Akranes - 01.04.1944, Blaðsíða 9

Akranes - 01.04.1944, Blaðsíða 9
akranes 45 í Reykjavík hvíldi því hinn mesti drungi yfir öllu and- legu lífi. Bókaútgáfa og blaða var engin, enda ekki til prentsmiðja í bænum. Eina nothæfa prentsmiðjan í land- inu hafði verið á Leirárgörðum en var nú flutt til Viðeyj- ar. Hafði hún prentað nokkrar nýtilegar bækur meðan Magnús Stephensen stjórnaði henni, en mjög var flestum þeirra áfátt hvað snerti mál og stíl. Eftir dauða Magnúsar hrakaði prentsmiðjunni enn stórum og kom lítið frá henni á bernskuárum Geirs, nema misjafnlega kveðnar rímur og annað af því tagi. Eina tímaritið, sem út var gefið hér á landi á fjórða tug 19. aldarinnar, var Sunnanpósturinn. Honum var stjórnað af tveim embættismönnum, Þórði yfirdómara Sveinbjörns- syni og Árna stiftprófasti Helgasyni. Stóðu þeir báðir framarlega í röð lærðra manna, svo að ekki var af verri endanum valið. Þar að auki nutu þeir fulltingis annars eins manns og Sveinbjarnar Egilssonar. Samt verður ekki annað sagt, en að Sunnanpósturinn hafi verið ósköp bragð- daufur, líkt og saltlaus vatnsgrautur, fremur illa ritaður og efnisrýr. Málið er dönskuskotið og þunglamalegt; stund- um mistekst höfundum algjörlega að gera það skiljanlegt, sem þeir helzt vildu sagt hafa. Yfir öllu ritinu hvílir blær vanburða og getuleysis, sem mjög einkenndi um þessar mundir mál lærðra manna, sérstaklega í Reykjavík. Prest- ar og aðrir embættismenn úti um sveitir, hlýddu á hreint og ómengað málið af vörum alþýðunnar. Þess vegna voru þeir stórum betur settir hvað þetta snerti en starfsbræður þeirra í Reykjavík, sem lítið leituðu út fyrir sinn hóp, nema þá á fjörur danskra og hálfdanskra kaupmanna. Jafnvel annar eins snillingur og Sveinbjörn Egilsson, sem fundið hefir manna bezt vesöld Sunnanpóstsins, er svo kraminn undir fargi vanans, að hann lætur málleysurnar og „leirburðarstaglið11 afskiftalaust. Hann er ekki svo á- kveðinn og herskár, að hann berji í borðið og krefjist gagn- gerðra umbóta. Uppreisnin gegn veldi dönskunnar, end- urfæðing málsins, varð að koma úr öðrum stað og gerði það líka. Hún kom frá hinum ungu menntamönnum við Eyrarsund, Baldvin Einarssyni og Fjölnismönnum. Þeir sóttu vopn sín í málhreinsunarbaráttunni til tveggja forða- búra, fornbókmenntanna og alþýðumálsins, eins og það var talað úti um sveitir landsins. Er af því starfi öllu mikil saga, þótt ekki eigi hún liér heima. Margt fleira væri vert umtals, ef gera ætti verulega grein fyrir Reykjavíkurbæ á bernsku- og æskuárum Geirs Zoéga, en hér skal þó staðar numið í því efni. Aðalatriðin eru þessi, og er rétt að menn geri sér þau fyllilega ljós: Reykjavík þeirra tíma var lítið verzlunar- og fiskiþorp, þar sem mikill hluti íbúanna voru fátækir menn, en dansk- ir kaupahéðnar mynduðu einskonar yfirstétt og réðu lög- um og lofum. Settu þeir svipmót menningar sinnar og menningarleysis á kaupstaðinn allan, báru litla virðingu fyrir íslendingum og öllu því, sem íslenzkt var. Sem ein- staklingar voru kaupmenn þessir að sjálfsögðu upp og of- an, en eitt áttu þeir sameiginlegt. Þeir voru til íslands komnir í því skyni að græða sem mest á sem skemmstum tíma, til að geta síðan flutt með allan auðinn til Kaup- mannahafnar og notið þar ávaxtar iðju sinnar. Hinir íslenzku íbúar Reykjavíkurbæjar voru mestmegn- is daglaunamenn og fiskimenn, flestir bláfátækir og um- komulitlir. Höfðu margir þeirra horfið úr sveitinni og á mölina fyrir skömmu síðan, og voru því einskonar land- nemar í nýju umhverfi, þar sem margvísleg, erfið skil- yrði biðu þeirra. Létu ýmsir glepjast til þjónkunar við danska siði og dönsk sjónarmið, sem ríkjandi voru á æðri stöðum. Aðrir héldu „trú feðra sinna“ og sköpuðu grund- völl þeirra breytinga, sem fram fóru í bænum á næstu ára- tugum. Reykjavík var að komast í deigluna. Hún átti fyrir sér að mótast og umskapast úr hálfdönsku verzlunarþorpi í höfuðstað vaknandi þjóðar, sem sótti fram til batnandi lífs og aukins sjálfsforræðis. Slík voru uppvaxtarár Geirs Zoéga. Hann fæddist nógu snemma til að kynnast bæ hins danska kaupmannavalds í æsku sinni, en bar hinsvegar gæfu til þess, að taka myndarlegan þátt í nýsköpun Reykjavíkur, eins og síðar mun lýst verða. 4. Æskuór. Hinn 26. maí 1830 kvað við barnsgrátur í gömlu „Smiðj- unni“, heimili Jóhannesar glerskera og Ingigerðar konu hans. Þann dag eignuðust þau hjón fimmta barnið. Það var sveinn, bráðger mjög og efnilegur snemma. Hinn 30. maí var hann vatni ausinn og nefndur Geir, en ekki er nú vitað, hvers vegna hann var látinn bera það heiti. Guð- feðgin voru Þórður danebrogsmaður Jónsson á Bakka, faðir Einars prentara Þórðarsonar, Pétur Guðmundsson meðhjálpari og bóndi í Engey, og ljósmóðirin, „madama Möller“. Sama árið og drengurinn fæddist, aðeins fáum vikum áður, varð mannskaði mikill úr Reykjavík. Fórust 20 menn af opnum skipum í ofsaveðri 6. apríl um vorið. Voru mennirnir flestir úr Reykjavík og af Seltjarnarnesi. Einna kunnastir þeirra er fórust, voru Grímur Árnason smiður í Þingholti og Hannes Gissurarson Ólsen, sem einnig var smiður góður. Mátti segja, að slysfarir þessar minntu Reykvíkinga á það, hversu sæfarirnar voru mikill þáttur í lífi kaupstaðarbúa og að þar áttu þeir undir högg að sækja á litlum og lítt búnum skipum. Margar ekkjur stóðu slyppar uppi eftir atburð þennan, og voru hafin samskot þeim til hjálpar. Einhverra hluta vegna var ekki úthlutað öllu söfnunarfénu, en það hafði verið nokkuð mikið. Var afgangurinn settur á vöxtu og stofnaður með honum sjóð- ur, sem síðar efldist nokkuð. Hlaut hann heitið Fiski- mannasjóður Kjalnesinga. Um bernskuár Geirs höfum vér litlar sagnir. Hann ólst upp í Zuggers-bæ hjá foreldrum sínum og naut mikils ástríkis af móðurinni, en hún hafði verið gæðakona. Fátæk voru þau hjón, Jóhannes og Ingigerður, og þurfti naum- ast mikið út af að bera, svo að ekki væri hálfgerður sultur í búi. Réri Jóhannes jafnan bæði vor og sumar, þegar á sjó gaf, fyrst lengi sem háseti hjá öðrum, en síðar eignað- ist hann dálitla bátkænu og gutlaði á henni við annan eða þriðja mann. Auk þessa fékkst hann nokkuð við glerskurð og verzlaði lítið eitt með ákveðnar vörutegundir, án þess að hann hefði nokkru sinni opna sölubúð í húsi sínu. Mun hann aldrei hafa haft bolmagn til að komast yfir varning nema í smáum stíl, fyrir fátæktar sakir. Geir var þegar á unga aldri gæddur miklum þroska, bæði til líkama og sálar, enda fór hann snemma að hjálpa foreldrum sínum. Komu strax fram þeir eiginleikar, sem síðar áttu eftir að lyfta honum úr fátækt og umkomuleysi og gera hann að einhverjum kunnasta athafnamanni sam- tíðar sinnar. Vinnuþrekið var óvenjulega mikið allt frá bernskudögum. Hann bjó yfir kynngi gæddri orku þess manns, sem hefir nautn af því að leggja sem víðast hönd á plóginn, koma sem flestum hlutum í framkvæmd. Ekki er þetta þó svo að skilja, að hann væri nýjungagjarn úr hófi fram, né sækti það fast að ganga ótroðnar slóðir. Hitt mátti miklu fremur um Geir segja, bæði á æskuárum og síðar, að hann litaðist vel um við hvert fótmál og skyggndist vandlega um allar gættir, en steig skrefin hreint og hik- laust ef honum þótti slíkt ráðlegt. Frá barnsaldri var hann hinn rólyndi, starfsami maður, sem var það eðlisnauðsyn að beita orku sinni við hagnýtar framkvæmdir, og gladd- ist einkum er hann sá ávöxt erfiðisins í áþreifanlegum myndum. Helztu störf ungra sveina alþýðufólks á uppvaxtarárum Geirs, voru annað tveggja snúningar í kringum fiskimenn- Framh.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.