Freyr - 01.10.1973, Page 10
JAKOBÍNA
GUÐMUNDSDÓTTIR
vefnaðarkennari:
Nokkur orð
um vefnaðarkennslu
í húsmæðraskólum
Síðan húsmæðraskólarnir tóku til starfa
hér á landi, hefur verið kenndur vefnaður
í þeim. Má fullyrða, að þessi námsgrein
njóti verulegra vinsælda. Áhugi nemenda
hefur löngum beinzt að því að vefa muni,
eins og mottur, áklæði, púða, veggstykki,
dúka og refla ýmis konar, til að fegra
heimili sín með, því margar af námsmeyj-
um húsmæðraskólanna eru stúlkur, sem
farnar eru að huga til heimilisstofnunar.
Mjög er mismunandi í hinum ýmsu skól-
um, hversu mikil áherzla er lögð á að
kenna nemendum uppsetningu vefja- og
bindifræði, þannig, að þær gætu einar og
hjálparlaust sett upp í vef síðar. Það má
segja, að vefnaðarkennslan sé í mjög
frjálsu formi, og fer það nokkuð eftir
kennurum á hverjum stað, svo og áhuga
nemenda, hvernig kennslan er fram-
kvæmd. Þó eru ákveðnar vefnaðargerðir,
sem skylt er að kenna. Auk þess að öðlast
almenna þekkingu á vefnaði og sögu hans
í íslenzku þjóðlífi, fá nemendur í vefnað-
arkennslunni góða þekkingu á vefjarefn-
um. Þau efni, sem einkum er ofið úr, eru
hin sígildu, náttúrulegu vefjarefni, baðm-
ull, hör og síðast en ekki sízt ull. Með
vefnaðarkennslunni gefst mjög gott tæki-
færi til að vekja réttmætt mat á íslenzku
ullinni, kynna gildi hennar fyrir þjóðina
í gegnum aldirnar, svo og hvernig nútím-
inn getur nýtt hina margvíslegu, verðmætu
eiginleika hennar.
Annað, sem mikil áherzla er lögð á í
þessari kennslu, er form og litaval, og þar
með að þroska fegurðarskyn nemenda, og
einnig að ýta undir tjáningar- og sköpun-
argleði þeirra. Hefur það orðið til þess, að
margar hafa haldið áfram vefnaðarnámi í
öðrum skólum eða á námskeiðum.
Það er mjög ánægjulegt að kenna vefn-
að, og eitt er víst, að hins margumtalaða
námsleiða verður þar lítt eða ekki vart
hjá nemendum.
436
F R E Y R