Freyr - 01.08.1935, Blaðsíða 5
F R E Y R
19
Ávarp fil Islendinga.
Nýlega hefir öllum landslýð borizt andlátsfregn Tryggva Þórhallssonar. Mun sú
harmafregn hafa vakið tilfinningu alls þorra íslendinga fyrir því, að með Tryggva
Þórhallssyni hefir þjóðin misst einn hinn áhrifamesta stjórnmálamann sinnar sam-
tíðar, og einn af sínum glæsilegustu mannkostamönnum og beztu sonum.
Einkanlega mun þó bændastétt landsins finna til þess, að hún hefir nú misst —
og einmitt á hinum erfiðustu tímum — þann manninn, sem af meiri einlægni og
djörfung, meira trausti og trú á íslenzka bændur og sveitamenningu en nokkur
annar stjórnmálamaður, gerist brautryðjandi hverskonar velferðarmála bændastétt-
arinnar og landbúnaðarins.
Viðurkenning bændanna fyrir þessu kom líka greinilega fram við útför hans í
þvi, að bændur, jafnvel úr hinum fjarstu sveitum landsins, tóku sig wpp frá búum
sínum, til þess að fylgja honum til grafar.
En það er ekki nóg að heiðra minningu Tryggva Þórhallssonar á þennan hátt ein-
an. Slíkum mönnum, sem hann var, er þjóðinni skylt að reisa varanlegan minnis-
varða með einhverju móti. Til þess að gefa öllum landslýð — og þá fyrst og fremst
íslenzkum. bændum — tækifæri til þess að sýna Tryggva Þórhallssyni virðingu sína
og þakklæti, og halda uppi minningu hans um ókomna tíma, var það samþykkt ein-
róma á fundi, er stjórnarnefnd Búnaðar élags íslands átti með öllum föstum starfs-
mönnum félagsins og 9 búnaðarþingsfulltrúum, 9. þ. m., að efna til samskota um
land allt, og verður samskotafénu varið til þess að reisa Tryggva Þórhallssyni minn-
isvarða eða (og) til sjóðsstofnunar, er beri nafn hans, og starfi í anda þeirrar hug-
sjónar hans, er hæst bar í hans opinberu störfum, að hér megi vera sterk bænda-
stétt í sjálfstæðu landi.
Vér undirritaðir, sem kosnir vorum á áðurnefndum fundi í nefnd, til þess að gang-
ast fyrir samskotunum, leyfum oss hér með að mælast til þess, að allir þeir, sem
heiðra vilja minningu Tryggva Þórhallssonar á þann veg, sem að framan greinir, og
þá sérstaklega bændur landsins, sem til þess hafa brýnastar skyldur, bregðist við vel
og drengilega og svo sem maklegt er eftir málavöxtum.
Þá, sem lítið hafa af mörkum að leggja, biðjum vér að minnast þess, að „margt
smátt gerir eitt stórt“, og að minningu mætra manna er mestur sómi sýndur með al-
mennri viðurkenningu, þótt í smáu sé.
Hinir, sem meira megna, sýna virðingu sína látnum leiðtoga með stærri framlögum.
Ávarp þetta, ásamt samskotalista, sendum vér formönnum allra búnaðarfélaga í
landinu, í því trausti, að þeir gangist fyrir samskotum hver í sinni sveit, hjá öll-
um almenningi. Einnig sendum vér það einstökum mönnum öðrum, er vér treystum
bezt til að veita þessu máli lið, og vér efumst ekki um góðar undirtektir hvarvetna.