Litli Bergþór - 01.12.2008, Blaðsíða 4

Litli Bergþór - 01.12.2008, Blaðsíða 4
Formannspistill Ræða formanns í tilefni 100 ára afmælis félagsins. Allt frá stofnun Ungmennafélagsins hefur umhverfis-, náttúruvernd og skógrækt skipað stóran sess í vitund og framtíð félagsmanna og er þá ekki óeðlilegt á þess- um merku tímamótum að velta fyrir sér framtíðinni. Þeir voru frekar þurrir og kaldir þessir fyrstu dagar aprílmánaðar en voru þó sólríkir, bjartir og fjöllin í fjarska snævi þakin og útlínur þeirra skýrar. Loftið hreint og tært, ásýnd landsins geysilega fögur, sann- kallað gluggaveður. Sjálfsagt hafið þið, ágætu gestir, tekið eftir þessu, en getum við treyst því að svo verði um ókomin ár. Hvað ef við horfum nú langt til fram- tíðar, 80 - 100 ár fram í tímann, hversu raunhæfa mynd getum við gert okkur af landi og þjóð. Við höf- um jú ákveðnar væntingar, vonir og óskir til þeirra sem samfélagið mótar og leiðir á þeim tíma, en myndin kannski að hluta til mótuð af því sem við sjálf höfum upplifað og notið, og vonandi metið að verðleikum. Þrengjum nú hugann og hugsum um það sveitasam- félag sem við þekkjum og lifum í, allt það sem við njót- um af landsins gæðum, og það sem samfélagið okkar hefur byggt upp til eflingar og hagsbóta fyrir okkur öll í leik og starfi. Vonandi verður samtakamáttur með okkur á komandi tíð. I árdaga síðustu aldar voru aðstæður allar mjög ólíkar þeirri mynd og reynd sem er í dag. Samfélagið frekar einhæft og fábrotið atvinnu- og menningarlega séð. í mörgu tilliti hafði verið um litlar breytingar á sam- félaginu um langa hríð t.d. var húsnæði til sveita að mestu úr torfi og grjóti, aðstæður fólks oft ansi krappar í okkar, oft á tíðum, harðbýla landi. En það hlaut að koma sá tími að þjóðfélagið tæki breytingum. Fólkið sem hafði lifað fram til þessa svo fábrotnu lífi, var efniviður til þess. Það var vissulega vor í vændum. Nýir straumar í upphafi tuttugustu aldar bárust ótrúlega hratt um landið, og á vissan hátt má líkja því við neista, svo hratt breiddist hann um landið. Já heiðraða samkoma, hér er ég að tala um hvatann og upphaf að stofnun ungmennafélaganna og þann mikla eldmóð sem þar fór af stað. Fyrst í þeim leið- togum sem þar fóru fyrir og ruddu brautina til nýrra tíma, opnuðu augu fólks og hvöttu það til þess að sækja fram, taka þátt og vera með. Félagsskapur sem fór að beita sér á svo marga vegu í samfélaginu. Má þar meðal annars nefna málfundafélög, íþróttafélög, skógrækt, garðrækt, bókasöfn og hvatningu til mennt- unar. Það var úr þessum jarðvegi og frá þessum straumum sem Ungmennafélag Biskupstungna varð til, reyndar með sameiningu tveggja félaga, Unglingafélags Eystritungunnar stofnað 1906 og Málfundarfélagi Ytritungunnar, sem líklega var stofnað 1907. Ungmennafélagið var eitt af ellefu félögum sem stofn- að var á núverandi sambandssvæði HSK en fjöldinn segir töluvert um þá grósku sem var í uppbyggingu ungmennafélaganna á þessum árum. Sjálfsagt er að geta þeirra strauma og krafta sem komu frá íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal sem rekinn var í nteira en fjóra áratugi, því fjölmargir ungir menn hér úr sveit fóru í þann skóla. Þar fengu þeir aukið þol og kraft og uppskáru ríkulega um gildi íþrótta og hollrar hreyfingar. Sannarlega hafa síðustu hundrað ár verið tími mikilla breytinga og hefur félagið lagt sig fram um að aðlagast aðstæðum á hverj- um tíma og með því skapað aðstæður sem henta til íþróttaiðkunar og félagsstarfs á breiðum grunni. Félagið hefur frá 1990 verið rekið sem deilda- skipt, þ.e. íþróttadeild, leikdeild, skógræktardeild og útgáfunefnd sem sér um útgáfu blaðs félagsins, Litla- Bergþórs. Aðaldeildin er síðan líkt og regnhlíf yfir þessum deildum. Ungmennafélagið hefur ávallt haft á að skipa framsæknum og ötulum liðsmönnum og stjórnendum sem hafa beitt sér fyrir samfélagslegum framfara- málum og uppbyggingu mannvirkja í sveitarfélaginu s.s. bókasafni, sundlaug, félagsheimili, fótboltavelli, íþróttahúsi, plöntun trjáa í reit félagsins, staðið fyrir hverskonar samkomum s.s spilakvöldum, fræðslu- fundum, ferðum á íþróttamót og dansleikjum. Samstarf við nágrannafélög hefur einnig verið gott í keppni, leik og starfi. Stór þáttur í þessari uppbyggingu allri er samtaka- mátturinn og kraftur hans til þess að skapa og bæta. Vil ég með þessum orðum þakka öllum félagsmönnum fyrr og nú, fyrir þeirra mikla vinnuframlag og um- hyggju fyrir æskunni og reyndar samfélaginu öllu. Mig langar einnig til þess að nýta tækifærið og þakka velvild og stuðning margra rekstraraðila sem hafa stutt við störf Ungmennafélagsins og sýnt með þeim hætti hug sinn til félagsins. Ósk mín til félagsins er að það megi um ókomin ár starfa með reisn og styðja æsku sveitarinnar til hollrar hreyfingar og andlegs þroska svo að sveitin dafni. Það hefur sannarlega verið gaman að vera þátttakandi í þeim viðburðum sem staðið var fyrir í tilefni afmælis félagsins. Vil ég þakka afmælisnefndinni sérstaklega ánægjulegt samstarf en nefndin hefur haft veg og vanda af þeim uppákomum og skemmtunum. Ég vil ennfremur þakka þeim fjölmörgu sem fögnuðu og glöddust með okkur á afmælishátíðinni og fyrir hönd félagsins vil ég þakka fyrir hlý orð og góðar gjafir sem félaginu bárust. Ég vil óska lesendum og velunnurum félagsins gleði- legra jóla og farsældar á nýju ári og þakka fyrir við- burðaríkt ár. Kveðja, Guttormur Bjarnason, formaður Umf. Bisk. Litli Bergþór 4

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.