Fréttablaðið - 16.03.2012, Blaðsíða 30
10 • LÍFIÐ 16. MARS 2012
þarf maður ekki að hafa áhyggjur af
innihaldslýsingum. Þá er það meira
hvort grænmetið eða ávextirnir séu
ræktaðir með eiturefnum eða ekki
eða hvað dýrin sem við kaupum
til að borða fá sjálf að borða. Það
hefur mikil áhrif á næringargildi dýra-
afurðanna. Svín og kjúklingar fá ein-
göngu korn en eru langt í frá ein-
vörðungu kornætur af náttúrunnar
hendi. Stórt hlutfall fóðurs mjólkur-
kúnna okkar er einnig korn en þær
eru grasætur af náttúrunnar hendi.
Ef varan er unnin kýs ég almennt að
sneiða fram hjá hveiti, sykri, aspar-
tam (Nutra Sweet), háfrúktósa korn-
sírópi (high fructose corn syrup),
kornsterkju (corn starch), msg, hy-
drolized vegetable protein (sama og
msg), gervilitarefnum og jurtaolíu
(yfirleitt unnar, ólífrænar olíur búnar
til úr erfðabreyttu og eiturefnarækt-
uðu korni sem gera ekkert fyrir heils-
una) svo ég nefni einhver. Þetta snýst
kannski fyrst og fremst um að vera
upplýstur því svo eigum við náttúru-
lega val um það hvaða leiðir við kjós-
um að fara í þessum efnum. Þetta er
áskorun fyrir mig alla daga og ég veit
að ég gæti gengið lengra til dæmis
hvað mataræði varðar. En mér finnst
mikilvægast hvað ég læt ofan í mig
og börnin mín dags daglega. Að
borða þá mat sem er ríkur af nær-
ingarefnum en ekki innihaldssnauð-
ar kaloríur. D-vítamín og omega-3
fitusýrur eru síðan ómissandi. Inn á
milli leyfum við okkur ýmislegt en þá
snýst þetta fyrst og fremst um hið
gamla og góða hóf.
Ef við snúum okkur að allt öðru.
Pólitík. Hvernig fannst þér að
standa á hliðarlínunni þegar Geir,
unnusti þinn, bauð sig fram í próf-
kjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir síð-
ustu sveitarstjórnarkosningar?
Það hefur nú ekki verið neitt leynd-
armál að ég stökk ekki hæð mína af
ánægju þegar hann sagði mér fyrst
frá því að hann langaði til að bjóða
sig fram. Mér hugnast ekki pólitíkin
í dag. En ég hef að sjálfsögðu stutt
hann enda á hann fullt erindi. Hann
náði þó ekki inn í borgarstjórn þar
sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk bara
fimm fulltrúa. Hann hefur því starf-
að sem varaborgarfulltrúi en leyst
Þorbjörgu Helgu af síðustu mán-
uði. En nú er Geir að fara í leyfi frá
borgarstjórninni. Handboltinn hefur
alltaf togað í hann þó hann hafi á
sínum tíma ætlað að segja skilið við
hann. Og í ljósi þess að hann þarf
að hverfa úr borgarstjórn þegar Þor-
björg Helga snýr aftur úr fæðingar-
orlofi ákvaðum við að taka tilboði
austurríska félagsins Bregenz.
Hefur þú hugleitt eða verið
hvött til að fara sömu leið og faðir
þinn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson,
hvað stjórnmálin varðar? Já, já,
ég hef verið hvött til að fara fram og
ég hef hugleitt það. Niðurstaðan er
alltaf sú að gefa ekki kost á mér. Ég
held að ég geti gert meira gagn í því
sem ég er að gera í dag en í póli-
tíkinni. Umhverfið er líka svo óvægið
og hræsnin svo mikil að ég hef bara
ekki getað hugsað mér að fara út á
þetta svið. Og af því að þið minnt-
ust á pabba hérna í spurningunni þá
get ég sagt að ég upplifði þetta mjög
sterkt í gegnum REI-málið á sínum
tíma og pabbi situr til dæmis uppi
með það að margir halda að hann
hafi ætlað að selja Orkuveituna. Ekk-
ert gæti verið fjær sanni en stundum
skiptir sannleikurinn ekki máli í hinni
pólitísku umræðu og mér hugnast
ekki svoleiðis vinnuumhverfi. Fyrir
utan að ef þú ætlar að kasta þér á
kaf í stjórnmálin ertu á kafi nánast
allan sólarhringinn og það langar mig
ekki að gera með lítil börn. Ég eigin-
lega dáist að fólki sem vílar ekki fyrir
sér að fara fram eins og umhverfið er
í dag því einhver verður jú að sinna
þessum störfum. En aldrei að segja
aldrei – maður veit ekki hvort andinn
kemur yfir mann einhvern daginn –
en það er að minnsta kosti ekki inni
í framtíðarsýninni í dag!
Nú er heilsubók væntanleg frá
þér í haust. Hvernig datt þér í hug
að skrifa bók? Það kom eiginlega
bara þannig til að Bjarni Þorsteins-
son hjá bókaútgáfunni Bjarti/Ver-
öld hafði samband við mig og hafði
áhuga á að gefa út bók sem tæki á
þessum málum heildrænt. Þetta er
í raun bók um allt þetta sem ég hef
verið að fjalla um í heilsuþættinum
mínum. Ég er alla daga að lesa rann-
sóknir og annan fróðleik um þessi
mál og hvers vegna ekki að koma
því á einn stað og leyfa öðrum sem
hafa áhuga að njóta þess. Ég fjalla
um áhrif matar, hreyfingar og hug-
ans á heilsu. Einnig um eiturefni í
matvælum, hreinsi- og snyrtivörum
og möguleg áhrif þeirra á heilsuna
okkar, áhrif kjötframleiðslu á meng-
un í heiminum, lífræna ræktun, með-
ferð dýra og hvað þau fá að borða
og hvernig það hefur áhrif á næring-
argildi kjötsins svo ekki sé talað um
heilsu dýranna. Ég kem einnig inn
á geðheilsuna í kafla sem ég skrifa
með Elínu Ebbu sem var yfiriðjuþjálfi
á geðdeild Landspítalans í um þrjá-
tíu ár og rekur Hlutverkasetur í dag.
Einstök kona þar á ferð með gríðar-
lega reynslu sem á erindi við alla sem
eru að kljást við geðraskanir eða eiga
barn, ættingja eða vin í þeirri stöðu.
Fyrir hvaða markhóp er heilsu-
bókin? Þetta er bók fyrir alla sem hafa
áhuga á að fræðast um hvers vegna
og hvernig matur, hreyfing, hugur og
annað í umhverfinu okkar hefur áhrif á
heilsuna. Það hefur einnig verið mik-
ill lærdómur fyrir mig að skrifa þessa
bók og hvatning til að halda mér á
réttu róli. Eins og ég sagði áðan,
þá finnst mér svo mikilvægt að við
séum upplýst og bókin er liður í því
að fræða þá sem hafa áhuga.
Nú eru kaflaskipti fram undan
hjá ykkur. Hvernig leggst það í þig
og fjölskylduna að flytja til Aust-
urríkis? Það bara leggst rosalega
vel í okkur. Ég var í sjálfu sér búin
að vera á leiðinni út í nám í langan
tíma. Ég var búin með undirbúning
hér heima í lífeðlis- og líffærafræði
og stefndi að mastersnámi í Human
Nutrion eða í Ayurvedískum lækning-
um í Bandaríkjunum. En ég tek bara
námið í fjarnámi í staðinn í Austurríki
á sama tíma og Geir þjálfar. Ég ætla
samt að einbeita mér að því fyrst að
hjálpa börnunum að aðlagast í skól-
anum og svo stefni ég á að hefja
námið um næstu áramót.
Leist ykkur strax vel á ákvörð-
unina um að flytja til útlanda?
Já, við lítum líka á þetta sem ein-
stakt tækifæri fyrir okkur sem fjöl-
skyldu að vera úti saman og njóta
þess sem umhverfið þar hefur upp á
að bjóða. Bregenz er alveg einstak-
ur lítill og fjölskylduvænn þrjátíu þús-
und manna bær alveg við Bodensee-
vatnið og Alpana og þaðan er stutt í
allar áttir. Og við hlökkum mikið til að
eyða meiri tíma saman og eiga meiri
tíma með krökkunum.
Hvað ætlið þið að vera lengi úti
og hvenær flytjið þið? Samningur
Geirs er til tveggja ára. En maður veit
aldrei í þessum handbolta hvernig fer
en við flytjum út í sumar, í lok júní í
síðasta lagi.
Eru skólamál barnanna úti til að
mynda frágengin? Það eru mjög
góðir almenningsskólar þarna. Dótt-
ir okkar sem er níu ára fer í einn slík-
an og strákarnir fara í leikskóla. Þetta
er allt í ferli en klúbburinn aðstoðar
okkur á allan hátt í því.
Eru börnin jákvæð gagnvart
flutningunum? Já, mjög spennt en
auðvitað gera þau sér ekki alveg
grein fyrir því hvað þetta felur í sér.
En ég held að krakkar hafi mjög gott
af því að prófa að búa í öðru landi
og læra nýtt tungumál. Ég trúi því að
þau muni bara þroskast og styrkjast
við þessa reynslu.
Húsnæði og þess háttar í Aust-
urríki – er það frágengið líka? Nei,
við erum bara að leita en það er mjög
vel haldið utan um öll þessi mál hjá
klúbbnum og það er mikill stuðningur
með allt hvað varðar börnin og hús-
næðið. Við fórum út áður en ákvörð-
unin var tekin og hittum alla í stjórn
félagsins. Þetta er ótrúlega þéttur
og öflugur hópur fólks og þarna ríkir
góður andi.
Að lokum. Hvar sérðu þig eftir
15 ár? Ég sé mig með fjölskyld-
unni á fallegri landareign á Suður-
Spáni þar sem ég get ræktað lífrænt
grænmeti, ávexti og ólífur og jafnvel
mitt eigið rauðvín. Þar langar mig að
stunda mínar náttúrulækningar og
búa til litla framtíðarfjölskylduparadís
þar sem við getum notið lífsins með
börnum og barnabörnum sem oftast.
En hver veit – það er gaman að láta
sig dreyma.
AUGLÝSING: TOPSHOP KYNNIR
KRINGLUNNI OG DEBENHAMS SMÁRALIND
KOOK CONTRAST
Verð 16.990 kr.
MOTO HIGH WAIST
GALLABUXUR
Margir litir.
Verð 11.990 kr.
Framhald af síðu 8
Við hlökkum
mikið til að
njóta þess
að vera
saman og
eiga meiri
tíma með
krökkunum.
VILDARÁSKRIFT AÐ STÖÐ 2 INNIHELDUR AUK STIGVAXANDI AFSLÁTTAR. 512 5100 STOD2.IS VERSLANIR VODAFONE VERSLANIR OG ÞJÓNUSTUVER SÍMANS 800 7000
Stöð 2 Netfrelsi er skemmtileg nýjung fyrir áskrifendur Stöðvar 2.
Njóttu þess að horfa á eftirlætisþættina þína og fjölbreytta
afþreyingu í tölvunni, farsímanum eða spjaldtölvunni
- þegar þér hentar.
Nú missir þú
ekki af neinu!
Smelltu þér núna inn á stod2.is og horfðu á uppáhaldsþátinn þinn með Stöð 2 netfrelsi