Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1943, Page 123
JÓN SIGURÐSSON
99
Orðstír þinn og hagsvon hann fyrir brjósti bar;
og beitti aldrei kröftunum sér til hagnaðar;
alt líf sitt þeirri hugsjón hann helgaði í lotning
að hefja þig úr ánauð og gera þig að drotning.
Skeinuhætt varð stundum í andans odda hríð,
er ættjörð fjarri háðirðu þrjátíu ára stríð.
Að sannfæra það íhald, það sýndist vonlaus vinna,
en “víkjum aldrei” hljómaði úr röðum kappa þinna.
Af skýrum sannleiks rökum þá áttir heilan her;
að heimta frelsi lands þíns þú aldrei hlífðir þér.
Og saga lands vors eignaðist sigurhetju eina
með sverðið andans hvassa og skjöldinn ítur hreina.
Heill og þökk þeim Dönum, sem hlýddu á þín rök
og hendur með þér lögðu á andans grettistök,
sem lærðu að meta “Riddarann lýtalausa” glæsta
með ljóma dýrðlegs manngulls hins fegursta og stærsta.
Sú fyrirmynd er dýrmæt, sem alheims leiðarljós;
í lausn á deilum þjóða þar spratt hin fyrst rós.
Þú breyttir andans kulda og viðkvæmustum vanda
í veglyndi og samúð og hlýjan bróðuranda.
Það brenna margir vitar, sem lýsa höf og lönd;.
þeir laða til sín hugann, ef siglt er nærri strönd.
En fáir lyfta augum að himingeimi heiðum
hvar heimskautsstjarnan logar á ystu norðurleiðum.
Þá fyrirmynd sem gafst þú — hinn fagra, dýra arf —
um fórnir, speki, drenglund og óþreytandi starf;
hún heiminum er leynd og í ljósið sjaldan borin,
og löndum þínum fatast að stíga á troðin sporin.
Þótt ýmsar raddir þagni í alheims sverða gný,
og elda kyndi hatrið svo logann ber við ský, —
þá sannast það að mannvits og mannkærleikans kraftur
er meiri öllum herstyrk — og sigrar jafnan aftur.
Loksins, þegar mannvitið brýtur síðsta sverð
og sættir ríkja tryggjast í alþjóða gerð,
skal minst þess lands, sem fremst varð á ferli þeirrar slóðar
að fá sinn rétt án vopna úr hendi stærri þjóðar.