Húsbyggingar og mannvirkjagerð 1945-1986 - 01.04.1988, Side 33
31
(d) Raunvextir (eða misgengi milli lánsfjár og fastafjár).
Hér á eftir verður fjallað um hverja hagstærð fyrir sig.
(a) Fólksfjölgun.
Sú staðreynd að fólksfjölgun er ekki jöfn og stöðug, eða m.ö.o. að
aldursárgangar eru misstórir, á sinn þátt í sveiflum í
heildareftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.
En fleira mætti nefna í þessu samhengi. í fyrsta lagi tíðarandann
eða "þjóðarsálina". Frá einum tíma til annars getur áhuginn á
íbúðarhúsnæði almennt verið breytilegur. í öðru lagi geta orðið
breytingar á meðalfjölskyldustærð til lengri tíma litið, og það getur
haft í för með sér breytingar á eftirspurn; t.d. þannig að þörf verði
fyrir minni og fleiri íbúðir. í þriðja lagi geta orðið breytingar á
búsetu með þeim afleiðingum að eftirspurnin vex á sumum stöðum
en dregst saman á öðrum. í fjórða og síðasta lagi geta lóðaúthlutanir
á viðkomandi stöðum sett byggingarframkvæmdum takmörk.
(b) Þjóðartekjur.
Þjóðartekjur hér á landi ráðast mjög af því hvernig árar í
sjávarútvegi, þ.e. hvort vel fiskast og hvort útflutningsverðlag er
hátt. Sú staðreynd að afkoma í sjávarútvegi sveiflast mjög vegna ytri
skilyrða hefur í för með sér að þjóðartekjur gera það einnig. Þessi
breytileiki á þjóðartekjum hefur líklega mikil áhrif á eftirspurn eftir
íbúðarhúsnæði, og þá þannig að hærri þjóðartekjur ýta undir meiri
eftirspurn og öfugt.
(c) Lánamöguleikar.
Eins og fram kom hér á undan hafa Byggingarsjóðir ríkisins, ásamt
lífeyrissjóðunum, gegnt veigamiklu hlutverki í fjármögnun
eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði. Hér skiptir því máli sú lánsfjárhæð
sem þessir sjóðir hafa til ráðstöfunar og hvernig sú fjárhæð hefur
þróast að raungildi á liðnum árum.
Hið opinbera mótar stefnu Byggingarsjóðanna, og getur því haft
veigamikil áhrif á heildareftirspurnina með því að ákveða þá fjárhæð
sem þessir sjóðir hafa til ráðstöfunar. Miklar breytingar milli ára á
raungildi þessara fjárhæða geta valdið verulegum sveiflum í
heildareftirspurninni eftir íbúðarhúsnæði í landinu. Þá er vert að
nefna í þessu samhengi, að hið opinbera getur einnig haft verulega
áhrif á samsetningu heildareftirspurnarinnar með ýmsum skilyrðum I
ráðstöfun lánsfjármagnsins.
Varðandi lífeyrissjóðina, þá er framlag til þeirra háð
atvinnutekjum í landinu eða þjóðartekjum, og vex því í samræmi við
það. Sama gildir því um það lánsfjármagn sem þeir hafa til
ráðstöfunar. Ekki er því að búast við miklum breytingum milli ára.
Þó hefur orðið veruleg kerfisbreyting nýverið, þar sem stór hluti af
ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna rennur nú til fjármögnunar á
lánastarfsemi Byggingarsjóða ríkisins.