Húsbyggingar og mannvirkjagerð 1945-1986 - 01.04.1988, Qupperneq 22
20
2.4 Breytingar á tilhögun skýrslugerðarinnar.
Hér að framan hefur nú verið lýst þeirri tilhögun á skýrslugerð
um húsbyggingar, sem fylgt hefur verið um langt árabil. Öllum sem
til þekkja er ljóst að einfalda mætti þessa skýrslugerð til muna, því
margt af þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun safnar nú frá
byggingarfulltrúum væri unnt að fá frá Fasteignamati ríkisins, sem
einnig fær frumgögn sín frá byggingarfulltrúum.
í því skyni að einfalda og samræma þessa skýrslugerð var í mars
1986 undirritað samkomulag um samstarf milli Þjóðhagsstofnunar,
Fasteignamats ríkisins og Húsnæðisstofnunar ríkisins. í því
samkomulagi felst ákveðin viljayfirlýsing aðila um miðlun upplýsinga
í því skyni að koma í veg fyrir tvíverknað.
Samkvæmt samkomulaginu er að því stefnt að söfnun frumgagna
færist alfarið til Fasteignamatsins og að aðilar samkomulagsins muni
framvegis standa sameiginlega að útgáfu tölfræðilegra upplýsinga um
fasteignir og húsnæðismál.
Hins vegar er ljóst að hjá því verður ekki komist að
Fasteignamatið geri nokkrar breytingar á skýrslusöfnun sinni ef hún
á að fullnægja þörfum Þjóðhagsstofnunar. í stuttu máli má segja að
veigamesta breytingin sé sú, að Fasteignamatið yrði að skrá fasteignir
jafnskjótt og teikningar hafa verið samþykktar og byggingarleyfi
veitt, en ekki aðeins þegar eignin er fokheld eins og aðalreglan er
nú. Byggingarstig hverrar fasteignar yrði síðan uppfært eftir því sem
framkvæmdum miðaði. Þannig þyrfti að fylgjast með byggingarsögu
fasteignar, ef svo mætti segja, eins og Þjóðhagsstofnun hefur raunar
gert, með því að fá frá byggingarfulltrúum árlega upplýsingar um
framkvæmdir við einstakar fasteignir. Þessi tilhögun á
upplýsingasöfnun Fasteignamatsins frá sveitarfélögunum er raunar
þegar komin á hjá sumum sveitarfélögum, eins og t.d. Reykjavík, en
af öðru tilefni. Þarfir einstakra sveitarfélaga og óskir um betri
hagskýrslur fara því saman.
Hér er einnig vert að benda á eitt atriði til viðbótar. Ef vel tekst
til við upplýsingasöfnun Fasteignamats ríkisins eftir byggingarstigum,
er kominn grundvöllur til mun nákvæmari verðlagningar en nú er á
fullgerðu húsnæði og húsnæði í smíðum og þar með á framkvæmdum
hvers árs. Ástæðan er sú að við umreikning framkvæmda til verðs
miðar Þjóðhagsstofnun nú við meðalverð á rúmmetra samkvæmt
byggingarvísitölu og ákveðin hlutföll af því verði, eins og lýst hefur
verið hér að framan. Þessi aðferð hlýtur að leiða til nokkurrar
ónákvæmni. En með því að verðleggja sérstaklega einstaka
byggingarhluta, eins og gögn Fasteignamatsins munu gefa tilefni til,
ætti verðlagningin hins vegar að nálgast byggingarkostnað á hverjum
tíma, eins og raunar er stefnt að.
*