Morgunblaðið - 12.06.2012, Side 28

Morgunblaðið - 12.06.2012, Side 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. JÚNÍ 2012 Ég man hvað ég var alltaf spennt að fara austur. Ég gat varla sofnað kvöldið áður yfir spenningi að koma til Eskifjarð- ar og hitta þig, elsku amma mín. Ég man alltaf eftir ömmulyktinni sem tók á móti manni og þegar maður kom inn. Það var svo gott að setjast í fangið á þér og þú ruggaðir mér fram og til baka og hummaðir Fyrr var oft í koti kátt. Það var alltaf gestagangur og að sjálfsögðu tókstu það ekki í mál að nokkur maður færi svang- ur út frá þér, enda var allt fullt af kökum og kexi sem þú minntir alla á. Ég gat endalaust horft á þig leggja kapal, svo spilaðir þú auðvitað lönguvitleysu við mig þegar ég bað um, og það tím- unum saman. Það verður skrítið að koma austur og sjá þig ekki sitjandi á þínum vanalega stað heklandi, með útvarpið í gangi og jafnvel syngjandi með. En nú ertu komin til afa og Ágústu og það huggar mig að hugsa til þess. Þú ert besta amma sem nokk- ur gæti hugsað sér og ég mun sakna þín. Ég elska þig, amma. Þín Valgerður. Elsku amma. Ég var á Keflavíkurflugvelli þegar ég fékk fréttirnar. Nýlent frá Svíþjóð á miðnætti á fimmtu- dagskvöldi. Á leiðinni hafði ég verið að hugsa um allt sem ég ætlaði að gera í sumar, ekki búin að hitta neina vini og ættingja frá því um jólin og hlakkaði því mikið til að hitta alla. Koma austur í júlí og sitja og spjalla í bláa eldhús- inu þínu, reyna að múta þér til að koma í kvöldmat með því að bjóða þér á rúntinn fyrst, troðast með allri familíunni út í kofa í garðinum þínum bara því það er svo kósí. Ekki datt mér í hug að ég myndi hitta þig strax þetta sama kvöld – til að kveðja. Mér finnst alltaf jafn gaman að segja fólki söguna af því þegar við vorum í Noregi, ég var 15 ára og að segja við mömmu að mig langaði í tattú. Hún hneykslaðist auðvitað á því og harðbannaði það en þú tókst svo vel í það, meira að segja stakkst upp á hvernig mynd og hvar ég ætti að fá mér. Svipurinn á mömmu var ómótstæðilegur. Ég þreyttist aldrei á að segja fólki hvað ég ætti frábæra og skemmtilega ömmu og hvað þú værir fyndin, hvað þú flissaðir alltaf krúttlega að dónabröndur- um, hvað mér fannst alltaf jafn skondið að heyra þig segja „ekki rassgat“ þegar ég spurði hvað væri að frétta. Ég er svo montin og stolt af að hafa átt þig fyrir ömmu. Þín Tinna. Arnheiður Halldórsdóttir ✝ ArnheiðurHalldórsdóttir fæddist á Hlíð- arenda, Eskifirði, 15. október 1926. Hún lést á hjarta- deild Landspítalans við Hringbraut 31. maí 2012. Arnheiður var jarðsungin frá Eskifjarðarkirkju 11. júní 2012. Elsku amma Adda er skyndilega farin frá okkur. Það var alltaf jafngaman að koma á Eskifjörð í heim- sókn til ömmu. Að reka upp hurðina á bílnum og hlaupa af stað í áttina að Jaðri. Opna hliðið og dást að fallega garðinum sem amma sinnti á sinn rómaða hátt. Upp tröppurnar og inn. Á móti okkur lagði oftar en ekki mat- arilm og úr hennar húsum fór svo sannarlega enginn svangur. Hún átti sinn uppáhaldskrók í eldhús- inu bláa þar sem við vissum alltaf af henni. Oftast var einhver úr nágrenninu í heimsókn og sat á móti henni við litla borðið undir stiganum. Amma þekkti alla, það var bara þannig. Amma tók alltaf á móti okkur opnum örmum, með bros á vör. Eftir að hafa heilsað henni, knús- að og kysst og spjallað smá héld- um við rakleitt inn í stofu og það- an upp á loft. Alls staðar var eitthvað nýtt og spennandi að finna, sjá og skoða. Á loftinu voru gömul leikföng og endalaust af hekluðum dúkkum sem hún var svo lagin við að gera. Enn meira átti hún af dúkkum í búrinu handan við eldhúsið. Lína Lang- sokkur, Gosi, Knoll og Tott – öll áttu þau griðland hjá ömmu. Amma hafði einstakt lag á því að koma fram við okkur barna- börnin stór og smá eins og jafn- ingja, segja okkur sögur, sýna okkur bréf, teikningar, föt eða annað sem við höfðum skilið eftir og hún passað og geymt á vísum stað. Hún var óspör á tíma sinn og eyddum við oft löngum stundum í að spila saman lönguvitleysu. Hún mat mikils ýmsa hluti sem öðrum fannst ekkert til koma eða jafnvel tóku ekki eftir. Hún hafði mikið dálæti á litum og var blár í sérstöku uppáhaldi. Það var eins og í ævintýri að vera hjá ömmu. Við eigum fjöldann allan af dásamlegum minningum um hana sem munu lifa með okkur um ókomin ár. Það hefur verið ómetanlegt að eiga hana að. Elsa Ýr Bernhardsdóttir, Gauti Nils Bernhardsson. Arnheiður Halldórsdóttir eða amma á Eskifirði eins og ég kall- aði hana alltaf er farin. Ég man ekki eftir einu einasta augnabliki sem mér leiddist hjá þér. Það var svo margt að skoða og tala um. Það tæki allt of lang- an tíma að rifja upp allar okkar góðu minningar. Ég man hvað mér fannst gaman að hlusta á þig tala um allt á milli himins og jarðar, frá steinum til stjórn- mála. Mér finnst ennþá óraunveru- legt að þú sért farin. Fyrir tveim vikum kvaddi ég þig á Jaðri, hús- inu þínu á Eskifirði, með bros á vör áður en ég tók flugið suður og fyrir einni viku og þrem dög- um kom ég á spítalann og þú varst hress og kát að sjá okkur. Eitt af því sem mér fannst hvað ótrúlegast var hvað þú gast gert allt, jafnvel þótt þú sæir lítið sem ekki neitt. Það var svo gaman, að á hverju ári var haldið kofakaffi, eða kofapartí eins og við kölluð- um það. Þá safnaðist öll nánasta fjölskyldan saman og settist í litla garðkofann þinn og við borð- uðum, spjölluðum og skemmtum hvert öðru. Ég spyr sjálfan mig að því hvað verði gert við húsið þitt, en ég vona að það verði geymt svo allir geti heimsótt Eskifjörð og minnst þín. Eitt er þó víst, að sumrin á Eskifirði verða aldrei eins án þín. Það vantar þig í stólinn þinn, með kaffibollann, spjallandi og bros- andi. Þín verður sárt saknað og minningin um þig mun alltaf lifa í hjörtum okkar. Nökkvi Nils Bernhardsson. Ég fæddist í húsi Arnheiðar ömmu minnar, Jaðri. Ég var skírð eftir henni og þar sem hún var alltaf kölluð Adda var ég það líka. Ég var mikið hjá ömmu. Þar var mitt annað heimili og því var ég oft kölluð Adda litla til að- greiningar frá Öddu stóru. Mig langaði ógurlega að verða sú stóra en því náði ég aldrei og eft- ir að ég komst til vits og ára sætt- ist ég fullkomlega við það. Raun- ar fannst mér ég alltaf vera lukkunnar pamfíll þegar einhver minntist á að ég líktist henni á einhvern hátt. Amma mín var nefnilega stórmerkileg og ein- stök kona. Hún hafði margs kon- ar hæfileika og áhugamál sem hún ræktaði eins og efni og að- stæður leyfðu hverju sinni. Ung að árum missti hún móður sína og síðar föður svo það kom aldrei til greina að ganga menntaveg- inn en sennilega hefði hún farið í einhvers konar listnám ef það hefði verið í boði. Hún hafði ein- lægan áhuga á og þörf fyrir að skapa og það gerði hún svo sann- arlega. Hún teiknaði og föndraði og saumaði og heklaði. Hún ark- aði líka upp um fjöll og firnindi og safnaði steinum sem hún sá úr alls kyns kynjamyndir og stund- um málaði hún andlit og fígúrur á steina og hellur. Ef hún sá eitt- hvað sniðugt einhvers staðar þá átti hún það til að skapa sína eig- in útgáfu á sinn einstaka hátt. „Það væri nú sniðugt að búa til svona úr þessu,“ var oft viðkvæð- ið. Einu sinni man ég að hana dreymdi að hún væri að ganga eftir götu og hitti alls konar fólk og lenti í alls kyns ævintýrum. Þegar hún vaknaði tók hún strimil úr reiknivél eiginmanns- ins og teiknaði upp götuna, svo þegar pappírsrúllan var dregin út birtist gatan og draumurinn ljóslifandi. Í annað skipti datt henni í hug að hekla dúkkur í líki Stjána bláa og vina hans, Stínu og Skipstjórans. Þær voru mjög flottar. Ótrúlegustu hugmyndir kvikn- uðu og þar sem aðrir sáu pípu- hreinsara og ómerkilega stein- hellu sá amma handleggi og andlit eða bara eitthvað allt ann- að. Sköpunarþráin bærði einnig á sér þegar kom að því að skipta um eldhúsinnréttingu eitt árið, hún einfaldlega hannaði hana al- veg eftir eigin höfði og undi sér síðan vel í fagurbláa eldhúsinu sínu. Þar var hægt að sitja heilu dagana, drekka kaffi og spjalla um daginn og veginn. Stundum sungum við amma líka hástöfum með útvarpinu eða einhverjum af diskunum hennar. Hún hlustaði mikið á Rás 2 og aðrar stöðvar sem henni þóttu hressandi, ég held að henni hafi fundist Rás 1 vera meira fyrir gamlingja. Löngu eftir að hún missti sjónina var hún enn að sjá fyrir sér hvernig hægt væri að búa til eitt- hvað sniðugt og hún hætti aldrei að hekla og stússa. Elsku amma mín missti aldrei móðinn, hún var þrjósk og hug- rökk, skemmtileg og ljúf og ég er stolt af henni. Stolt af því að bera nafn hennar, stolt af því að vera Adda litla. Arnheiður Árnadóttir. Í dag kveðjum við ljúfa og yndislega konu, hana Öddu ömmu okkar. Þegar við lítum til baka og horfum yfir farinn veg er eitt orð sem kemur helst upp í huga okkar, forréttindi, forrétt- indi að hafa alist upp í ást og um- hyggju ömmu sem hafði svo ótrú- lega mikil áhrif á æsku og uppvöxt okkar. Sem barn var æv- intýri líkast að vera hjá henni, njóta nærveru hennar, heimilis- ins og garðsins sem var undra- veröld fyrir hamingjusöm börn að leik. Þegar við tókum að full- orðnast horfðum við ekki ein- göngu upp til hennar heldur tók- um við hana til fyrirmyndar, nutum samvista við hana og hlustuðum áhugasöm á skemmti- legar sögur, sóttum í styrk á erf- iðum tímum og dáðumst að æðruleysi, jákvæðni, húmor hennar og þakklæti. Elsku amma gaf okkur svo mikið sem hefur verið ómetanlegt veganesti á lífs- leiðinni og fyrir það erum við æv- inlega þakklát. Nú ertu leidd, mín ljúfa, lystigarð Drottins í, þar áttu hvíld að hafa hörmunga og rauna frí, við Guð þú mátt nú mæla, miklu fegri en sól unan og eilíf sæla er þín hjá lambsins stól. Dóttir, í dýrðar hendi Drottins, mín, sofðu vært, hann, sem þér huggun sendi, hann elskar þig svo kært. Þú lifðir góðum Guði, í Guði sofnaðir þú, í eilífum andarfriði ætíð sæl lifðu nú. (Hallgrímur Pétursson) Þó svo leiðir okkar skilji að þessu sinni er það huggun okkar að vel verður tekið á móti þér á fallegum stað af fólki sem þér var svo kært. Við erum rík af falleg- um minningum sem við munum varðveita í hjörtum okkar um ókomna tíð. Elsku amma, takk fyrir allt sem þú færðir okkur, við elskum þig af öllu hjarta. Agla Heiður, Björn Ívar, Sara Hrönn og Birkir Örn. Elsku amma, það er erfitt að hugsa til þess að sætið þitt á Jaðri sé orðið autt. Að engin amma sitji lengur við eldhús- borðið og skipti á milli rása í út- varpinu, með dregið fyrir hálfan gluggann og jafnframt með ofn- inn í botni. Við systkinin rifjum upp ljúfar minningar úr bláa eld- húsinu, það var svo notalegt að sitja hjá þér og sötra mjólk með hvíta kremkexinu og spjalla um lífsins heima og geima, í steikj- andi hita. Þú varst besta amma í heimi, svo hlý og umhyggjusöm. Þú varst með stóran faðm og tókst vel á móti öllum, ungum sem öldnum, stórum sem smáum. Við erum þakklát fyrir að hafa getað komið til þín og eytt stundum með þér frá barnsaldri. Við systkinin komum til með að muna eftir þér ungri í anda og léttri í lund, ýmist að hekla eða prjóna, raulandi „Fyrr var oft í koti kátt“. Þessum stundum munum við búa að alla okkar ævi, þær eru okkur dýrmætar, en úr bláa eld- húsinu eigum við okkar kærustu minningar. Íris Hannah og Pétur Aron. Um yndislegu ömmu mína á ég ekkert nema góðar minning- ar. Það var alltaf svo gott að koma í heimsókn til hennar, það var sama hvaða skapi maður kom til hennar í, maður fór alltaf frá ömmu í góðu skapi. Alltaf sat hún í horninu sínu og sagði manni að fá sér eitthvað en aldrei fékk maður sér nóg að hennar mati. Við töluðum um allt milli himins og jarðar. Minning mín um hana verður alltaf hversu ljúf og góð hún var við alla og ef einhver bað um dúkku hjá henni var það allt- af sjálfsagt mál. Alltaf var hún hress, sama hvað. Þegar hún lær- brotnaði og þurfti að vera í Hulduhlíð í svolítinn tíma var hún jákvæð og bjartsýn. Hún átti líka einn flottasta garð landsins sem er skreyttur með alls konar skrauti. Ég gæti hreinlega ekki verið montnari af að hafa þekkt hana og átt hana að, hennar verð- ur sárt saknað. Ísar Tandri. Elsku Adda mín, það hrannast upp skemmtilegar og góðar minningar um þig. Ég vandi komur mínar til þín nánast á hverjum morgni í morgunkaffi þegar ég var ekki á sjó. Þar sast þú í þínum stól í bláa eldhúsinu þínu og tókst þátt í umræðunum. Það var alltaf skylda að ganga í ísskápinn og fá sér eitthvað með kaffinu. Það var alveg einstakt hvað þú hélst upp á gamla hluti og varð- veittir þá, einnig var gaman að því hvað þú varst heimakær, Jað- ar var þitt heimili og þar vildirðu vera. Oft sat ég eftir hjá þér eftir að aðrir voru farnir úr morgun- kaffinu, hafðir þú gaman af að ræða gamla tíma og oft spunnust þá skemmtilegar umræður. Þú varst alltaf svo jákvæð og smit- aðir í kringum þig og bræddir alla sem kynntust þér. Það var frábært að fylgjast með þér búa til dúkkur þegar maður sat hjá þér, þú sem hafðir afar litla sjón á seinni árum gerðir þetta nánast blindandi og prýða dúkkurnar þínar mörg heimili hér og þar um landið og reyndar erlendis líka. Þú varst mikið fyrir liti og ef við Agla vorum að versla einhvers staðar og sáum föt í sterkum lit- um hafði Agla oft orð á því að þetta væri nú eitthvað fyrir ömmu, sem passaði aldeilis fyrir þig. Það var líka svo gaman að gera eitthvað fyrir þig, hvort sem það var að skipta um ljósaperu eða skjótast út í búð, þú varst alltaf svo þakklát fyrir minnstu verk. Eins var það partur af jólun- um að koma heim til þín í kaffi um kvöldið, annað hefði ekki komið til greina. Það er mér minnisstætt að hann Ísar Tandri kallaði þig löngumömmu þegar hann var yngri og hafði hann al- veg sérstakt dálæti á þér og mun sakna þín mikið. Það er hálfskrýtið að fara ekki á morgnana í kaffi til þín, en það síðasta sem þú sagðir við mig var: „Þú manst svo hvernig á að hella upp á kaffi,“ og ég man al- veg þína uppskrift í kaffikönnuna hjá þér, elsku Adda. Ég veit að yndislegt fólk tekur nú á móti þér. Ég er heppinn að hafa fengið að kynnast þér, þú munt alltaf vera í hjarta mér. Hlynur Ársælsson. Við fráfall þeirra sem eru ná- inn hluti af lífi manns kemur það alltaf á óvart á einhvern hátt, þrátt fyrir að vera það eina sem er óumflýjanlegt í lífinu. Þannig var það þegar mágkona mín Arn- heiður Halldórsdóttir lést þann 31. maí. Vissulega hafði hún lengi verið nokkuð heilsuveil, en samt alltaf hress í bragði og áhugasöm um menn og málefni. Aldrei heyrðist hún kvarta yfir því hlut- skipti að vera nánast blind í nokkur ár, eða yfirleitt kvarta yf- ir nokkrum sköpuðum hlut. Þó hlýtur það að hafa verið þung- bært að geta ekki lengur sinnt eigin málum og hannyrðunum sem voru hennar líf og yndi, á því sviði hafði hún sérstaka hæfi- leika. Svo var hún afskaplega áhugasöm um garðinn sinn, sem vakti athygli allra sem framhjá fóru. Þar safnaði hún fallegum steinum og skemmtilegu smádóti á smekklegan hátt. Áður tíndi hún þessa fallegu steina upp um öll fjöll og var sérlega fundvís á þá. Þegar móðir þeirra systkin- anna á Hlíðarenda féll frá, aðeins rúmlega fertug, voru þau á ung- um aldri, hún næstelst og hvíldi ábyrgð og umsjón þeirra að stórum hluta á hennar herðum. Slíkt er ekki heiglum hent og stórt hlutverk fyrir stúlku innan við tvítugt, hefur krafist mikils þreks og þrautseigju. Arnheiður giftist miklum ágætismanni, Agli Karlssyni. Þau bjuggu allan sinn búskap á bernskuheimili hans, Jaðri, þar sem hún var til dauðadags. Vinnustaður Egils var í næsta nágrenni. Þangað áttu margir er- indi og ósjaldan tók hann menn með sér heim í eldhús, þar sem þeim var vel tekið, enda hefur stór kunningja- og vinahópur haldið tryggð við Arnheiði síðan Egill dó fyrir 18 árum. Hún átti líka trygga vini frá unga aldri sem hún ræktaði alla tíð góðan vinskap við. Það var þungbært áfall fyrir fjölskylduna þegar Ágústa, elsta dóttir þeirra Egils lést í slysi fyrir nokkrum árum frá eiginmanni og fjórum ungum börnum. Eflaust hefur það líka ýft upp sárin frá því að missa for- eldra og unga systur sína sem einnig dó af slysförum. En harm sinn bar hún Arnheiður í hljóði þá sem fyrr. Eftirlifandi börn þeirra Egils eru fjögur og eiga stórar og góð- ar fjölskyldur, eins og elsta dóttir hennar, Sólveig Kristmannsdótt- ir, sem hefur verið besta stoð og stytta móður sinnar alla tíð. Hún mat það mikils að eiga svo góða að og njóta einstakrar umhyggju og alúðar til hinstu stundar. Blessuð sé minning góðrar konu, og megi gæfan fylgja fólk- inu hennar um ókomin ár. Ragnhildur Kristjánsdóttir. Arnheiður föðursystir okkar átti langt líf að baki þegar hún lést 31. maí. Ekki alltaf blítt líf, en farsælt, flest var í föstum skorðum á Jaðri og þétt haldið utan um fjölskylduna. Arnheiður, eða Adda frænka eins og við köll- uðum hana, ól sinn aldur allan á Eskifirði og hefði eflaust kosið að þurfa ekki að yfirgefa heima- byggð sína til þess að kveðja jarðlífið. Þar var allt hennar. Adda tilheyrði hópi átta systk- ina og stórum ættgarði sem kenndur er við Högnastaði. Þau systkinin misstu á viðkvæmum tíma í lífi sínu bæði systur sína Guðnýju á fermingaraldri og unga móður sína, Sólveigu Þor- leifsdóttur, ári síðar. Þau þurftu mikið að hafa fyrir lífi sínu og til- veru þar sem bökum var snúið saman. Faðir þeirra, Halldór Árnason, afi okkar, var svipmikill sjómaður og útgerðarmaður og gerði sitt besta fyrir barnahóp- inn sinn á erfiðum tímum á með- an hans naut við. Systkinin báru ábyrgð hvert á öðru og urðu afar náin. Adda, sem var næstelst, tók ung við heimilishaldi og ábyrgð á yngri systkinunum þar sem hið yngsta var aðeins þriggja ára þegar móðurmissinn bar að. Að- stæðurnar reyndu á þau öll þótt ekkert þeirra kvartaði, hvorki fyrr né síðar. Systirin Geirþrúð- ur Rósa lést haustið 2009. Það var gott að alast upp á Hlíðarendanum á Eskifirði, á æskuslóðum pabba og systkina hans sem sum bjuggu þar líka ásamt stórum og lífsglöðum barnahópi. Milli okkar var og er sterkur strengur og frændsemin hefur alla tíð verið okkur dýr- mæt. Sum úr okkar hópi hafa kvatt þessa tilveru, aðrir búa enn heima á Eskifirði, og þótt aðrir séu fluttir burtu er taugin römm. Öll komum við heim reglulega, og rétt eins og að það var mikill missir að Agli, eiginmanni Öddu, þá verður Öddu saknað. Minn- isvarðarnir eru hins vegar marg- ir og varanlegir, góðar minningar um þau heiðurshjón munu seint mást. Ættingjum og afkomendum, og sérstaklega frændsystkinum okkar og fjölskyldum þeirra, vottum við samúð og vináttu. Kristín Aðalbjörg, Halldór, Björn, Sigrún og Guðmundur.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.