Akranes - 01.12.1945, Blaðsíða 9

Akranes - 01.12.1945, Blaðsíða 9
akran.es Í41 en í einu vetfangi svífur þessi grimmdarseggur yfir höfði mér og myndaði sig til þess að gefa mér ósvikið höfuðhögg. Varðist ég honum með svipu minni, svo að hann varð frá að hverfa, en ekki lét hann við svo búið standa, því að hund, sem fylgdi mér, sló hann svo með einu höggi, að nærri lá, að hann biði af því bana. Þannig hefur valurinn reitt marg- an fjallabúann til reiði, ekki sízt þá, sem hafa stundað rjúpnaveiðar. Þótt rjúpan sé ekki óttalaus fyrir skotum veiðimannsins, er það fyrst, þegar valurinn kemur í víga- huga, sem hún tryllist með öllu. Refur í lambahjörð og fálki í fuglahópi voru lengi jafnréttlausir í augum skotmanna, enda fengu þeir oft makleg málagjöld. Ég er fæddur og uppalinn á einni af þeim jörðum, sem hefur víðáttumikið rjúpnaland, bæði um fjöll og skóga. Fá- gætt var það, að ekki mætti einhvers staðar finna rjúpu á öllu því landflæmi. En hún færði sig úr einum stað í annan eftir veðurbreytingum, og það miklu fyrr en veðurgleggstu menn gátu vænzt veðrabrigða. Þegar rjúpur komu fljúgandi úr norðri og hópuðu sig í brúnum fjallsins austur og suður af bænum á Húsafelli, þá var ekki að efa, að sunnanátt væri í nánd, þótt kæluátt væri þá enn óbreytt. Svo var og, þegar norðanátt var í aðsigi, rjúpan flaug í þá átt, oft löngu fyrr en vindblær fannst úr þeirri átt. Ekki veit ég, hvort vísind- in kunna að skýra þessa dularfullu veðurfræði rjúpunnar, og víst fleiri fugla, en samt verður henni ekki í móti mælt. Ekki man ég fyrr eftir mér en það, að rjúpur væru skotn- ar á heimili foreldra minna alla vetur, þegar veður leyfði og ekki hindruðu aðrar annir. Hið sama var gert á öðrum bæj- um í grendinni. Flestir urðu þó að koma frá nauðsynlegustu haustverkum, áður en þeir sneru sér fyrir alvöru að rjúpna- veiðum. Þó voru til svo veiðibráðir menn, að þeir höfðu enga biðlund, þangað til að rjúpan var búin að skipta um lit, en fyrr var hún þó ekki talin fullgild verzlunarvara. í ungdæmi mínu var það sem næst mánaðartími, sem rjúpnaveiðar voru stundaðar af mestu kappi, eða frá því eftir miðjan október og fram yfir miðjan nóvember. Sú rjúpa, sem þá veiddist, var þá flutt til Reykjavíkur og ætluð til útflutnings. Átti hún þá að vera orðin alhvít, skotin í þurru veðri og helzt, að ekki sæist á henni blóðdropi. Fólk- inu var sagt, að hún ætti að vera jólamatur handa mestu höfðingjum Dana, en að bjóða slíkum stórmennum gráar eða blóðugar rjúpur, gæti ekki komið til nokkurra mála. Aldrei var rjúpan svo vel „röguð“ heima, að ekki yrðu nokkrar í úrkasti, þegar hún var komin í hendur kaupmanna í Reykjavík. Það gat líka stundum farið svo í vatnavöxturn og rosatíð, að ekki yrði nema ltíill hluti rjúpnanna fyrsta flokks vara, þegar til Reykjavíkur kom. Rjúpnaveiðar voru því bæði hæpinn og erfiður bjargræðisvegur. En þrátt fyrir það sóttu margir ungir menn þessa veiði af einhug og kappi. Þetta var líka eitt af þeim verkum, sem þroskaði unga menn bæði í hugsun og hreyfingum. Af sjálfdáðum hafa ekki svo fáir sveitapiltar orðið íþróttamenn í skotfimi. Með sívaxandi veiðihuga hafa þeir þotið yfir klungur og kletta, hraun og heiðar um óraleiðir einn daginn eftir annan, þrátt fyrir það, þótt á ýmsu hafi oltið með aflaföngin. Það er fyrst þegar dagur er að kvöldi kominn, sem hinn kappsfulli veiðimaður gætir þess, að hann þarfnast bæði næringar og hvíldar. Lú- inn og göngumóður nær hann heim til sín með byrði á baki og brjósti, þegar allt hefur leikið í lyndi. Að morgni næsta dags er hann með öllu aflúinn. Eins og nýr maður þýtur hann aftur á þá staði, þar sem hann hyggur helzt veiðivon. Með þessu og þvílíku kappi var rjúpnaveiði stunduð hér um Borgarfjörð. En sérstaklega, meðan verið var að afla þeirra rjúpna, sem ætlaðar voru til útflutnings fyrir jólin. Þegar því var lokið, létu menn sér nokkuð rólegar. Samt var aldrei sleppt góðum tækifærum til þess að afla þeirra rjúpna, sem lagðar voru í heimilin, bæði til búdrýginda og matarbóta. Allir þeir, sem öfluðu rjúpna til útflutnings, þurftu að gæta þess vel að koma henni til Reykjavíkur í tæka tíð, þá var ekki um aðra sölustaði að velja. Allt var miðað við það, að rjúpan kæmist til Danmerkur fyrir jólin með því eina skipi, sem þá var um að ræða á þeim tíma árs. Var það skip í daglegu tali aldrei nefnt annað en „póstskipið“, hvort það hét „Fönix“, „Díana“ eða þá einhverju öðru nafni. Þeir ferðamenn, sem einhverra orsaka vegna náðu ekki til Reykja- víkur með rjúpur sínar í tæka tíð, máttu eiga það víst, að þær væru óseljanlegar nema í hæsta lagi á tíu aura stykkið. Það var ekkert heimatak að ferðast gangandi úr efstu byggðum þessa héraðs með nokkra áburðarhesta í taumi, og það á þeim tíma, sem allra veðra var von og svartasta skammdegið fór í hönd. Slíkum vinnubrögðum mundu fáir una nú á dögum, en við þetta sættu menn sig þá og komust oftast hindrunarlítið áfram, þótt allt væri ein togstreita bæði á sjó og landi. Sjaldan kom það fyrir, að slíkar vetrarferðir stæðu skem- ur yfir en átta daga. Þrjár dagleiðir til Akraness, tveir dagar þaðan í Reykjavíkurferð, og að síðustu þrír dagar til heim- ferðar. Árið 1878 fór ég fyrstu rjúpnaferð mína til Reykjavíkur. Það var síðustu daga nóvembermánaðar. Samfylgdarmenn mínir voru bæði úr Hálsasveit og Reykholtsdal. Urðum við átta talsins, allir vanir sjómenn, nema ég, sem ætlaði nú á flot öðru sinni á ævinni. Um fyrstu sjóferð mína til Reykja- víkur á lekahripinu hef ég áður skrifað. Nú var það sem oft- 'ar, að Erlendur 1 Teigakoti lánaði sitt góða skip „Elliðann“. Steinólfur Grímsson, bóndi á Litla-Kroppi, sem var einn í Jörinni, var sjálfkjörinn formaður. Hann var þaulvanur sjó- maður, stakasta ljúfmenni og prýðilega gefinn á alla lund. Einn af bræðrum hans var síra Magnús skáld á Mosfelli. 'Steinólfur fór til Ameríku litlu eftir þetta og mörg systkini hans, sem hafa orðið þar kynsæl. Eftir það erfiði, sem því fylgir, að toga áfram lest dag eftir dag, er bæði hvíld og hressing að hreppa blásandi byr á góðu skipi, þegar formað- ur er bæði öruggur og í góðu skapi. Ég kunni þá margar svo- kallaðar heimslystarvísur. Þar gleymdu skáldin aldrei að vegsama þann unað, er því var samfara að sigla góðu skipi. Þessa skemmtun fékk ég að prófa í fyrsta sinni, þegar Stein- ólfur stýrði „Elliðanum" undir fullum seglum í snöggum byr. Fyrsta kastið þótti mér skipið hallast nokkuð mikið, þegar aldan lék um borðstokkinn í hlé, en þegar formaður var öruggur, gat ég fljótt sætt mig við það. Meðal skipverja í þetta sinn var Jón Sigurðsson bóndi á Kollslæk í Hálsasveit, systursonur Daníels, hreppstjóra á Fróðastöðum í Hvítársíðu. Jón var þaulvanur sjómaður, kvik- ur og fylginn sér. í þetta sinn áminnti hann menn oft um það, að hafa hraðar hendur og gefa úr seglum, en lítið þurfti til þess að taka. Nokkrum árum eftir þetta varð Jón á Kolls- læk nágranni minn um níu ára skeið. Hann vann af kappi alla daga og reis árla úr rekkju. Ekki var hann verkséður né hagsýnn að sama skapi, en mannlund hans og trúrækni var frábær. Hann var þá sá eini bóndi í Hálsasveit, sem reri vetur og vor fram á gamals aldur og alltaf hjá Gísla Einars- syni, bónda á Hliði. Þeir voru jafnaldrar og tryggðavinir. Það sögðu Skagabúar þá, að Jón hefði verið hugdeigur á sjó og réðu það mest af því, að í stórsjó rétti hann oft hend- ina út fyrir borðstokkinn og signdi yfir þær öldur, sem hæst risu og gerðu sig líklegar til að falla inn í skipið. Þessi sterka trú á mátt signingarinnar, skipi og mönnum til verndar, var svo almenn á sjómannsárum mínum, að allir formenn fylgdu þá þeirri reglu að signa yfir skut skipsins, þegar ýtt var á flot. Þetta gerðu sjóhetjur jafnt og þeir hugdeigu. Um minn gamla og kæra granna, Jón Sigurðsson á Kolls- læk, hef ég eigi skrifað fyrr. Mér þykir vel viðeigandi að nafn hans standi í blaðinu Akranes, því að nær því hálfa öld mun hann hafa róið á Skipaskaga og var þar þá flestum Skagabúum að góðu kunnur.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.