ganga í buxum, meira að segja í skólanum. Hún féll ekki undir þaö sem kallað var kvenlegt í Texas á sjötta áratugnum, né heldur þeim sjöunda. Og eins og margir sem ekki gútera gamaldags, ó- útskýranlegar venjur og siði gekk Janis lengra í „andfélagslegri" hegðun sinni eftir því sem hún varð fyrir meira aðkasti. Heldur lagaðist lífið þegar hún fór í menntaskóla í nágrannabænum Beaumont árið 1960, en það var fyrst þegar hún fór í Texasháskóla í Austin, 1962, að hún kynntist fólki sem hún átti samleið með. Bestu vinir hennar urðu gáfuöu strákarnir í bókmennta- og leiklistarklíkunni og þar á meðal leyndust bítnikkaskáld og músikantar með þjóðlaga- og blúsdellu. Janis fór að syngja með þeim, strax eins og stjarna, en hún hafði reyndar verið byrjuð dálítið á því í Beaumont. Hún spilaði á „auto“- hörpu og söng ýmist einsöng eða raddaði með félögum sínum sem spiluðu á gítar, banjó og bassa og þau tróðu upp á skemmtunum á vegum skólans en líka á bör- um og kaffihúsum í Austin. Þrátt fyrir ótæpilegt skemmtanalíf með menn- ingarklíkunni tókst Janis að Ijúka áfanga á listabraut en ákvað að leggja skólanám á hilluna og flytja til San Francisco að áeggjan vinar síns, bítnikkaskáldsins Chets Helms. Hann hafði að hætti bítnikka eins og Ker- ouachs að ferðast á puttanum um þver og endilöng Bandaríkin og vissi allt um þjóðlaga- og blúsbyltinguna sem fór eins og eldur í sinu um kaffihús og bari landsins. í þessu sambandi má geta að fyrsta Dylan-platan kom út síðla árs 1962. Janis var ekki viss um að hún ætti erindi út í hinn stóra heim sem söng- kona, ætlaði enda að leggja fyrir sig myndlist, en Chet sagði: Það þykjast allir vera að leita í tónlistarlegar rætur en flestir eru sléttir og felldir, eins og The l\lew Christy Minstrels eða Kingston-tríóið; þegar ég heyrði þig fyrst syngja með strákunum hugsaði ég með mér: þetta eru ræturnar. - Ertu að segja að við séum góð? spurði Janis. Veistu, hélt Chet áfram, ef fólk á vesturströndinni heyrði þig syngja yrði það gjörsamlega gapandi. Það hefur aldrei heyrt neitt svona hrátt, en það er einmitt það sem allir eru að leita að. Það var samt ekki fyrr en Chet Helms sannfærði Janis um að hún yrði að koma með honum til að hann ætti auðveldara með að húkka sér far, að hún lét slag standa og þau komust á mettíma frá Austin til San Francisco. San Francisco er talin evrópskasta borg Bandaríkjanna og sú frjáls- lyndasta og þar fann Janis Joplin loks stað sem hún gat kallað heima. Hún bókstaflega velti sér upp úr frjálslyndinu og gleypti við öllu sem á boðstól- um var. „Sex & drugs & rock'n'roll" var nokkuð sem Janis Joplin var búin að kanna út í ystu æsar áður en hún varð fræg stjarna, og næstum búin að drepa sig á þessu í miðjunni árið 1965, og sökk aldrei dýpra í eitur- lyfjaræsið en þá þótt hún lifði af. Ekki að hún væði í peningum strax og hún kom til San Francisco, því að þótt henni væri mjög vel tekið á hinum ýmsu stöðum þar sem hún söng safnaðist mismikið í hattinn sem gekk, svona rétt fyrir mat eða dópi. Hróður Janisar sem söngkonu barst út og fólk frá plötufyrirtækjum kom að hlusta og varð það hrifið að tvisvar lá við að hún fengi útgáfusamning, í annað skiptiö við stórfyrirtækiö RCA. Hún gufaði hins vegar upp í bæði skiptin, lenti á sjúkrahúsi. Fyrst af því að hún keyrði vélhjólið sitt í klessu, en í seinna skiptið var hún sjálf barin í klessu af mótorhjóla-rednecks- gengi af því að hún kunni aldrei að halda kjafti yfir skoðunum sínum. Það var t.d. ein af ástæðunum fyrir óvinsældum hennar strax í unglingaskólan- um í Þort Arthur að hún tók upp hanskann fyrir blakka nemendur og fékk viðurnefnið „nigger lover". Henni fannst það að vísu ekkert skammaryrði, hélt uppteknum hætti og til er sú saga af henni eftir að hún varð fræg að hún réðist á ónafngreindan poppara á bar og lenti í slagsmálum við hann af því að hann kallaði Ray Charles „a blind nigger". 41

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.