Fréttablaðið - 21.04.2012, Page 34
21. apríl 2012 LAUGARDAGUR34
Þ
ótt miður vinnudagur sé
eru þau Nína Ivanova og
Ómar Smári Kristins-
son heima við og bjóða í
bæinn þegar bankað er
upp á. „Við erum sjálfstætt starf-
andi myndlistarmenn og Smári er
líka útivistarmaður í sálinni,“ segir
Nína brosandi. Hún viðurkennir að
lífsstíl þeirra fylgi ekki fjárhags-
legt öryggi með fasta innkomu í
hverjum mánuði. „Okkar lífsstíl
fylgir hins vegar það öryggi að geta
unnið hvenær sem er og hvar sem
er og að enginn getur rekið okkur,“
bendir hún á. Smári tekur undir
það. „Okkur verður heldur ekki
skipað að hætta þegar við verðum
67 ára. En það þarf visst hugrekki
til að taka þessa stefnu í lífinu.“
Nína kveðst mest vinna við bóka-
hönnun og umbrot, meðal annars
fyrir Vestfirska forlagið og aðal-
verkefni Smára um þessar mundir
er að teikna kort af Ísafirði, hús
fyrir hús. Það er núna á mörgum
blöðum en verður síðan fellt saman
og gefið út sem ferðamannakort í
stærðinni A3. „Ég hef teiknað bæja-
og sveitakort til að auðvelda fólki
að rata, til dæmis af Hólmavík, Pat-
reksfirði, Bolungarvík og Árnes-
hreppi, en þetta er viðamesta verk-
efnið á því sviði til þessa,“ segir
hann.
Í vetrarhöllinni
Margir þekkja Smára og Nínu úr
Landmannalaugum. Þar ráku þau
sumar eftir sumar verslun og veit-
ingastað í rútu og vöruúrvalið var
ævintýralegt á örfáum fermetrum.
Á haustin pökkuðu þau saman og
fluttu út í Æðey á Ísafjarðardjúpi
þar sem þau sinntu veðurathugun
og fjárbúskap í sjö vetur. Árið 2005,
eftir síðustu vetrarvist í Æðey,
festu þau kaup á húsi á Ísafirði og
fluttu í það. Þau nefna það Garða-
ríki. Nafnið skírskotar til þess að
Nína er rússnesk og til forna hét
Rússland Garðaríki. Einnig fundu
þau í orðabók að Garðaríki getur
þýtt safn af húsum og safn af görð-
um og þar sem húsið þeirra hafði
upphaflega verið þrjú hús og þrír
smágarðar á nafnið einkar vel við.
„Húsin þrjú höfðu oft skipt um
eigendur, á hverju ári hittum við
fólk sem hefur búið innan þessara
veggja og hér hafa margir fæðst og
dáið,“ segir Smári. „Nú erum við
komin með upplýsingar um þá sem
við vitum að tengjast húsinu í sér-
staka möppu og þar hefur safnast
mikil saga.“
Í nettri útbyggingu úr gleri er
hlýtt þó hitastigið sé lágt úti. „Þetta
er vetrarhöllin okkar,“ segir Nína.
„Hér var skúr sem þurfti að rífa,
við teiknuðum þetta í staðinn og
fengum góða fagmenn til að saga
rétt. Erum að taka húsið í gegn
smátt og smátt og finnst lítið þok-
ast en Smári er svo sniðugur að
taka myndir af hverju skrefi fram-
kvæmdanna og þegar við skoðum
hvernig allt var í byrjun er minna
grátið yfir því hvað mikið er eftir.“
Vetrarhöllin gengur inn í litla
baklóð með múrsteinslögðum stíg-
um í þrjár áttir. „Við settum hlið á
girðingarnar þannig að fólk gæti
labbað í gegn og lögðum þessar
göngubrautir fyrir krakka og ketti.
Húsið var alveg innilokað fyrst en
eftir að við brutum einn ljótan vegg
var eins og hönnuður hefði búið til
sviðsmynd,“ segir Smári og bendir
gegnum vítt húsasund út á Djúpið.
Snæfjallaströndin sést í fjarska en
í forgrunni er fallegur bátur. Tveir
litlir skúrar skreyta líka lóðina.
„Það sem einkenndi byggðina hér
á eyrinni lengi vel voru skúrar því
flestir íbúanna voru með einhverja
útgerð eða húsdýr. Þar sem við
stöndum núna var einu sinni fjós,“
útskýrir Smári.
Nína hefur teiknað landakort
í björtum litum á skúrvegg sem
hún segir hafa boðið upp á það með
öllum sínum sprungum. „Þetta er
land sem svífur á Mars,“ segir hún
hlæjandi. „Ég þori ekki að mála
nein alvöru lönd því þá fengi ég
engan frið fyrir Smára!“
Við erum næturdýr
Hvernig skyldu svo Nína og Smári
hafa náð saman upphaflega?
„Við kynntumst í Þýskalandi
þegar við vorum þar bæði í mynd-
listarnámi en þó við værum í sama
skóla þá sáumst við voða sjald-
an þar,“ segir Smári. „Við vorum
nefnilega næturdýr.“ „Smári hefur
versnað síðan við kynntumst,“ laum-
ar Nína að. „Aðlögunarhæfni,“ skýt-
ur Smári inn á móti. „Í stórri borg
vorum við að hittast fyrir tilviljun í
neðanjarðarlestinni um miðja nótt,
í búð sem var opin á nóttunni eða
bara á götum úti.“ „Ég tók strax
eftir Smára, hann var svo lifandi
manneskja innan um alla Þjóðverj-
ana,“ segir Nína. „Einu sinni vildi
hún setjast við hliðina á mér á fundi
og benti mér á að búa til pláss en sá
ekki að við hina hlið mér var fullt
af listaverkum svo ég gat ekki fært
mig. Ég var mállaus og feiminn og
varð bara vandræðalegur,“ rifjar
Smári upp og þau hlæja saman.
„Þetta var 1994. Ég vissi ekkert
um Ísland þá nema að Gorbatsjov
og Reagan hefðu haldið fund þar,“
segir Nína. „En þegar ég var búin
að hitta Íslendinginn hugsaði ég: Æ,
þarf ég að fara að læra landafræði?
Vesen! Ég kann ekki enn landafræði
en hún er áhugamál hjá Smára.
Kortagerð og landafræði.“
„Við skiptum með okkur verkum.
Ég sé um landafræðina og Nína um
tölvurnar,“ útskýrir Smári og brosir
sínu góðlátlega brosi en segir þau
líka oft vinna saman. Sem dæmi
um slíkt verkefni sýnir hann Hjóla-
bók sem kom út eftir hann í fyrra
og lýsir 14 hjólreiðaleiðum á Vest-
fjörðum sem eiga það sameiginlegt
að allar liggja í hring og hverja um
sig er hægt að hjóla á einum degi.
„Smári hjólaði sjálfur hvern ein-
asta metra, tók niður GPS-punkta,
skrifaði niður það markverðasta
sem fyrir augu bar og lýsir bæði
athyglisverðum og erfiðum hlutum
leiðarinnar,“ segir Nína. „Svo eru
ótal myndir og kort.“
Smári segir marga þætti hafa
orðið til þess að bókin varð til.
„Það fyrsta var að við losnuðum úr
Fjallafangi í Landmannalaugum,
annað var að vinnu minnar vegna
var ég orðinn hálfgerður sjúkling-
ur, ég hreyfði mig of lítið og var
tíðum með höfuðverk. Svo gerð-
ist það að ég fékk hjólabakteríu
og nú hjóla ég upp á hvern dag og
fer í lengri túra á sumrin. Á sama
tíma verður þjóðin blönk og hefur
ekki efni á að kaupa sér þetta dýra
bensín og það er vitundarvakning í
gangi um hvað hreyfing og útivera
geri fólki gott.“
Þegar Nína er spurð hvort hún
hjóli með Smára svarar hún hlæj-
andi: „Nei, ég get hjólað beina línu,
svona 500 metra en svo kemur alltaf
einhver staur og stímir á mig!“
Lifa lífinu
Smári og Nína tóku virkan þátt í
stofnun Félags handverksfólks á
Vestfjörðum og að því laðaði Smári
líka vestfirskt tónlistarfólk. Það
félag, með Smára og Nínu í far-
arbroddi, og Vestfirska forlagið
lögðu grunn að Vestfirzku verzlun-
inni sem annar aðili rekur nú með
myndarbrag við Silfurtorgið og
selur vestfirskar afurðir á borð við
hljómdiska, bækur, salt og ýmiss
konar handverk, að ógleymdu haf-
kalkinu úr Arnarfirði. „Hér á Ísa-
firði er blómlegt menningar- og
listalíf, kannski vegna þess hve
fjarlægðin frá Reykjavík er mikil.
Þetta er sjálfstætt samfélag og
hlutfall þeirra sem eru virkir í
menningarlífinu er mjög hátt. Það
var eitt af því sem hjálpaði okkur
að velja stað til að búa á þegar við
hættum að vera eins og farfuglar í
Æðey á veturna og Landmannalaug-
um á sumrin,“ segir Smári sem –
þrátt fyrir að vera uppalinn á slétt-
lendi Suðurlands, nánar tiltekið í
Holtunum, kann vel við sig innan
um fjöllin fyrir vestan.
„Lóðrétt landslag höfðar betur til
mín en lárétt og náttúrufegurð er
mér líka mjög mikilvæg. Með því
að vera á Vestfjörðum á veturna og
hjóla um landið á sumrin er þess-
ari þörf fullnægt,“ segir hann bros-
andi. Nína grípur það á lofti. „Það
er svo oft sem fólk gleymir því
hvað fegurðin skiptir miklu máli.
Tilgangurinn með lífinu er ekki
bara að koma sér fyrir í einhverj-
um kassa og lifa af, maður þarf að
lifa lífinu með meðvitund og nautn.“
Okkar lífsstíl fylgir það öryggi að geta
unnið hvenær sem er og hvar sem er
og að enginn getur rekið okkur.
Fegurðin skiptir miklu máli
Í húsinu númer átta við Hrannargötu á Ísafirði búa hjónin Nína Ivanova og Ómar Smári Kristinsson. Bæði eru þau listamenn
og lífskúnstnerar. Hún sinnir mest grafískri hönnun og tölvan er hennar aðalgræja, hann málar hús, bæi og kort á pappír með
handverkfærum og nostrar við hvert smáatriði. Gunnþóra Gunnarsdóttir kíkti í heimsókn til þeirra.
Í VETRARHÖLLINNI Smári er að teikna kort af Ísafirði, hús fyrir hús, skúr fyrir skúr. Það er enn á mörgum blöðum en verður fellt
saman í ferðamannakort í stærðinni A3. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA