Bændablaðið - 10.03.2004, Page 22

Bændablaðið - 10.03.2004, Page 22
22 Miðvikudagur 10. mars 2004 Eins og kemur fram hér á síðunni hefur verið gengið frá samkomulagi um móttöku á snoði og vetrarull. Nokkrar breytingar eru gerðar á eldra fyrirkomulagi sem greint er frá hér á eftir. Verð fyrir ull er óbreytt frá í haust en greiddar verða 15 krónur aukalega á innlagða snoðull og flokkaða vetrarull. H - 1 415,- H - 2 373,- Svart, grátt og mórautt 363,- M - 2 34,- Snoðull verður ekki metin Til að draga úr tilkostnaði við ullarsöfnun hefur verið ákveðið að hætta mati á snoðull og er bændum gert að flokka gallaða snoðull frá við rúning og senda einungis nýtilega ull til Ístex. Allt óskemmt hvítt snoð fer í annan flokk H-2, hreinir sauðalitir í svart, grátt eða mórautt og mislit ull í M-2. Þetta er gert í samráði við ullarmats- nefnd og í ljósi þess að yfir- gnæfandi hlutfall snoðullar hefur flokkast í annan flokk. Vetrarull verður metin áfram en bændur eru hvattir til að flokka hana sjálfir um leið og rúið er. Samkvæmt nýrri reglugerð frá sl. hausti hafa matsreglur verið einfaldaðar (sjá neðst á síðunni), sérstaklega með tilliti til þess að bændur geti flokkað ull sína sjálfir. Þeir sem ekki hafa tök á að flokka ullina sína geta fengið hana metna hjá ullarmatsmönnum. Best er að flokka ullina strax við rúning Hægt er að ná fram hagræð- ingu og sparnaði við ullarsöfnun ef ullin ef flokkuð áður en henni er pakkað til flutnings. Hvít vetrarull flokkast yfirleitt í annan flokk H-2 ef hún er ekki skemmd vegna heymors, flóka eða klepra. Best er að meta ástand ullarinnar um leið og rúið er. Hey- mor sést auðveldlega á hálsi og baki kindarinnar, sömuleiðis sjást flókar vel utan á reyfinu og einnig er auðvelt að finna svarta bletti á kindinni eftir að hún hefur verið rúin. Við mat á vetrarull er mikil- vægast að taka burt ónýta ull og flokka síðan nýtilegu ullina eftir litum í viðeigandi flokka. Flokkaðri ull má troða mun þéttar í poka Ef ekki þarf að meta ullina á móttökustað er óhætt að troða henni þétt í poka til að spara pláss. Tilraunir hafa verið gerðar með pökkun í stóra plastpoka, sem síðan eru lofttæmdir með ryksugu og bundið þétt utan um. Með þessu móti er unnt að draga úr umfangi ullarinnar, lækka flutningskostnað og minnka geymslurými. Nauðsynlegt er að stinga nokkur göt á pokana eftir að bundið hefur verið utan um svo loft komist að ullinni. Ef ull er pakkað í plastpoka þarf að gæta þess að hún sé vel þurr svo hún mygli ekki. Flutningur ullarþvottastöðvar- innar til Blönduóss Eins og fram hefur komið í fréttum er fyrirhugað að flytja ullarþvottastöðina frá Hveragerði til Blönduóss nú í sumar. Ístex fær ekki framlengt starfsleyfi í Hvera- gerði án þess að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir til hreinsunar á frárennslisvatni frá ullarþvottinum auk þess sem starfsemin er á óheppilegum stað í íbúðahverfi. Þess vegna er nauðsynlegt að flytja starfsemina í burtu, á stað þar sem hún getur verið í sátt við umhverfi sitt. Á Blönduósi er til staðar hreinsistöð sem getur tekið við vatninu án þess að sérstök hreinsun komi til. Félagið Ámundakinn ehf. hefur verið stofnað um byggingu húsnæðis undir starfsemina og hefur Ístex skrifað undir bindandi leigu- samning til 20 ára. Ístex hefur heimild til að þvo ull í Hveragerði til 1. apríl 2004 og verður þá byrjað að taka niður vélar og undirbúa þær fyrir flutning til Blönduóss. Þar sem húsnæðið á Blönduósi verður ekki tilbúið fyrr en í júní er óvíst að takast muni að koma starf- seminni þar í gang fyrr en í byrjun ágúst og útlit fyrir að ekki verði hægt að hefja ullarmóttöku aftur fyrr en þá. Stöðvun á rekstri þvotta- stöðvarinnar síðastliðið sumar hafði mikla röskun í för með sér því ekki var hægt að ljúka við þvott á ull frá síðasta ári fyrr en undir áramót. Þá er ljóst að ekki mun takast að ljúka við að þvo ull sem barst í haust áður en starfs- emin hættir í Hveragerði. Þetta gerir það að verkum að lengri tíma tekur að koma ullinni í söluhæft ástand og er útlit fyrir að birgðir af óþveginni ull muni verða um- talsverðar út þetta ár. Samkomulag um ullarviðskipti ÍSTEX hf., Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda gera með sér eftirfarandi samkomulag um móttöku, meðferð og greiðslur fyrir ull til 1. sept. 2004. ÍSTEX tekur á móti allri vinnsluhæfri ull, sem til fellur af lifandi fé hjá bændum og þeir óska að selja ÍSTEX. Ekki er þó tekið við sumarull sem rúin er eftir 15. júlí. Tekið verður á móti ullinni óþveginni á ákveðnum móttökustöðum sem eru ekki lengra en 100 km frá bændum. ÍSTEX sér bændum fyrir umbúðum til að flytja ullina í ef þeir óska og flytur hana til þvottastöðvar. Mælt er með því að bændur noti plastsekki og lofttæmi. Heimilt er að innheimta hjá bændum allt að sannanlegum áföllnum kostnaði við ull sem matsmenn meta ekki vinnsluhæfa. Bændur eru hvattir til að flokka vetrarullina sjálfir og standist sú flokkun fá bændur greiddan flokkunarkostnað kr. 15,- á hvert kg af innlagðri, óþveginni ull. Að öðrum kosti verður ullin metin af matsmönnum ÍSTEX. Bændur sjá alfarið um flokkun á snoðull þ.e. taki frá gallaða og mengaða ull (3. flokkur). Ekki verður gerður greinamunur á 1. og 2. flokki en mislita ull skal aðgreina eftir litum. Greitt verður fyrir snoðull verð annars flokks að viðbættum flokkunarkostnaði kr. 15,- á hvert kg. ÍSTEX mun ekki geta tekið við nema takmörkuðu magni af vetrar- og snoðull fyrr en í águst 2004. ÍSTEX greiðir bændum fyrir ullina, samkvæmt samkomulagi við Landssamtök sauðfjárbænda, sbr. meðf. gjaldskrá og notar til þess umsamdar niðurgreiðslur ríkissjóðs á ull, sbr. meðfylgjandi skrá um niðurgreiðslur á einstaka ullarflokka, auk eigin greiðslna vegna ullarkaupa. Stefnt skal að greiðslum með eftirfarandi hætti. Fyrir vetrarull verður greitt svo fljótt sem mögulegt er, í síðasta lagi í janúar 2005. Snoðull verður greidd í janúar 2005. Allar greiðslur skulu færðar á þá viðskiptareikninga sem seljandi ullar vísar til. Öll vinnsluhæf ull, sem ÍSTEX tekur á móti, telst keypt og skal verðreiknuð fyrirtækinu á viðurkenndu heimsmarkaðsverði að viðbættum flutningskostnaði til Íslands. Frá dregst kostnaður við móttöku, flutning, mat og kostnaður við uppgjör. Leitast skal við að þessi kostnaður verði sem minnstur og ábyrgist ÍSTEX að hann verði ekki yfir kr. 74,- á kg. Reykjavík, 20. febrúar 2004 f.h. ÍSTEX hf. Guðjón Kristinsson f.h. BÍ Ari Teitsson f.h. LS Jóhannes Sigfússon Reglur um mat á ull samkvæmt reglugerð nr. 856/2003 A. HVÍT ULL H - Lambsull: Hvít haustrúin ull af lömbum. Í þennan flokk fer eingöngu vel hvít og fremur togfín og gljáandi ull sem er nær alveg laus við gul hár. Ullin skal vera algerlega laus við rusl eða heymor og húsagulku. H - I. flokkur: Hvít ull, sem er nær alveg laus við gular illhærur, gallalaus og óskemmd. Í þennan flokk fer eingöngu ull sem er algerlega laus við rusl, mor, húsagulku og tvíklippingu. Ullin skal vera fremur togfín, þelmikil og gljáandi. Kviðull, læraull og hnakkaull skal að jafnaði tekin frá og sett í lakari flokk. Snoð skal vera lengra en 6 sm og uppfylla að öðru leyti ofangreindar kröfur. H - II. flokkur: Hvít ull sem ekki er tæk í H - I. flokk vegna gulra illhæra, lítils háttar húsagulku eða lítils háttar þófa en laus við heymor. Einnig ull með gróft tog eða þellítil, en að mestu laus við tvíklippingu, ásamt snoði sem er lengra en 4,5 sm. Mikið gul ull og ull með miklu af dökkum hárum er ekki tæk í H - II. flokk. B. MISLIT ULL M - I. flokkur svart: Óskemmd svört ull með jafnan og hreinan svartan lit. Laus við grá hár, þófa, heymor, rusl og aðrar húsvistarskemmdir og laus við tvíklippingu. Svart snoð lengra en 6 sm. Kviðull og læraull skal að jafnaði tekin frá. M - I. flokkur grátt: Óskemmd grá ull með steingráan litblæ, laus við gulan eða grámórauðan litblæ. Að öðru leyti eins og M - I. flokkur svart. M - I. flokkur mórautt: Óskemmd mórauð ull með jafnan og hreinan mórauðan lit (ekki grámórauð). Að öðru leyti eins og M - I. flokkur svart. M - II. flokkur: Öll önnur óskemmd mislit ull, þ.e. ull af flekkóttu, grámórauðu, botnóttu og golsóttu fé, ásamt "hvítri" ull með miklu af gulum illhærum, dökkum hárum eða blettum. Einnig svört grá og mórauð ull sem ekki er tæk í M - I. flokk vegna galla á litblæ. Óskemmt mislitt snoð lengra en 4,5 sm. Ull sem ekki flokkast í einhvern ofangreindra flokka fer í úrkast og telst ekki söluvara. Við mat á ull má skipta reyfum á milli gæðaflokka. Móttaka á snoði og vetrarull 2004 Gísli Gíslason ráðinn skipulags- og byggingar- fulltrúi Ásahrepps Gísli Gíslason landslagsarkitekt hefur verið ráðinn skipulags- og byggingarfulltrúi Ásahrepps í Rangárþingi ytra. Hann segir að þetta sé ekki nema 10% starf og hann sinni því tvo föstudaga í mánuði. Hann byggði sér íbúðarhús í Ásahreppi og er þar mikið og fer þangað alltaf á föstudögum. Annars á hann og rekur fyrirtækið Landmótun í Kópavogi. Ástæðan fyrir því að hann var ráðinn í starfið er að þegar hrepparnir þrír sem mynda Rang- árþing ytra sameinuðust stóð Ása- hreppur utan þeirrar sameiningar. Áður voru allir hrepparnir með einn sameiginlegan byggingar- fulltrúa en eftir að Ásahreppur stóð einn var ákveðið að ráða mann í starfið. Gísli sagðist hafa gefið kost á sér til að aðstoða hreppinn í þessu máli ekki síst vegna þess að hann á þarna hús og er þar mikið. Ætla að endurreisa Sauðfjár- ræktarfélag Skriðuhrepps Fyrir nokkru var boðað til fundar á Þúfnavöllum í Hörgárbyggð til undirbúnings endurreisnar Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps. Mikill áhugi var fyrir málinu og mættu tæp 80% íbúa svæðisins á fundinn. Einhugur var um að skipa 3ja manna nefnd til að undirbúa formlega endurreisnarfund og stefnt að honum fyrir 40 ára afmæli félagsins 17. mars. Guðmundur Skúlason, bóndi á Staðarbakka, sagði í samtali við tíðindamann Bændablaðsins að þetta væri þannig tilkomið að fyrir rúmu ári var ákveðið að sameina Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps Sauðfjárræktarfélaginu Neista sem var í Öxnadal og fyrrum Glæsibæjarhreppi. ,,Ég og fleiri erum lítt hrifnir af svona sameiningu og ákváðum að endurreisa félagið. Við boðuðum til þessa fundar og góð fundarsókn og einhugur fundarmanna sýnir að þetta var rétt hjá okkur," segir Guðmundur. Þann 17. mars næstkomandi verða liðin 40 ár frá því að Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps var stofnað. Á aðalfundi félagsins 2003 kom stjórnin fram með tillögu um að leggja félagið niður og sameina það Neista sem fyrr segir. Guðmundur segir að vegna gæðastýringarinnar séu nýir aðilar að koma inn í þetta starf sem ekki voru í því áður og er þar um að ræða tvö stór fjárbú. Hann segir að fundurinn hafi ekki verið fyrir nema hluta af gamla félagssvæðinu og eftir sé að kanna hvort félagar af hinu svæði Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps vilja ganga í hið endurreista félag. Þess vegna er ekki hægt að segja til um félagatöluna eins og er. Gunnar Sigurjónsson, Litla Hofi, fagmannlegur við rúninginn.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.