Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.2007, Page 92
MIÐTÍMI GREENWICH OG SAMRÆMDUR HEIMSTÍMl
Samræmdur heimstími (á ensku: Coordinated Universal Time,
skammstafað UTC) er sá tími sem venjulegar klukkur miðast við, með
föstu fráviki sem fer eftir því hvar í heiminum menn eru staddir, sbr.
kortið á bls. 78. Til að ákvarða þennan tíma eru notaðar atómklukkur
sem ganga afar jafnt. Tíminn er þannig stilltur að hann fer mjög nærri
miðtíma (meðalsóltíma) í Greenwich eins og hann er skilgreindur með
tilliti til þess hvernig jörðin snýr í geimnum. Sjaldnast er gerður grein-
armunur á samræmdum heimstíma og miðtíma Greenwich (GMT), en
þó er þarna örlítill munur á. Munurinn stafar af óreglum í snúningi
jarðar, sem hafa áhrif á meðalsóltímann en ekki atómklukkurnar.
Verði munurinn meiri en 0,9 sekúndur er samræmdur heimstími leið-
réttur um eina sekúndu, venjulega í lok júní eða í lok desember. Þetta
var gert í 23. sinn í árslok 2005, þegar síðasta mínúta ársins var lengd
um eina sekúndu.
LENGDARBAUGUR GREENWICH
Sá lengdarbaugur Greenwich sem tíminn miðast við, er ekki lengur
sá baugur sem merktur er við gömlu stjörnustöðina þar og margir
ferðamenn hafa séð. Núgildandi baugur er 102 metrum austar, sem
samsvarar 0,35 sekúndna tímamun. Þar sem baugurinn er nú skil-
greindur miðað við meðalhreyfingu allra fleka jarðskorpunnar, er
hann ekki kyrrstæður miðað við yfirborð jarðar í Greenwich, heldur
færist til vesturs um 2 cm á ári.
FJÖLDI HALASTJARNA
A bls. 76 er getið um fjölda þekktra halastjarna sem ganga um sólu.
Þær eru nú meira en 1400 talsins. í almanaki fyrir árið 2006 var þetta
orðað svo að heimildir væru um brautir meira en 2000 halastjarna.
Munurinn stafar af því, að í ár eru ekki taldar með þær halastjörnur
sem fundist hafa á myndum úr geimflauginni SOHO. Þær halastjörnur
eru flestar afar smáar, ganga mjög nærri sól og eyðast þar án þess að
hafa nokkurn tíma sést í sjónaukum frá jörðu niðri. Meira en þúsund
slíkar halastjörnur hafa verið skráðar þegar þetta er ritað. Geimflaugin
SOHO (Solar and Heliospheric Observatory), sem skotið var á braut
árið 1995, heldur sig nálægt jafnvægisstað milli sólar og jarðar, 1,5
milljón km frá jörðu.
BREYTINGAR í ALMANAKINU
Glöggir lesendur munu líklega sjá að nokkrar breytingar hafa verið
gerðar á kirkjulegum tímasetningum og messutextum í dagatalinu.
Breytingarnar voru gerðar í samráði við Biskupsstofu í samræmi við
nýjar reglur sem væntanlega verða staðfestar á næsta kirkjuþingi.
(90)