Bændablaðið - 25.02.2010, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | fimmtudagur 25. febrúar 2010
Í BRENNU-NJÁLSSÖGU segir frá
Brjánsbardaga. Sigurður jarl
átti í höggi við Kerþjálfað, einn
fræknasta mann Brjáns konungs.
Kerþjálfaður gekk svo fast fram, að
hann felldi alla þá, er fremstir voru;
rauf hann fylking Sigurðar jarls allt
að merkinu og drap merkismann-
inn. Fékk jarl þá annan til að bera
merkið, og er skemmst frá því að
segja að allir voru drepnir, þeir er
báru. Jarl skipaði þá Hrafni hinum
rauða að bera merkið. Hrafn svar-
aði: „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“
Segja má að ég tryði vart eigin
augum að Sigurður Ævarsson
skyldi verða til þess að hlaupa
undir merki formannsins og þeirra
stjórnarmanna LH sem stóðu að því
að hefja viðræður við Fáksmenn
um Landsmót 2012, enda hef ég
fyrir satt að hann hafi verið því
mótfallinn og greitt atkvæði gegn
þeirri tillögu. Raunar kann hér að
vera komin skýring á því hversu
máttlítið svar hans er – ef til vill er
honum ekki alhugað allt sem hrýtur
úr pennanum.
Það hendir bestu menn að
gleyma erindi sínu. Fátítt mun þó
að menn skrifi heila blaðagrein og
skili henni af sér án þess að gera
nokkra tilraun til þess að standa við
fyrirheitin sem gefin eru í grein-
arhausnum. Sigurður Ævarsson á
auðvitað betra skilið af mér en að
ég veki athygli á þessu, svo oft hef
ég reynt hann að því – sem félags-
málamann á landsþingum og móts-
stjóra á landsmótum – að taka
skynsamlega á málum og bregðast
fljótt og rétt við erfiðum kring-
umstæðum.
Yfirskrift greinar Sigga Ævars
er „Svar við rangfærslum í grein
Bjarna Þorkelssonar“. Hún hefst
þó á langri upptalningu á því
sem satt sé og rétt í grein minni í
Bændablaðinu á dögunum, og má
ekki minna vera en að ég þakki
fyrir það. Í framhaldinu er svo ekki
neitt af öðru efni hennar hrakið, né
heldur er þar að finna svar við einni
einustu þeirra fjölmörgu spurn-
inga (12–15) sem ég bar þar upp.
Hins vegar villist Siggi nokkrum
sinnum út af brautum málefna-
legrar umræðu, og freistar þess að
kasta að mér kögglum þess kapla-
taðs sem því miður verður oft hendi
næst þegar harðnar á dalnum og
fátt er um svör. Þessar skotæfing-
ar birtast í titli greinarinnar um
rangfærslur og orðaleppum eins og
þessum: „…algerlega úr lausu lofti
gripið […] ekki hæfa manni eins og
B.Þ. […] á svo lágu plani að ekki
verður við brugðist (!) […] kasta
púðurkerlingum blint út í loftið…“
Við ekkert af þessu tekur því
að dvelja. Ég kýs hins vegar að
beina sjónum að tveimur atrið-
um sem ég óska eftir að lesendur
Bændablaðsins staldri sérstaklega
við og skoði.
1. Eitt af því sem Sigurður viður-
kennir að sé rétt í mínu máli, er
að „við í stjórn LH erum á eftir
miðað við þær reglur sem sam-
þykktar voru á þingi LH haustið
2008 og þurfum að herða okkur
með það...“. Hér kemur hann
að einu lykilatriða málsins. Ef
standa átti við eigin reglur og
ákvarða landsmótsstað 2012 í
síðasta lagi í júní 2009, kom
ekkert annað til greina af hálfu
stjórnar LH en að semja við
Rangárbakka, sem voru með til-
búið svæði og allt klárt af sinni
hálfu. Af óskiljanlegum ástæð-
um fann meirihluti stjórnar LH
sig knúinn til þess að þverbrjóta
reglurnar og hefur nú syndgað
upp á náðina í heila 8 mánuði,
að því er virðist í þeim eina til-
gangi að gefa Fáksmönnum
nægilegt undanfæri og tóm til að
ná vopnum sínum. En hvað segir
Sigurður strax á eftir þessu við
lesendur Bændablaðsins, blá-
kalt: „Það er alveg klárt mál að
rétt og heiðarlega er staðið að
málum hjá LH.“ Kemur þetta
heim og saman?
2. Það vekur sérstaka athygli mína
að hvorki Sigurður né Haraldur,
formaður LH, víkja einu orði
að spurningu minni um efndir á
loforði frá landsþingi 2008, þess
efnis að halda skyldi opna ráð-
stefnu um framtíðarskipan og
tilhögun landsmóta. Þetta loforð
formanns LH og fleiri stjórn-
armanna var lykillinn að því að
umræðu og átökum um málið
var frestað á títtnefndu lands-
þingi. Síðar var hvatt til þess af
hálfu Fagráðs í hrossarækt að
slík ráðstefna yrði haldin, og
lagðar fram tillögur til nauðsyn-
legra úrbóta, tillögur sem hefðu
alltént getað orðið hæfilegur
umræðugrundvöllur. Kannski
hefði verið hægt að komast hjá
ritdeilum, ef staðið hefði verið
við þessi fyrirheit?
Eftir að grein mín – „Landsmót
í Reykjavík, nei takk“ – birtist í
Bændablaðinu á dögunum hef ég
fengið mikil viðbrögð. Margir hafa
þakkað mér fyrir greinina, fundist
hún orð í tíma töluð. Í þeim hópi
eru líka Fáksmenn og fleiri félagar í
vestanheiðarfélögum. Svo er að sjá
sem greinin hafi hreyft við mörgum
að stinga niður penna, og er það
vel. Kannski er von á viðbrögðum
frá fleiri aðilum sem málið varðar.
Heyrst hefur um fundarsamþykktir
í einstökum hestamannafélögum.
Eðlilegt er að Félag hrossabænda
og Bændasamtök Íslands kanni
vilja og afstöðu Búnaðarþings, sem
haldið verður innan tíðar.
Ekki kemur á óvart að hags-
munaaðilar og staðarhaldarar oti
sínum tota, á meðan ekki hefur
verið tekin formleg og bindandi
ákvörðun um staðarval landsmóta.
Dæmi um innlegg af þessu tagi eru
ágætar greinar Jónasar Vigfússonar
í Litladal, Valgerðar Sveinsdóttur
í Reykjavík og Baldvins Ara
Guðlaugssonar á Akureyri. Í þess-
um greinum kristallast sú eilífð-
artogstreita sem enn virðist vera
til staðar, og fær nú byr undir báða
vængi. Eyfirðingar hafa sótt um
að halda landsmót 2014, en geta
ekki sameinast um staðarvalið:
Hestamannafélagið Léttir sækir
um að halda mótið á Akureyri, en
Funi heldur sig við Melgerðismela.
Skagfirðingar sækja einnig um að
halda landsmót 2014. Heyrst hefur
að þeir skiptist í fylkingar og vilji
sumir halda mótið á Sauðárkróki,
aðrir vilji með það heim að Hólum,
og þriðji hópurinn vill auðvitað
halda sig við sinn gamla og góða
mótsstað, Vindheimamela.
Vonandi nægir þessi upptalning
til þess að undirstrika hversu mik-
ilvægt það er og tímabært að taka
bindandi ákvörðun um framtíðartil-
högun og staðarval landsmóta. Ef
það er rétt hjá Sigga Ævars – sem
ég á nú bágt með að trúa – að for-
maður LH sé ekki maður til þess
að bera klæði á vopn og höggva
á hnúta, þá verðum við sjálfsagt
að fara í hlutfallareikning, eins
og Jónas í Litladal leggur raunar
óbeint til: Ef uþb. 80% landsmóts-
hrossanna eru af Suðurlandi, eins
og raunin hefur verið á síðustu
landsmótum, er eðlilegt að halda
fjögur af hverjum fimm lands-
mótum fyrir sunnan. Hestamenn
á Vestur-, Norður- og Austurlandi
geta svo farið að bítast um afgang-
inn. Samkvæmt þessu tæki 40 ár
að fara hringinn í kringum landið,
heila starfsævi venjulegs Íslendings
– og sjálfsagt einhverjar aldir að
hafa viðkomu á öllum þeim stöðum
sem nefndir hafa verið. Ég nenni
ekki að reikna það út.
Er þetta fyrirkomulag sem við
viljum sjá? Vissulega er það félags-
legt réttlæti í hæsta flokki, og getur
þannig komið til móts við vanda
stjórnar LH, sem Siggi Ævars til-
greinir. En er það fjárhagslega hag-
kvæmt, eins og stendur líka í erind-
isbréfi stjórnarinnar að það eigi að
vera?
Það er ekki til of mikils ætlast að
við Siggi Ævars séum léttir – í lund.
Í trausti þess að ekki hallist á að
þessu leyti býð ég hann velkominn
að Þóroddsstöðum að ganga með
mér um hagana og spá í ungviðið.
Við slíkar aðstæður er trúlegast að
deilurnar falli í gleymskunnar dá.
Hver veit nema við rötum þá á rétt-
an tón í sönglaginu sem Sigurður
tilfærir í lok greinar sinnar, finnum
þann samhljóm sem undir býr. Þá
verður hægt um vik að taka undir
með Hrafni hinum rauða: „Ber þú
sjálfur fjanda þinn…“
Á Þorraþræl 2010
Til Sigga Ævars
Á SÍÐUM síðasta tölublaðs Bænda-
blaðsins birtist grein eftir Harald
Þórarinsson, formann Lands sam-
bands hestamannafélaga.
Full ástæða er til að svara
nokkrum atriðum sem fram
koma í grein Haraldar. Haraldur
ræðir í grein sinni um reiðhöll-
ina á Gaddstaðaflötum og telur
að menn séu að koma ábyrgðinni
af henni yfir á aðra og telur slíkt
ekki drengilegt. Þessi fullyrðing
Haraldar er röng. Forsvarsmenn
Gaddstaðaflata eru langt í frá að
reyna að koma ábyrgð af reiðhöll-
inni yfir á aðra. Staðreyndin er
sú að ekki einni einustu krónu
hefur verið varið í reiðhöllina sem
ekki var ætluð í hana. Reiðhöllin
hefur ekki fengið fé sem ætlað
var í uppbyggingu á mótssvæð-
inu á Gaddstaðaflötum. Hvaðan
Haraldur fær þá flugu í höfuðið
að forsvarsmenn Rangárbakka
séu að reyna að koma ábyrgð
af reiðhöllinni yfir á aðra veit
undirritaður ekki. Höllin var
byggð af Rangárhöllinni ehf.
og rekstur hennar er aðskilinn
rekstri Rangárbakka að öllu leyti.
Rangárhöllin ehf. gerði sérstæðan
samning við Landsmót ehf. sem
ekki tengdist þeim samningi sem
Rangárbakkar gerðu við Landsmót
ehf. Sá samningur sem Haraldur
vísar hinsvegar í var stórgallaður
og algerlega rangt hjá Haraldi að
leyfa sér að halda fram að í honum
hefðu verið ákvæði eða vilji til að
tryggja að svæðið yrði skuldlaust á
eftir. Samningurinn tryggði svæð-
inu 9.900.000 kr. í tekjur.
Kostnaðurinn var hinsveg-
ar talsvert hærri. Í samningnum
var ákvæði um að Rangárbakkar
skyldu koma fyrir 500 raftengl-
um, og skv. grein Haraldar
virðist sama eiga að vera uppi
á teningnum í Víðidal 2012.
Uppsetning á 500 raftenglum
hefði kostað 25.000.000 kr. árið
2008. Þegar það lá fyrir var ljóst
að Rangárbakkar myndu ekki
ráða við slíka fjárfestingu m.v.
tekjumöguleikana sem lágu fyrir.
Samkomulag náðist stuttu fyrir
LM2008 um að nóg yrði að setja
niður 240 raftengla, en það kostaði
15.000.000 kr. Til viðbótar voru
ýmis ákvæði um framkvæmdir
sem forsvarsmenn Rangárbakka
stóðu við að fullu.
Til að nefna nokkrar fram-
kvæmdir þá bættum við þriðju
akbrautinni við inn á svæðið sem
var hugsuð fyrir keppendur. Ekki
var betur staðið að málum af hálfu
framkvæmdaaðila mótsins en svo
að þessi þriðja akbraut var nýtt
sem bílastæði og það klúður skrif-
ast ekki á forsvarsmenn svæðisins.
Var þarna kostað til talsverðu fjár-
magni sem nýttist ekki sem skyldi.
Í samningnum var gert ráð fyrir
að hafa stúkurnar vestan megin
við A-völlinn. Var krafa um að
gera aðstöðu fyrir stóla og hjóla-
stóla beggja megin við stúkunar.
Var ráðist í verkið, en þegar að
LM2008 kom tóku forsvarsmenn
LM þá afstöðu að hafa stúkurnar
ekki þarna og manirnar voru því
orðnar óþarfar og nýttust eingöngu
undir auglýsingaskilti á mótinu
sjálfu. Rangárbakkar ehf. sátu uppi
með skaðann af því.
Gerð var krafa um að við létum
gera aðra aðkomu að svæðinu sem
átti að nýtast í neyðartilvikum.
Þessi krafa kom eftir að samning-
urinn var gerður og ekkert fékkst
greitt fyrir það. Hinsvegar var
staðið við þetta atriði að fullu.
Þá voru ýmis atriði varð-
andi mótið sem forsvarsmenn
Rangárbakka hafa fengið gagnrýni
fyrir, en voru afar ósanngjörn. Í
apríl 2008 á fundi með forsvars-
mönnum LM lögðu forsvarsmenn
Rangárbakka áherslu á að vel yrði
skipulagt svæði fyrir ungmenni.
Var gert lítið úr því og svörin þau
að mótið væri ætlað fyrir fjöl-
skyldufólk og að það ættu engin
ungmenni að koma á mótið. Þegar
svo kom að mótinu fylltist allt af
ungmennum, eins og menn gátu
sagt sér, og þar sem ekkert var gert
ráð fyrir þeim tjölduðu þau auðvit-
að þar sem pláss var inn á milli
fjölskyldufólksins.
Þegar forsvarsmenn Rangár-
bakka stóðu að undirbúningi fyrir
LM2008 voru menn í þeirri trú að
tjaldað væri til langs tíma. Þá hafa
menn frá því mótinu lauk unnið
að því að skipuleggja svæðið enn
betur með það í huga að styrkja
það fyrir næstu landsmót.
Stjórn LH getur ekki skotið sér
undan þeirri ábyrgð að skilja móts-
svæðið á Gaddstaðaflötum eftir í
óvissu og með miklar byrðar með
þeirri ákvörðun að ganga til við-
ræðna við Reykvíkinga. Nægir að
nefna kröfu LH um 500 raftengla
að andvirði 25.000.000 kr. sem
hefðu þá legið í jörðu árum saman
illa nýttir. Með hörku tókst að
minnka skaðann af því talsvert.
Svæðið á Gaddstaðaflötum er svo
gott sem tilbúið. Svæðið í Víðidal
á langt í land og mun kosta mikla
fjármuni að koma því í stand.
Þá talar Haraldur um það í grein
sinni að forsvarsmenn LH hugi að
því að nýta fjármagnið við upp-
byggingu keppnissvæða sem best
þegar að ákvarðanatöku kemur
um stað fyrir landsmót. Er þetta í
hrópandi ósamræmi við það sem
sannara reynist þegar horft er til
þess sem að ofan greinir að stjórn
LH horfir framhjá svæði sem er
svo til fullbúið en tekur þess í stað
ákvörðun um að semja um stað
sem vantar tugi milljóna til þess
að komast í boðlegt horf fyrir LM
og treystir þar á Reykjavíkurborg,
sem á sama tíma er að skera niður
grunnþjónustu til að láta enda ná
saman. Spyrja má sig hvort rétti
tímapunkturinn til að fara út svo
dýrar framkvæmdir sé á þeim
tímum sem skortur er á opinberu
fjármagni og opinberir aðilar eru
að reyna að keppast við að halda
aftur af hækkunum á álögum á
almenning.
Í lögum LH segir m.a. að hafa
skuli við staðarval fjárhagslega
hagsmuni að leiðarljósi. Það er
erfitt að sjá að stjórn LH hafi farið
að þessu á sama tíma og fyrir ligg-
ur að Fáksmenn þurfa allt að 100
milljónir frá Reykjavíkurborg til
framkvæmda. Þá verður að minna
formann LH á þá staðreynd að
mótið í Reykjavík 2000 skilaði
ekki miklu í aðra hönd, svo ekki
sé dýpra í árina tekið. Þá hef ég
upplýsingar um að þegar flest
var á mótinu á laugardegi hafi
seldir miðar verið 6.300. Mótið á
Hellu skilaði hátt í 20 milljónum í
afgang til Landsmóts ehf. og seld-
ir miðar voru um 12.000. Kannski
hefur stjórn LH ekki verið meðvit-
uð um þetta þegar stjórnin ákvað
að stefna að því að hafa mótið í
Reykjavík.
Þá verður að gera athugasemd-
ir við ákvarðanatökuna. Umsókn
Rangárbakka var send stjórn
LH í janúar 2009. Umsókin var
gerð í samræmi við kröfur sem
fram komu í auglýsingu frá LH.
Umsókn frá Fáki var á einu A4
blaði og var afar ófullkomin og
stenst ekki kröfur í auglýsingu
frá LH. Hvorki er gerð grein
fyrir staðháttum né fjárhagsáætl-
un fyrir mótið. Stjórn LH er því
að samþykkja umsókn sem ekki
stenst hennar eigin kröfur. Þá
var ákveðið á LH-þingi 2008 á
Kirkjubæjarklaustri að staðarval
fyrir LM2012 skyldi liggja fyrir
ekki seinna en í lok júní 2009.
Stjórn LH tók ákvörðun um staðar-
val í lok desember 2009, hálfu ári
eftir að LH-þing hafði ályktað þar
um. Sennilega er stjórn LH stolt af
því að fara á svig við ákvarðanir
LH-þings, lög LH og eigin kröfur í
auglýsingum. Allavega er allt þetta
staðreynd þegar horft er til baka.
Þá ræðir Haraldur í grein
sinni um aðkomu Bændasamtaka
Íslands að staðarvali fyrir lands-
mót. Ekki ætla ég að svara fyrir
fulltrúa BÍ, en þó hef ég vitneskju
um að fulltrúar BÍ hafa lagt á það
áherslu að landsmótin séu haldin á
landsbyggðinni.
Undirritaður verður að harma
allt þetta ferli. Þá vonar undir-
ritaður sannarlega að formaður
LH standi við stóru orðin og
tryggi að forsvarsmenn Gullhyls í
Skagafirði sitji ekki eftir með sitt
mót sumarið 2010 í sama fari og
forsvarsmenn Rangárbakka árið
2008. Þessi stefna stjórnar LH að
flakka um landið með landsmót
og skilja svæðin eftir í óvissu og
skuldafeni er stefna sem við hesta-
menn verðum að snúa við. Næsta
tækifæri til þess er á LH-þingi á
Akureyri í haust.
Að lokum skora ég á stjórn LH
að svara bréfi Rangárbakka frá 31.
janúar sl. sem fyrst. Umsókninni
frá því 29. janúar 2009 hefur
enn ekki formlega verið svarað.
Vonandi þarf ekki að bíða í ár eftir
svari við síðasta erindi félagsins til
stjórnar LH.
Hafa skal það sem sannara reynist!
Ingvar P. Guðbjörnsson
stjórnarformaður Rangárbakka, hesta-
miðstöðvar Suðurlands ehf.
Landsmót hestamanna
Bjarni Þorkelsson
hrossaræktandi á Þóroddsstöðum
Landsmót hestamanna