Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1943, Page 114
—febrúar, 1943—
Eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson
I.
Yfir veröld steyptist ragnarökkur,
rauðir logar stefndu í hverja gátt.
Hugar-sólu huldi dimmur mökkur,
héraðsbrestir drundu úr hverri átt.
Óttalaus var engin sál í heimi
úlfur þegar hvopti sundur sló.
Laus út fjötrum Loki var á sveimi,
lengsti snákur jarðar eitri spjó.
Heimur enn sem hrísla í stormi skelfur,
hrynja borgir, löndin sundur tætt.
Yfir bakka blóðsins flæðir elfur,
beggja megin stendur fólkið hrætt.
Vegfarendur himins, hafs og jarðar
helveg ganga þegar varir minst;
upp við hnjúka, út á ströndum fjarðar,
enginn sannur griðastaður finst.
“Ei skal höggva!” hrópa Snorrar allir.
“Höggva skal!” er blinda valdsins svar;
þess, er reisti þjóðar drambi hallir,
þjóðarlesti óf í stjórnarfar;
þess, er skifti heimi í herra og þræla,
höfuð-þjóð og réttdræpt sláturfé;
þess, er dýpst í ánauð alt vill bæla,
alla festa á sama gálgatré.
Vanhelg ás-trú verður þess í munni,
Völsungum það gerir jafnvel skömm,
Stjórnarvald, sem stigamensku unni
standa mun um aldir þjóðar vömm.