Morgunblaðið - 12.07.2014, Page 31
endalaust og ég elska þig enda-
laust, út í geim og allan hringinn
og aftur til baka eins og þú sagð-
ir.
Hvíldu í friði elsku mamma
mín.
Þín,
Ragnhildur.
Elsku besta Stína, eins og ég
kallaði þig gjarnan. Það hefur
verið lærdómsríkt að fá að eiga
samleið með þér, elsku hjartans
Stína mín. Frá fyrstu kynnum
höfum við alltaf náð vel saman og
átt ógleymanlegar stundir. Þú
varst mér móðir númer tvö.
Glaðlegri konu er erfitt að finna
og svo ég tali nú ekki um hjarta-
hlýjuna og gestrisnina, hana
vantaði sko ekki hjá þér, elsku
dúllan mín.
Það er svo margt sem ég og
börnin mín eigum þér að þakka.
Þú varst alltaf að passa þeirra
hag og að þeim myndi ganga vel í
skólanum og bara í lífinu og það
var ekki sjaldan sem þú varst
stolt af þeim. Ég man þegar við
fórum saman á fótboltaæfingu
með Gabríel Heiðberg, þá vorum
við sammála um að þetta væri
ekki alveg fyrir þessa elsku, eins
og þú orðaðir það, og á danssýn-
ingar hjá Eydísi Ósk léstu þig
ekki vanta. Og auðvitað saumaðir
þú kjól á skvísuna, en ekki hvað,
hönnuðurinn sjálfur. Þú tókst
líka þátt í fyrsta leikskóladegin-
um með Kristínu Líf nöfnu þinni
og það var ómetanlegt. Það er
svo margt sem ég get skrifað um
þig, elsku hjartans Stínan mín,
en ég læt hér staðar numið. Megi
guð geyma þig, elsku Stína okk-
ar, við munum sakna þín óend-
anlega mikið. Elskum þig.
Þín tengdadóttir og barna-
börn,
Ásdís Ósk Viggósdóttir.
Í fáum orðum langar mig að
minnast Stínu systur minnar,
kveðja hana og þakka fyrir hve
yndisleg systir hún var. Í æsku
var ég nú ekki alltaf í uppáhaldi
enda yngri, en hún átti sannar-
lega eftir að bæta mér það upp
síðar á lífsleiðinni. Samrýndari
systur en okkur er tæpast hægt
að hugsa sér. Varla leið sá dagur
að við heyrðumst ekki í síma eða
hittumst.
Hún var afskaplega góð systir,
einstaklega umhyggjusöm, alltaf
tilbúin að hjálpa og styðja þegar
á þurfti að halda. Stína mín var
með svo falleg og djúp blá augu
sem voru full af næmni og skiln-
ingi sem ég naut í ríkum mæli.
Það var alltaf gaman að vera
með Stínu. Hún kunni að vera og
njóta stundarinnar. Þessi eigin-
leiki Stínu hafði góð áhrif á alla í
kringum hana og gerði samveru-
stundirnar oft lengri en til stóð í
upphafi. Stínu lá ekkert á í lífinu,
hún var ekkert að flýta sér.
Stína var mjög flink í hönd-
unum, prjónaði, heklaði, saumaði
og hannaði. Hún breytti gjarnan
munstrum, var lítið fyrir að fara
eftir uppskriftum, gerði allt að
sínu. Heimili hennar var fallegt,
hún var smekkleg, alltaf fín og
vel til höfð.
Stína var hrókur alls fagnaðar,
nærvera hennar var ávísun á að
fólki leiddist ekki og hún sá til
þess að fólk veltist um af hlátri.
Stína sá alltaf gleðina í hvers-
dagsleikanum og var slungin að
koma auga á litlu skondnu hlut-
ina. Grín Stínu var aldrei á
kostnað annarra en hún hafði
mikinn húmor fyrir sjálfri sér.
Stína var mikil fjölskyldukona
og leið aldrei betur en með börn-
in, tengdabörnin og barnabörnin
hjá sér og þótti ekki verra ef
systkini þeirra hjóna og vinir
bættust við.
Alltaf var pláss hjá Stínu og
aldrei neitt mál að bæta við diski
við borðið. Henni fannst afskap-
lega gaman að fá gesti og þau
hjón nutu þess að dekra við gesti
í mat og drykk. Má nefna Ljósa-
nótt – alltaf allir velkomnir, gúll-
assúpa í boði og ættingjar og vin-
ir streymdu heim í Grænagarð
og nutu samverunnar.
Stína var næm og vissi lengra
en nef hennar náði. Þegar hún
var stödd í Bolungarvík nýlega
við jarðarför kærrar föðursystur
nýtti hún tímann mjög vel. Sat
lengi fram eftir þó að hún væri
þreytt og lasin. Í þeirri ferð sagði
hún, þegar hún horfði á barna-
börnin að leik í sól og sumaryl,
þau yngri í náttfötunum á tram-
pólíninu og þau eldri að rísla sér
úti við: „Mikið vildi ég að ég gæti
látið lífið standa kyrrt.“
Stína veiktist fyrir einu og
hálfu ári og barðist eins og ljón
til að reyna að sigrast á veik-
indum sínum. Ég mat mikils að
fá að standa við hlið hennar og
styðja hana fram í andlátið, fyrir
það er ég óendanlega þakklát.
Lífið án Stínu verður erfitt en
það er í hennar anda að halda
áfram að hittast, hlæja einhver
ósköp og skemmta sér, þó að sú
tilhugsun sé erfið núna.
Ég þakka Stínu systur fyrir
góða og gefandi samfylgd og
hefði svo sannarlega viljað hafa
hana lengur hjá okkur.
Ég votta Benedikt mági mín-
um, sem staðið hefur sem klettur
við hlið Stínu í veikindunum,
innilega samúð mína. Einnig
votta ég börnum þeirra, Ragn-
hildi Helgu, Kristjáni Heiðberg
og Aroni Ívari, og fjölskyldum
þeirra mína dýpstu samúð.
Ósk Gunnarsdóttir.
„Komdu sæll, bróðir minn.“
Svona heilsaði Stína mér alltaf
þegar við heyrðumst í síma. Á
einhvern hátt er þessi mjúka og
hlýlega kveðja mér ofarlega í
huga þegar ég kveð Stínu. Það
varð okkar hlutskipti að búa
hvort í sínum landsfjórðungi eftir
að við komumst af unglingsárun-
um. Við töluðum oft um það að
þegar við yrðum gömul, sem við
ætluðum bæði að verða, þá ætl-
uðum við að vera saman fyrir
vestan, segja hvoru öðru sögur,
sitja á litla pallinum við húsið
okkar og njóta daganna. Það er
sárt að þurfa að sætta sig við það
að þessir góðu dagar koma aldr-
ei.
Við sátum saman öll fjölskyld-
an eftir að Stína dó. Lítil frænka
mín sagði þá upp úr eins manns
hljóði: „Þetta er skrítið, við erum
öll saman og það vantar bara
einn, hana Stínu, og samt vantar
svo mikið.“ Það vantar mikið
þegar vantar Stínu. Hún hafði í
sér þessa miklu eðlisgleði, sem
auðgar samfundi manna, alltaf
jákvæð og til í að prófa eitthvað
nýtt.
Stína var einstaklega um-
hyggjusöm um foreldra okkar
systkinanna og verður sú um-
hyggja aldrei fullþökkuð.
Stína var prýðilega hagmælt,
átti auðvelt með að setja saman
texta, sagði skemmtilega frá og
henni líkaði vel að vera hrókur
alls fagnaðar. Stína gerði það
sem hana langaði til en stundum
í annarri röð en tíðkaðist. Hún
eignaðist eldri börnin mjög ung,
svo fór hún í menntaskóla og svo
í Kennaraháskólann og hennar
ævistarf varð að mestu leyti
kennsla, það þótti henni
skemmtilegt. Hún var lagin að
finna viðeigandi efni fyrir alla í
bekknum.
Það var tilhlökkunarefni að
hitta Stínu, hún var alltaf með
eitthvað á prjónunum, hún fékk
mann undantekningarlaust til að
hlæja og líta tilveruna bjartari
augum.
Stína hafði alltaf verið hraust,
fékk varla kvef og varð nánast
aldrei misdægurt. Því varð það
mikið áfall fyrir okkur öll þegar
hún greindist með krabbamein
fyrir einu og hálfu ári. Stína
missti aldrei vonina um að sigr-
ast á veikindunum, hún barðist
til síðasta dags. Hún var vest-
firsk hetja.
Ég sakna Stínu óendanlega
mikið, mér þótti óskaplega vænt
um hana og kvíði dögunum án
hennar en veit að lífið heldur
áfram og best heiðrum við minn-
ingu Stínu með því að gleðjast og
fagna nýjum dögum. Ég fel Guði
góða systur.
Báran brotnar við ströndina í
Víkinni okkar þar sem Stína
verður borin til grafar. Tak sorg
mína, svala haf.
Agnar H. Gunnarsson,
Miklabæ.
Elsku amma mín, mikið er nú
skrýtið að hugsa til þess að þú
sért farin, englarnir komnir að
sækja þig og farnir með þig á
góðan stað. Það var alveg sama
hve mikið ég þroskaðist og óx, ég
var alltaf jafn spennt að heyra
„Stína amma og Benni afi eru að
koma til okkar“, það var alltaf
spennandi. Þú stóðst við bakið á
okkur öllum og sýndir öllum svo
mikla virðingu, kurteisi og já-
kvæðni. Öll dansmótin sem við
áttum saman voru bestu minn-
ingarnar mínar. Þú gerðir alltaf
danssnúðana í hárið mitt og
gerðir þá alltaf svo vel og vand-
lega eins og allt annað sem þú
gerðir. Alltaf man ég það þegar
ég var bara sex ára gömul og þú
kenndir mér að prjóna. Við vor-
um með skærappelsínugult garn
og fitjuðum upp saman því ég
ætlaði að gera lítið veski undir
klinkið mitt. Þegar þú varst ný-
komin úr lyfjameðferð í fyrra, á
fimmtudegi, þá var ég akkúrat að
keppa í skólahreysti og þú komst
af sjúkrahúsi yfir í Smárann með
Aroni til að styðja mig, þú varst
ótrúleg. Þú komst líka á árshá-
tíðina, öll dansmótin auðvitað og
svo komstu líka oft vestur til að
hlusta á okkur spila og syngja á
tónleikum. Maður var ekki í
kringum þig í meira en tvær mín-
útur áður en þú hlóst, því það var
bókstaflega alltaf fjör þar sem þú
varst. Svo áttum við saman
ógleymanlega stund á föstudag-
inn þegar þú heimtaðir að ég
færi í skóbúð og keypti mér skó
því að við erum með sama skós-
mekkinn. Það er nú ekki oft sem
barnabarnið og amman eru með
sama skósmekkinn.
Takk fyrir allt sem þú gafst
mér, góðu minningarnar,
skemmtilegu stundirnar og ynd-
islegu dagana okkar saman,
elsku amma mín.
Þín,
Kristín Helga.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka þér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum er fengu að
kynnast þér
(Ingibjörg Sig.)
Þegar ég kveð elskulega mág-
konu mína, hana Stínu, sem fór
langt um aldur fram, þá reikar
hugur minn heim á æskuslóðir
okkar vestur til Bolungarvíkur.
Það var alltaf mikill samgangur á
milli fjölskyldna okkar á Heið-
arbrún og Höfðastíg.
Stína var mikil hannyrðakona.
Hún fór í Kennaraháskólann eft-
ir að börnin fullorðnuðust og
valdi hún sér textíl sem auka-
grein. Handavinnumappan henn-
ar var listaverk, hugmyndirnar
voru óendanlegar. Stína var
fædd í kennarahlutverkið, hún
hafði góðan aga og tók faglega á
erfiðum nemendum og talaði oft
um og með mikilli virðingu um
hópinn sinn.
Benni og Stína fluttu til Kefla-
víkur árið 2002 og saknaði ég
þeirra mikið. Símhringingarnar
og heimsóknirnar urðu margar.
Ljósanótt í Keflavík varð fastur
punktur á heimili þeirra, opið
hús og allir velkomnir. Það var
okkar ættarmót.
Ég á eftir að sakna símhring-
inganna frá Stínu sem alltaf byrj-
uðu: Halló, hvað segirðu, elskan?
Stína var berdreyminn og við
sátum saman og réðum
draumana. Sá síðasti var ekki
góður, við vissum það báðar.
Stína hafði dásamlega frásagn-
argáfu. Það var svo gott að sitja
með henni og hlæja saman. Stína
var mikil fjölskyldukona og var
svo stolt af börnum og barna-
börnum sínum.
Takk fyrir allar gleðistundirn-
ar, elsku Stína mín. Hún var fal-
leg kveðjustundin í Keflavíkur-
kirkju, þar var þér svo fallega
lýst.
Elsku Benni, Ragnhildur,
Kristján, Aron og fjölskyldur.
Missir ykkar er mikill. Megi góð-
ur guð vera með ykkur á erfiðum
tímum.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikindaviðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Elsku Stína mín, hjartans
þakkir fyrir allt og allt.
Þín mágkona
Björg.
Hún Stína móðursystir mín er
látin eftir erfiða baráttu við ill-
vígan sjúkdóm. Það er þyngra en
tárum taki að sætta sig við það
og læra að lifa með því. Eftir
standa fjöldamargar minningar
sem hægt er að ylja sér við og
reyna að milda sársaukann. Ég
hef alla tíð litið upp til Stínu
frænku, hún var alltaf glæsileg,
jákvæð, hlý og svo góð. Hún var
dugleg að halda boð og bjóða
okkur heim til sín og okkur leið
sjaldan betur en þegar allir voru
saman komnir að borða góðan
mat, hlæja saman, rifja upp fynd-
in atvik og fylgjast með litlu
börnunum skemmta sér og leika
sér saman. Öllum leið vel hjá
Stínu og Benna.
Stína og Benni hafa alla tíð
verið stór hluti af mínu lífi og
mömmu minnar og þau hafa svo
sannarlega átt heiðurinn af því
að ég tengist og þekki fjölskyldu
hennar svo vel og er það mér
ómetanlegt.
Elsku Stína, engin orð fá því
lýst hvað ég sakna þín mikið og
stórt skarð er höggvið í fjölskyld-
una. Ég trúi því að þú sért komin
til afa.
Elsku Benni, Ragnhildur,
Kristján, Aron og fjölskyldur,
Guð gefi okkur styrk til að takast
á við þessa miklu sorg sem við
erum að ganga í gegnum.
Þín frænka,
Agnes Veronika.
Fleiri minningargreinar
um Kristínu Gunn-
arsdóttur bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu
daga.
MINNINGAR 31
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 12. JÚLÍ 2014
HJARTAVERND
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800
✝
Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi,
HALLDÓR ÁRMANNSSON
úrsmiður,
Hjarðarhlíð 8,
Egilsstöðum,
lést á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði þriðjudaginn
8. júlí 2014.
Jarðarförin fer fram frá Egilsstaðakirkju
mánudaginn 14. júlí kl. 14.00.
Ármann Halldórsson, Gróa Kristmannsdóttir,
Þuríður Halldórsdóttir, Smári Fjalar,
Þóra Katrín Halldórsdóttir,
Margrét Halldórsdóttir, Gunnlaugur Hafsteinsson,
Sigþór Halldórsson, Anna Hannesdóttir,
Sigurður Halldórsson, Elín M. Stefánsdóttir,
Halldór Halldórsson, Elín S. Einarsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Maðurinn minn,
ÓLAFUR JÓHANNESSON
bókasafnsfræðingur,
Sléttuvegi 29,
Reykjavík,
lést á Landspítalanum, Fossvogi, mánu-
daginn 30. júní.
Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju
þriðjudaginn 15. júlí kl. 13.00.
Gerða Ásrún Jónsdóttir.
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir,
afi og langafi,
SVEINBJÖRN BREIÐFJÖRÐ
PÉTURSSON,
matreiðslumeistari,
Kópavogsbraut 105,
lést fimmtudaginn 3. júlí.
Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Helga K. Helgadóttir,
Hrönn Sveinbjörnsdóttir, Nikulás Magnússon,
Helgi Sveinbjörnsson,
Héðinn Sveinbjörnsson, Sigríður Tryggvadóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir og amma
DAGBJÖRT GUÐJÓNSDÓTTIR,
Hrafnistu,
Hafnarfirði,
lést þriðjudaginn 8. júlí.
Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði
fimmtudaginn 17. júlí kl. 13.00.
Þeim sem vildu minnast hennar er bent á Minningar- og styrktar-
sjóð Guðjóns Magnússonar og Guðrúnar Einarsdóttur, kortin
fást hjá Blómabúðinni Burkna og Fríkirkjunni í Hafnarfirði.
Hrefna Ólafsdóttir, Bjarni Þráinsson,
Lilja Ólafsdóttir,
Guðjón Ólafsson, Sigurlaug Hauksdóttir,
María Gréta Ólafsdóttir, Viðar Sverrisson
og fjölskyldur.
✝
Okkar ástkæra
BÁRA JAKOBSDÓTTIR,
Hrafnistu,
Reykjavík,
áður Skólabraut 3,
Seltjarnarnesi,
sem lést fimmtudaginn 3. júlí verður
jarðsungin frá Seltjarnarneskirkju
mánudaginn 14. júlí kl. 13.00.
Jenný Ólafsdóttir, Magnús Margeirsson,
Ingibjörg Ólafsdóttir, Þórarinn Friðjónsson,
Anna Ólafsdóttir, Ólafur Jóhann Ólafsson,
barnabörn, barnabarnabörn
og Ólafur Haukur Árnason.