blaðið - 12.08.2006, Page 26
26 I VIÐTAL
LAUGARDAGUR 12.ÁGÚST2006 blaöiö
Aftur í rokkið
Daníel Ágúst býr ásamt
fjölskyldu sinni í miðbæ
Reykjavíkur ífalleguhúsi
á tveimur hæðum. Hann
var svolítið þreyttur
þegar ég bankaði upp á, enda hafði
hann brugðið sér í miðnæturveiðitúr
ásamt félögum sínum kvöldið áður
og komið seint heim.
Daníel hellti upp á kaffi, bauð mér
Turkish Delight og við byrjuðum að
spjalla.
Fyrst lék mér forvitni á að vita
hvaða tónlistarstefnur hafi mótað
þennan ágæta listamann og hvað
hann hlustaði á sem barn.
„Þegar ég var svona sex ára hélt
ég mikið upp á Elvis Presley. Ég
safnaði af honum litlum myndum,
eins konar leikaramyndum, og leit
á hann sem mikla hetju. Ég man
til dæmis að ég tók allar plöturnar
mínar með honum út í sveit eitt
sumarið á bóndabæ á Grímsstöðum
á Fjöllum. Þar setti ég þær allar út
í glugga til að sýna kindunum og
kúnum hvað ég ætti gott plötusafn.
En þær náttúrulega bráðnuðu og
beygluðust í sólinni og þá þurfti
ég að hætta að hlusta á hann og við
tóku margs konar tegundir af tónlist.
Mamma mín, Guðný Daníelsdóttir
læknir, átti, og á reyndar enn, mjög
gott plötusafn. Bæði klassík, popp og
rokk. Ég gekk bara í þetta plötusafn
og hlustaði á það sem fyrir varð. í
þessu safni kennir ýmissa grasa
allt frá Pink Floyd og Bítlunum yfir
í Ninu Simone, Beethoven og Bob
Dylan,“ segir Daníel og bætir því við
að móðir hans hafi ekki komið nálægt
því að semja tónlist þrátt fyrir þetta
fína plötusafn, en faðir hans, Harald
G. Haralds leikari, söng þó um skeið
með KK sextettinum á sínum tíma.
Innblástur í belgískum kastala
Fyrir ári síðan fluttu Daníel,
Gabríela og Daníela frá Belgíu, en
þau bjuggu í Brussel í þrjú ár þar sem
þau störfuðu að list sinni.
Er mikill munur á því að starfa að
listsköpun erlendis en hérheima?
„Já, mér finnst mun betra að vinna
úti enda er meiri vinnufriður þar.
Maður þekkir færri þegar maður er
að koma sér fyrir á nýjum stað og það
fer vissulega púður í það að kynnast
nýju fólki og umhverfi, en um leið
verður allur innblástur sterkari."
1 Belgíu höfðu Daníel og Gabríela
einstaka vinnuaðstöðu í gömlum
kastala. Daníel segir að þetta
umhverfi hafi veitt honum mikinn
innblástur: „Dvöl okkar í kastalanum
kom þannig til að við kynntumst
arkitekt, Birgi Jóhannssyni, sem var
að gera upp þennan kastala sem var í
eigu Gunnars Björg en Gunnar Björg
er vel efnaður íslendingur sem var
eitt sinn viðriðinn Cargolux. Hann
réði Birgi Jóhannsson til að gera
kastalann upp og þannig kom það
til að Birgir bauð okkur að vera með
vinnuaðstöðu á þessum merkilega
stað. Þar vorum við svo þrjú; ég,
Gabriela og Birgir í risastóru húsi
að vinna að hugðarefnum okkar.
Kastali Iþessum
Belgíska kastala unnu
Daníel og Gabríela í
tæp þrjú ár.
Vinnuaðstaðan var sérstaklega
skemmtileg af því það var svo mikið
næði í þessu stóra húsi. Maður gat
lokað sig af ef maður vildi en svo
var líka hægt að rölta yfir og rabba
saman ef því var að skipta.“
Mér finnst þú vera orðin svolítið
sextándu eða sautjándu aldarlegur
í útliti upp á síðkastið. Heldurðu að
kastalinn hafi haftþessi áhrif?
„Það getur vel verið,“ segir Daníel
og skellir upp úr. „Það hafði
„Maður verður að
hafa gaman af því
sem maður er að
gera, hvort sem
það er einhver einn
stór brandari eða
grafalvarleg list"
vitanlega mjög sterk áhrif á mann að
vera í þessu sérstaka umhverfi. Síki í
kringum kastalann, stór garður með
margs konar dýralífi og mikil náttúra.
Þetta var heimur út af fyrir sig.“
Einfalt og hægt rokk
Um síðustu jól kom út sólóplata
Daníels, Swallowed a Star. Sú
plata inniheldur margar flóknar
útsetningar og var því lengi í vinnslu.
Swallowed a Star fékk mjög góða
dóma í blöðum en seldist þó aðeins í
um þúsund eintökum sem er minna
en Daníel á að venjast fyrir verk sín.
Hann segist vilja hafa næstu plötu
einfaldari og vonar að sú komi út í
kringum næstu jól: „Fyrstu demóin
sem ég samdi fyrir þessa plötu sem
ég hyggst gefa út í vetur eru kannski
fjögurra ára gömul. Það sem mig
langar að gera með henni er eitthvað
annað en ég gerði sfðast, en það
er nauðsynlegt til að halda áhuga
mfnum á tónlist lifandi.
Nú er ég að gera blátt áfram og
einfalt, hægt rokk. Það má líka segja
að ég kunni betur inn á rokkið enda
byrjaði ég á því sautján, átján ára
gamall þegar ég var með Nýdönsk,"
segir Danfel.
Fimm línur á Qórum mínútum
Á sólóferli sínum hefur Daníel
valið að skrifa textana á ensku,
en eins og margir vita voru/eru
liðsmenn Nýdönsk ansi lunknir við
textasmfðar.
„Ég valdi að skrifa á ensku enda er
maður oft að flækja hlutina fyrir sér
á íslenskunni. Ég eyði samt miklum
tíma í textagerð og finnst það mjög
skemmtilegt. Það er gaman að reyna
að fanga hugsanir og setja þær í fimm
línur sem hljóma á fjórum mínútum.
Þetta er knappt form en mér fannst
þetta orðið of flókið á íslensku, fyrir
utan það að mig langaði til að stækka
hlustendahópinn. Það skilja fleiri
ensku en íslensku í heiminum sjáðu
til... svo er ég svo óeigingjarn, vil að
fleiri fái að skilja mig,“ segir hann
kíminn og stendur upp til að ná sér
í vatnsglas.
Fylltist örvæntingu
Hver eru yrkisefnin þín?
„Bara það sem er að gerast í höfðinu
á mér. Á þessari nýju plötu eru
textarnir töluvert dekkri en á þeirri
sem kom út um síðustu jól.
Á Swallowed a Star var meira
sólskin. Svo fór ég að vinna textana
á næstu plötu á sama tíma og ég var
að reyna að koma Swallowed a Star
út. Við það fylltist ég oft örvætingu
yfir þvf að enginn, og þá sérstaklega
hljómplötuiðnaðurinn, skildi hvert
ég væri að fara með þessari músík.
Stundum var ég heldur ekkert of
bjartsýnn og það endurspeglast í
textagerðinni. En það er samt alltaf
von, er það ekki?“ spyr hann í gamni
og alvöru og ég jánka enda orðin
spennt að fá að heyra plötuna sem fór
einvern veginn fram hjá mér í síðasta
jólaplötuflóði.
Engin málamiðlun
Finnst þér það þess virði að fórna
listrcenum metnaðifyrirsöluvöru, eða
að draga úr einhverjum ákveðnum
þáttum með því markmiði að tónlistin
seljist betur?
„Ef listrænir einstaklingar eru
að verki þá skín það alltaf í gegn
um tónlistina. Hvað sem þeir ætla
sér að gera, vinsælt popp eða ekki.
Það að gera eitthvað fyndið og
skemmtilegt þarf ekki endilega að
leiða til málamiðlana eða rýra gæði
tónlistarinnar. Maður verður að hafa
gaman af því sem maður er að gera,
hvort sem það er einhver einn stór
brandari eða grafalvarleg list.“
Spilaði á þjóðlagatónlistarhátíð
í Belgíu
Nýlega tróðu Daníel Ágúst og
Borgar Magnason bassaleikari,
upp á skemmtistaðnum Sirkus við
Klapparstíg. Ætlunin með þeim
tó'nleikum var að hita svolitið upp
fyrir þjóðlagatónlistarhátíð sem þeir
félagar spiluðu á í Belgíu um síðustu
helgi.
„Mig langaði til að prófa að flytja
þessi nýju lög mín áður en við færum
út, en ég ldæddi þau í sérstakan
þjóðlagabúning fyrir þetta tilefni.
Ég veit ekki hvenær ég spila
næst hér f Reykjavík. Það er annað
að skipuleggja hljómsveitastarf
í dag en það var fyrir tæpum
tveimur áratugum síðan þegar
hljómsveitarmeðlimir þurftu ekki að
vinna sjö vinnur í einu.
Fólk er að gera ýmislegt annað en
að vera f hljómsveit og það tekur tíma
og fyrirhöfn að pússla þessu saman.
En ég geri samt fastlega ráð fyrir því
að við munum spila einhvers staðar í
nánustu framtíð,“ segir þessi stórgóði
tónlistarmaður að lokum en fyrir
þau sem vilja vera viss um að heyra
í honum, má geta þess að Daníel og
hljómsveit hans verða meðal þeirra
sem stíga á stokk á Iceland Airwaves
hátfðinni sem verður haldin að venju
í október næstkomandi.
Margrét Hugrún Gústavsdóttir
MYIID/STEINAR HUGI
i ■
Daníel Ágúst Haraldsson er landsmönnum
löngu kunnur. Um árabil starfaói hann með
hljómsveitinni Nýdönsk, þarnæst gekk
hann til liðs við fjöllistahópinn Gusgus en
undanfarin ár hefur hann verið sjálfstætt
starfandi tónlistarmaður, ásamt því að
vinna að margs konar listsköpun með
eiginkonu sinni, Gabrielu Friðriksdóttur.