Morgunblaðið - 12.07.2014, Blaðsíða 25
25
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 12. JÚLÍ 2014
Listin og lífið Risastórt vegglistaverk minnir á að ástin elur af sér afkvæmi sem þarf að ýta áfram út í lífið.
Eggert
Aldinn að árum, við
70 ára starfslok safn-
manns er margs að
minnast. Ég sé fyrir
mér gömlu sveitina
mína undir Eyjafjöllum
fjölbyggða lífsglöðu
fólki, sveit sem var í
þann veginn að vakna
af svefni til nýrrar
menningar. Daglegt líf
bar um margt miðalda-
blæ. Þvínær allar athafnir voru
studdar áhöldum líkrar gerðar og á
landnámsöld. Baðstofan heima í Vall-
natúni var vettvangur starfs og
svefnhvíldar. Gamla kvöldvakan
stendur mér skýrt fyrir hugar-
sjónum. Það er líkt og rokkhljóð, urg
í kömbum og taktföst högg frá vef-
stól ómi mér enn í eyrum. Ég sé föð-
ur minn fyrir mér við að tæja hross-
hár, flétta reiptagl, bregða gjörð. Í
frambæ var mjólk komið í mat. Ung-
ur fékk ég það vökuverk að lesa hátt
af bók sögur og forn fræði. Stöku
sinnum kvað faðir minn rímur við
raust. Af honum nam ég gömlu Pass-
íusálmalögin sem sungin höfðu verið
í baðstofunni í Varmahlíð í æsku
hans undir aldamótin 1900.
Innan tektar átti ég hlutverk milli-
ferðadrengs. Mikil ábyrgð fylgdi því
að leiða heylestina heim í garð utan
af Holtsmýri. Ég man að æsku-
vinkona mín, Arnlaug Tómasdóttir
(1860-1944), tók þar oft á móti mér og
hún minnti mig stundum á það að
segja nú hátt og skýrt „ho, ho, ho,
ho“, er lestin var leidd frá garði.
Inn í þessa aldagömlu menningu
brýst svo ný atvinnu-
menning sem koll-
varpar öllu hinu gamla.
Vinnuáhöld aldanna
liðnu eru lögð til hliðar
og fyrir þeim liggur
ekkert annað en eyð-
ing. Ég byrjaði að
stinga við fótum. Árið
1937 gekk ég 16 ára
unglingur um stéttina á
nágrannabæ, Syðstu-
Grund, og sá þar þrjá
barkróka til kekkja-
flutnings hvíla við bæj-
arþil og bíða eftir að verða brotnir í
eldinn. Ég bjargaði einum frá báli og
það er sá eini sem ég hef fyrirfundið í
áratuga minjasöfnun. Um aldamótin
1900 voru þeir á hverju búi undir
Eyjafjöllum. Fyrsta minjagrip minn
fann ég 1935 í leikabúi barns í kál-
garðshorni, hjartalaga skreytt skrá-
arlauf með fangamarki og ártali
Anno 1812. Arnlaug vinkona mín
nefndi það hjartað hans Þórðar. Það
ætti að vera númer 1 í Skógasafni.
Í rúmshorni Laugu lúrði fegursti
listgripur Eyfellinga, skrautmálaður
og útskorinn kassi frá 1780, verk
Ámunda Jónssonar málara, gripur
sem mótaði hug minn í æsku til ástar
á list og menningu. Arnlaug ánafnaði
mér hann á banasæng.
Búsáhöldin gömlu voru mér ekki
lífvana hlutir, lítilsverðir að öllu held-
ur lifandi verur sem fleytt höfðu þjóð
minni bærilega heilli á húfi gegnum
gengnar aldir. Þar áttum við brýnar
skyldur að rækja. Góðri heilli höfðu
margir í bændastétt tilfinningu fyrir
þessu og því er Byggðasafnið í Skóg-
um auðugt af atvinnutækjum lands
og sjávar og listiðn er í engu gleymt.
Ég man glöggt er ég heimsótti Krist-
ófer Kristófersson bónda á Keldu-
núpi á Síðu í minjaleit. Hann brá sér
til bæjar er kveðjur höfðu fram farið,
kom aftur glaður í bragði, berandi
dýrindis bullustrokk, þann besta á
íslensku safni, og sagði: „Ég er lengi
búinn að bíða eftir því að hann kæm-
ist á safn.“
Svipað var upp á teningnum er ég
sótti heim Landeyinga í Rangár-
þingi, þar sem móðurætt mín stóð
föstum rótum. Á ættarsetrinu Gerð-
um fögnuðu bóndinn Geir Gíslason
og kona hans Þóranna Þorsteins-
dóttir mér fegins hugar og ég átti
frjálsa aðkomu að öllum geymslum.
Mjólkin átti nú greiða götu í Mjólk-
urbú Flóamanna á Selfossi. En
gömlu mjólkurílátin voru tryggilega
varðveitt, trog, trégyrtar mjólkur-
byttur, hleypiskyrnur, áttu gott at-
hvarf á geymslulofti. Þar fann ég vel
varðveitta skyrsíu ofna með vað-
málsvend, efnið hvítur togþráður.
Hún á engan sinn jafningja á Íslandi.
Hjá frænda mínum, Þorgeiri Tóm-
assyni á Arnarhóli, og konu hans,
Þóru Þorsteinsdóttur, var um auð-
ugan garð að gresja. Frá þeim flutti
ég „steðjann hans Þorgeirs Skorar-
geirs“ austur að Skógum, dýrgrip á
sínu sviði en jafnframt gott dæmi um
sterk tengsl byggðarinnar við fortíð
og sögu. Arnarhólsbaðstofan frá
1895 skartar í húsasafni í Skógum.
Ekki var alltaf völ sumra hinna
gömlu hluta, þeir farnir með öllu for-
görðum. Gömul kona, Snjólaug Jó-
hannesdóttir frá Skáldalæk í Svarf-
aðardal, kenndi mér að sauma skyr-
síl úr kýrhalahári í líkingu við þá
saumgerð sem Kristján Eldjárn
nefnir vattarsaum. Sílgrind smíðaði
ég eftir gamalli frá frænda mínum
Sigurjóni Sigurðssyni á Horni í
Nesjum í Austur-Skaftafellssýslu.
Fyrir atbeina Lofts Runólfssonar
bónda á Strönd í Meðallandi varð til
árið 2013 axarslíður í stað annars
sem glatast hafði þar á bæ og er ein-
stakur safngripur.
Byggðasafnið í Skógum er í raun
Þjóðsafn, vaxið frá því að vera ör-
verpi í kjallaraholu í Skógaskóla árið
1949 til þess að verða stærsta minja-
safn landsins utan Reykjavíkur.
Fram um 1990 virtist ég einn um
hituna við að setja upp sýningar þess
en var það ekki. Oft var engu líkara
en hlutir hefðu sál og sinni og tækju
af mér ráðin. Til mín var talað: „Hér
vil ég ekki vera, finndu mér stað þar
sem ég nýt mín betur.“
Hver sýning skyldi vera samræmd
heild þar sem ekkert stingur í augun.
Forsjónin skákar mönnum á tafl-
borð lífsins og ætlar þar hverjum og
einum ákveðið hlutverk. Mitt hefur
verið „að morra við að marka og
draga á land“ minjar gamallar þjóð-
menningar sem ella hefðu farið for-
görðum og færa í, að ég vona, öruggt
hæli, komandi kynslóðum til fróð-
leiks og fagnaðar. Þar hafa margar
hjálparhendur, margir hlýir hugir átt
hlut að verki. Samfélagið hefur látið í
té þann stuðning sem sköpum skipti.
Aldrei get ég þakkað að fullum
verðleikum hinni gömlu kynslóð sem
leiddi mig fyrstu fetin og gaf mér ást
sína og menningu sem ég bý að til
dagsins í dag.
Ég óska Félagi íslenskra safna og
safnmanna til hamingju með safna-
daginn 2014 og fagna öllum þeim
heillasporum sem stigin hafa verið til
hagsbóta minjavernd Íslands.
Eftir Þórð
Tómasson » Oft var engu
líkara en hlutir
hefðu sál og sinni og
tækju af mér ráðin.
Til mín var talað:
„Hér vil ég ekki vera,
finndu mér stað þar
sem ég nýt mín betur.“
Þórður Tómasson
Höfundur er safnvörður í Skógum.
Horft til baka um farinn veg
Kistill Skrautmálaður kassi frá 1780, verk Ámunda Jónssonar málara.
Í lok síðasta árs fól ég
Þóri Guðmundssyni að
greina skipulag og fyrir-
komulag þróunarsam-
vinnu, friðargæslu og
neyðar- og mannúðar-
aðstoðar Íslands með
það í huga að gera til-
lögur um umbætur, væri
þess þörf að hans mati.
Meginmarkmið þessarar
vinnu er að meta hvern-
ig fjármagn til málaflokksins geti
skilað hámarksárangri fyrir þá sem
við viljum rétta hjálparhönd – fá-
tækustu íbúa heimsins og fólk sem
býr við neyð, svo sem vegna átaka
eða hamfara.
Það er einlæg skoðun mín að
mikilvægt sé fyrir stjórnvöld að
skoða með reglubundnum hætti
hvernig hægt er að auka enn frekar
árangur af þróunarstarfi okkar.
Með öðrum orðum – tryggja að
skattfé Íslendinga sé eins vel varið
og kostur er. Samskonar greiningar
og tillögur eru reglulega unnar í
þeim löndum sem við berum okkur
saman við og eru til marks um góða
stjórnsýslu.
Ákvörðun mína um að láta vinna
verkið má rekja til aðildar Íslands
að þróunarsamvinnunefnd Efna-
hags- og framfarastofnunarinnar
(OECD). Áður en af aðildinni varð,
vorið 2013, kom til landsins hópur
sérfræðinga sem skoðaði sér-
staklega þróunarsamvinnu Íslend-
inga. Lagði hópurinn meðal annars
til að íslensk stjórnvöld mætu
skipulag og fyrirkomulag starfsins
út frá því hvernig hámarks árangur
og skilvirkni væru tryggð, með til-
liti til smæðar landsins.
Ég fékk Þóri til þess að vinna
verkið, þar sem hann hefur ára-
langa reynslu af alþjóðasamstarfi
og störfum í þróunarlöndum. Þórir
hefur lagt gríðarmikla vinnu í til-
lögur sínar en nefna
má að hann ræddi við
hátt í 200 manns hér-
lendis og erlendis við
vinnslu skýrslunnar.
Þórir afhenti mér
skýrslu sína í gær sem
ber heitið
„Þróunarsamvinna Ís-
lands: Skipulag, skil-
virkni og árangur.
Meðal tillagna skýrsl-
unnar er að skipulag
þróunarsamvinnu
verði á einum stað, í utanríkisráðu-
neytinu, og að Ísland skerpi
áherslur og fækki samstarfslöndum
í því skyni að auka skilvirkni og
áhrifamátt framlaga sinna. Þá er
lagt til að stofnuð verði þingmanna-
nefnd um þróunarsamvinnu, sam-
starfsráð um alþjóðlega þróunar-
samvinnu verði styrkt og eftirlit
með verkefnum eflt með því að taka
upp árangursstjórnun í öllum þátt-
um þróunarsamvinnu Íslands.
Skýrslan sýnir jafnframt fram á
að Ísland hefur á undanförnum ár-
um og áratugum unnið mjög gott og
árangursríkt starf í þróunarmálum.
Skýrsla Þóris er öllum aðgengileg
á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.
Ég hvet áhugafólk um þróunarsam-
vinnu og alla þá sem starfa á þessu
sviði til að kynna sér skýrsluna.
Það mun ég sjálfur gera á komandi
vikum og í kjölfarið taka ákvörðun
um næstu skref.
Eftir Gunnar Braga
Sveinsson
» Það er skoðun mín að
mikilvægt sé fyrir
stjórnvöld að skoða með
reglubundnum hætti
hvernig hægt er að auka
enn frekar árangur af
þróunarstarfi okkar.
Gunnar Bragi Sveinsson
Höfundur er utanríkisráðherra.
Árangur og skilvirkni
í þróunarsamvinnu