Morgunblaðið - 19.12.2011, Page 36

Morgunblaðið - 19.12.2011, Page 36
36 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. DESEMBER 2011 Gunnlaugur Björnsson Í Sögu tímans leitaðist Hawking við að útskýra fyrir almennum lesanda nútíma heimsfræði, sér í lagi kenn- inguna um Miklahvell. Athygli vakti aðgengileg umfjöllun hans um tæknilega þætti kenningarinnar án þess að grípa þyrfti til stærðfræði sem ugglaust hefði fælt marga les- endur frá. Hawking gat þó ekki stillt sig um að vísa einu sinni í E=mc2, en útgefandinn hafði sagt honum að hver formúla í textanum myndi helminga lesendafjöldann. Bókin varð geysivinsæl og seldist í millj- ónum eintaka um allan heim. Hún kom fyrst út á íslensku árið 1993 hjá Hinu Íslenska Bókmenntafélagi. Skipulag alheimsins er á vissan hátt framhald Sögu tímans, því enn er umfjöllunarefnið upphaf alheims- ins, gerð hans og þróun. Megin- áherslan er nú á upphafið og hvernig framfarir tveggja undangenginna áratuga í háorkueðlisfræði geta varpað ljósi á fyrstu augnablikin í sögu alheimsins. Það verður að segj- ast eins og er að niðurstaðan er lík- leg til að koma almennum lesanda verulega á óvart. Gerð alheimsins Bókin rekur hugmyndir manna um uppruna og gerð alheims frá dögum Forn-Grikkja, til Newtons, Einsteins og fram á okkar daga. Þessar hugmyndir eru settar fram á skemmtilegan og auðskiljanlegan hátt. Gerð er grein fyrir nýlegum til- raunum manna til að setja fram eina heildstæða kenningu sem nær yfir alla krafta eðlisfræðinnar, kjarna- kraftana, rafsegulkraftinn og þyngdarkraftinn. Slík samþætting hefur um nokkurt skeið þótt vera eitt mikilvægasta verkefni nútíma eðlisvísinda, en hægt hefur miðað því bæði er þetta flókið og tæknilega erfitt því ekki er einu sinni víst að stærðfræðin sem nota þarf sé til! Vandinn felst einkum í því að spyrða saman skammtafræðina sem lýsir smæstu einingum efnisins og almennu afstæðiskenninguna sem fjallar um hegðun stórra hluta eins og stjarna og vetrarbrauta og raun- ar alheiminn í heilu lagi. Hawking og Mlodinow gera skýra grein fyrir þessu í bókinni þó svo að einhverjum kunni að þykja umfjöllunin stutt- araleg á köflum. Ekki verður heldur hjá því komist að einfalda lýsinguna í svona almennri framsetningu. Höf- undum tekst það vel og þeir grípa hvergi til stærðfræðilegrar fram- setningar enda er ekki eina einustu formúlu að finna í bókinni. Höfundarnir taka dæmi úr dag- legum reynsluheimi til að koma hug- myndunum til skila, en þegar kemur að lýsingu skammtafræðinnar á hegðun smásærra einda verður erf- itt um vik því þangað nær reynslu- heimur manna ekki. Að líkindum verkar því sýn Feynmans á veru- leika skammtafræðinnar mest fram- andi á lesandann en hún er lykillinn að því sem á eftir kemur enda heil- um kafla varið í að útlista þá sýn. Innsæið sem sýnin veitir hefur getið af sér margar forspár um eiginleika skammtafræðilegra kerfa sem hafa verið staðfestar með mikilli ná- kvæmni í tilraunum. Alheimurinn ekki einn Niðurstaða Hawking og Mlodinow er að svokölluð M-kenning sem sprottin er úr strengjafræði gefi besta lýsingu á alheimi og tilurð hans. Raunar er þar um að ræða flokk kenninga sem beita má hverri um sig til að lýsa afmörkuðum eig- inleikum alheims. Saman gefa þær svo heildarmynd af alheimi. Enginn veit reyndar hversu góðar þessar kenningar eru því ekki hefur tekist að nýta þær til forspár sem unnt er að sannreyna með mælingum, en það er aðall góðra eðlisfræðikenn- inga. Því eru skiptar skoðanir meðal eðlisfræðinga um ágæti M- kenninganna, en það dregur ekki kjarkinn úr þeim félögum. Ef niðurstaða þeirra er rétt, þá er ein afleiðing þess að beita M- kenningu í heimsfræði sú að alheim- urinn er ekki einn! Alheimarnir eru svo margir að venjulegt fólk myndi kalla þá óteljandi þó þeir séu það ekki. Í heimsfræði kallast þetta fjöl- heimur, en hann er safn alheima og við búum í einum af ótalmörgum slíkum. Engir tveir alheimar eru al- veg eins og líf eins og við þekkjum það þrífst einungis í heimum af réttri og heppilegri gerð. Lýsingin á fjölheimi og því hvernig alheimar verða til og þróast er ágætlega skil- merkileg. Það hefur lengi vafist fyrir heims- fræðingum að útskýra tilurð og til- vist tímans. Í útgáfu Hawking og Mlodinow var tíminn ekki til á upp- hafsaugnablikum alheimsins, því ástand hans var þá þannig að hann hafði fjórar rúmvíddir. Í Miklahvelli umbreyttist svo ein rúmvíddin í tíma og hið fjórvíða tímarúm varð til. Þetta er mjög snjöll tilgáta því fram til þessa hefur vafist fyrir mönnum að útskýra hvernig á því stendur að tíminn geti verið nátengdur rúminu en samt verið gerólíkur því. Með þessari tilgátu hefur spurningin um hvað var á undan Miklahvelli ekki merkingu því tíminn var þá ekki til. Lokaniðurstaða þeirra félaga er sú að lýsing M-kenninga á uppruna og þróun alheims sýni að þyngdar- krafturinn í nánu samspili við skammtafræði á upphafsaugnablik- unum dugi til að skýra tilvist hans. Ekki þurfi aðra eiginleika til og „guðleg forsjón“ eða handayfirlagn- ing sé með öllu óþörf. Vakti þessi niðurstaða nokkurt umtal þegar bókin kom út haustið 2010, enda hafði Hawking endað Sögu tímans á því að ýja að slíkri yfirlagningu við sköpun heimsins. Mun vekja spurningar Það er ánægjulegt að bókin skuli nú komin út í íslenskri þýðingu þeirra Baldurs og Einars. Þýðingin er lipurlega unnin og kemur upphaf- legum stíl höfundanna vel til skila. Stíllinn er að vísu stundum dálítið strembinn eins og efnið, en þýðingin leysir alltaf vel úr því, líka í torsótt- ustu köflunum. Upphaflegar myndir prýða bókina flestar í lit, en þær gefa bókinni aukið gildi. Það er þó örlítill ljóður á að á nokkrum mynd- anna hafa áletranir ekki verið þýdd- ar. Það ætti þó ekki að koma að sér- stakri sök, en hefði verið betra fyrir heildarsvip bókarinnar. Umbrot bókarinnar er keimlíkt upphaflegu útgáfunni og prentvillur fann ég fá- ar. Greinilegt er að mikil vinna hefur verið lögð í allan frágang og próf- arkalestur. Það er gleðilegt að ráðist skuli í þýðingu og útgáfu alþýðlegrar bókar um efni sem er í fylkingarbrjósti rannsókna í nútíma eðlisfræði. Það gerist því miður alltof sjaldan í ís- lenskri bókaútgáfu. Efnið er hvorki einfalt né auðmelt en er hér útskýrt á aðgengilegan hátt. Það mun ef- laust vekja margar spurningar með- al lesenda um uppruna og gerð al- heims og hvort hann geti virkilega verið eins og honum er þarna lýst. Verði það raunin er tilgangi útgáf- unnar náð. Þá er hinn almenni les- andi kominn í spor vísindamannsins sem sífellt spyr sig hver geti verið einfaldasta og besta útskýring þess fyrirbæris sem hann er að rannsaka hverju sinni. Tilurð tímans, tilgátan um fjölheim og skipulag alheimsins Óravíddir Alheimurinn er viðfangsefni heimsfræðinnar. Kenningar hennar eru í stöðugri þróun. Sköpunin Hawking fjallar um sjálfsprottna alheima í bókinni.  Skipulag alheimsins eftir Stephen Hawking og Leonard Mlodinow er komin út á íslensku  Eins konar framhald Sögu tímans, metsölubókar Hawkings  Fjallar um sjálfsprottna alheima Undur veraldar Í Skipulagi alheimsins er fjallað um fjölheimstilgátuna. Ljósmynd/Hubble Höfundur er vísindamaður við Háskóla Íslands

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.