Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.03.2007, Qupperneq 6
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í mars 2007
Systurnar Ása (t.v.) og Þóra (t.h.) Guðmundsdætur
ásamt Sigþrúði móðurömmu sinni.
lífi. Sporðdrekar, köngulær og slöngur skriðu um
svörðinn og í trjákrónunum kviðruðu litskrúðugir
fuglar. Svæðið var undraheimur fyrir náttúruskoðara.
A skammri stundu höfðu Wright hjónin komið sér vel
fyrir á þessu nýja heimili þar sem þau ræktuðu m.a
banana, citrusávexti, kaffi og kakó. Þarna hafði Ása
líka kýr, svín, kalkúna, endur og hænsni auk páfugla
til skrauts og gæludýrið Nello, sem var asni.
Guðmundur faðir hennar var orðinn háaldraður
og dómgreindin farin að gefa sig. Þegar hann sat
úti í garðinum í forsælunni fannst honum hann
vera kominn til himnaríkis. Þegar hann sá þeldökka
þjónustustúlkuna, sem átti að líta eftir honum, á hann
að hafa sagt: „Klókur er djöfsi, að vera búinn að koma
árum sínum fyrir hér inni í Paradís.“ Guðmundur lést
93 ára gamall 22. júlí 1946 og var jarðaður í grafreit
í höfuðstaðnum Port of Spain.
Höfðinginn í dalnum
Á þessum árum var mjög að glæðast áhugi á náttúru-
skoðun, vistfræði og umhverfisvernd. Þau hjónin
kynntust merkum bandarískum fuglafræðingi og
ævintýramanni, William Beebe að nafni. Hann setti á
stofn hitabeltisrannsóknarstöð, Simla, í nágrenni við
þau hjónin og þangað komu þekktir vísindamenn og
dvöldust þar við rannsóknir og náttúruskoðun. Mikill
samgangur var milli þessara tveggja staða. Ása fór
síðan að taka að sér að hýsa þessa fræðimenn og
mynduðust góð tengsl milli þeirra og hjónanna. Ég
heimsótti Ásu sem ungur maður á leið til Eldlands og
síðar ásamt konu minni og dóttur, Sigrúnu Ásu.
1955 andaðist Newcome maður Ásu og breyttist
þá margt í lífi hennar. Hún þurfti nú að henda reiður
á öllum rekstri búsins og öllum launamálum, en hún
hélt sínu striki og stjórnaði öllu af sínum annálaða
skörungsskap. Litið var til hennar sem höfðingjans
í Arimadalnum og einnig var sagt að hún færi sínu
fram í umferðinni í höfuðborginni þegar hún ók þar
um á gamla pallbílnum sínum.
Veit hvað hún vill
Margar sögur voru sagðar af Ásu sem juku hróður
hennar í dalnum. Einhverju sinni var hún ein á gangi
á leið heim og varð þá fyrir árás blökkkumanns. Ása
brást skjótt til varnar og tók svo hraustlega á móti
að maðurinn féll og særðist svo að flytja varð hann
á sjúkrahús. Niels Dungal, læknaprófessor, frændi
minn, heimsótti Ásu og Newcome. Hann lýsti Ásu
með eftirfarandi orðum: „Hún er stórhuga skörungur,
einörð og ákveðin, en sýnilega góð við starfsfólk sitt.
Hún veit hvað hún vill og kemur öllu í framkvæmd
sem hún ætlar sér. Búinu stjórnar hún með miklum
myndarskap og er sístarfandi frá morgni til kvölds.“
Fuglamálarinn Don Eckelberry bjó oft langdvölum
hjá Ásu eftir að Newcome lést. Hann varð mikill
vinur Ásu og áhrifavaldur í lífi hennar og setursins og
átti eftir að eiga veigamikinn þátt í að aðstoða hana
við að gera það að stofnun. Hann benti Ásu á að nýta
setrið til þess að hýsa fuglaskoðara og vísindamenn
frá rannsóknarstöðinn á Simla, en svæðið er nú
orðið heimsþekkt sem paradís fuglaskoðara. í helli
á eyjunni eru afar sjaldgæfir fuglar, svo kallaðir
Djöflafuglar eða Diablotin, einnig nefndir olíufuglar
vegna fitu sinnar. Innfæddir notuðu lýsið til ljósa.
Rannsóknasetur
Þannig breytti Ása plantekrunni í náttúrufriðland og
rannsóknasetur. Þegar hún kvaddi mig í síðasta sinn
1966 spurði ég hana hvort hún vildi ekki koma heim
til Islands og dvelja þar um tíma. Hún þvertók fyrir
það og sagði: „Ég vil eyða ævidögum mínum hér
á Trinidad. Þetta er orðið mitt heimaland.“ Eftir að
Ása fékk hjartaáfall 1967 ákvað hún að selja Spring
Hill og gera það að sjálfseignarstofnun þaðan sem
mætti stunda náttúruskoðun í friðlandi skóganna. Ása
samdi um að fá að búa á setrinu til æviloka.
Setrið var formlega opnað 5. nóvember 1967. Hún
ráðstafaði lausamunum sínum og fé þegar hún fann
aldurinn færast yfir sig. Einkum voru það gamlir
ættargripir hennar sem hún vildi að varðveittust á
íslenski'i grund. Þeir voru færðir Þjóðminjasafninu
að gjöf. Síðan sendi hún ýmsa listmuni og að lokum
hafði hún sent hingað meginhluta búslóðar sinnar.
Hluta bókasafns síns sendi hún til Stykkishólms.
Tveir sjóðir
Fyrir andvirði setursins stofnaði Ása tvo sjóði á íslandi.
Annar heitir Minningarsjóður Ásu Guðmundsdóttur
Wright, við Þjóðminjasafn íslands, og hinn heitir
Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright, við
Vísindafélag íslands. Sá sjóður er til minningar um
eiginmann hennar og nokkur náin ættmenni. Ása lést
úr hjartaslagi 6. febrúar 1971 og er grafin við hlið
manns síns og föður í Port of Spain.
1974 ánafnaði Dýrafræðifélag New York borgar
Ásusetrinu alla jörð Simlastöðvarinnar, sem það
hafði átt. Síðan hefur setrið stækkað mikið og er nú
Myndirnar eru góðfúslega fengnar að láni úr
einkasafni Sturlu Friðriksonar.
http://www.ætt.is
6
aett@aett.is