SunnudagsMogginn - 12.02.2012, Qupperneq 36
36 12. febrúar 2012
Matreiðslubókin Eldum sam-an eftir Guðmund Finn-bogason heimilisfræði-kennara í Laugarnesskóla
inniheldur 43 rétti sem allir krakkar eiga
að geta eldað. „Ég valdi uppskriftir sem
ég veit að ganga vel í krakka. Þetta er
bara venjulegur matur. Ég er alltaf að
hvetja fólk til að leyfa börnunum að vera
með í eldhúsinu hversdags þannig að
þetta sé bara hluti af þessu daglega
amstri. Þess vegna vildi ég bara velja
hefðbundnar uppskriftir,“ segir Guð-
mundur sem vill að foreldrarnir noti
matarundirbúninginn sem samveru-
stund og kenni börnunum sínum í leið-
inni að borða og elda venjulegan mat.
Hann segir uppskriftirnar hafa flestar
verið „prófaðar mjög oft með börnum“
og margar myndanna í bókinni eru enn-
fremur teknar af réttum sem voru eld-
aðir með börnum.
Eldum saman fékk hin alþjóðlegu Go-
urmand-verðlaun í flokknum besta
barna- og fjölskyldumatreiðslubókin frá
Íslandi árið 2011 en bókin kom út hjá
Uglu í fyrra.
„Það var gaman að fá þessa við-
urkenningu en það er skemmtilegast
þegar nemendurnir mínir koma til mín
og segja frá afrekum sínum í eldhúsinu
heima, hvort sem þeir hafa eldað úr
þessari bók eða ekki,“ segir hann.
„Börnum finnst spennandi og gefandi
að elda og það á að rækta þetta hjá þeim
með öllum ráðum. Ég hugsa þetta svolít-
ið sem framhald af heimilisfræðinni,
heimilisfræðin færð heim. Bókin er líka
hjálpartæki fyrir foreldrana,“ segir hann
en í byrjun bókarinnar er bréf stílað á
mömmu og pabba og nokkur ráð handa
þeim foreldrum sem eru að byrja að elda
með börnum sínum.
Skýringarmyndir og ítarefni
Til viðbótar er í bókinni fróðleikur um
mat og uppruna hans, skýringarmyndir
og ítarefni um borðsiði og matreiðslu.
„Aukaupplýsingarnar eru svona
krydd. Mér finnst gaman að lesa viðbót-
arupplýsingar í matreiðslubókum sem
færa mann nær matseldinni,“ segir Guð-
mundur, sem gætti sín á því við skrift-
irnar að tala ekki á neinn hátt niður til
krakkanna. „Þetta eru svo klárir krakkar
og það þarf ekki að forheimska svona
efni. Stundum er gengið of langt í því og
hlutirnir gerðir of barnalegir,“ útskýrir
Guðmundur, sem hefur frétt af fólki á
þrítugsaldri sem hefur fengið bókina í
gjöf. „Þetta er matreiðslubók fyrir ungt
fólk. Krakkar í fyrsta bekk eru að gera
ótrúlega hluti sem foreldrarnir verða al-
veg steinhissa á. Þetta snýst um hvort
við séum tilbúin að hjálpa þeim, þá geta
þau gert hvað sem er.“
Krakkasushi og kransakökur
Guðmundur hefur jafnframt staðið fyrir
vinsælum matreiðslunámskeiðum fyrir
börn og kennara síðustu misseri og
heldur úti síðunni Matreiðslunám-
skeið.is.
Síðan var tekin í gegn nýlega og Guð-
mundur hefur ennfremur bætt úrvalið
og reynir að hafa eitthvað í boði árið um
kring fyrir bæði börn og fullorðna. Næst
á dagskrá er til dæmis bæði sushi-gerð
fyrir börn með fullorðnum og líka
kransakökunámskeið þar sem ferming-
arbarnið hjálpar foreldri við kökugerð-
ina fyrir veisluna.
Meðfylgjandi uppskriftir eru allar úr
bókinni en þar er líka að finna upp-
skriftir að pitsum og pasta, salati og
sætabrauði svo eitthvað sé nefnt.
Morgunblaðið/Ernir
Krydd í
samveruna
Börnum finnst spennandi og gefandi að elda,
segir Guðmundur Finnbogason heimilisfræði-
kennnari og höfundur matreiðslubókarinnar
Eldum saman.
Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is
„Krakkar í fyrsta bekk eru
að gera ótrúlega hluti
sem foreldrarnir verða al-
veg steinhissa á,“ segir
heimilsfræðikennarinn.
Matur
6-8 bollur
Gulræturnar í bollunum halda þeim rökum í
langan tíma, þær geymast því vel. Best er
að baka stóran skammt af þeim svo að þær
endist eitthvað. Þær eru nefnilega ekki
bara ótrúlega hollar heldur líka algjört
nammi. Prófaðu þær með smjöri og osti
eða góðri sultu.
Hráefni
1 dl rifnar gulrætur
1 og ½ dl heitt vatn
1dl súrmjólk
3 tsk. þurrger
½ tsk. salt
2 tsk. hunang
3 msk. olía
1 dl hveitiklíð
5-6 dl hveiti
Áhöld
Skál
Sleif
Rifjárn
Mæliskeiðar
Desilítramál
Ofnplata með bökunarpappír á
Aðferð
1. Mældu vatn og súrmjólk í skál.
2. Bættu geri, salti, hunangi og olíu saman
við.
3. Skolaðu og hreinsaðu gulræturnar. Rífðu
þær með rifjárni og leggðu til hliðar.
4. Bættu gulrótum, hveiti og hveitiklíði
saman við en skildu eftir 1 dl af hveiti.
5. Hrærðu vel saman, ef deigið er blautt má
nota hveitið sem þú geymdir en annars
skaltu nota það þegar þú ferð að hnoða
deigið.
6. Hnoðaðu deigið aðeins í skálinni en
settu það svo á borðið og hnoðaðu þar
þangað til deigið
er orðið mjúkt og sprungulaust og losnar
vel frá hendi og borði.
7. Skiptu deiginu í 6-8 jafnstóra hluta. Rúll-
aðu bollurnar í höndunum þangað til þær
eru mjúkar
og kúlulaga.
8. Settu bollurnar á plötu með góðu bili á
milli. Breiddu rakt viskastykki yfir og leyfðu
bollunum að standa og hefast í 15-20 mín-
útur.
9. Settu bollurnar í kaldan ofn en stilltu
hann á 200°C og bakaðu í 20-25 mínútur.
Með því að setja bollurnar í kaldan ofn gef-
urðu gerinu tækifæri til að lyfta deiginu á
meðan ofninn er að hitna upp fyrir 60°C. En
eftir það deyr gerið og hættir að lyfta deig-
inu.
Besta leiðin til að skipta deiginu er að búa
til lengju sem þú skiptir í miðjunni. Lengj-
unum tveimur getur þú svo skipt aftur í
miðjunni og svo einu sinni enn. Þá hefur þú
átta jafnstóra hluta.
Gulrótarbollur
Ljósmyndir/Finnur Ólafsson Thorlacius