Freyr - 01.08.1935, Blaðsíða 4
18
P R E Y R
Svipaðar tilfinningar munu vefjast um minningu Tryggva Þórhallssonar í hug-
um allra íslenzkra bænda, og ég trúi því að við þær verði honum sælt að búa.
En — íslenzkir bændur og bændaleiðtogar! Það er aldrei nóg, að heiðra minningu
foringjans með hlýjum tilfinningum virðingar og þakklætis. Hitt skiptir mestu máli,
að berjast vel og drengilega fyrir hugsjónum foringjans, taka upp merki hans og
baráttu, bera og leiða hvorttveggja fram til sigurs, og hækka takmörkin og sjónar-
miðin, með breyttum tímum og vaxandi möguleikum. Á þann hátt er ?ninningu for-
ingjans, starfí hans og hugsjónum sýndur mestur og verðugastur heiðurinn.
Og þannig veit ég, að íslenzkir bændur vilja heiðra minningu Tryggva Þórhalls-
sonar, sem barðist fyrir þeirri hugsjón fyrst og fremst, í sínum opinberu störfum
með þeirri glæsimennsku og drenglyndi, sem honum var gefið í svo ríkum mæli, að
hér mætti enn efla landbúnaðinn til þess að verða „móður-atvinna“ landsmanna og
kjölfesta íslenzkrar menningar og þjóðernis.
Tryggvi Þórhallsson, Bjarnarsonar biskups og konu hans Valgerðar Jónsdóttur,
var fæddur í Laufási í Reykjavík 9. febrúar 1889, lauk stúdentsprófi 1908 og em-
bættisprófi í guðfræði við Háskóla fslands 1912, vígðist prestur til Hestsþinga í
Borgarfirði 1913 og kvæntist s. á. Önnu Klemensdóttur, ráðherra Jónssonar, hinni
ágætustu konu, er nú lifir mann sinn, ásamt 7 börnum þeirra.
í ársbyrjun 1917 var hann settur kennari í guðfræði við háskólann. Sú staða var
öðrum veitt á því ári, en Tryggvi gerðist þá ritstjófi Tímans til 1927, og annar að-
alforingi Framsóknarflokksins til 1933, en eftir það formaður Bændaflokksins.
Búnaðarþingsfulltrúi var hann 1919—1925 og upp frá því formaður Búnaðarfé-
lags íslands og forseti Búnaðarþings.. — Þingmaður Strandamanna var hann frá
1923—1934-, en forsætis- og atvinnumálaráðherra 1927—1932. Þá varð hann aðal-
bankastjóri Búnaðarbankans og aðalframkvæmdarstjóri Kreppulánasjóðs, þegar
hann tók til starfa.
Störf Tryggva Þórhallssonar í öllum þeim trúnaðarstöðum, er honum voru falin,
verða ekki rakin hér, en í næsta árgangi Búnaðarritsins munu verða rakin störf
hans í þágu Búnaðarfélags Islands og íslenzkra bænda, en þau voru, eins og áður
er sagt, hans aðaláhugamál, og munu lengi halda nafni hans á lofti meðal allra
þeirra, er landbúnað stunda hér á landi.
Og hlýjar verða endurminningarnar hjá þeim, sem þekktu hann bezt, og fer svo
jafnan um hin göfugu glæsimenni.
METÚSALEM STEFÁNSSON.