Morgunblaðið - 18.11.2011, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 18.11.2011, Blaðsíða 12
12 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. NÓVEMBER 2011 BAKSVIÐ Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Íslenskt mál státar af sterkum og lýsandi fuglanöfnum eins og lesa mátti í frétt í blaðinu í vikunni um sjaldglæfa fugla. Bleiksvarri og blá- heiðir, sparrhaukur, sefþvari og skúmsöngvari, kúhegri og náttfari – allir voru þessir fuglar í sumarlegri forsíðufrétt. Fuglarnir eru vart lentir í fyrsta skipti á klakanum þegar farið er að tala um þá eins og kunningja á klingjandi ís- lensku. En hvað- an koma öll þessi nöfn og eigum við nöfn yfir alla fugla sem hingað berast? Nei ekki endilega, en ótrú- lega marga. Finnur Guðmundsson, fuglafræð- ingur og forstöðumaður Náttúru- fræðistofnunar, sem lést fyrir rúm- um 30 árum, er einn þeirra sem eiga heiður af þessum heitum. Einnig lagði hann grunn að ákveðnum reglum í þýðingu sinni á handhægri og aðgengilegri bók um fugla Íslands og Evrópu, sem kom út fyrir hálfri öld. Var alltaf með minnismiða í vasanum Margir aðrir hafa komið að því að finna íslensk heiti á dýr og fugla fyrr og síðar, m.a. menn eins og Jónas Hallgrímsson, Benedikt Gröndal, Bjarni Sæmundsson og á síðustu áratugum Óskar Ingimarsson svo einhverjir séu nefndir. Fuglanöfn hafa þróast með búsetu og í hverju byggðarlagi eru jafnvel til sérstök heiti á fuglum, sem heita allt annað hinum megin við fjallið. Ævar Petersen fuglafræðingur hefur kynnt sér þessa sögu og nefnir Finn Guðmundsson fyrstan til sög- unnar. „Finnur gerði átak í þessum efnum er hann þýddi og staðfærði Fugla Íslands og Evrópu sem út kom árið 1962,“ segir Ævar. „Hann hélt yfirleitt þeim heitum sem til voru á íslensku frá fyrri tíð, en önnur þurfti hann að þýða úr ensku. Auk þeirra fugla sem verpa á Ís- landi voru til nöfn á hinum og þess- um fuglum sem höfðu áður flækst hingað. Þá voru eftir 420 nöfn, sem Finnur þurfti að finna heiti á við þýð- ingu bókarinnar. Hann var vakinn og sofinn í þessu og var alltaf með miða í vasanum og skráði niður hjá sér ef honum datt eitthvað í hug.“ Hróflaði ekki við rótgrónum alþýðunöfnum Í formála að fuglabókinni fyrir hálfri öld fjallaði Finnur um þann vanda sem við var etja í íslensku þýð- ingunni og segir m.a.: „Þar var ekki um það að tefla, að velja úr nöfnum, sem fyrir voru, heldur var vanda- málið fólgið í skorti á íslenzkum fuglanöfnum. Úr þessu varð ekki bætt nema með smíði nýrra fugla- nafna, og telst mér til, að þau séu um 420 í þessari bók. Í beinu framhaldi af þessari nafnasmíði hef ég endur- skoðað rækilega þau íslenzk fugla- nöfn, sem fræðimenn hafa búið til á síðari tímum … Aftur á móti hef ég ekki hróflað við rótgrónum alþýðunöfnum á fugl- um, þótt þau stingi stundum í stúf við nöfn, sem notuð eru um skyldar teg- undir í þessari bók.“ Oft nefndi Finnur fuglana eftir einkennum þeirra; lit, hljóðum, útliti eða lifnaðarháttum. Enn þarf að finna heiti „Finnur leitaði víða fanga og sótti meðal annars í fuglaþulu Snorra- Eddu, en þar er getið um ýmsa fugla sem menn vita ekki deili á,“ segir Ævar. „Sum þessara heita heim- færði hann upp á þekktar tegundir. Hann reyndi að staðla nöfnin eins og hægt er, að minnsta kosti seinni hluta nafna. Svo dæmi sé tekið þá er svarri heiti á ákveðnum hópi fugla og síðan eru nokkrar tegundir skyldra fugla eins og bleiksvarri, sem Finnur nefndi, og grásvarri. Hann setti sér þá reglu að hafa aðeins eitt heiti á fuglunum, ekki tvíheiti. Þeir sem á eftir Finni hafa komið hafa reynt að halda í þetta sama kerfi. Það kemur ennþá fyrir að búa þarf til ný heiti, en þá styðjast menn við þá meginreglu Finns að skyldir fuglar hafa sama stofninn, en mis- munandi forskeyti,“ segir Ævar. Fann íslensk heiti á 420 fugla  Margir hafa lagt hönd á plóg við að nefna fugla á íslensku  Finnur Guðmundsson fuglafræðingur vakinn og sofinn við að finna heiti á fuglana  Studdist m.a. við fuglaþulu Snorra-Eddu Morgunblaðið/Brynjar Gauti Lending Hrossagaukur hefur mátt sætta sig við ýmis nöfn, meðal annarra mýrispýta, mýrarskítur og snípa. Ævar Petersen Morgunblaðið/Kristinn Benediktsson Geirfugl Í kjölfar landssöfnunar var „síðasti“ geirfuglinn sleginn Nátt- úrugripasafni Íslands á uppboði í London 4. mars 1971. Á myndinni er dr. Finnur Guðmundsson með fugl- inn við komuna til landsins. Finni hefur eflaust oft verið vandi á höndum við val á heitum fugla. Ævar Petersen nefnir sem dæmi að upp úr aldamótunum 1900 byrj- aði að sjást hér fugl sem núna er þekktur sem sílamáfur. Lengi vel var hann kallaður litli svartbakur því margir áttu erfitt með að greina hann frá svartbak, þótt hann sé talsvert minni. „Finni fannst alveg vonlaust að hafa tvínefni á fuglum og heitið grábakur var notað af einhverjum um tíma. Einnig var hann kallaður sæðingur og litla veiðibjalla og svo var talað um síldarmáf, en ekki þótti það heldur alveg nógu gott. Þegar bókin Fuglar Íslands og Evr- ópu kom út var heitið orðið síla- máfur og ég veit ekki til þess að reynt hafi verið að hrófla við því heiti síðan.“ Ævar nefnir einnig keldusvín, sem sums staðar var kallað lækjakráka eða jarðsmuga. „Finn- ur reyndi að nota íslensk nöfn og þess vegna höfum við keldusvín þótt fuglinn eigi ekkert sameigin- legt með svínum nema nafnið. Þetta er í raun vonlaust nafn, en Finni fannst jafnvonlaust að breyta þessu heiti sem hafði verið notað lengi í málinu. Hann kallaði hins vegar tegundir sem skyldar eru keldusvíni rellur og tengir heiti þessara fugla, sem eru mikið í vot- lendi, við lifnaðarhætti þeirra. Þannig höfum við engirellu og sorarellu, en ekki keldurellu.“ Oft vandi á höndum SÍLAMÁFUR OG SÆÐINGUR, KELDUSVÍN OG LÆKJAKRÁKA Keldusvín. Una Sighvatsdóttir una@mbl.is Þrátt fyrir að Ísland sé að mörgu leyti til fyrirmyndar þegar kemur að rétt- indum barna er ýmislegt sem upp á vantar og hefur verið vanrækt. Má þar m.a. nefna nauðsyn þess að tryggja með lögum að börn í varð- haldi séu aðskilin frá fullorðnum, en fyrr er ekki hægt að binda Barnasátt- mála Sameinuðu þjóðanna í lög. Framkvæmd Íslands á barnasátt- málanum var nýlega tekin fyrir af sérfræðinganefnd SÞ í réttindum barna í Genf og setti hún fram ýmsar tillögur að umbótum. Að sögn Höllu Gunnarsdóttur, sem fór fyrir íslensku sendinefndinni, lýsti barnaréttar- nefnd SÞ almennri ánægju með þró- un mála á Íslandi og sagði jafnframt að líta mætti til Íslands sem nokkurs konar tilraunastofu þegar kæmi að réttindum barna. Í málaflokkum sem snerta allt frá brjóstagjöf og snuðanotkun, offitu ungmenna og aðgengi innflytjenda- barna að heilbrigðisfræðslu þótti hins vegar ástæða til að lýsa áhyggjum og mælast til úrbóta. Mikill niðurskurður vegna efna- hagsástandsins er nefndinni sérstakt áhyggjuefni og bendir hún á að hlut- fall barnafjölskyldna undir lágtekju- mörkum hafi aukist. Í ljósi þess efna- hagsbata sem hefur náðst frá árinu 2010 mælist nefndin til þess að stjórn- völd dragi til baka niðurskurð til menntunar- og heilbrigðiskerfisins og auki fjárveitingar til atvinnusköpun- ar, stuðnings við einhleypa foreldra og almannatrygginga. Þá ítrekar nefndin fyrri tilmæli sín um að Ísland falli frá fyrirvara við 37. grein barnasáttmálans þar sem segir að ungmenni sem þurfa að sæta fang- elsisrefsingu séu aðskilin frá fullorðn- um föngum. Nefndin benti líka á að ekki sé til staðar einfalt kerfi fyrir börn að leggja fram persónulegar kvartanir og leggur til að Umboðs- manni barna verði gert kleift að taka að sér slíkt hlutverk. Aðgerðaráætlanir orðin tóm Barnaheill á Íslandi, Mannrétt- indaskrifstofa Íslands og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi gagn- rýna að undanfarin ár hafi aðgerðar- áætlanir um barnavernd verið gerðar en þeim ekki fylgt eftir. Samtökin telja nauðsynlegt að strax verði hafin vinna við nýja að- gerðaráætlun þar sem tekið verði fullt tillit til þeirra athugasemda sem barnaréttarnefnd SÞ setur fram. Í lok þessa árs rennur út áætlun um aðgerðir til að bæta stöðu barna og ungmenna á Íslandi. Barnaheill, Barnahjálp og Mannréttindaskrif- stofan benda á að enn hafi aðeins lítill hluti hennar komist til framkvæmda og hvetja til þess að gerð verði tíma- sett áfangaáætlun sem tilgreini hvernig og hvenær hrinda skuli ein- stökum aðgerðum í framkvæmd. Ábendingar um kjör barna ítrekaðar  Stjórnvöld framfylgja ekki aðgerðaáætlunum  Fjöldi barnafjölskyldna undir lágtekjumörkum áhyggjuefni  Hætt verði við niðurskurð  Ísland engu að síður til fyrirmyndar í réttindum barna Sundlaugaleikir Staða barna á Íslandi er góð en ýmislegt má þó betur fara. Önnur tilmæli barnaréttarnefndar SÞ » Gera þarf ráðstafanir til að mæta þörfum barna með sér- þarfir. Áhyggjuefni er að niður- skurður komi niður á þeim. » Nefndin hefur áhyggjur af stöðu innflytjendabarna, bæði brottfalli þeirra úr framhalds- skóla og að þau verði útundan í heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna tungumálaörðugleika. » Þrátt fyrir að offita barna og ungmenna hafi minnkað er hún enn talin áhyggjuefni. » Mikill fjöldi þungana og fóstureyðinga meðal stúlkna undir 18 ára aldri er áhyggjuefni að mati nefndarinnar, sem telur að auka þurfi vitund íslenskra unglinga um kynheilbrigði.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.