Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.03.1989, Síða 51

Læknablaðið - 15.03.1989, Síða 51
LÆKNABLAÐIÐ 115 Vegna hins erfiða ástands í Englandi ákvað Florey að fara til Bandaríkjanna sumarið 1941 ásamt einum samverkamanna sinna í þeirri von, að í Bandaríkjunum mætti fremur en í Bretlandi koma á laggirnar stórframleiðslu á penicillíni. Florey naut þar kynna við málsmetandi menn frá fyrri dvöl sinni og varð allvel ágengt. Mestu máli skipti þó, að í Bandaríkjunum var þekkt aðferð (myndi nú vera kölluð líftækniaðferð) til þess að rækta Penicillium-sveppi á hliðarafurð úr maís. Þetta leiddi svo til þess, að á árinu 1942 hófst stórframleiðsla á penicillíni bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Áður hafði þó heppnast að framleiða svo mikið penicillín í Oxford, að koma mætti að gagni við meðferð á flugmönnum, er særðust og sýktust eftir flugbardaga yfir London, og á hermönnum, er börðust á eyðimörkum Norðar-Afríku. Árið 1943 var penicillin framleitt í svo miklum mæli, að herir bandamanna fengu umtalsverðar birgðir af því. í striðslok varð penicillín svo aðgengilegt í fullum mæli við lækningar á óbreyttum borgurum (48). Og nú varð Fleming allt í einu frægur! Um þetta farast André Maurois svo orð: »Allt í einu kom frægðin til hins þögla Skota, þessi gyðja, sem oft ryðst á vettvang, þegar síst varir. Heilt syndaflóð bréfa steyptist yfir hann. Síminn þagnaði ekki frá morgni til kvölds. Ráðherrar, hershöfðingjar og blöð alls staðar að úr heiminum áttu við hann erindi. Hann furðaði sig á því, hló stundum, en naut þess og gleymdi aldrei að vekja athygli á þætti Floreys og Chains» (49). - Það var því mjög við hæfi, að þessir þrír menn hlutu sameiginlega Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði og læknisfræði árið 1945. Mynd 13 er af penicillíni í hettuglasi (»eins og það fluttist fyrst«)* í vörslu Rannsóknastofu í lyfjafræði. Erling Edwald (1921), fyrrum lyfsölustjóri, gekk frá glasi þessu og merkti það fyrir einum 20 árum og á heiðurinn að því, að það hefur varðveist. Um fyrstu notkun penicillíns hér á landi farast honum svo orð (26.10.87): »Ég hóf störf í Lyfjaverslun ríkisins 1. 2. 1944. Ég man fyrst eftir því, að penicillín væri notað hér á landi sumarið 1943. Þá um sumarið var ung stúlka með beinhimnubólgu meðhöndluð með penicillíni í bandarískum herspítala við Helgafell í Mosfellssveit. íslenskir Iæknar höfðu þá ekki aðgang að penicillíni. Lyfjaverslunin byrjaði að selja penicillín á árinu 1944. Haustið 1945 var orðið nóg af því hér». - Af þessu má marka, að penicillín hefur verið orðið íslenskum læknum * Penicillín mun þó allra fyrst hafa verid þurrefni í lykjum. aðgengilegt í einhverjum mæli þegar fyrir lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Áttu íslendingar það án efa að þakka veru breskra og bandarískra herja í landinu. Næstu ár hér á eftir voru gerðar merkar rannsóknir, er leiddu til þess, að farið var að vinna sýklalyf úr jarðvegsbakteríum. Ollu þau ásamt penicillíni (og síðar framleiddum sýklalyfjum) byltingu í meðferð smitsjúkdóma. Frumkvöðull þessara rannsókna var Selman Abraham Waksman (1888-1973), sem fæddur var í Rússlandi, en starfaði í Bandaríkjunum. Hann á heiðurinn af því að hafa fundið og innleitt streptómýcín árið 1944. Hann fékk Nóbelsverðlaunin árið 1952 (50). Segja má, að sýklalyf hafi eftir 1945 sett sífellt meira mark sitt á læknisfræði og svo hafi verið komið á tímabili, að læknar hafi ætlað þessum lyfjum að verka og lækna sjúkdóma langt um of. Ekki átti þetta síst við þau breiðvirku sýklalyf, er fyrst fylgdu í kjölfar penicillíns og streptómýcíns (tetracyklínsambönd, klóramfeníkól o.fl.). Skaut þar heldur betur skökku við tregðu eldri manna í læknastétt! Smám saman hefur læknum þó tekist betur að skilja til hvers sýklalyf eru og hvernig eigi að nota þau (m.a. vegna tilkomu sérfræðinga í smitsjúkdómum). Verður þvi að telja, að tekið hafi verið af skynsamlegu viti við flestum þeim sýklalyfjum, sem síðar hafa komið. Höfundur er þannig ekki í hópi þeirra, er gagnrýna vilja íslenska lækna einhliða fyrir að ávísa tilteknum sýklalyfjum í meira mæli en læknar í einhverju eða einhverjum nálægum löndum gera. Aðstæður geta verið svo breytilegar frá einu landi til annars, að af sölutölum einum saman verður trauðla ráðið, hvort tiltekin sýklalyf eru notuð um of eða van. Tímamót í meðferð berkla urðu 1952, þegar tekið var að nota ísóníazíð. Fáum árum síðar var tekið að nota fyrsta breiðvirka sýklalyfið (amfóterícín B), er dugði gegn alvarlegum og oft banvænum sveppasýkingum. Um 1960 var tekið að nota metrónídazól, sem skipti sköpum við meðferð á sýkingum af völdum amaba og fleiri frumdýra og enn síðar (upp úr 1970) við meðferð á sýkingum af völdum gramneikvæðra, loftfælinna baktería. Á árunum milli 1970-1980 má segja, að fyrstu veirulyfin (ídoxúrídín og vídarabín), sem nefna mætti því nafni, hafi orðið til fyrst og fremst sem eins konar hliðarafurð við rannsóknir á krabbameinslyfjum. Sérhæfni þessara lyfja er þó í raun lítil. Fyrst með tilkomu acýklóvírs 1981 má segja, að fundist hafi tiltölulega sérhæft veirulyf.

x

Læknablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.