Morgunblaðið - 16.06.2014, Blaðsíða 19
19
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 16. JÚNÍ 2014
Fiðraður hafnarvörður Hún var heldur betur myndarleg krían sem tók sér stöðu við Reykjavíkurhöfn eins og hver annar hafnarvörður. Og ekki amalegt að hafa Hörpu í bakgrunninum.
Golli
Föstudaginn 6. júní
2014 birti Morgun-
blaðið grein eftir
Hannes Hólmsteinn
Gissurarson. Efnislega
mun greinin samhljóða
fyrirlestri sem hann
flutti á alþjóðlegum
fundi um karlafræði
sama dag. Í greininni
dregur Hannes fram
einfaldar viðmiðanir
því til sönnunar að farsæld fólks
verði ekki mæld með tekjunum ein-
um saman. Hann tekur dæmi meðal
annars um lífslíkur, glæpatíðni,
fíkniefnaneyslu, stríðsrekstur og
samveru foreldra með börnum sín-
um. Hann leggur áherslu á að tölur
um þessi atriði segi ekki minna til
um farsæld fólks en samanburður
tekna. Hannes notar tölurnar til að
bera saman stöðu kynjanna í íslensk-
um raunveruleika og dregur af þeim
þá ályktun að karlar séu kúgaðir.
Tölurnar henta raunar ekki síður til
að rökstyðja að jafnréttisbaráttan
eigi enn langt í land en ég ætla ekki í
rökræður um þau efni. Umfjöllun
Hannesar gefur mér hins vegar til-
efni til þess að fjalla um farsæld út
frá almennu sjónarmiði og þá sér-
staklega hvernig við getum hagað
samfélaginu þannig að sem flestir
njóti farsældar.
Eins og Hannes bendir réttilega á
eru tölur um tekjur fólks ekki full-
gildur mælikvarði á farsæld þess.
Félagslegt umhverfi og aðstæður
skipta ekki síður máli en tekjurnar.
Það sem er sérstaklega
áhugavert í því efni er
að eftir að tekjur sam-
félagsins ná því, sem
gerist í Portúgal og
Grikklandi, aukast lífs-
líkur ekki með hærri
tekjum. Það sama á við
um félagslegu og
heilsufarslegu þættina.
Auknum þjóðartekjum
fylgir hvorki minni
glæpatíðni né minni
fíkniefnaneysla.
Wilkinson og Pickett
sýna fram á þetta í bók sinni, The
Spirit Level, sem kom út árið 2009.
Þau leita án árangurs að samhengi
tekna og árangurs barna í stærð-
fræði og lestri, barnadauða, morð-
tíðni, fangelsunum, barneignum tán-
inga, trausti á öðru fólki, offitu,
geðheilsu (þar sem alkóhólismi og
fíkniefnaneysla eru talin) og ekki síst
félagslegum hreyfanleika í samfélag-
inu. Skýrt samhengi finna þau hins
vegar, þegar jöfnuður/ójöfnuður í
viðkomandi samfélagi er tekinn til
samanburðar í stað samanburðar við
tekjur. Niðurstaða þeirra á jafnt við,
hvort sem litið er til ríku þjóðanna
eða ríkjanna í Bandaríkjunum. Auk-
inn jöfnuður og betra samfélag fara
einfaldlega saman.
Þessu mætti mögulega svara með
því að segja: „Auðvitað er jöfnuður
af því góða en hann dregur úr hag-
vexti, svo til lengdar er ekki hagur af
jöfnuði.“ Þetta er reyndar oft gert í
pólitískri orðræðu, jafnt á Íslandi
sem annars staðar. Það á hins vegar
við þessa fullyrðingu eins og margar
aðrar að hún verður ekki að sann-
indum þótt hún sé endurtekin oft.
Nefnd á vegum OECD skilaði áliti
um efnið árið 2012. Niðurstaða
nefndarinnar var að það væri ekkert
einfalt samhengi á milli hagvaxtar og
þess hve mikill jöfnuður er í viðkom-
andi samfélagi. Ójöfnuður kann að
fela í sér hvata til framtaks en á móti
vega mismunandi aðgangur að heil-
brigðisþjónustu, menntun, menn-
ingu og starfsframa. Það er einfald-
lega ekki svo að allir hafi jöfn
tækifæri í ójöfnu samfélagi.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur
á þessu ári birt tvær sérfræði-
skýrslur þar sem niðurstaðan er að
vaxandi ójöfnuður ógni hagvexti.
Rannsóknir sérfræðinganna sýna að
með auknum jöfnuði eflist hagvöxtur
og hagvaxtarskeiðin verða lengri.
Jöfnunartilfærslur geta án efa valdið
truflun í hagkerfinu en við núverandi
aðstæður segja þeir að erfitt sé að
benda á dæmi þar sem áhrifin gætu
orðið neikvæð. Í fyrirlestri í London
nú í júní sagði Christine Lagarde,
framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyr-
issjóðsins: „Í ójöfnum samfélögum
er ánægja minni. Hreyfanleiki milli
kynslóða er minni. Heildarniður-
staðan er að of mikill ójöfnuður get-
ur hindrað að einstaklingar byggi
upp færni. Það kemur ekki á óvart að
hann hindrar einnig varanlegan hag-
vöxt – Þetta sýna nýlegar rann-
sóknir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“
Tillögur um aðgerðir til að sporna
gegn ójöfnuði hafa verið til umræðu í
stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og í
maí á þessu ári lagði OECD fram til-
lögur um að nýta skattkerfið í þeim
tilgangi að auka jöfnuð. Fram-
kvæmdastjóri OECD, Angel Gurría,
sagði við það tilefni: „Ef ekki verður
gripið til samræmdra pólitískra að-
gerða er líklegt að bilið á milli ríkra
og fátækra muni vaxa enn meira á
komandi árum. Þess vegna er knýj-
andi að tryggja að þeir tekjuhæstu
leggi fram réttmætan hlut af skött-
unum. Talsmenn helstu al-
þjóðastofnanna í efnahagsmálum
eru þannig sammála um að bregðast
verði við vaxandi ójöfnuði.
Í skýrslunni sem fylgdi tillögum
OECD er meðal annars bent á að á
árabilinu 1976-2007 hefur nærri
helmingur tekjuaukningar sam-
félagsins komið í hlut tekjuhæstu 1%
framteljenda í Bandaríkjunum. 10%
tekjuhæstu framteljendurnir hafa
fengið meira en 80% tekjuaukning-
arinnar í sinn hlut. 90% Bandaríkja-
manna hafa þannig orðið að láta sér
nægja innan við 1/5 tekjuaukning-
arinnar síðustu þrjá áratugi. Í nefnd-
arálitinu er lögð sérstök áhersla á að
lækkun jaðarskatta á hæstu tekjum
virðist fyrst og fremst hafa þau áhrif
að tekjuhæstu 1% framteljenda fá
meira í sinn hlut.
Í Bandaríkjunum hefur þróunin
eðlilega valdið áhyggjum. Auk þess
sem að framan segir um ójafna
skiptingu tekjuaukningar í Banda-
ríkjunum síðustu þrjá áratugi, má
nefna að tölur bandarísku hagstof-
unnar (Census Bureau) sýna að mið-
gildistekjur fullvinnandi karls náðu
hámarki að raunvirði á árinu 1973 og
hafa öll ár síðan verið lægri en þá
var. Því fer þannig fjarri að tekju-
aukning hátekjufólks hafi dregið
uppi tekjur hins almenna manns.
Þeir tekjulægri hafa ekki aðeins
dregist aftur úr þeim tekjuhærri.
Staða þeirra hefur versnað.
Í erindi sem Alan Krueger, for-
maður hagfræðiráðs Bandaríkja-
forseta, flutti árið 2012 dró hann
fram tölur sem gefa til kynna að
þrisvar sinnum meiri líkur séu á því
að barn fætt í Bandaríkjunum sitji
fast í tekjuumhverfi foreldra sinna
en barn fætt í Danmörku. Þennan
mun má rekja til þess að ójöfnuður-
inn er mun meiri í Bandaríkjunum
en Danmörku. Þótt Krueger hafi
ekki orðað það svo má því segja að
ameríski draumurinn sé nánast
draumórar í Ameríku þótt hann sé
ekki alveg horfinn þar. Hann hefur
flutt sig um set til Norðurlandanna.
Þegar flest bendir til þess að jöfn-
uður hamli ekki hagvexti, frekar
auki hann, og vitað er að félagsleg og
heilsufarsleg vellíðan eykst með
auknum jöfnuði, ættum við að geta
orðið sammála um að standa vörð
um jöfnuðinn. Samkvæmt tölum
OECD um árið 2010 er jöfnuður
mestur á Íslandi af OECD-ríkjum.
Þá stöðu þurfum við að verja. Það er
leiðin til þess að tryggja bæði hag-
vöxt og farsæld Íslendinga.
Eftir Ásmund
Stefánsson » Ójöfnuður kann að
fela í sér hvata til
framtaks en á móti vega
mismunandi aðgangur
að heilbrigðisþjónustu,
menntun, menningu og
starfsframa.
Ásmundur Stefánsson
Höfundur er hagfræðingur.
Farsæld, hagvöxtur og jöfnuður