Litli Bergþór - 01.12.1996, Blaðsíða 21

Litli Bergþór - 01.12.1996, Blaðsíða 21
Þáttur af Jóni á Setbergi frh. Á þessum tímum var ullin verðmæt, þess vegna dugði ekki að horfa framhjá ullargæðunum, enda gerði langafi minn það ekki. Ég veit það af eigin reynslu að talsvert má greina það á feldi unglamba hvort reifi verða illhæruskotin. Hann setti aldrei á gimbrar sem hann taldi að bæru með sér þennan galla og þær ær veturgamlar sem skiluðu illhærum í sínu fyrsta reifi fóru undantekningarlaust á blóðvöllinn, eins var um hrútana. Það leiddi af sjálfu sér að þeir blönduðust ekki ærstofninum. Með þessum hætti ræktaðist fljótlega upp stofn með þeim ullareiginleikum sem að var stefnt. Þelið var megin verðmæti ullarinnar, togið varð þó að vera sterkt og ekki of stutt á algeru útivistarfé. Jón á Setbergi lét ekki sitt marga útigangsfé þvælast um einhvers staðar eftirlitslaust. Þar kom þrennt til, fyrst og fremst vildi þessi nákvæmi fjármaður fylgjast vel með hjörðinni, í öðru lagi var þess full þörf að hafa stjórn á því hvar og hvernig svo stór hjörð gekk að beitinni, og í þriðja lagi varð að fylgja hjörðinni vegna affalla sem bráðapestin olli. Einmitt vegna „pestarinnar" varð strax snemma hausts að fylgja fénu öllum stundum daglangt. Bráðapestin var alltaf skæðust á haustin og aldrei eins mögnuð og í hæglætisveðri þegar hrímfall var mikið og viðvarandi, en hrímið fylgdi mest hægri haustkælu sem kunnugt er. Þessum stóra fjárhópi fylgdu alltaf tveir karlmenn allt frá haustnóttum og framundir vor. Þannig var auðvelt að stjórna því hvar féð gekk að jörð hverju sinni, og með þessu móti einu var hægt að „skera af“ þær kindur sem tóku „pestina". Bráðapestin var skæðust í yngsta og vænsta fénu. Þessa vegna olli hún mjög miklum skaða. Við þennan vágest hafði verið óbúandi án þess að gæta fjárins svona nákvæmlega. Með þessari daglegu gæslu var unnt að lóga þeim kindum sem dauðvona urðu, þannig spilltist átan af þeim ekki verulega, nema feitin rann við suðu mun meira en þegar fargað var heilbrigðu fé. Ég trúi að langafa mínum hefði búnast talsvert verr ef nýtingin á þessu fé hefði ekki verið í svo góðu lagi sem hún var, því á Setbergi var þungt heimili vegna mikillar ómegðar. Strax og farið var að gæta fjárins á haustin var það „bælt“ sem kallað var, við tvo hella suðvestur af svonefndri Setbergshlíð. Þarna átti féð náttból allan gæslutímann enda var hraunið vel gróið á alldrjúgri spildu. Fyrrgreind náttból var drjúglangt frá bænum. Þær kindur sem farga þurfti voru þannig meðhöndlaðar að fyrst var þeim látið blæða, síðan var hleypt innan úr þeim frá þind og aftur úr. Síðan urðu fjármennirnir að axla þessar fárakindur og bera heim að kveldi. Með fyrstu skímu að morgni þurftu þeir svo að fara til fjárins, því ekki dugði að það væri farið að dreifa sér þegar komið var að náttbólinu. Auk þess vildu þeir helst koma að hópnum áður en féð stóð upp, því hver ein kind sem teygði sig um leið og hún stóð upp úr bæli sínu varð ekki „pestinni" að bráð næstu 30 klst. Þetta máttu þeir gerst vita sem stóðu yfir fé að staðaldri. Ég hefi oft hugsað til þess hve það hefir komið sér vel hve skjólsælt var víða í þessum högum. Þess hafa fjárgæslumenn og hjörðin notið ríkulega í hreti og hreggviðrum. Víða var í Setbergshögum eski og sauðamergur ásamt valllendis- og víðigróðri. Auk þessa var fénu beitt vítt um hraunfláka sem voru utan heimalands, á því svæði eru víða beitilyngsbreiður. Eftir því sem ég þekki frá uppvexti mínum í sambandi við vetrarbeit þá er fátt sem jafnast á við beitilyngið. Það er tvennt sem skapar manni sátt við hraunlendið. í fyrsta lagi lynggróðurinn og þá alveg sérstaklega beitilyngið og í öðru lagi skútar og önnur skjól, sem hraunflákarnir búa sauðkindinni. Eins og áður er komið fram í máli þessu var Jón á Setbergi líkt og faðir hans Guðmundur Eiríksson vel að sér um allt sem laut að sauðfjárbúskap. Hann var einnig líkur föður sínum í því hve hann var fótfrár og slyngur smali, að mínu viti verður enginn virkilega slunginn smali nema sá sem skynjar hin væntanlegu viðbrögð sauðkindarinnar undir hinum breytilegustu kringumstæðum. Sínu létta og giktarlausa smalaspori hélt hann fram á gamalsaldur rétt eins og faðir hans, þess vegna entist hann lengi vel að standa yfir fé sínu, sem alltaf var gert haust og vetur. Tveir synir hans af fyrra hjónabandi voru mest með honum í þessar fjárgæslu, þeir Guðjón og Egill. Eins og áður var getið fylgdu tveir menn hjörðinni frá haustnóttum til vordægra. Þessir fjárglöggu menn þekktu að sjálfsögðu hverja einustu kind og hverjum einstakling var gefið nafn þó hópurinn væri stór. Það er sama um búfé og umhverfið að nöfnin dýpka sambandið á alla lund. Nafnlaus kind, hæð eða slakki er fjær manni í vitundinni en það sem heiti hefur. Jón á Setbergi var réttabóndi í Gjárarrétt öll þau ár sem hann bjó á þeirri jörð. Hann þótti ölkær nokkuð og veitull á vín en gætti þess hófst að fjármannsheiðri hans var jafnan borgið þó Bakkus væri með í för. Móðir mín sagði að afi sinn hafi aldrei verið illur né þrasgjarn við vín en stundum smástríðinn. Langafi minn hafði verið dagfarsprúður og þægilegur húsbóndi, enda mjög hjúasæll. Glaðvær og skemmtilegur á heimili og einnig í viðkynningu út á burt. Ekki kann ég neitt að segja frá dagfari Guðrúnar langömmu minnar, sem var fyrri kona Jóns, en Vilborg á Setbergi, sem var seinni kona hans þótti Litli - Bergþór 21

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.