Bændablaðið - 26.05.2011, Síða 8
8 Bændablaðið | fimmtudagur 26. maí 2011
Fréttir
Þær hörmungar og búsifjar sem
bændur á gossvæðinu í kringum
Grímsvötn og víðar mega þola
vegna gossins í Grímsvötnum bitna
ekki einungis á mönnum dýrum og
gróðri. Huga þarf sérstaklega að
öllum vélum við þessar aðstæður.
Af þessu tilefni hefur Guðmundur
Sigurðsson, verkstæðisformaður
og þjónustustjóri Vélfangs tekið
saman lista yfir þau atriði sem
sérstaklega ber að hyggja að við
þessar aðstæður.
Öskufall á dráttar- og vinnuvélar
Hér eru nokkur atriði sem þarf að
huga að vegna fínnar ösku eins og nú
leggst yfir Suðurland. Þessi örfína
aska er engum holl. Hér kemur smá
listi yfir þá hluti sem vert er að hafa
í huga og geta forðað frekara tjóni.
1. Loftsíur
Vélin notar óhemju mikið loft
(meðal dráttavél notar 3-8 m3 á
mínútu). Þess vegna er mjög mikil-
vægt að loftsíur fyrir mótorinn séu í
góðu lagi. Ytri loftsíuna ætti að taka
úr og hrista reglulega úr henni með
því að slá henni t.d. utan í dekkið.
Ef blásið er úr henni ber að forðast
að vera með mjög öflugan blástur of
nálægt síunni, of kraftmikill blástur
rífur upp síuna og gerir hana grófari.
Fyrir innan aðalsíuna er oft lítil sía
sem er öryggissía til þess að vernda
mótorinn ef ytri sían gefur sig eða
eitthvað kemst framhjá henni eða
í gegnum hana. Margar vélar eru
með forsíur sem annaðhvort eru við
loftinntak eða í endanum á síuhúsinu.
2. Miðstöðvarloftsíur
Loftsíur fyrir miðstöðvar eru mjög
mikilvægar en vilja oft gleymast.
Þær eru til að tryggja hreint loft fyrir
ökumanninn og því áríðandi að þær
séu í lagi. Þær vernda líka mjög fín-
gerð miðstöðvarelement fyrir því að
stíflast og hlífa legum og fóðringum
í miðstöðvarmótor. Sumir vélafram-
leiðendur bjóða eiturefnasíur fyrir
miðstöðvar sem sía enn betur heldur
en venjulegar síur.
3. Smurolía
Mjög mikilvægt er að fylgjast með
smurolíunni. Þegar loftsía er óhrein
verður undirþrýstingur vélinni meiri
en ella. Það orsakar meiri brennslu
af smurolíu sem sogast upp með
stimpilhringjum, niður með ventl-
um og innúr túrbínu. Við þessar
aðstæður getur líka sogast innum
opna öndun á mótor sem verður til
þess að smurolían fær í sig ösku og
skemmist.
4. Hráolíusíur
Hráolíukerfi í dag eru orðin mun við-
kvæmari heldur en þau voru, spíssar
mun háþrýstari með fínni bunum og
mjög nákvæmum rafstýribúnaði.
Þetta kallar á fínni og betri síur
sem nauðsynlegt er að skipta um
reglulega. Askan smýgur inn á ólík-
legustu stöðum og er hráolíutankur
þar engin undantekning. Öndun á
hráolíutönkum er í gegnum áfyll-
ingartappa eða sér öndunarrör uppúr
tanknum, þar eru möguleikar á að
askan komist inn.
5. Kælikerfi
Kælivatn er í flestum nýrri vélum í
ágætlega lokuðum kerfum og ætti
ekki að vera í mikilli hættu. En í
sumum vélum getur aska sogast
inní kælivatnið þegar vélin kólnar
og þrýstingur fellur á vatnskerfinu.
Kæliviftan flytur mikið magn af
lofti í gegnum vatnskassa, vökva-
kæla, loftkælingarkæli, millikæli
fyrir mótor, hráolíukæli o.s.frv.
Askan sest í kælana og þéttist mjög
þegar rakt loft kemur í hana því er
mikilvægt að blása úr kælunum og
halda þeim hreinum.
6. Vökvakerfi
Vökvakerfi eru oft sambyggð gír-
kössum. Vélar sem útbúnar eru
öndunarsíum á vökvakerfistönkum
eða gírkössum eru betur í stakk búnar
til að hreinsa loft sem kemur inná
tankana í hitabreytingum eða þegar
mikið er tekið af olíu af tankinum í
einu (t.d. sturtuvagn o.þ.h.) Þar sem
ekki er öndunarsía er loft oft dregið
inn með olíukvarða eða lofttappa án
síu. Þá er hætta á að sogist inn aska
sem skemmir olíuna.
7. Askan
Ný aska er með skarpar og beittar
brúnir, því slítur hún þeim hlutum
mikið sem hún nær að nuddast við,
t.d. inní mótorum, túrbínum, gír-
kössum og vökvakerfum.
Ef aska liggur á lakki þá bítur hún
sig í lakkið og á auðvelt með að rispa
það sé hún þurrkuð eða teiknaðar
myndir o.þ.h. Hún skemmir rúður
auðveldlega ef rúðuþurrkur not-
aðar. Best er ef askan fýkur af eða
er skoluð af með köldu vatni án þess
að kústa hana.
Meðferð dráttavéla í gosösku:
Mikilvægt að fylgjast vel
með síum og kælikerfi
Við þær sérstöku aðstæður sem
hafa skapast undanfarna daga
vegna snjókomu á N-Austurlandi
og öskufalls í Skaftafellssýslum
hafa margir sauðfjárbændur þurft
að halda fé inni óvenju lengi eða
taka á hús, Rétt er að huga að
ýmsum vandamálum sem af þessu
geta hlotist.
Hníslasótt
Lömb sem eru í þröngum hólfum eða
þröngum stíum inni geta smitast af
hníslasótt. Henni veldur einfrumung-
urinn Eimeria, sem skilst út með saur
og smitar lömbin þannig. Einkennin
koma fram í 4-6 vikna lömbum. Þau
verða dauf, lystarlaus, þrífast ekki, fá
skitu og tapa við það miklum vökva.
Skitan er daunill og dökkleit vegna
blæðinga í görnunum. Lömbin eru
kvalin og kveina gjarnan þega skitan
rennur frá þeim.
Engin fyrirbyggjandi lyf eru skráð
fyrir sauðfé. Súlfalyf verka ágætlega
á sjúkdóminn en þau eru ekki heldur
skráð fyrir sauðfé. Dýralæknar geta
útvegað töflur sem má gefa með
vissum skilyrðum.
Ormasmit
Eins og með hníslasóttina magnast
ormasmit við þrengsli og á þröngu
landi. Það er því mikilvægt að gefa
ormalyf áður en fé fer í sumarhaga.
Selen- E-vítamínskortur,
stíuskjögur
Það er þekkt að lömb sem eru höfð
lengi inni geta fengið stíuskjögur,
sem er E-vítamín- og selenskortur.
Lömbin verða stirð í gangi og leggj-
ast jafnvel flöt. Getur komið fram í
þriflegum lömbum þegar þau koma
út. Mælt er með að lömb séu sprautuð
með selen og E-vítamíni áður en
þeim er sleppt út. Það getur líka verið
ástæða til þess að sprauta ærnar og
gemlinga. Á öskufallsvæðum 2010
og 2011 getur verið rétt að sprauta
hryssur, tryppi og folöld með selen-
og E-vítamíni. Geldneytin gæti líka
þurft að sprauta, ef ekki hafa verið
settir í þau stautar. Hafið samráð við
dýralækna um hvernig best væri að
standa að þessu. Einnig skal bent á
að nú fást sérstakir steinefnastampar
sem innihalda mikið Selen-Evítamín
en lítið járn, þessir stampar eru gerðir
sérstaklega fyrir gossvæðin.
Athugið að sauðfé þolir mjög illa
ofskömmtun kopars, veljið því alltaf
koparsnauð steinefni fyrir sauðféð.
Garnapest, flosnýrnaveiki
Ef bólusetning með bóluefni gegn
pestarsýklum (Clostridium) hefur
verið vanrækt geta slíkar sýkingar
blossað upp við snöggar fóður-
breytingar þegar kindurnar koma út.
Falleg lömb bráðveikjast og drepast
á stuttum tíma úr flosnýrnaveiki.
Skrokkurinn bólgnar fljótt upp,
blánar og verður illa lyktandi. Leitið
ráða hjá dýralækni.
Júgurbólga
Huga þarf vel að því hvort ærnar hafa
fengið júgurbólgu vegna innistöð-
unnar. Lömbin ganga hart að ánum
í þrengslunum, stela og særa spena.
Alltaf verða einhver óhreinindi þegar
féð er mjög margt saman og smitá-
lagið verður smám saman mikið.
Hreinsun á augum á
öskusvæðum.
Þar sem öskufall hefur verið mest
getur þurft að hreinsa augu kinda og
hrossa. Best er að nota úðabrúsa og
hreint vatn til að þvo augun. Askan
er líka undir augnlokum svo það þarf
að reyna að hreinsa þar líka.
Þorsteinn Ólafsson,
sérgreinadýralæknir hjá MAST
Það sem helst ber að varast
þegar illa vorar á búfé
Grímsvötn í Vatnajökli, austur
af Grímsfjalli, er virkasta eldstöð
landsins og er talið að þar hafi
gosið oftar en hundrað sinnum frá
landnámi – þar af þrettán sinnum
síðan frá 1902. Á þessari öld gaus
síðast 2004 og svo hófst sem kunn-
ugt er gos þann 21. maí sl. Eldstöð
Grímsvatna er um 100 km löng og
15 km breið.
Talið er að gosið nú sé það stærsta
í 100 ár og svipi til gossins 1873.
Gosmökkurinn náði í byrjun um
15-18 km hæð sem þýðir að það er
um tíu sinnum öflugra en síðasta gos.
Grímsvatnagos fara í gegnum fasa-
tímabil þar sem þau gjósa á 60-80
ára tímabili og svo koma álíka löng
róleg tímabil. Gosið nú virðist í
svipuðum fasa og þegar gaus árin
1619 og 1783. Þetta er nokkuð stórt
Grímsvatnagos, miklu stærra, kraft-
meira og með meira kvikuflæði og
ösku en í Eyjafjallajökli á síðasta ári.
Megineldstöðin er stórt bungu-
vaxið eldfjall, um 1.700 metra hátt,
með þrefaldri öskju. Á sigsvæðinu
er stöðuvatn sem eru hin eiginlegu
Grímsvötn, en það heiti nær þó bæði
yfir öskjuna og eldstöðina. Þegar
ákveðinni vatnshæð er náð brýst
vatn fram undir Skeiðarárjökul
og verða þannig hin hefðbundnu
Skeiðarárhlaup.
Sjónvarpsstöðin Discovery setti
Grímsvötn í áttunda sæti yfir merk-
ustu eldstöðvar allra tíma þegar það
setti saman lista árið 2009. Í sam-
tali við Morgunblaðið af því tilefni
sagði Magnús Tumi Guðmundsson,
jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur
í Grímsvötnum, að það sæti væri
fyllilega verðskuldað. /smh
Heimildir:
Ari Trausti Guðmundsson og Ragnar
Th. Sigurðsson; Eldgos 1913-2004,
mbl.is; 27. mars 2009, ruv.is; viðtal
við Magnús Tuma Guðmundsson 22.
maí 2011, wikipedia.org.
Grímsvötn talin ein merkasta
eldstöð allra tíma
Eldgos hófst í Grímsvötnum 21. maí. Mynd / Mathew Roberts Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt efnagreiningum
Jarðvísindastofnunar Háskóla
Íslands er flúorinnihald öskunnar
úr eldgosinu í Grímsvötnum ekki
hátt.
Í tveimur sýnum sem tekin voru
22. maí síðastliðinn mældist magn
vatnsleysanlegs flúors vera annars
vegar 4,90 mg/l og hins vegar 4,95
mg/l. Í fyrstu mælingum greindist
flúorinnihaldið 5-10 mg/kg af vatns-
leysanlegum flúor á yfirborði. Þrátt
fyrir að flúormagnið sé lágt er afar
mikilvægt að gæta þess að búfé
drekki ekki úr stöðnu vatni eða
pollum þar eð magn útskolaðs flúors
gæti verið mun meira þar.
Flúorinnihaldið í Grímsvatna-
gosinu nú er verulega mikið minna
en var í eldgosinu í Eyjafjallajökli í
fyrra en þá mældist flúorinnihald á
bilinu 25-35 mg/kg fyrstu dagana.
Að sögn Páls Einarssonar prófessors
á Jarðvísindastofnun er ekki gert ráð
fyrir því að efnagreina fleiri sýni í
bráð að óbreyttu. Sýnatöku verður
hins vegar framhaldið og brugðist
við ef aðstæður breytast.
Ráðunautar Búnaðarsambands
Suðurlands hafa unnið að gróður-
sýnatöku á svæðinu en þau sýni verða
svo greind hjá Landbúnaðarháskóla
Íslands. Búast má við að niðurstöður
þeirra efnagreininga liggi fyrir upp
úr helgi. /fr
- Þó nauðsynlegt að gæta þess að búfé hafi aðgang að hreinu, rennandi vatni
Lítið flúormagn í öskunni
Hross voru rekin í hús á bænum Hátúni í Landbroti fv. Kjartan Stefánsson
og Sólveig Sigríður Gunnarsdóttir björgunnarsveitarmenn úr Víkverja í Vík.